Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:13:00 (820)

     Kristín Einarsdóttir :

     Virðulegi forseti. Það er mjög merkilegt að heyra það frá ráðherra að hann telji Sjálfsbjörg fara með rangt mál og að þeirra fulltrúar séu --- ég vil nota það orð --- að ljúga því að alþjóð að öryrkjar þurfi að greiða miklu meira fyrir lyf sín núna en fyrir 1. júlí. Ég verð að viðurkenna að ég trúi ekki að það geti staðist að þær tölur sem hv. þm. Svavar Gestsson las upp áðan og koma frá Sjálfsbjörg séu allt saman tóm vitleysa. Það eru mér vonbrigði ef ráðherra trúir ekki því sem þar kemur fram og mjög slæmt ef fólk hefur ekki þær upplýsingar sem það á að hafa til þess að geta fengið leiðréttingu sinna mála.
    Mér þótti ráðherrann svara þessu bréfi Sjálfsbjargar með mjög einkennilegum hætti. Það kom fram í kvöldfréttum í Ríkisútvarpinu þann 5. nóv. sl., sem ég hef útskrift af, og reyndar líka í máli ráðherrans að líklega væri aðallega um að ræða svefnlyf og róandi lyf. Það mátti skilja hann þannig að þetta fólk þyrfti ekkert á þessum lyfjum að halda. Ég held að það hljóti að vera að þessum lyfjum hafi verið ávísað á viðkomandi sjúklinga vegna þess að þeir hafi þurft á þeim að halda og því ber okkur að taka þátt í kostnaði við þau lyf alveg eins og önnur ef þau eru talin nauðsynleg. Varla getur það verið að hæstv. ráðherra líti svo á að þessir sjúklingar séu upp til hópa fíkniefnaneytendur.
    Ég skora því á ráðherrann að taka á þessu máli með öðrum hætti en hann hefur gert hingað til, með örlítið mildari orðum og ekki eins miklum ofstopa og komið hefur fram, og endurskoði reglugerðina með tilliti til þess að við sem meira megum okkar hjálpum þeim sem minna mega sín í því að greiða niður lyfjakostnað sinn.