Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:16:00 (821)

     Guðmundur Bjarnason :
    Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Svavari Gestssyni, fyrir að fitja upp á þessu máli vegna þess að það er komið fram í umræðunni og skjalfest af samtökum fatlaðra, Sjálfsbjörg, Landssambandi fatlaðra, að umtalsverðar hækkanir hafa orðið á lyfjakostnaði hjá þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það höfum við nokkrir sagt á þingi og í umræðu í þjóðfélaginu aftur og aftur en verið andmælt jafnóðum af hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni og undrast þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra að telja að hér sé rangt með farið. Auðvitað skal ég ekki fullyrða um það heldur. Ég hef ekki farið svo nákvæmlega yfir þessa lista og við þekkjum auðvitað ekki þessa einstaklinga sem hér er vitnað til, en það er nokkuð mikið sagt, og álíta svo að þetta séu ekki réttar upplýsingar.
    Hæstv. ráðherra nefndi það að einstaklingarnir gætu leitað sér heimildarbóta og það þyrfti að skoða rétt þeirra til lyfjakorta. Nú er það svo að fjöldinn allur af þessu verst stadda fólki hefur þegar nýtt heimildar bætur sínar til fulls til annarra hluta, t.d. vegna húsnæðiskostnaðar og annarra þeirra þátta sem heimildarbæturnar eiga að bæta einstaklingunum upp, og getur þess vegna ekki notað þær til þess að létta á lyfjakosntaði. Og við vitum að þrátt fyrir útgáfu mikils fjölda lyfjakorta, 15 þúsund kort eða svo, hefur miklum fjölda einnig verið hafnað og vafalaust er hér um einhverja einstaklinga að ræða sem þannig er ástatt með.
    Í listunum frá Sjálfsbjörg sem eru til umræðu eru reyndar í mörgum tilfellum tekin ódýrustu lyfin sem einstaklingar þurfa en vilja kannski nota sér annað en þar um ræðir. Ég nefni sýklalyf sem hér eru tilgreind og hafa hækkað úr 230 kr. í 1.745 en verð á einstökum lyfjum þar eru kannski allt að 10.000 kr. Ég nefni gigtarlyf. Í listanum er tilgreind hækkun úr 230 kr. í 500 kr., gigtarlyf geta kostað 15.000 kr. og blóðþrýstingslyf með álíka upphæðir, úr 500 í 12.000 kr, þannig að hér er ekki einu sinni verið að taka erfiðustu dæmin. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu.
    Ég held þess vegna, og tek undir með öðrum sem hér hafa talað, að ráðherra verði

að skoða einu sinni enn þessa margumræddu reglugerð, vegna þess að reglurnar verða að vera almennar og vel aðgengilegar þessu fólki. Það er afar erfitt að setja flóknar reglur vegna þess að margir einstaklingar, öryrkjar og fatlaðir, eiga erfitt með að sækja rétt sinn og fara eftir flóknum reglum. Þeir vita oft og tíðum ekki um hann. Það þekki ég frá umfjöllun um almannatryggingalöggjöfina og þess vegna skora ég á ráðherra að gera það sem hann getur til þess að um sé að ræða einfaldari og betri reglur.