Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:23:00 (823)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegur forseti. Í sambandi við þetta mál og ummæli ráðherra ætla ég að segja þetta. Hann reynir að verja sig með eftirfarandi atriðum:
    Í fyrsta lagi með því að hér sé um að ræða róandi lyf, svefnlyf, sem ekki eigi að gefa fólki nema því fólki sem á við geðræn vandamál að stríða. ( Gripið fram í: Sem er órólegt.) En þetta fólk fær þessar ávísanir frá læknum. Þannig að það er ekki við þetta fólk að sakast heldur lækna.
    Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra: Öryrkjabandalagið er ekki sammála Sjálfsbjörg. Þetta er rangt, beinlínis rangt. Öryrkjabandalagið og stjórn þess hefur enga samþykkt gert í þessu máli. Hæstv. ráðherra reyndi að bera þetta fyrir sig í útvarpsþætti áðan, að Öryrkjabandalagið hefði í raun og veru hvítþvegið hann í þessu máli. Það er beinlínis fölsun.
    Í þriðja lagi reynir ráðherrann að slá um sig með því að starfsmenn Laugavegsapóteks hafi orðið að senda frá sér leiðréttingar um þetta mál. Það er rétt að þeir hafa gert

það. Hvað kemur fram í þessari leiðréttingu? Sú staðreynd að hlutur sjúklings í lyfjum hefur þrefaldast frá því áður en reglugerðin var sett þar til nú. Úr 9--10% í 24--28%. Þetta kemur fram í leiðréttingunni en ráðherrann hirti ekki um að nefna það heldur sló um sig með þessu til þess að reyna að slá vopnin úr höndum okkar sem erum að gagnrýna hann í þessu máli.
    Í fjórða lagi liggur það fyrir að samkvæmt niðurstöðum Sjálfsbjargar er hækkunin á lyfjum, öðrum en róandi lyfjum og svefnlyfjum, 504%.
    Það er útilokað að ætla sér að afgreiða þetta mál með því að hér sé um að ræða ósannindamenn og fíkniefnaneytendur. Það er útilokað að vísa þessu fólki á það að drekka súrmjólk, eins og Alþýðublaðið gerði í sumar. Og það er ótrúleg kokhreysti sem hæstv. heilbrrh. sýnir í þessu máli og hann ætti, með leyfi forseta, að skammast til að biðjast afsökunar á embættisglöpum sínum gagnvart öllu þessu fólki.