Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 14:14:00 (834)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég mæli hér fyrir breyting á lögum um eignarétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966, með síðari breytingum.
    Þessi lagabreyting hefur enga efnislega breytingu á réttindum í för með sér. Samkvæmt lögum um eignarétt og afnotarétt fasteigna hafa þeir erlendu ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi samfleytt í a.m.k. fimm ár haft heimild til að eignast fasteignir eða afnotarétt yfir þeim hér á landi á sama hátt og íslenskir ríkisborgarar. Einnig eru þeim heimiluð sömu réttindi sem hér hafa rétt til að stunda atvinnurekstur og vilja öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til eigin nota og/eða til notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Hins vegar er þessum aðilum samkvæmt þeirri grein sem hér er lagt til að falli brott lögð sú skylda á herðar að leggja heimildarskjöl vegna slíkra samninga til dómsmrn. og öðlast þeir ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest þá með áritun sinni. Þessi regla eykur aðeins á skrifræði því að ekki verður séð að ráðuneytið geti synjað um áritun á þá samninga sem heimilir eru eftir lögunum. Auk þess má benda á að öll fasteignakaupaskjöl ber að senda til fasteignaskrár ríkisins og á því að vera hægt að fylgjast með því þar í hverjum mæli samningar eru gerðir eftir þessum lagaheimildum. Hér er um mjög einfalda lagabreytingu að ræða sem fyrst og fremst felur það í sér að minnka skrifræði en breytir á engan hátt efnisreglum um kaupsamning af þessu tagi og breytir á engan hátt möguleikum manna til að fylgjast með samningum sem gerðir eru þar að lútandi.
    Frú forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og allshn.