Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 14:35:00 (838)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, sem er á þskj. 10. Flm. að frv. ásamt mér eru Steingrímur Hermannsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Jón Kristjánsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðni Ágústsson, Ingibjörg Pálmadóttir og Finnur Ingólfsson.
    Í frv. segir svo:
    ,,Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Fyrirtækjum, sem greiða Verðjöfnunarsjóði, er heimilt að inna þá greiðslu af hendi til síns viðskiptabanka eða innlánsstofnunar þar sem fjármagnið verði ávaxtað enda sé fullnægt almennum reglum sem sjóðstjórn setur, m.a. um ávöxtun fjárins, sbr. 11. gr.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í grg. segir svo:
    ,,Þann 5. maí 1990 samþykkti Alþingi lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins sem tóku gildi 1. júní 1990.
    Hlutverk sjóðsins er, eins og segir í lögunum, að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn.
    Þrátt fyrir það sem segir í 7. gr. laganna, að innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljist eign hans, er ekkert sem mælir gegn því að það fjármagn, sem hin ýmsu fyrirtæki sjávarútvegsins greiða til sjóðsins, sé ávaxtað í viðskiptabönkum fyrirtækjanna, enda segir í 4. gr. laganna að greiðslur skuli renna inn á verðjöfnunarreikning á nafni viðkomandi framleiðanda.
    Staða á reikningum Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins er nú um 2,6 milljarðar kr. Af því má sjá að hér er um verulegt fé að ræða sem tekið er úr rekstri fyrirtækjanna til hugsanlegrar verðjöfnunar.
    Markmið þessa frv. er að gefa þeim sem gert er að greiða hluta af afrakstri atvinnustarfsemi sinnar til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins rétt til að ávaxta það fjármagn þar sem framleiðslan og verðmætasköpunin hefur orðið.``
    Í lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins segir að greitt skuli í sjóðinn þegar markaðsverð afurða í hverri deild er að meðaltali 3--5% hærra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm árin og skal innborgunin vera 50% af því sem umfram er.
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að hefja almenna umræðu um Verðjöfnunarsjóðinn og verkefni hans. Ég stóð að samþykkt þeirra laga sem segja það hlutverk sjóðsins að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn. Í ræðu hæstv. sjútvrh. í umræðum um sjávarútvegsmál fyrir stuttu kom fram það sjónarmið að Verðjöfnunarsjóðurinn gegndi einnig mikilsverðu hlutverki vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir voru og kenndir eru við þjóðarsátt. Því bæri að fara varlega í allar breytingar á sjóðnum.
    Meginmarkmiðið með flutningi þessa frv. er að kveða skýrt og ákveðið á um það atriði að það fjármagn, sem hin ýmsu sjávarútvegsfyrirtæki lögum samkvæmt greiða til Verðjöfnunarsjóðsins til hugsanlegrar sveiflujöfnunar, verði heimilt að ávaxta í viðskiptabönkum fyrirtækjanna og þá í þeim byggðarlögum þar sem framleiðslan er. Hér er hreyft miklu ,,prinsippmáli``, ef ég má nota það orð.
    Það hefur því miður viðgengist í allt of ríkum mæli að fjármagn sem tekið er af atvinnurekstrinum vegna ýmiss konar uppsöfnunar sé flutt frá þeim stöðum þar sem framleiðslan verður til til vörslu á einum ákveðnum stað. Í því tilviki sem hér um ræðir er óeðlilegt að svo sé, enda ekkert í lögum Verðjöfnunarsjóðs sem kveður á um að þessir milljarðar skuli fluttir frá hinum ýmsu framleiðslubyggðarlögum til uppsöfnunar á einum stað.
    Í 6. gr. laga sjóðsins segir m.a.: ,,Lánastofnanir skulu innheimta greiðslur til sjóðsins.``
    Og í 11. gr. segir: ,,Stjórn Verðjöfnunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.``
    Það frv. sem hér er flutt miðar að því, eins og fyrr segir, að taka af öll tvímæli um að heimild sé til þess að ávaxta inngreiðslur Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins í viðskiptabönkum viðkomandi fyrirtækja, enda fullnægi þeir almennum reglum sem sjóðurinn setur um ávöxtun fjárins.
    Ég vék fyrr að ræðu hæstv. sjútvrh. í umræðunni um sjávarútvegsmálin þar sem fram kom að tap í vinnslu í sjávarútveginum væri nú um 7--8% og, sem verra er, að á næsta ári er spáð enn meira tapi, eða um 9--10% og um 5--6% tapi í sjávarútveginum í heild sinni. 18--20% skerðing á aflaheimildum vegur hér vissulega þungt.
    Hér eru því válegar fréttir og ástæða fyrir þá sem í brúnni standa að huga vel að veðurkortum og kompásnum sérstaklega þannig að forðast megi þau dufl sem ævintýramenn hafa verið að leggja á hefðbundnum miðum þjóðarskútunnar.
    Ég beini því orðum mínum og eindreginni áskorun til hæstv. sjútvrh. að hann hafi frumkvæði að því að ákvæðum 10. gr. laga um Verðjöfnunarsjóðinn verði þegar í stað beitt. En þar segir: ,,Stjórn sjóðsins er heimilt að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð verði verulegur aflabrestur.``
    Fulltrúar veiða og vinnslu í stjórn sjóðsins hafa flutt um það tillögur að inngreiðslum í sjóðinn verði hætt en það ekki náðst fram vegna andstöðu fulltrúa ríkisvaldsins. Öll rök hljóta að hníga að því að við núverandi aðstæður séu engar forsendur fyrir því að beita innborgunarskyldu fyrirtækjanna í Verðjöfnunarsjóð miðað við þá miklu aflaskerðingu sem ákveðin er og það gífurlega tekjutap sem sjávarútvegurinn má þola m.a. af þeim sökum.
    Ef 20% aflaskerðing er ekki mælanleg sem verulegur aflabrestur fyrir ásjónum fulltrúa ríkisvaldsins í stjórn Verðjöfnunarsjóðs og þeir meta ekki 10. gr. laga sjóðsins á þann veg að heimildir séu fyrir hendi þegar svo stendur á sem nú að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn verður að flytja um það sérstakt þingmál sem tekur af allan vafa hvað þetta varðar og tryggir betur rétt þeirra sem til sjóðsins greiða.
    Sú aflaskerðing sem hér er talað um nemur hvorki meira né minna en um 50 þús. tonnum fisks og er nálægt því að vera meðaltalsvinnsla um átta fiskvinnslufyrirtækja. Ekki er fjarri lagi að ímynda sér að aflaverðmæti þessa fisks sé um 3 milljarðar kr. upp úr sjó.
    Ég efast um að menn hafi almennt gert sér grein fyrir því hversu gífurlega tekjuskerðingu hér er um að ræða. Það sem verra er er að ríkisstjórnin lætur ekki staðar numið hér. Hún hefur einnig ákveðið að breyta starfsemi Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins frá því tvíþætta hlutverki sínu að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og aðstoða byggðarlög er standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum.
    Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að taka 12.000 þorskígildistonn sem féllu frá útgerðinni til Hagræðingarsjóðs og fénýta þau til annarrar starfsemi. Á sama tíma og þessar aðgerðir voru í smíðum sátu menn í samgrn. við sömu iðju og upphugsuðu nýjar leiðir til skattlagningar á sjávarútveginn. Þetta er síðan staðfest í frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir. Þar segir m.a.: ,,Samgrh. hefur skipað nefnd sem hefur það verkefni að draga úr kostnaðarhlutdeild ríkisins til hafna jafnframt því að auka framkvæmdafé og treysta rekstrargrundvöll þeirra.``
    Í fjárlögunum er einnig látið að því liggja að breyta eigi til um þær greiðslur til sjómanna sem nefndar hafa verið sjómannaafsláttur. Fjmrh. hefur reyndar sagt að óeðlilegt sé að þessir hlutir falli á ríkissjóð. Hér sé um kjaramál að tefla og því sé eðlilegt að útgerðin greiði þetta eins og önnur laun.
    Hér er um nýja skattlagningu á sjávarútveginn að ræða sem nemur hvorki meira né minna en 1,5 milljarði kr. Á venjulegu máli er hér verið að tala um stóraukna skattheimtu til þessa málaflokks og augljóst að sjávarútveginum er ætlað að bera stóran hluta þessarar nýju skattheimtu.
    Hér er stórlega þrengt að heilbrigðum atvinnurekstri. Ég trúi því ekki að hér séu ekki nægilega margir þingmenn sem vilji stöðva þessa siglingu. Þetta er hættuleg sigling og brotsjóar munu ríða yfir ef ekki verður sveigt af leið. Það er grundvallarmál fyrir íslenskan sjávarútveg að ná fram verulegri aukningu og arðsemi í rekstri. Verk hverrar ríkisstjórnar eiga að hvetja til slíks. Þau skilyrði verður að skapa að innlendar vinnslustöðvar geti greitt hærra fiskverð og bætt launakjör þeirra er í fiskvinnslu starfa. Ef þetta næst ekki fram munum við óðfluga stefna að því að verða aðeins veiðiþjóð í landi okkar og láta öðrum þjóðum eftir að njóta margfeldisáhrifa vinnslunnar. Ríkisstjórnin verður að hverfa frá þessari stefnu hóflausrar skattheimtu. Það var mikið ólánsverk hjá núv. ríkisstjórn að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hækka vexti og íþyngja þessari atvinnugrein jafnmikið og þá var gert og enn eru uppi áform um stórauknar álögur á sjávarútveginn.
    Menn heimfæra ekki erlendar hagfræðikenningar á íslenska atvinnustarfsemi sem byggir afkomu sína að svo stórum hluta á einni atvinnugrein. Það verður aldrei friður um þessi mál ef svo heldur fram.
    Það er von mín að hæstv. sjútvrh. geti hér gefið fyrirheit um að hann beiti áhrifum sínum á þann veg að fallið verði frá inngreiðslum í Verðjöfnunarsjóð meðan atvinnugreinin má búa við svo erfið rekstrarskilyrði, m.a. vegna stórkostlegrar aflaskerðingar.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að það frv. sem ég hef mælt fyrir og kveður á um heimild til þeirra fyrirtækja sem greiða til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins að ávaxta inngreiðslur sínar í viðskiptabanka fyrirtækisins fái góðan hljómgrunn og jákvæða afgreiðslu hv. þm.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.