Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 14:52:00 (841)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst geta þess í tilefni af því að þetta frv. hefur verið flutt og fyrir því mælt að fyrir skömmu var skipuð nefnd til að fara yfir lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins með tilliti til allra aðstæðna og þeirra tillagna sem fram hafa komið frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi um breytingar á sjóðnum. Það er ráðgert að þessi nefnd, sem starfar undir forustu Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra, skili niðurstöðum sínum um miðjan desembermánuð.
    Það er fjölmargt sem rekur til þess að slík endurskoðun fari fram. Það er eðlilegt að það verði skoðað í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað með auknu frelsi í flutningum fjármagns og með því frelsi sem er að komast á í verðmyndun sjávarfangs hvort verðjöfnun af þessu tagi getur staðist til lengri tíma. Hér hefur einnig verið minnt á ýmis álitaefni sem hljóta að þarfnast skoðunar, ætli menn sér að halda verðjöfnun af þessu tagi áfram um einhver ár. Þar á ég m.a. við það efnisatriði sem kemur fram í þessu frv. Þar á ég einnig við það álitaefni hvort þessi sparnaður getur verið eign þeirra fyrirtækja sem greiða í sjóðinn og komi til útborgunar til að mynda við gjaldþrotaskipti og fleiri álitaefni af því tagi.
    Það er svo sérstakt álitaefni sem hv. flm. vék hér að hvort beita eigi heimild í núgildandi lögum til að stöðva inngreiðslur í sjóðinn vegna aflasamdráttar. Það er alveg tvímælalaus heimild samkvæmt núgildandi lögum að stöðva inngreiðslur ef um er að ræða verulegan aflasamdrátt. Ég hef talið það nauðsynlegt áður en ákvörðun yrði tekin hér að lútandi að meta málið í heild sinni. Við horfum til þess að ekki eru miklar líkur á því að heildarafli aukist á næstu árum miðað við þær upplýsingar sem við höfum í höndum og ákvörðun um þetta efni gæti því í raun og veru þýtt að það væri verið að taka sjóðinn úr sambandi eða að leggja hann niður til margra ára. Þess vegna hef ég talið mjög mikilvægt að þessi heildarúttekt færi fram áður en slík ákvörðun yrði tekin. En vitaskuld hlýtur hver einasti maður að sjá að þegar sjávarútvegurinn verður fyrir því áfalli sem hann hefur orðið fyrir með þessum mikla aflasamdrætti komast menn ekki hjá því að líta til þessa atriðis.
    Á hinn bóginn verða menn að hafa í huga að þessi sjóður er verðjöfnunarsjóður. Honum er ætlað að jafna verðsveiflur á erlendum mörkuðum. Hann er ekki samkvæmt efni sínu og lagaákvæðunum afkomujöfnunarsjóður. Það er mjög skýrt en það kemur hins vegar á daginn, ekki í fyrsta skipti nú heldur hefur það oft gerst áður, að þegar á reynir og afkoman versnar af öðrum ástæðum en þeim að verðið sé að lækka á erlendum mörkuðum sýnist mönnum sem sjóðurinn eigi að virka sem afkomujöfnunarsjóður og vilja taka afstöðu til hans út frá þeim bæjardyrum. Þetta sýnir okkur að það er mjög erfitt í framkvæmd að viðhalda með árangri jöfnunarsjóði af þessu tagi. Þeim skoðunum hefur verið haldið fram að eðlilegast væri að verðjöfnun færi fram innan fyrirtækjanna sjálfra, á þeirra ábyrgð, og þá yrði greitt fyrir því með sérstökum skattareglum að fyrirtæki gætu safnað í sjóði til þess að mæta verðsveiflum. Þá væri ábyrgðin hjá stjórnendum hvers einstaks fyrirtækis hvort safnað væri til mögru áranna og yrðu þá hinir, sem ekki hefðu þá fyrirhyggju, að bíta í það súra epli þegar á móti blési.
    Mörg rök mæla með því að opna leiðir eftir skattalögum til verðjöfnunar af þessu tagi. Þar koma hins vegar upp álitaefni um það hvort mismuna eigi milli atvinnugreina, hvort slíkar skattareglur geti gilt fyrir eina atvinnugrein en ekki aðra þannig að það mál er engan veginn auðleyst. Ég held án þess að ástæða sé til þess að lengja þessar umræður að ljóst sé að hér eru fjölmörg álitaefni og ýmis þeirra snúin og ekki auðveld viðureignar. En við fáum ugglaust tækifæri til þess síðar að ræða frekar um bæði þennan þátt í málefnum sjávarútvegs eins og aðra. En kjarni málsins, að því er þetta frv. varðar, er sá að endurskoðun stendur nú yfir á lögunum í heild sinni og þeim álitaefnum sem uppi eru og ætlunin er að ljúka þeirri endurskoðun fyrir miðjan næsta mánuð.
    Ég vil svo aðeins vegna ummæla hv. flm. þess efnis að nú sé verið að leggja nýja skatta á sjávarútveginn leiðrétta nokkuð þann misskilning sem þar kemur fram. Aflaheimildir Hagræðingarsjóðs fela ekki í sér nýjar álögur á sjávarútveginn. Þær álögur höfðu verið ákveðnar áður þegar lögin um Hagræðingarsjóð voru sett. Þá var mælt fyrir um það að taka þessar aflaheimildir frá og nýta þær með ákveðnum hætti. Það er á hinn bóginn verið að breyta um verkefni, nota þær tekjur sem þessar aflaheimildir gefa í þágu hafrannsókna. Ég geri ráð fyrir að við getum rætt um þetta atriði þegar það mál kemur hér á dagskrá og ég ætla ekki að stofna til umræðna um það nú en aðeins leiðrétta að hér er ekki um að ræða nýjan skatt á sjávarútveginn, hann hafði verið lagður á áður.
    Hins vegar kemur fram í fjárlagafrv. að það er ný skattheimta þegar kveðið er á um að sjávarútvegurinn skuli nú borga veiðieftirlitið að fullu sem hann greiddi af hálfu áður. Þar er um viðbótarálögur að ræða. En það er ekki um viðbótarálögur að ræða að því er varðar Hagræðingarsjóðinn og Hafrannsóknastofnun.