Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:09:00 (845)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti Ég get að sjálfsögðu ekki gert þá kröfu að hv. þm. skilji það sem hér er sagt, en mér finnast réttmætt að gera þá kröfu að hann skilji hvaða efnisbreytingar hans eigin flokkur hefur gert á lögum um þessi málefni.
    Ég skal taka það skýrt og skorinort fram að ég greiddi atkvæði á móti lögunum um Hagræðingarsjóð á sínum tíma. En í þeim lögum sem Alþb. stóð að og greiddi atkvæði á þingi er kveðið á um að taka þessar aflaheimildir frá og það er alveg rétt að í því felst gjaldtaka. Það hefur aldrei neitt annað verið sagt af minni hálfu. En Alþb. stóð að þeim ákvörðunum á þinginu ásamt tveimur öðrum flokkum. Og Alþb. stóð að því að koma þessum aflaheimildum í verð með því að kveða á um að þær skyldu boðnar með forkaupsrétti á gangverði og í það sem ekki seldist þannig skyldi leitað tilboða. Þetta voru miklar breytingar og fólu í sér gjaldtöku. Það er alveg rétt að þetta voru grundvallarbreytingar, en þær voru gerðar af fyrrv. ríkisstjórn og þar á meðal af Alþb. Það eina sem ég hef beitt mér fyrir er að nota peningana með öðrum hætti. Í stað þess að nota þá til ákveðinna byggðaverkefna, sem ég held að séu illframkvæmanleg eftir núgildandi lögum, þá verði peningarnir notaðir í þágu hafrannsókna. Þetta er þess vegna ekki ný gjaldtaka á sjávarútveginn. Hún var ákveðin á sínum tíma og er gjaldtaka en þetta er ekki ný gjaldtaka. Og ég vona að ég þurfi ekki í þriðja sinn að flytja þessar einföldu staðreyndir af því að mér finnst að þær eigi að vera öllum skiljanlegar.