Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:10:00 (846)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Þessi umræða um áformaða veiðileyfasölu hæstv. ríkisstjórnar er kannski ekki alveg á réttum stað. Hér er til umræðu sakleysislegt frv. frá nokkrum framsóknarmönnum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins en umræðan hefur nú aðallega borist inn á nýmæli fjárlagafrv. Ég verð að segja að ekki finnst mér leggjast mikið fyrir kappann, hæstv. sjútvrh., að ætla að komast hjá því að tala hér eins og maður með sjálfstæða hugsun og afstöðu og skjóta sér algerlega á bak við að þetta eða hitt hafi verið ákveðið af fyrri ríkisstjórn og hann hafi jafnvel verið á móti því, en samt sé hann að ráðstafa þessu svona og hinseginn.
    Úr því að hæstv. sjútvrh. hafði nokkuð meinleg ummæli um hv. 5. þm. Vestf. og taldi að hann skildi ekki mælt mál í þingsalnum, þá geri ég þá kröfu á móti á hæstv. sjútvrh. að hann fari rétt með. Það gerði hæstv. sjútvrh. ekki áðan. Hann verður að lesa upp á nýtt lagaákvæðin um Hagræðingarsjóð því ef ég man rétt var í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að stór hluti þeirra verðmæta sem kynnu að koma vegna ráðstöfunar á veiðiheimildum sjóðsins kæmi sjávarútveginum til góða vegna hagræðingaraðgerða í þeirri grein. Þar með eru þau verðmæti auðvitað ekki tekin út úr sjávarútveginum og þar með er það ekki sú skattlagning sem ríkisstjórnin ætlar núna að beita sér fyrir.
    Í öðru lagi, ef ég man þessi ákvæði rétt og ég verð þá leiðréttur ef svo er ekki, var líka gert ráð fyrir því að í vissum tilvikum gætu slíkar veiðiheimildir runnið ókeypis til byggðarlaga sem lent höfðu í erfiðleikum.
    Það sem hæstv. sjútvrh. er þess vegna að reyna að skjóta sér á bak við er ekki rétt með farið nema að mjög litlu leyti. Það er alveg sama hvernig hæstv. sjútvrh. rembist eins og rjúpan við staurinn, af því að rjúpnaveiðitíminn er nú í gangi þá leyfi ég mér að taka þessa líkingu, hæstv. forseti, hann kemst ekki fram hjá þeirri staðreynd að samkvæmt fjárlagafrv. á að taka 525 millj. kr. út úr rekstrarveltu sjávarútvegsins og nýta með öðrum hætti. Það er sú staðreynd sem hæstv. sjútvrh. mun ekki komast fram hjá þrátt fyrir þúsund ræður.