Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:19:00 (849)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það var reyndar við ræðu hæstv. sjútvrh. áðan sem ég ætlaði að veita andsvar. ( Sjútvrh.: Það er óheimilt að gefa andsvar við andsvari.) Ég ætla að endurtaka það að ég vara menn við því að fara að taka veiðileyfagjald með þeim hætti sem menn hafa verið að láta í ljósi í fjárlagafrv. af hendi ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki svo fastur í fortíðinni að ég þurfi að ræða neitt sérstaklega hvernig menn komu þessu fyrir í þeim lögum sem eru í gildi núna. Mér finnst aftur á móti að hæstv. forsrh. sé býsna fastur í fortíðinni að þurfa endilega að nota þau til að koma á veiðileyfagjaldi. Ég veit ekki betur en yfirlýsingar sem ég hef hlustað á allan tímann frá því að þessi lög tóku gildi hafi verið um það að menn ætluðu sér að nota þetta til hagræðingar í sjávarútveginum og til þess að koma til móts við byggðir sem lentu í erfiðleikum. Það held ég að hafi verið það hlutverk sem allir hafi hugsað sér að sjóðurinn rækti. Þess vegna vísa ég þessu öllu saman til föðurhúsanna og ég ætla satt að segja að vona að það myndist nægileg andstaða í stjórnarflokkunum til þess að menn byrji ekki þennan leik því að hann stefnir ekki að öðru en því að menn komi á veiðileyfasölunni.