Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:29:00 (854)

     Jón Kristjánsson :
     Herra forseti. Þær umræður um málið sem er á dagskrá hafa þróast nokkuð á annan veg en til stóð og snúist að miklu leyti um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Þetta er kannski dauft bergmál af því sem koma skal þegar stjórnarfrumvarp sem væntanlega fjallar hann um kemur á dagskrá og mun þá auðvitað verða farið rækilega yfir þessi mál. Málið er að vísu nokkuð einfalt, þ.e. meginlínur þess. Hagræðingarsjóður er það öryggisnet fyrir byggðarlögin í landinu og tæki til hagræðingar í sjávarútvegi sem aldrei er meiri þörf fyrir en nú af þeim ástæðum að veiðiheimildir hafa verið skornar niður um allt að 25%. Ég lái hæstv. sjútvrh. það ekki þó hann hafi gert það, er sammála því að það er skynsamlegt að fara varlega í þeim efnum og taka ekki of mikla áhættu. Þess vegna hefur aldrei verið meiri þörf fyrir þennan sjóð en nú.
    Ég er sammála hv. 4. þm. Norðurl. v., ég held að þessi ákvörðun sé ekki runnin undan rifjum sjútvrh. Ég hygg að hann hafi verið að leysa þar innanhússmál í ríkisstjórninni og verið að fá frið um tíma í baráttunni um að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn. Hann hefur lýst sig andvígan því og ég er sammála honum um þau efni.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni og en vil þó ljúka máli mínu með því að minna á að það er eitt verkefni í viðbót sem Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins hefur komið inn í og það er að leysa vandamál loðnuskipa. Það er allt í óvissu um loðnuvertíð og við getum staðið frammi fyrir gífurlegum vandamálum á því sviði áður en vetri lýkur. Vonandi verður það ekki, en þó vildi ég minna á þennan vanda í lokin.