Verðlagsráð sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:35:00 (855)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

     Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á Verðlagsráði sjávarútvegsins gerir ráð fyrir því að í áföngum verði frjálst fiskverð að meginreglu. Um langt árabil hefur sá háttur verið hafður á varðandi verðlagningu sjávarfangs að Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur tekið ákvarðanir þar um, ýmist ráðið sjálft eða yfirnefnd þess. Á undanförnum missirum hafa átt sér stað breytingar í þessu efni. Verðmyndunin hefur verið að færast í frjálsræðisátt, ýmist með því að hún hefur farið fram í samningum beint milli fiskseljenda og fiskkaupenda eða á uppboðsmörkuðum.
    Það má fastlega gera ráð fyrir því að fiskmarkaðir muni gegna veigameira hlutverki í verðmyndun hér á landi á næstu árum. Það hafa verið mismunandi sjónarmið uppi innan atvinnugreinarinnar hvort eðlilegt væri að hverfa frá hinu fyrra fyrirkomulagi og að sumu leyti hversu hratt það skuli gerast. Það var eitt af fyrstu verkum mínum í ráðuneytinu að hefja viðræður við þá aðila sem skipa fulltrúa í verðlagsráð í þeim tilgangi að ná fram samræmdum sjónarmiðum um það hvernig hægt væri að gera breytingar á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins þannig að þær gætu fallið að þeirri skýru þróun sem átt hefur sér stað. Niðurstaðan varð sú að frjáls verðmyndun mundi að fullu taka gildi í ársbyrjun 1993 en fram að þeim tíma frá gildistöku þessara laga gæti verðlagsráð með meirihlutaákvörðun ákveðið frjálst fiskverð. En eins og hv. þm. er kunnugt hefur þurft samhljóða ákvörðun í verðlagsráði til þess að ákveða frjálst fiskverð. Á aðlögunartímanum verður meiri hlutanum heimilt að taka slíka ákvörðun. Að þeim tíma liðnum verður frjálst fiskverð meginregla og því aðeins gripið til verðlagningar að meiri hlutinn komi sér saman um slíkt. Um þessa skipan mála hefur tekist full samstaða með útvegsmönnum, sjómönnum og yfirmönnum á farskipum annars vegar, þ.e. seljendum, og hins vegar fiskkaupendum sem aðild eiga að verðlagsráði. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að samstaða skuli hafa tekist með þeim aðilum sem eiga að búa við þessa verðmyndun og að með þessari nýju skipan, sem hér er gert ráð fyrir, sé vörðuð með lagaumgjörð markviss þróun að frjálsri verðmyndun með sjávarfang sem ég tel vera í fullu samræmi við nútímaaðstæður.
    Ég tel ekki, frú forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.