Verðlagsráð sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:36:00 (856)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég held að það sé samdóma álit margra sem fylgst hafa með þróun mála innan sjávarútvegsins á undanförnum árum og undanförnum missirum má segja að ýmiss konar misvægi, misgengi og tekjuskiptingarvandi sé uppi milli einstakra greina sjávarútvegsins, milli verkunaraðferða útgerðar og fiskvinnslu og jafnvel milli fyrirtækja. Þessi þróun hefur m.a. gert það að verkum að fastbinding fiskverðs hefur að undaförnu þjónað æ minni tilgangi í raun þar sem veruleikinn hefur ósköp einfaldlega tekið fram í fyrir reglunum og fiskverðið smátt og smátt mótast í æ ríkari mæli af markaðsaðstæðum í viðskiptum viðkomandi aðila. Ég hygg þess vegna að flestir geti verið sammála hæstv. sjútvrh. um að ekki sé annað að gera en viðurkenna staðreyndirnar og ekki óskynsamlegt að taka áfanga í átt til frjálsara fyrirkomulags verðlagningar á þessu sviði eins og hér er gert. Út af fyrir sig vil ég hafa fyrirvara á um að skoða bæði þann tíma til aðlögunar sem lagður er til og eins þá aðferð að frá og með áramótum 1992--1993 verði eingöngu heimild til ákvörðunar lágmarksverðs en það sem gerst hefur að undanförnu er að fast fiskverð hefur í raun breyst í lágmarksverð. Mér er ekki kunnugt um að menn hafi nokkurs staðar á landinu greitt lægra verð en það sem ákvarðað hefur verið en að sjálfsögðu vita menn að hið gagnstæða hefur víða átt við, að í reynd er verðið hærra. Ég segi það því, hæstv. forseti, sem mín fyrstu viðbrögð við þessu frv. sem ég hef að líkindum aðstöðu til að skoða síðan nánar í sjútvn. að ég tel ekki óeðlilegt að skoðaðar séu breytingar í þessa

veru. Ég saknaði þess hins vegar og hef reyndar gert oftar í umræðum um sambærileg málefni sjávarútvegsins að þar eru gerðar litlar tilraunir til að setja einstakar breytingar eða einstakar ákvarðanir af þessu tagi í samhengi við þróun mála innan greinarinnar í heild. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. sjútvrh. hefði við þessar umræður eða aðrar sambærilegar, því að hér er talsvert af dagskrármálum sem varða sjávarútveginn, talið sér kleift að reifa viðhorf sín hvað snertir þróun mála í sjávarútvegi, fiskveiðum og fiskvinnslu í almennara samhengi. Ég mundi t.d. gjarnan vilja heyra hvað hæstv. sjútvrh. hugsar sér í málefnum fiskmarkaðanna. Það er ljóst að sú breyting sem hér er lögð til getur haft áhrif í þá veru að gera þýðingu þeirra meiri þar sem fiskverð mundi þá í vaxandi mæli ráðast af markaðsaðstæðum hér innan lands. Spurningin er hvort ekki sé að vænta frá hæstv. sjútvrh. skýrari reglna um starfsemi fiskmarkaðanna en þau fátæklegu ákvæði sem í gildi eru og eru líklega frá árinu 1989 að stofni til.
    Það er stundum rætt um nauðsyn þess, bæði á vettvangi hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og víðar, að marka hér heildstæða sjávarútvegsstefnu. Þetta er falleg fyrirsögn sem menn geta örugglega flestir tekið undir. Ég óttast pínulítið að þær breytingar sem verið er að leggja til einangrað eins og þessi hér og eins og sú sem varð tilefni umræðna áðan og varðar breytt hlutverk Hagræðingarsjóðs, Verðjöfnunarsjóðs eða annað slíkt, séu í raun og veru í engu samhengi við neina tilburði til heildstæðrar stefnumörkunar. Hér var t.d. ekkert komið inn á skipulagsmálefni sjávarútvegsins, markaðsaðstæður, samkeppnisstöðu gagnvart vinnslu erlendis eða aðra þvíumlíka hluti sem þó væri eðlilegt að ræða þegar til umfjöllunar er að taka skref í átt til frjálsrar verðlagningar og jafnvel að hún verði fullkomlega frjáls á hráefni til fiskvinnslu innan lands eða til útflutnings óunnið á markaði. Mér fannst vanta að hæstv. sjútvrh. reyndi að setja þessar tillögur í eitthvert slíkt samhengi og lýsi eftir því hér.
    Ég vil minna á þáltill. í þessu sambandi sem er flutt af mér ásamt hv. 3. þm. Vesturl. Þar er lagt til að tekið sé á málefnum fiskmarkaðanna, settar reglur um meðferð aflans og reynt að tryggja stöðu innlendu fiskvinnslunnar með því að allur afli, sem ekki fer beint til vinnslu, komi til sölu eða sé gerður aðgengilegur innlendum vinnsluaðilum með einhverjum fullnægjandi hætti. Þar er jafnframt lagt til að tekið sé á gæðamálefnum þegar ferskur fiskur á í hlut, hvort heldur er hráefni til vinnslu innan lands eða útflutnings. Og kannski getur hæstv. sjútvrh. eitthvað úttalað sig um samhengi þessara hluta hér á eftir.
    Þegar menn ræða um nauðsyn þess að marka heildstæða sjávarútvegsstefnu hef ég gjarnan lagt í það þann skilning að menn ætli sér að taka heildstætt á málunum með þjóðhagslega hagkvæmustu ráðstöfun sjávarfangsins að leiðarljósi. Það er að sjálfsögðu það keppikefli sem við hljótum í öllum umræðum um þessi mál að leita eftir, að við náum að skapa sem mest verðmæti úr því hráefni sem við höfum hér af Íslandsmiðum til ráðstöfunar og þá á ég ekki við í þágu einstakra aðila málsins heldur þjóðarbúsins í heild sinni. Kannski liggja hættulegustu skekkjurnar og hættulegasta misvægið í stöðu mála í dag einmitt í því að það sem er hagkvæmasta ráðstöfunin fyrir ýmsa einstaka málsaðila er það ekki endilega fyrir þjóðarbúið í heild þegar litið er til heildarverðmætasköpunar, atvinnuhagsmuna og fleiri slíkra hluta.
    Hæstv. sjútvrh. fór í sinni ákaflega stuttu framsöguræðu lítið inn á þessa hluti. Hæstv. ráðherranum þykir þetta mál e.t.v. ekki svo stórt í sniðum að það sé ástæða til að taka upp umræður um sjávarútvegsmálin í víðara eða almennara samhengi af þessu tilefni. Ég er þar ekki alveg sama sinnis. Mér finnst að forminu til sé hér býsna stórt skref stigið, þ.e. að hverfa frá fastri verðlagningu hráefnisins þótt út af fyrir sig sé þarna á ferðinni minni breyting en formið gefur tilefni til að ætla, þar sem eins og ég hef áður sagt fiskverðið hefur meira og minna verið að mótast í viðskiptum einstakra aðila og ýmiss konar uppbætur og álagsgreiðslur m.a. tengdar samningum við sjómenn hafa tíðkast.
    Það væri einnig fróðlegt að fá fljótlega tækifæri til, virðulegi forseti, umræðna um hinn nýja eða áformaða samning um Evrópskt efnahagssvæði og áhrif hans á þróun veiða og þá sérstaklega vinnslu hér innan lands. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi við tækifæri taki sér sérstakan tíma í að ræða þau mál. Því ekki að gera það að einhverju leyti í tengslum við tillögu sem gerir ráð fyrir því að gefa fiskverð frjálst innan lands? Í hendur mínar og sjálfsagt fleiri hv. alþm. kom fyrir nokkrum dögum fréttabréf samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi. Þar er gerð fyrsta tilraun til þess einmitt að meta líkleg áhrif þessa samnings ef af verður á sjávarútveginn og vinnsluna innan lands. Það vakti nokkra athygli mína með hversu hógværum hætti höfundar fréttabréfsins taka til orða þegar þeir reifa líkleg áhrif og líklega hagsmuni fiskvinnslunar í þessu sambandi. Ég held að ég muni það nokkurn veginn orðrétt að á einum stað í fréttabréfinu segi þeir að það sé ekki ólíklegt að innlend fiskvinnsla nái til sín eitthvað auknum hlut hvað úrvinnslu sjávaraflans snertir. Fastar er nú ekki kveðið að orði. Þetta er eitt af því sem kannski skiptir hvað mestu máli í hugum margra þegar gerðir eru upp ávinningar af þessum líklegu samningum. Hvað snertir þróun mála og áhrif á sjávarútveginn hér innan lands, fiskvinnsluna, atvinnu sem þar gæti skapast eða tapast eftir því hvernig tiltekst.
    Það hefði einnig verið ástæða til þegar ræddur er hlutur vinnslunnar og þetta mikilvæga atriði sem er verðlagning í innbyrðis viðskiptum veiða og vinnslu, sem hér er til umræðu, að ræða það að skipulagsaðstæður og samkeppnisstaða einstakra vinnslu- eða veiðagreina hafa auðvitað mikil áhrif á alla þessa þróun. Því hefur heyrst fleygt að hæstv. sjútvrh. hyggist setja reglur sem muni hafa allnokkur áhrif á sjófrystingu eða rekstur þeirra skipa sem stunda frystingu á sjó og sömuleiðis munu atriði eins og kvótaskerðing á útfluttan óunnin fisk og önnur slík atriði skipta miklu máli um það hvernig frjálst fiskverð kemur til með að ganga í raun og veru og hvaða áhrif það mun hafa á innbyrðis viðskipti í sjávarútveginum. Ég hefði ekki talið óeðlilegt að hæstv. sjútvrh. hefði hér við 1. umr. þessa máls reifað viðhorf sín til þessara hluta m.a. þannig að það lægi eitthvað fyrir þó ekki væri nema eitthvað pínulítið fyrir um afstöðu hæstv. sjútvrh. sjálfs og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum ef hún skyldi hafa tekið þetta fyrir.
    Mér hefur fundist, hæstv. forseti, sem reyndar kann að hafa komið fram áður, fara óþarflega mikið fyrir því hjá þessari hæstv. ríkisstjórn að hún sé upptekin af því að ræða frammistöðu eða viðskilnað annarra en segi fátt lítið um stefnu sjálfrar sín. Ég held að a.m.k. þegar frá líður komi þingheimur og þjóðin fyrst og fremst til með að hafa áhuga á því sem þessi ríkisstjórn vill, því sem hún ætlar að gera, en sé sjálf fær um það að taka afstöðu til þess sem aðrir hafa gert og gerðu fyrr á öldinni. Þó það hafi kannski ekki verið af þessum sökum sem hæstv. sjútvrh. var fáorður þegar hann mælti fyrir þessu frv. heldur einhverjum öðrum lýsi ég eftir sem áður eftir afstöðu hans til þessara hluta. Og umræður um fortíðarvandann í þessu samhengi eða öðru skilar okkur lítið fram á við hvað framtíðina snertir.
    Það mætti kannski leyfa sér að nefna það, sem reyndar var talsvert tekið til umræðu áðan um síðasta dagskrármálið, í þessu samhengi af því að það hefur vissulega áhrif og spilar hér inn í eins og fleira þar sem er Hagræðingarsjóðurinn og ráðstöfun veiðiheimildanna þar. ( Forseti: Forseti vill aðeins spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt mál eftir af sinni ræðu. Það var fyrirhugað að láta fara fram atkvæðagreiðslur nú í lok fundarins og koma málum til nefnda. Ef hann á langt mál eftir væri kannski rétt að fresta ræðunni og þessari umræðu til næsta fundar.) Ég hygg nú, hæstv. forseti, að ég ætti að geta lokið máli mínu á svona 5--10 mínútur ef það slyppi, en ég er tilbúinn til að fresta máli mínu og ljúka því síðar ef forseti óskar þess.