Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 13:34:00 (858)

     Steingrímur J. Sigfússon (frh.) :
     Hæstv. forseti. Eins og menn rekur minni til stóð þannig á að ég var í miðri ræðu þegar gera varð hlé á umræðum til að hefja atkvæðagreiðslur og vegna þingflokksfunda. Ég hafði aðallega ætlað mér að víkja að því í síðari hluta ræðu minnar að það rekstrarumhverfi og sú stjórnarstefna, sem að sjávarútveginum snýr á hverjum tíma, skiptir sköpum um þróunarforsendur greinarinnar og það mun ekki síður eiga við eftir að fiskverði verður sleppt frjálsu, endanlega og með öllu eins og er í raun og veru verið að leggja til. Ég ætlaði líka lítillega að víkja að og mun víkja að málefnum Hagræðingarsjóðs í því sambandi sem reyndar varð tilefni nokkurrar umræðu hér á fyrri hluta fundar í gær. Rétt til að rifja upp það sem ég var að ræða og beindi þá máli mínu til hæstv. sjútvrh. í von um að hann sæi sér fært að svara í nokkru því ég saknaði þess, í stuttri en annars ágætri framsöguræðu, hjá hæstv. sjútvrh. að það fór lítið fyrir tilburðum af hans hálfu til að tengja þessa grundvallarbreytingu, að hverfa frá fastri ákvörðun fiskverðs yfir í frjálst fiskverð, aðstæðum í greininni og líklegum þróunarforsendum á næstu árum.
    Ég spurði til að mynda hvort til stæði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra að setja reglur og koma á fastari skipan mála hvað fiskmarkaðina snerti. Augljóslega gæti þessi kerfisbreyting leitt til þess að þeir öðluðust aukið vægi, þó ekki endilega með því að meira magn færi um markaðina, heldur vegna þess að þeir yrðu í ríkari mæli viðmiðun við samninga og verðákvarðanir hist og her í sjávarútveginum þegar svo væri komið að menn væru endanlega fallnir frá fastákvörðunum fiskverðs.
    Ég hefði einnig gjarnan kosið að hæstv. sjútvrh. hefði eitthvað reifað fyrir okkur hv. þm. viðhorf sín um samkeppnisskilyrði innbyrðis í sjávarútveginum, t.d. í tengslum við boðuð áform um að setja reglur um rekstur eða starfsemi þeirra skipa sem frysta afla á sjó. Það lá í máli hæstv. sjútvrh., ef ég hef skilið hann rétt á dögunum, að slíkt mundi væntanlega leiða til og jafnvel stöðva eða a.m.k. takmarka þá hröðu þróun sem verið hefur í átt til aukinnar frystingar afla á sjó ef þær reglur yrðu settar sem hann hefur í huga og mundu væntanlega þýða að erfitt yrði fyrir minni fiskiskip að uppfylla kröfur um útbúnað sem verður forsenda þess að fá leyfi til slíks reksturs.
    Önnur atriði, eins og t.d. kvótaskerðing á útflutningi á ísuðum fiski, og margt, margt fleira sem varðar umhverfi frjálsrar verðmyndunar í sjávarútvegi hlýtur að koma hér til skoðunar. Það er óeðlilegt að mínu mati að þessi kerfisbreyting fari gegnum umræður á hv. Alþingi, sem væntanlega lætur sig málefni sjávarútvegsins nokkru varða, án þess að eitthvað sé reynt að rýna inn í þessa hluti.
    Rekstrarumhverfi sjávarútvegsins almennt skiptir að sjálfsögðu einnig máli og þar blæs ekki byrlegar en svo að hæstv. sjútvrh. hefur sjálfur á undanförnum vikum talað um nauðsyn þess að gera neyðarráðstafanir í ákveðnum greinum til þess að bæta rekstrarstöðu í sjávarútvegi. Í frægum orðaskiptum hæstv. sjútvrh. og eins af bankastjórum Landsbankans, sem er ýmsum hv. þm., einkum þeim sem meiri hafa þingreynsluna, að góðu kunnur, féllu orð af þessu tagi þar sem hæstv. sjútvrh. ræddi m.a. um óbærilegan vaxtakostnað sjávarútvegsins.
    Ég tel eðlilegt að hæstv. sjútvrh. léti þó ekki væri nema nokkur orð falla um líklegt samspil þeirra breytinga sem hann boðar í sjávarútvegi og Evrópusamninganna svonefndu sem einhverjir embættismenn hafa sett stafina sína undir einhvers staðar úti í löndum. Að vísu gefur hv. formaður utanrmn. ekki mikið fyrir það en ég hef þó heyrt það á skotspónum að utanrrh. hyggist fara utan eina ferðina enn á þessu ári og skrifa undir eitthvað síðar í þessum mánuði. ( ÓÞÞ: Hver segir að hann fari bara eina ferð enn?) Nei, þær gætu orðið fleiri, hv. þm., það er rétt. Það er reynsla fyrir því. En einhver efnisdrög liggja þó fyrir og þannig a.m.k. telja þeir sem skrifa í fréttabréf samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi sig hafa nokkrar forsendur til þess að byrja að skoða hver verði, við skulum segja ,,hugsanleg áhrif`` Evrópusamninganna á þróun málefna hér í sjávarútveginum. Ég held að það sé tímabært að menn átti sig á því að þar geta komið til fleiri breytingar en þær einar sem lúta að samskiptum íslensks sjávarútvegs við umhverfi í öðrum löndum, við samkeppni frá öðrum löndum og markaði sína erlendis. Þar geta líka komið til umtalsverðar breytingar innbyrðis í sjávarútveginum. Þannig segja til að mynda höfundar þessa fréttabréfs, með leyfi forseta, að frystiiðnaðurinn á Íslandi muni mæta harðnandi samkeppni hvað frystar sjávarafurðir varðar. Bæði frá Norðmönnum og öðrum vinnslugreinum á Íslandi. Þar er beinlínis verið að boða að enn gangi á hlut frystingarinnar í landi og þar er auðvitað á ferðinni sú úrvinnslugrein íslensks sjávarútvegs sem mestri atvinnu skilar í byggðarlögunum hringinn í kringum landið. Það er beinlínis verið að boða af hálfu þessara manna að slíkar breytingar geti orðið af þessum samningum.
    Einnig segir að ekki sé ólíklegt, með leyfi forseta, ég endurtek: Að ekki er ólíklegt að innlend fiskvinnsla standi sterkar að vígi eftir EES-samninginn í samkeppni við ríkisstyrkta fiskvinnslu bandalagsins.
    Þetta orðalag vakti sérstaka athygli mína m.a. í ljósi þeirra hástemmdu lýsingarorða um eigin afrek sem hæstv. utanrrh. og hans samstarfsmenn hafa haft um hinn algera sigur, allt-fyrir-ekkert-sigur, að þrátt fyrir allt er það svo að þegar samtök atvinnurekenda á þessu sviði skoða hlutina taka fulltrúar þeirra mjög varfærnislega til orða um það hvort það verði svo að íslenskur sjávarútvegur og úrvinnsla hér innan lands nái að nýta sér þetta í einhverjum mæli til aukinnar vinnslu og aukinnar verðmætasköpunar.
    Mér hefði þótt fróðlegt, hæstv. forseti, ef hæstv. sjútvrh. hefði treyst sér til að reifa eitthvað samhengi hlutanna þegar hann er að mæla fyrir þessari breytingu hvað verðlagningarmálefni í sjávarútvegi snertir.

    En að lokum ætlaði ég aðeins að taka upp aftur umræður um það sem hér var til umfjöllunar í gær og lýtur að boðaðri meðferð á Hagræðingarsjóði í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnarinnar. Sá stórbrotni málflutningur var uppi hafður af hæstv. sjútvrh. í gær að í raun og veru væri hann að leggja þarna til sáralitla tilfærslu á fjármunum sem í raun skiptu sjávarútveginn litlu og þetta væri óbreytt stefna fyrri ríkisstjórnar sem mér virtist hæstv. sjútvrh. ætla að skýla sér á bak við. Ég er honum fullkomlega ósammála og tel reyndar að þessi málflutningur sé annars málefnalegum stjórnmálamanni, hæstv. sjútvrh., ekki samboðinn því hæstv. sjútvrh. veit auðvitað vel að hér verður sú grundvallarbreyting á að þessir fjármunir fara út úr greininni í þeim skilningi að áður fékk sjávarútvegurinn til sín úr sameiginlegum sjóðum landsmanna alla þá fjármuni sem þurfti til að kosta hafrannsóknir í landinu. Hér er verið að tala um að færa á einu bretti 525 millj. kr., meira en hálfan milljarð yfir á herðar sjávarútvegsins frá því sem áður var, því þessi verðmæti verða með þessum ráðstöfunum, þessari fénýtingu, tekin til að kosta verkefni sem ríkissjóður bar áður. Það er auðvitað það fyrsta sem menn verða að hafa á hreinu áður en þeir taka afstöðu til þess hvort þeir fallast á þessa breytingu. Þá mætti spyrja: Telja menn sjávarútveginn vel í stakk búinn til þess að bæta þessum pinkli á sig, eins og nú háttar? Varla, ef marka má orð hæstv. sjútvrh. sem í fjölmiðlum talaði um nauðsyn þess að gera neyðarráðstafanir til bjargar sjávarútveginum.
    En við skulum líka ræða þetta út frá því sjónarmiði hvort það sé æskileg kerfisbreyting að færa slíkar grundvallarrannsóknir með þessum hætti yfir á herðar sjávarútvegsins og hvert eigi þá að vera hlutverk ríkisins í þjónustu við þessa höfuðatvinnugrein landsmanna ef ekki að standa að rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Mér telst þannig til að það sé þá orðið vandfundið hvar ríkið komi þessum málum yfirleitt við.
    Ég hef einmitt talið að þrátt fyrir allt væri þokkaleg samstaða milli flestra um hvað varðar stuðning við atvinnulífið í landinu, og þá á ég ekki bara við sjávarútveg heldur allar greinar, þá væri hlutverk ríkisins og yrði í framtíðinni ekki síst á sviði rannsóknastarfsemi og þróunar hvers konar. En hér er verið að tala um að færa nánast á einu bretti yfir á sjávarútveginn sjálfan stærstan hluta af rekstrarkostnaði mikilvægustu rannsóknastofnunarinnar á þessu sviði. Ég set stór spurningarmerki við þá kerfisbreytingu sem slíka, burt séð frá hinni fjármálalegu hlið sem varðar það að færa þessa greiðslubyrði alla yfir á sjávarútveginn.
    Ef hæstv. sjútvrh. skyldi falla í þá gryfju að koma hér upp aftur og reyna þá leikfimi í málflutningi, sem hann viðhafði í gær og kenna fyrri ríkisstjórn um þetta allt saman, þá ætla ég bara að rifja það aðeins upp hvað í afgreiðslu frumvarpa um fiskveiðistjórnun og Hagræðingarsjóð fólst á sínum tíma. Þar var að sjálfsögðu á ferðinni málamiðlun sem óeðlilegt er að slíta úr tengslum innbyrðis. Þar var á ferðinni niðurstaða sem fól í sér hvort tveggja í senn, tímabundnar ráðstafanir, ákveðinn öryggisventil þar sem Hagræðingarsjóður er, sem væru til staðar og unnt væri að grípa til ef á bjátaði vegna þeirra ágalla sem mönnum eru ljósir í núverandi fiskveiðistjórnun, þeirrar hættu sem hún getur haft í för með sér fyrir byggðarlögin. Inni í þessari málamiðlun var jafnframt sú heildarendurskoðun laga um fiskveiðistjórnun sem nú þegar er komin í gang. Þess vegna liggur það í hlutarins eðli að menn sjá þetta fyrir sér sem ákveðið tímabil meðan sú endurskoðun fer fram og á þeim tíma séu fyrir hendi þessir öryggisventlar gagnvart þeim hættum sem núv. kvótakerfi felur í sér. Þessu held ég að hæstv. sjútvrh., sem á að stýra þessu endurskoðunarverki, þurfi alveg nauðsynlega að átta sig á.
    Ég minni líka á að það skiptir auðvitað miklu máli fyrir sjávarútveginn að ekki verði algjörlega horfið frá þeim hagræðingarverkefnum sem voru auðvitað annar megintilgangur stofnunar Hagræðingarsjóðs. Maður hlýtur þá að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig hann ætlar sér þá að sinna þeim verkefnum ef þetta tæki verður tekið úr sambandi með öllu eins og fénýting veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs í þessu skyni mundi auðvitað gera með afgerandi hætti?
    Sá möguleiki er þá ekki lengur fyrir hendi að mæta áföllum sem verða í einstökum byggðarlögum vegna brottflutnings veiðiheimilda með því að færa þangað veiðiheimildir endurgjaldslaust ef ekki vill betur til, eins og lögin um Hagræðingarsjóð gera ráð fyrir að hægt sé að gera. Það hefur þegar komið fram algjört áhugaleysi og skilningsleysi hæstv. ríkisstjórnar á vandamálum t.d. Suðureyrar við Súgandafjörð, en ég er sannfærður um að þeir sem stóðu að síðustu ríkisstjórn og þeirri málamiðlun, sem þá var gerð varðandi afgreiðslu laga um fiskveiðistjórnun og Hagræðingarsjóð, höfðu einmitt slíkar aðstæður í huga. Það voru reyndar nefnd dæmi býsna skyld því sem núna hefur gerst á Suðureyri að meiri háttar brestur yrði í atvinnulífi einstakra byggðarlag vegna tilfærslna á veiðiheimildum.
    Hæstv. forseti. Það kann að vera að einhverjum finnist það óþarfi að vera að gera að umtalsefni ýmis almenn málefni sjávarútvegsins í umræðum um þetta litla frv. Mér finnst það ekki og mér finnst reyndar sjaldnast óþarfi að taka til umræðu málefni sjávarútvegsins á hinu háa Alþingi og allra síst við núverandi aðstæður. Þegar boðaður er mikill aflasamdráttur, þegar greinin býr við bullandi taprekstur og þegar mjög dökkar horfur eru fram undan í sjávarútveginum á margan hátt tel ég að Alþingi geti varið tíma sínum með ýmsum óskynsamlegri hætti en þeim að ræða málefni af því tagi sem ég hef leyft mér að reyfa í umræðunum um þetta 63. mál þingsins sem snýr að breytingum á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. og jafnvel fleiri hv. alþm. sjái sér fært að taka þátt í þessum umræðum.