Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 14:48:00 (866)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 5. þm. Vestf. Ég vil þakka honum fyrir að hafa fært umræðuna um þetta mál inn á málefnalegri brautir en hún var komin á eftir ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Þau umræðuefni sem hann vék hér að eru vissulega þess virði að þau séu skoðuð. Vegna beinnar fyrirspurnar um verðlagningu á rækju skal tekið fram að í hópi þeirra sem aðild eiga að verðlagsráðinu voru mestar efasemdir uppi hjá Samtökum rækju- og hörpudisksframleiðenda einmitt vegna þessarar stöðu sem hv. þm. nefndi að vafi væri á að eðlilegt jafnvægi væri á milli kaupenda og seljenda. Einmitt þess vegna var meginástæðan fyrir því að sameiginleg niðurstaða varð sú að hafa verðlagsráðið til staðar áfram með því ákvæði að unnt væri í undantekningartilvikum með meirihlutaákvörðun að ákveða lágmarksverð í verðlagsráði. Sú skipan mála var einmitt gerð með hliðsjón af þessari stöðu að menn voru ekki fullvissir um að í takmörkuðum tilvikum eins og þessum væri nægjanlega mikil samkeppni til staðar og nægjanlegt jafnvægi milli kaupenda og seljenda. Þess vegna vildu menn hafa þetta öryggisákvæði áfram. Það

er skýringin á því að þessi regla er í frv.
    Að öðru leyti er það kórrétt að frjáls verðmyndun kallar á að jafnvægi ríki á milli kaupenda og seljenda. Það er miklu betra jafnvægi í viðskiptum með bolfisk eins og hv. þm. benti á. Það er þó íhugunarefni hvort það sé nægjanlegt. Ég gerði þetta að umtalsefni á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í morgun í tengslum við þær breytingar sem við erum að ganga í gegnum. Að menn yrðu að huga mjög að því að eðlilegt jafnvægi væri á milli kaupenda og seljenda þegar við gerðum slíkar breytingar. Vel má vera að við þurfum að setja almenna löggjöf um samkeppnisreglur á þessu sviði til að tryggja betra jafnvægi. En ég minni á að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa þegar tekið ákvörðun um að leggja hér fyrir Alþingi frv. sem á að jafna skilyrði á milli vinnslu á sjó og í landi bæði að því er varðar gæðakröfur og nýtingu afla sem er þáttur í því að skapa betra jafnvægi hér. Sú nefnd sem falið hefur verið að endurskoða sjávarútvegsstefnuna í heild sinni hefur einnig það hlutverk að huga að þessu verki og henni er ætlað að ljúka störfum á næsta ári þ.e. áður en aðlögunartímabil þessara laga rennur út.
    Ég vil ekki lengja þessar umræður, frú forseti, en aðeins taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. að það er fullkomlega eðlilegt að leiða hugann að þessum viðfangsefnum og mjög mikilvægt að jafnvægi sé tryggt milli kaupenda og seljenda í nýju frjálsu verðmyndunarkerfi.