Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:38:00 (881)

     Össur Skarphéðinsson :
     Frú forseti. Í þessari umræðu hefur það komið fram að hv. þm. Steingrími Hermannssyni er farið eins og Njáli hinum forna að hann er forvitri. Sá er hins vegar munurinn á Njáli og Steingrími að Njáll sagði öðrum drauma sína og það sem hann vissi gerast í framtíðinni, ( SJS: Hann var skegglaus líka.) en Steingrímur segir hins vegar engum frá því. Það hefur nefnilega komið fram í þessari umræðu að Steingrímur Hermannsson vissi af því ári fyrir fram að forsendur álversins voru ekki nægilega traustar. Hverjum sagði Steingrímur Hermannsson frá þessu? Var hann ekki forsrh. í ríkisstjórn sem hafði það að sínu meginverkefni að koma þessu álveri fram? Var hann ekki verkstjóri þeirrar ríkisstjórnar?
    Ég verð að segja að mér finnst þetta furðulegt og má kannski rekja til þess þáttar í fari þingmannsins sem stundum hefur verið kallað heppileg gleymska. Hann talaði eins og hann hefði ævinlega verið mjög efins um forsendur álversins. Hann sagði: Margar spurningar hljóta að vakna um einstaka þætti álmálsins. Og ég spyr: Hafði ekki Steingrímur Hermannsson, verkstjóri síðustu ríkisstjórnar, nægileg föng og tækifæri til þess að koma fram með þessar spurningar í síðustu ríkisstjórn?
    Mér finnst, frú forseti, eins og fyrrv. hæstv. forsrh. sé að reyna að slá frekar ódýrar pólitískar keilur. Þetta er þeim mun skrítilegra þegar haft er í huga að hann lýsti því yfir í upphafi máls síns í dag að hann hefði sjálfur yfir engu að kvarta varðandi samstarf sitt við iðnrh. Eigi að síður er það svo að hann finnur honum og framgöngu hans í þessu máli nú flest til foráttu.
    Hér hafa komið fram mjög margar og merkilegar upplýsingar og merkilegar skoðanir. Menn hafa ekki vandað orðaval í þessari umræðu. Það hefur verið ýjað að blekkingum. Menn hafa talað um að draga þjóðina á asnaeyrum og ég spyr: Vantar ekki eitthvað í þessa rökkeðju stjórnarandstæðinganna? Í hvaða tilgangi gæti iðnrh. hafa verið að draga þjóðina á asnaeyrum? Til hvers og hvað fékk hann út úr því að reyna að blekkja eða draga einhvern á asnaeyrum? Ég skil þetta ekki alveg.
    Hv. þm. Svavar Gestsson kvartaði áðan yfir patentatrú og taldi að hún hefði staðið í vegi fyrir almennri þróun í atvinnumálum hér á landi. Ég spyr: Er það einhver sérstök patentatrú að vilja beisla orku fallvatnanna? Því er nú einu sinni þannig farið að við Íslendingar höfum þrennt sem við getum skapað verðmæti úr og hægt er að kalla náttúrulegar auðlindir. Það er fegurð landsins, það er fiskurinn og það eru fallvötnin. Við höfum um afar langt skeið reynt að ná fram verðmætum úr þessu öllu. Það hefur tekist með fisk. Það hefur í vaxandi mæli tekist með ferðamál, sem byggjast vitaskuld á sérstæðri náttúru landsins, en okkur hefur ekki enn þá tekist að skapa nægileg verðmæti úr þeirri orku sem er að finna í fallvötnum landsins. Við höfum reynt það um 20 ára skeið en nú er merkileg þróun í gangi erlendis. Það voru merkar upplýsingar sem bárust til að mynda á öldum ljósvakans fyrir aðeins örfáum dögum. Þar var greint frá því að breskum vísindamönnum hefði tekist í fyrsta skipti að ná fram umtalsverðri orku með kjarnasamruna. Eðlisfræðilegt fyrirbæri sem hefur í för með sér miklu minni mengun en hefðbundnar orkulindir hafa. Þeir létu þess jafnframt getið að einungis væru 50 ár þangað til búast mætti við að hægt væri að byggja orkuver sem byggðust á kjarnasamruna. Þeim tókst sem sé í síðustu viku í fyrsta skipti að framleiða til tvö megavött, að vísu aðeins um örfárra mínútna skeið, en þetta eru samt sem áður nánast vatnaskil í sögu mannkynsins. Þetta eru stórkostleg tíðindi og gera það að verkum að einungis eftir --- eigum við að segja 7--8 áratugi kann að verða mjög erfitt fyrir okkur að beisla þá orku og þau verðmæti sem liggja í fallvötnum okkar.
    Auðvitað er það svo að sá dráttur sem nú er fyrirsjáanlegur á álverinu er mikill skellur fyrir þjóðarbúið. Það þýðir ekkert að neita því. Það ríkir stöðnun í íslensku atvinnulífi og við höfðum vonast til þess að með álverinu fengjum við verulegan blóðgjafa inn í íslenskt efnahagslíf. Nú er ljóst að það verður ekki um nokkurn tíma a.m.k. Þetta kemur þar á ofan á mjög erfiðum tíma í stöðu þjóðarbúsins. Við búum við það að umtalsverð skerðing hefur orðið á aflakvóta sem leiðir vitaskuld til verulegs tekjutaps sjávarútvegsfyrirtækja. Ef maður umreiknar það t.d. í vinnu landverkafólks nemur það u.þ.b. tveggja mánaða vinnu sérhvers starfsmanns í fiskiðnaði í landinu. Við þessar erfiðu aðstæður er auðvitað mjög slæmt að missa af þeim búdrýgindum sem hefðu ella komið inn í þjóðarbúið með byggingu álvers.
    Það hefur þegar verið rakið í ræðu iðnrh. og annarra hvað þetta þýðir. Þetta er ígildi 200.000 þorsktonna. Þetta er ígildi þess að við þurfum e.t.v. að sæta bara á næsta ári atvinnuleysi upp á 0,3% í viðbót. Það dregur úr landsframleiðslu sem nemur 1,3%. Kaupmáttur minnkar um 1,3%. Aðeins á næsta ári og síðan munu auðvitað árin á eftir verða enn verri. Þetta kemur niður með enn verri hætti þá. Samt sem áður er það svo, eins og sem betur fer flestir ræðumenn hafa sagt í dag, að við höfum séð hann svartari. Ég vil vara menn við því að vera of svartsýnir því það er nefnilega stundum svo að það er hægt með sameinuðu átaki að tala kjark úr þjóðinni og tala kjark úr atvinnulífinu eins og mönnum er því miður að takast nú um stundir. ( ÓRG: Það er nú aðallega forsrh.) Ég verð að segja það að ekki hef ég hér í dag, með ágætri undantekningu þar sem Kvennalistann varðar, hlustað á mjög margar uppbyggilegar tillögur frá hv. þm. stjórnarandstöðunnar.
    Það er auðvitað alltaf hægt að vera vitur eftir á. Það er auðvelt að segja, eins og hefur til að mynda komið fram hjá ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, að við hefðum kannski átt að vera að semja við einhverja aðra. Í því liggur raunverulega að við ættum ekki að hafa eytt tíma í að tala við þá aðila sem við höfum nú verið um skeið í samningum við. Þetta kom t.d. fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni í gær, sem orðaði það svo í sjónvarpinu að við hefðum eytt þremur til fjórum árum af dýrmætum tíma í að tala við þessa aðila og átti þá væntanlega við að við hefðum ekki sinnt einhverjum öðrum líka. En hvaða öðrum? Gera menn sér ekki grein fyrir þeirri alvarlegu staðreynd að Íslendingar eru nú um hartnær 20 ára skeið búnir að reyna að ná samningum við erlenda aðila um stóriðju án árangurs fyrr en með þeim aðilum sem því miður treysta sér ekki núna í byggingu þessa álvers.
    Staðreyndin er sú að menn leituðu hófanna mjög víða. Þannig voru til að mynda í upphafi þessarar atburðarásar mun fleiri aðilar inni í viðræðunum sem féllu burt og aðrir komu í þeirra stað. Ég minni t.d. á að þegar þessar viðræður hófust voru enn inni fyrirtæki eins og Austria Metal, Alusuisse auk Gränges og Hoogovens. Tvö þau fyrstnefndu, Austria Metal og Alusuisse, féllu út. Alumax kom síðan inn. Það er raunar vert að ítreka

að það eru ekki mörg ár síðan, sem er dæmi um það hvað vindar breytast skjótt í þessum málum, að menn voru að íhuga stækkun álversins í Straumsvík auk byggingu nýrra álvera.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það var leitað allra leiða. Menn hafa verið að gera það, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, árum saman og það er einfaldlega fráleitt að halda því fram, eins og liggur í orðum sumra þingmanna stjórnarandstöðunnar, að það hafi ekki verið gert. Það hefur verið rætt við marga. Það hefur nánast verið róið fyrir hverja vík í þessu máli. Það er einfaldlega svo að menn draga ekki álver upp úr hatti sínum eins og töframenn kanínur þó ráða mætti af tali sumra að það væri hægt.
    Veltum þá aðeins fyrir okkur, eins og menn hafa verið að gera hér í dag, í hverju vandinn liggur. Hann liggur í því að ekki hefur tekist að finna heppilega fjármögnun, fjármögnun með vaxtastigi sem tryggir sæmilega arðsemi álvers. Af hverju stafar það? Það stafar af því að álverðið hefur hríðlækkað. Það er afar lágt og menn hafa ekki ofan í spár sérfræðinga --- ég ítreka það --- ofan í spár sérfræðinga hafa þeir ekki trúað því að verðið muni hækka. Þetta stafar af ýmsum hlutum eins og menn hafa drepið á í dag en kannski hefur skort örlítið á að menn hafi tengt það nægilega.
    Í fyrsta lagi er alveg ljóst að það hafa orðið geysilegar breytingar í Sovétríkjunum. Menn hafa drepið á það hér í dag að efnahagskerfi Sovétríkjanna er í mikilli kreppu og þar ríkir geysilegt hungur eftir erlendum gjaldeyri. Þar á bæ reyna menn að selja allt sem þeir geta, nánast á hvaða verði sem er. Meðal þess er ál. Þeir hafa tekið til við að selja mjög mikið af áli, alls konar áli, selja jafnvel mengað ál sem þeir höfðu grafið í jörðu. Þeir eru að selja það á mjög lágu verði til Vesturlanda. Sem dæmi um þessa miklu aukningu þá seldu þeir um 250 þús. tonn á hverju ári. Nú nemur sala þeirra um 750 þús. til 1 millj. tonna á ári. Menn deila síðan um það hvort þessari miklu álsölu muni linna. Menn hafa vonað að einungis væri um tímabundið ástand að ræða. Ég er ekki svo sannfærður um það.
    Ég er tiltölulega nýkominn úr ferð um Sovétríkin þar sem ég skoðaði orkuver. Það kann vel að vera að þeirra orkuver séu komin að fótum fram og verksmiðjur þeirra sem framleiða ál séu gamaldags og mengandi en það er örugglega ljóst að þeir ætla sér eins og þeir geta að selja ál. Þeir hafa geysilega ódýra orku og þar ríkja ekki sömu markaðslögmál og annars staðar. Þeir geta ráðið verði orkunnar. Þeir geta ráðið verði vinnuaflsins líka. Í rauninni er það eina sem þeir þurfa að kaupa hráefnið í álið. Það geta þeir líka á meðan þeir geta aflað gjaldeyris fyrir sölu fullunnins áls. Ég hygg því og óttast að þeir muni enn um sinn geta fullnægt innanríkisþörf sinni fyrir ál og líka selt til Vesturlanda á verði sem kann að vera nokkuð fyrir neðan vesturlenskt verð.
    Hins vegar, og ég ítreka það, hefur þetta gerst gagnstætt spám sérfræðinga. Menn vissu ekki um þetta. Menn sáu þetta ekki fyrir. Þetta er þróun sem hefur orðið á nánast nokkrum mánuðum, tveimur missirum. Í viðbót við þetta vil ég líka minna á að menn voru tiltölulega bjartsýnir, eins og ég var til að mynda. Ég var tiltölulega bjartsýnn á síðasta vori á að það tækist þrátt fyrir þá váboða sem menn sáu í þessari miklu álsölu Sovétmanna að ná fjármögnun fyrir álverið. Á hverju byggði ég það? Ég byggði það á því að þá voru uppi spár, og ég minni menn á það, um að það yrði efnahagsbati á Vesturlöndum í lok þessa árs. Það mundi byrja efnahagsbati á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Menn voru að skrifa um þetta lærðar greinar fram eftir ári og það var ekki fyrr en um mitt sumar sem fram komu tölur sem bentu til þess að þetta var alls ekki á rökum reist. Þetta skiptir verulega miklu máli og ég hygg að þetta hafi raunar ráðið úrslitum um það að menn voru bjartsýnir fyrr á þessu ári og töluðu um það að þrátt fyrir mikla sölu frá Sovétríkjunum, sem menn reyndar voru ekki búnir að skilgreina til hlítar eins og þeir hafa gert núna, yrði hægt að fá þessa fjármögnun.
    Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni að spyrja: Hvað hefur ríkisstjórnin í pokahorninu? Hvað ætlar hún að gera? Ætlar hún að sitja aðgerðarlaus? Svipaðar spurningar komu fram í máli ýmissa annarra ræðumanna, t.d. hv. þm. Árna R. Árnasonar rétt áðan. Þá verð ég að segja það að ég er hissa á því þegar menn spyrja í fullri alvöru: Ætlar ríkisstjórnin ekkert að gera?
    Það vill svo til að á þessu hausti eru að takast erlendir samningar sem ég hygg að

opni meiri sóknarfæri fyrir þann undirstöðuiðnað sem þetta þjóðfélag hvílir á, þ.e. sjávarútveg, en hefur gerst áður. Ég hygg að það skipti meira máli fyrir atvinnulífið en allt það sem gerðist á síðustu fjórum árum. Ég er auðvitað að tala um samninga um EES. Ég hygg að sá aðgangur sem tollalækkanirnar og afnám tollanna á t.d. ferskum afurðum gefur í Evrópu muni skipta sköpum á næstu árum. Ég ætla bara að nefna dæmi af einni tegund afurða sem skiptir verulega miklu máli, fersku flökin. Á þeim voru áður 18% tollar. Þegar samningurinn verður staðfestur fellur hann niður í núll. Það eru geysilega og vaxandi eftirspurn eftir ferskum flökum einmitt í Evrópu. Og hvers vegna skiptir það máli fyrir okkur? Það skiptir máli vegna þess að frystu flökin sem við höfum verið að selja undanfarin ár skila miklu minna en fersku flökin. Þarna er um að ræða mun á kílói upp á 150--170 kr. Markaður. Hvað er hann mikill? Árið 1988 seldum við, þrátt fyrir tollana, þangað fyrir 114 millj. 1990 þrátt fyrir tollana seldum við eigi að síður þangað tólffalt meira. Aukningin var tólfföld á tveimur árum. Við vorum að selja fyrir 1400 millj. Þetta skiptir máli. Er meiri markaður fyrir hendi? Við getum til að mynda litið á útflutning okkar á ísfiski til Bretlands á þessu ári. Hann hefur numið sem svarar á þorski og ýsu 800 tonnum á viku. 80% af þessu fara í fersk flök. Það eru 640 tonn.
    Með öðrum orðum bíður þessi markaður eftir okkur þegar tollarnir hafa verið afnumdir. Ég segi að þarna er um að ræða sóknarfæri. Menn geta síðan reynt að reikna þetta. Einungis 10.000 tonn sem við getum selt með þessum hætti í formi ferskra flaka í stað frystra skilar í þjóðarbúið 1,7 milljörðum aukreitis.
    Ég vil nú lýsa undrun minni á því að þingmenn koma í ræðustól og halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekkert gert. Hún hefur náð samningum sem skapa betri sóknarfæri fyrir sjávarútveginn á erlendum mörkuðum en áður hefur gerst.
    Ég tek síðan undir það sem menn hafa verið að ræða um að það er víðar annars staðar í sjávarútvegi sem menn geta leitað fanga. Þessi ríkisstjórn hefur einsett sér það að setja fram stefnu um fullnýtingu sjávarfangs. Í dag erum við að tapa geysilegum fjármunum í formi úrgangs, getum við kallað það, lifur, úrkast, hausar, sem gætu nýst okkur verulega vel. Við sem tilheyrum stjórnarflokkunum höfum líkað talað um það að við viljum efla fiskmarkaðina. Þetta skiptir miklu máli. Ekki síst vegna þess kjördæmis sem hér hefur komið þráfaldlega til umræðu, Suðurnesja. Það vill svo til að í skjóli fiskmarkaða hefur þróast geysilega merk atvinnustarfsemi sem skilar hærra afurðaverði en við fáum úr hefðbundnum sjávarútvegi. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar og reyndar líka stefna nokkurra stjórnarandstöðuflokka að efla fiskmarkaðina sem í dag eru því miður í vanda staddir.
    Ég nefni síðan hlut eins og raforkusölu um streng sem ég hygg að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi séu sammála um að sé kostur sem þarf að athuga vel og iðnrn. hefur í mjög djúptækri athugun í dag. Ég vil síðan nefna ferðaiðnað vegna þess að hæstv. fyrrv. forsrh. hann orðaði það svo: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að efla ferðaiðnað? --- Ég spyr: Í hvaða landi lifir hann? Ferðaiðnaðurinn blómstrar í dag en auðvitað má betur gera.
    Ég vil að lokum hvetja þingheim allan og landsmenn alla og sér í lagi hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem ég hef ekki áður þekkt af svartsýni: Við skulum ekki drekkja okkur í svartagallinu. Við skulum frekar taka höndum saman og reyna sem þjóð að standa sameinuð og vinna okkur út úr þeim vanda sem við erum í í dag.