Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:57:00 (883)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vegna orða sem féllu í ræðu hv. síðasta ræðumanns þar sem hann sagði að í 20 ár hefðu Íslendingar verið að reyna að ná samningum um stóriðju í landinu vil ég leiðrétta þau orð og minnast þess að fyrir tíu árum eða svo var það stefnumál iðnrh. í Alþb. að reyna að spilla fyrir því að Íslendingar gætu gert samninga um stóriðjumál og gera þá samvinnu sem tortryggilegasta. Ég efast ekki um að viðsemjendum okkar nú í samningum um álver er kunnugt um þau vinnubrögð öll og þau kunna að hafa haft áhrif á þessa samninga og þá stöðu sem við nú stöndum í.