Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 18:04:00 (889)

     Hjálmar Jónsson :
     Virðulegi forseti. Það er eðlilegt og sjálfsagt að taka þetta mál til umræðu. Frestun ákvörðunar um álver á Keilisnesi er skellur, eins og hæstv. forsrh. hefur komist að orði. Ég hygg að í meginatriðum hafi rétt og eðlilega verið staðið að málum. Hæstv. iðnrh. hefur stýrt þessu vel eftir orðtakinu: Þú virkjar ekki eftir á. Fyrst raforka, síðan stóriðja. Virkjunarmálin eru undir sama hatti þótt auðvitað sé hann aldeilis ekki einn í ráðum. Núna þegar fresturinn er orðinn má auðvitað deila um það hvort virkjunarframkvæmdir hafi byrjað á réttum tíma. En undarlegt er ef menn ætla að deila hér löngum stundum um liðna tíð og orðna hluti sem enginn fær breytt.
    Þegar virkjunarmálin voru á dagskrá voru tveir valkostir: Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Ákvörðun var tekin og sú ákvörðun reynist vera rétt. Hefði verið farið í Fljótsdalsvirkjun sætum við nú uppi með miklu meiri fjárskuldbindingar en annars er. Sjálfsagt er að stöðva þær framkvæmdir sem háar fjárhæðir hafa nú þegar gengið til. Þessi staða í stóriðjumálum hlýtur að kalla á nýjar áherslur. Setja þarf enn þá meiri kraft í aðra atvinnuuppbyggingu, sjá til með stóriðjuna en hefja sókn til byggingar og rekstrar smáfyrirtækja um landsins byggðir til styrktar atvinnulífinu og efnahagskerfinu. Aðferðirnar þarf að finna því auðvitað eru þær til. Hv. þm. væri sæmst að sameinast í því. Við hljótum að halda áfram að nudda, eins og hér hefur verið komist að orði.
    Virðulegi forseti. Blönduvirkjun er ekkert risavaxið ævintýri. Hún er orkuforðabúr sem mun nýtast vel í framtíðinni, ekki að fullu á allra næstu árum en samkvæmt áætlunum og spám rafmagnsveitnanna svarar hún aukinni orkuþörf til innanlandsnota rétt fram yfir aldamótin, í mesta lagi fram til ársins 2005. Það er gott til þess að vita að í einhverju erum við ekki að sóa í neyslu líðandi stundar út á framtíðina, eftir að vera búin að koma fyrir sparifé eldri kynslóðar. Með Blönduvirkjun er því engu spillt og ég vara við svartsýnistali og ráðaþroti. Fólkið í landinu þarf fremur að heyra héðan úrræði og nýjar leiðir en deyfð og vonbrigði og sífellt tal um orðna hluti sem enginn breytir hvort eð er. Fólk þarf að sjá og finna að hér er kjarkur og fullur vilji til úrræða og stuðnings við drífandi fólk út um allt land en menn sitji ekki hér með hendur í kjöltu og gráti Björn bónda heldur safni liði til uppbyggingar og nýrrar sóknar í framkvæmdum.