Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 18:08:00 (890)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að nánast þjóðin öll hafi verið flemtri slegin í gær þegar tilkynning barst um að hætt væri við væntanlegar álversframkvæmdir. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni þegar starfsfólk í heilum atvinnugreinum horfir fram á verkefnaskort á næstu missirum. Það er síðan allt önnur saga hvernig þær væntingar voru byggðar upp. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um samningsgerðina. Það hafa aðrir gert hér.

    Ég ætla að víkja að einu atriði í ræðu hæstv. forsrh. Hann ræddi um að fjölmiðlar hefðu verið að halda því fram að Landsvirkjun hefði þvælst fyrir málinu. Það eru nokkuð ný sannindi í mínum huga ef það eru fjölmiðlarnir sem búa til fréttirnar. Ef ég hlustaði rétt á kvöldfréttir í gær var þarna um að ræða mjög ákveðin ummæli hæstv. iðnrh. í þá veru sem ýjað var að.
    Ég ætla að koma að einum þætti þessa máls og það er staðarvalið. Ef einhvers staðar í ferli álmálsins hefur verið leikinn ljótur leikur, þá var það þar. Ef menn beittu einhvers staðar í þessu ferli blekkingum, þá var það þar. Ég vil að vísu alltaf ætla fólki hið besta og reikna með að þessar blekkingar hafi verið óafvitandi. Það hafi verið trú manna að það væri einhver meining með þeirri vinnu sem sett var í gang vegna staðarvalsins.
    Hæstv. iðnrh. segir að fundurinn á Akureyri 1989 hafi aukið á samheldni manna um staðarval. Ekki veit ég á hverju hann byggir það. Ég minnist þess líka að hæstv. iðnrh. sagði, þegar hann kom af fundi norðanmanna þar sem hann tilkynnti að búið væri að ákveða staðsetninguna á Keilisnesi, að fulltrúar Eyfirðinga hefðu tekið því með skilningi og karlmennsku. Það er alveg rétt hjá hæstv. iðnrh. En það var ekki vegna þess að þeir væru sáttir við hvernig að málinu var staðið heldur var það vegna þess að það var þeirra staðfastur ásetningur að láta ekki á sér finna neitt annað. Þeir ætluðu ekki að láta neinn hlakka yfir óförum sínum í þessu máli.
    Hér er rætt um að menn hafi verið forvitrir og séð fram í tímann. Þá ætla ég að leyfa mér að vitna í eitt atriði í þessum ferli þar sem ákveðinn maður var forvitur. Það var hv. 6. þm. Reykn., þá varaformaður Verkamannasambands Íslands, sem lýsti því blákalt yfir í fjölmiðlum meðan enn þá var fjölmennu liði manna, bæði norður í landi og austur á landi, stefnt í vinnu til þess að undirbúa staðarval, að hann hafi það staðfest að erlendu aðilarnir séu búnir að ákveða staðsetningu á Keilisnesi. Ég kann ekki að telja hvað liðu margar vikur frá þessu sjónvarpsviðtali þar til hæstv. iðnrh. kallaði fulltrúa Norðlendinga og Austfirðinga á sinn fund til þess að tilkynna þeim niðurstöðuna. Það var mikið unnið á þeim tíma sem leið á milli.
    Ég vil ekki ætla að þetta hafi bara verið getsakir hjá Karli Steinari. Ég tel víst að hann hafi haft eitthvað til síns máls. Hann var á þessum tíma, ef ég man rétt, kominn í framboð með hæstv. iðnrh. á Reykjanesi. Komu upplýsingarnar þaðan? Ég veit það ekki. Ef þær hafa hins vegar komið frá samstarfsaðilunum erlendu, vestan frá Bandaríkjunum, á ég bágt með að trúa því að hæstv. 6. þm. Reykn. hafi fengið þær upplýsingar á undan hæstv. iðnrh.
    Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að ef einhvers staðar var leikinn ljótur leikur í þessu máli, þá var það varðandi þessi atriði.
    Ég get tekið undir ummæli nokkurra hv. þm. um það að nú þurfum við á bjartsýni að halda. Hins vegar verð ég því miður að segja að ég finn ekki fyrir þeirri bjartsýni og ég finn ekki fyrir að það sé ýtt undir þá bjartsýni hjá núv. hæstv. ríkisstjórn með því sem hún leggur til málanna í atvinnumálum. En burt séð frá því þá held ég að það allra dýrasta sem getur upp komið í stöðunni sé það að við verðum hér með fjölda vinnufærra handa sem ekki hafa neitt að gera á næstu árum. Það hafa Íslendingar aldrei þolað og það mun verða okkur mjög þungbært. Gegn því verður þess vegna að vinna með öllum tiltækum ráðum.
    Ég ætla að leyfa mér að nefna hér eitt atriði og varpa því fram í umræðuna. Af hverju notum við ekki það hlé sem nú gefst, það tækifæri sem nú gefst til athafna til að klára uppbyggingu hringvegarins, vegakerfisins frá Reykjavík til beggja átta og þar sem það mundi ná saman á Egilsstöðum fyrir austan. Ég hygg að fyrir því liggi nokkrir útreikningar að hægt sé að sýna fram á að þetta sé á engan hátt síður arðbær fjárfesting en ýmislegt annað sem menn hafa verið að leita fyrir sér með. Ég held að þetta mundi ekkert síður opna nýja möguleika en EES-samningurinn og ég mun reyndar færa eilítil rök að því að þetta sé kannski forsenda þess að menn geti nýtt þá möguleika sem þar opnast.
    Menn hafa hér nokkuð rætt um það að samningurinn um EES muni gefa sjávarútveginum aukna möguleika og nefna þar sérstaklega fersku flökin. Það er rétt. Menn geta þess hins vegar ekki að eins og aðstæður eru í okkar þjóðfélagi í dag, þá eru allar líkur á því að þessi nýju færi skapist fyrst og fremst á suðvesturhorni landsins, svæðinu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Að því leyti er það rangt þegar hæstv. utanrrh. heldur því fram að í þessu felist mikið byggðamál. Þetta byggist á því, og þar hef ég fyrir mér orð nokkurra af okkar hæfustu mönnum í útgerð og fiskvinnslu, að þessi færi eru best fyrir þá sem liggja best við samgöngum eins og þær eru í dag frá landinu. Daglegu flutningarnir út með gámum fara frá höfn í Reykjavík, allir útflutningar með flugvélum til þessa dags eru miðaðir við þarfir Flugleiða sem vilja hvergi annars staðar lenda en á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna segi ég eins og ég sagði áðan að það að klára uppbyggingu samgöngukerfisins, þ.e. hringvegarins, er kannski forsendan fyrir því að þessi færi nýtist, sömuleiðis að lokið verði við áætlun um það að Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur geti verið millilandaflugvellir.
    Að mínu mati opnar þetta líka stóra möguleika í ferðaþjónustu. Ég hef nú reyndar gengið lengra í málflutningi m.a. hér á hinu háa Alþingi og nefnt hugmyndir um hálendisvegi sem ég ætla að láta bíða að sinni í það minnsta. En ég vil bara með þessum orðum mínum benda á það að við þurfum að vinna okkur út úr þessum vanda núna með athöfnum, ekki með því að sitja með hendur í skauti.
    Í tilefni af ummælum hv. 17. þm. Reykv. áðan um að við eigum að leita nýrra tækifæra þá ætla ég að gerast svo djarfur hér að benda á fiskeldið sem einhver mundi kannski segja að væri að nefna snöru í hengds manns húsi. En það skyldi ekki vera að þar ættum við sóknarfæri núna? Það skyldi ekki vera að sú alræmda stofnun, Byggðastofnun, hafi með frumkvæði sínu norður í Öxarfirði náð að sýna og sanna að þetta er atvinnuvegur sem á framtíð fyrir sér? Menn hafa að vísu gert þar ótal mistök en mistökin eru kannski öðru fremur til þess að læra af þeim en til þess að gefast upp fyrir þeim. Ég skal því manna fyrstur taka undir það með hv. þm. að við þurfum á bjartsýni að halda en við þurfum líka á nýrri ríkisstjórn að halda til þess að virkja bjartsýnina.