Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 18:19:00 (891)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að núna ríki kvíði hjá þjóðinni vegna atvinnumála. Það ríkir kvíði vegna niðurskurðar í sjávarútvegi. Það ríkir kvíði vegna mikilla breytinga og sviptinga í landbúnaðarmálum og vegna þess að ýmsar atvinnugreinar sem bundnar voru vonir við hafa ekki gengið enn sem komið er og má þar nefna t.d. fiskeldi eins og síðasti ræðumaður nefndi. Það er óhætt að segja að einmitt vegna þessa voru þær fréttir, að samningar um álver á Keilisnesi hefðu frestast, ótíðindi. Ég gleðst ekki yfir þeim tíðindum þó að ég hafi tekið þátt í deilum um staðsetningu þessa fyrirtækis á sínum tíma og talið að það ætti að staðsetja annars staðar. Það var komin í það mál niðurstaða sem ég sætti mig við þó að ég væri annarrar skoðunar og mér finnst þetta ótíðindi. Það eru ótíðindi vegna þess að við bundum vonir við þessar framkvæmdir um að geta nýtt orkulindir landsmanna.
    Líklega stendur öll þjóðin núna í þeim sporum sem við Austfirðingar höfum staðið í, ég má segja í tvígang. Við erum vanir menn að þessu leyti. Við höfum horft upp á að það var búið að leggja vegarspotta að verksmiðju í Reyðarfirði þar sem átti að verða kísilmálmverksmiðja og meira að segja hafði hún starfsmenn hér í Reykjavík og borgaði hæstu meðallaun á landinu á sínum tíma, ef ég man rétt. En ekkert varð af þeim áformum. Og ég vil nú ráðleggja iðnrh. í fullri einlægni að þó að þessu máli hafi verið frestað að vekja ekki falskar vonir og tala ekki um framhald þessa máls af of mikilli bjartsýni. Þetta er af fullum heilindum mælt því að það er mjög slæmt ef heil byggðarlög fara að bíða eftir slíkum kostum og hafa vonir um að úr rætist sem ekki gengur eftir.
    Svo að ég víki aftur að kísilmálmverksmiðjunni margfrægu, þá hefði nú reyndar mátt, að manni finnst, athuga í meiri alvöru á þeim tíma sem liðinn er síðan það mál datt upp fyrir hvort möguleiki væri að taka það upp aftur vegna þess að nú hafa verið byggðar einar tvær eða þrjár slíkar verksmiðjur í veröldinni síðan ekki náðist um það mál samkomulag hér. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh.: Með hverjum hætti er fylgst með slíkum kostum í hans ráðuneyti? Það hefur aðeins verið tæpt á þeim málum hér, hann tæpti á þeim í ræðu sinni hér fyrr í dag, en ég vildi biðja hann að koma nánar að þeim hlutum, með hverjum hætti er fylgst með nýjum iðnaðarkostum og með hverjum hætti þeim kostum er

fylgt eftir.
    Ég átti satt að segja von á að þessar umræður, þó að auðvitað sé gott að rifja upp fortíðina og nauðsynlegt í þessum efnum, mundu frá hendi hæstv. ráðherra, sem hér hafa talað, snúast meira um hvað væri nú til ráðs, hver þeirra áform væru varðandi atvinnulífið í landinu þegar við stöndum nú frammi fyrir því að framkvæmdir við álver frestast sem var þó svo mikil alvara í að fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþingi og fjárln., er reiknað með miklum tekjum af þessum framkvæmdum á næsta ári. Ég fann ekki þá framtíðarsýn í ræðum hæstv. iðnrh. og enn þá síður í ræðu hæstv. forsrh. Ég varð lítið rólegri að hlusta á ræður þeirra. Ég held sannast sagna að hér sé nú hætta á stórfelldara atvinnuleysi en við höfum horft fram á um langa hríð. Og ég vildi svo sannarlega vita hvort einhverrar stefnubreytingar sé að vænta gagnvart atvinnulífinu í landinu. Ég vildi svo sannarlega vita hvort ekki er að vænta þeirrar tíðar að athafnamenn geti fengist við einhvern áhætturekstur, jafnvel þó að þeim mistakist, og hætt verði að elta þá uppi eins og hálfgerða óbótamenn. Yfirlýsingarnar sem hafa gengið frá sumum ráðamönnum hafa jafnvel verið á þá leið og síðan fylgja fjölmiðlar eftir í þessari umfjöllun. Ég vona svo sannarlega að nú verði stefnubreyting að þessu leyti.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á fiskeldisfyrirtæki norður í Axarfirði. Það hefur ekki verið talað vel um það fyrirtæki í gegnum tíðina. Þó er það kannski eitt af því sem gæti komið til bjargar þegar tímar líða. Þótt ýmis mistök hafi áreiðanlega átt sér stað í þeirri uppbyggingu þá tel ég að t.d. fiskeldið eigi framtíð fyrir sér.
    Ég er einn af þeim sem telja að sá samningur, sem hefur náðst um EES, ef hann verður að veruleika, geti opnað möguleika fyrir íslenskan sjávarútveg. En þeir möguleikar opnast ekki sjálfkrafa. Það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Þeir opnast ekki nema með kjarki og dug og menn fái bakstuðning til þess að nýta þá. En mér finnst mjög mikið á það skorta hjá þessari ríkisstjórn. Mér finnst að tónninn í garð atvinnulífsins, ekki síst úti um landsbyggðina, sé með þeim hætti að hann veki ekki bjartsýni hjá fólki og hann veki ekki bjartsýni hjá athafnamönnum til að ráðast í áhættusöm verkefni, því miður. Það er dálítið nöturlegt að þetta skuli vera ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. sem kennir sig við frjálst framtak og frelsi til athafna og hefur talið sig hafa flesta athafnamenn sem heiti hafa innan sinna vébanda. Ég vona að þetta breytist. Ég vona að ráðamenn breyti nú um tón. Það er mjög mikilvægt ( StG: Það er vonlaust.) og vonlaust, segir hv. 4. þm. Norðurl. v. og á hann þar sjálfsagt við að vonlítið sé að breytt verði um tón í garð þeirrar stofnunar sem hann situr í stjórn í, enda heyrist mér á formanni stjórnar þeirrar stofnunar þegar viðtal er tekið við hann í útvarpinu að það sé lítil von til þess að þar verði breyting á, svo að ég lái ekki minni spámönnum í þeirri stjórn, ég vona að hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrirgefi mér orðbragðið, þó að þeir séu svartsýnir.
    Það er ein spurning sem ég ætla að lokum að leggja fyrir hæstv. iðnrh. nú þegar þessi kostur frestast og við stöndum frammi fyrir að eiga orku úr heilli virkjun sem er ekki nýtt. Ég vil spyrja hann hvort ekki séu möguleikar á því að atvinnulíf landsmanna njóti nú um sinn ódýrari orku og lægri taxta fyrir raforku en nú er raun á. Það mundi létta undir með ýmsum atvinnugreinum að eiga kost á því. Ég er að vísu ekki hagfræðingur en ég held að af því hlytu að verða tekjur fyrir Landsvirkjun ef hægt væri að auka orkunotkun eitthvað með þeim hætti að bjóða atvinnulífinu upp á hagkvæma taxta og raforku. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort einhver áform séu uppi um að hefja viðræður um það við stjórn Landsvirkjunar að gera átak í þessum efnum.
    En ég held nú þrátt fyrir allt að aðalatriðið sé stefnubreyting, breyttur andi í garð undirstöðuatvinnuveganna í landinu og breyttur andi í garð þeirra sem vilja fást við áhættusaman rekstur. Það muni lyfta okkur frekar en nokkuð annað og muni leiða okkur frekar en nokkuð annað til framfara í þessu landi. --- [Fundarhlé.]