Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 21:23:00 (895)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að mikilvægar er að líta til framtíðar, það er mikilvægast á þessu stigi og ætla ég að reyna að gera það. Hitt er svo annað mál að ég held að það sé afar nauðsynlegt að skoða hvernig farið hefur verið með þetta mál, ekki síst í ljósi þess að hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir að hann telji rétt að halda samningunum áfram og ljúka þeim. Ég skildi svör hans, sem að vísu voru ekki mörg við mínum spurningum, þannig að við værum nú óbundnir af samningunum, en hann teldi rétt að halda þeim áfram.
    Ég vil einmitt við skoðum vandlega í því sambandi hvert líklegt álverð er á næstunni því að þessir samningar eru afar mikið tengdir álverði. Það er fyrst og fremst með það í huga sem ég t.d., þegar ég fékk, eins og ég hef skýrt frá, þær upplýsingar frá mjög traustum aðila að spá sem lægi fyrir um álverðið fengi varla staðist, taldi mér að sjálfsögðu skylt að gera hæstv. iðnrh. grein fyrir því. Ég vona að það hafi komið hér skýrt fram þrátt fyrir misskilning hv. formanns þingflokks Alþfl. Hins vegar vísuðu hæstv. iðnrh. og Landsvirkjun því á bug, töldu ekki nauðsynlegt að skoða slíkar illspár eins og það hefur verið kallað hér. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að skoða ýmislegt í þessum samningum nú áður en þeim er fram haldið og þeim lokið.
    Ég held að líka sé nauðsynlegt að varpa fram þeirri spurningu hvort þegar eigi að fara að leita annarra kosta. Ég vísa því algjörlega á bug sem mátti skilja held ég hjá hv. þm. Karli Steinari að ég hefði talið rétt að semja við aðra álframleiðendur á sama tíma. Að sjálfsögðu kom það aldrei til greina. Hins vegar eru margir aðrir kostir í orkufrekum iðnaði en álframleiðsla. Vitanlega kom til greina að skoða þá um leið. Hæstv. iðnrh. hefur reyndar sagt að það hafi verið gert og verið getur að skynsamlegra sé þá að snúa sér að þeim. Ég neita því ekki að mér þykja ýmsir aðrir kostir betri en álbræðsla. Álbræðsla er afar stór og það er afar mikið stökk í litlu þjóðfélagi að byggja stóra álbræðslu og allar virkjanir sem hún þarf. Ég held t.d. að kísilmálmur sé betri kostur en álbræðsla. Hér var upplýst áðan af hv. þm. Jóni Kristjánssyni að byggðar hafa verið kísilmálmverksmiðjur síðan horfið var frá þeirri sem rætt var um að byggja á Austfjörðum. Þetta voru athyglisverðar upplýsingar og ég vil gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. hvort þetta hafi verið vel skoðað.
    Ég þarf að koma að örfáum atriðum sem komið hafa fram hjá hv. þm. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði áðan að honum þætti undarleg gagnrýni mín þar sem ég hefði borið ábyrgð á þessum samningum í síðustu ríkisstjórn. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Forsrh. ber að sjálfsögðu ábyrgð á ríkisstjórninni í heild og er þar verkstjóri en einstakir ráðherrar bera fulla ábyrgð á sínum málaflokkum. Hins vegar er iðulega þá samstarf.
    Ég var undrandi að heyra hv. þm. Karl Steinar nánast endurtaka það sem hæstv. iðnrh. sagði, að í illspá felist ósk um hrakför sínu verri, eða hvernig það var nú orðað. Þannig mátti skilja orð hans og jafnvel að við hefðum nauðugir viljugir fylgt þessum samninum. Þetta er að mínu mati mjög ómaklegt. En það má kannski segja að eftir höfðinu dansi limirnir. Ég hef lengi fylgt því að hér væri aukið við orkufrekan iðnað í skrefum og í hófi og hef stutt það í gegnum margar ríkisstjórnir að leitað verði slíkra kosta. Því miður hefur það ekki gengið fyrr en komst kannski næst því nú. Mér er hins vegar fyllilega ljóst, ekki síst eftir margra ára starf á fyrri árum í nefnd um orkufrekan iðnað, að þetta er afar vandmeðfarið mál og þeir menn sem verið er að semja við eru engin börn, því fer svo víðs fjarri.
    Ég trúi ekki öðru en þessir álframleiðendur hafi haft allar þær upplýsingar sem mér tókst að fá og ég trúi ekki öðru en þessir álframleiðendur viti allt um álframleiðslu Sovétríkjanna. Ég trúi ekki að þeir séu að frétta það núna að Sovétríkin framleiða yfir 4 millj. lesta af áli og selja núna úr landi um 1 millj. lesta. Af því að hæstv. forsrh. sagði hér áðan að hann teldi ekki að minnkandi vopnaframleiðsla dragi úr álframleiðslu þá hef ég haft allt aðrar upplýsingar um það. Ég var í Sovétríkjunum á sama tíma og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hafði þá tækifæri til að ræða við aðstoðarefnahagsráðherra Rússlands, Believe. Ég spurði hann hreinlega að þessu og hann sagði að vegna minnkandi vopnaframleiðslu mundu þeir, ef nokkuð, auka útflutning á áli á næstu árum. Ég er að vísu ekki nokkur sérfræðingur í því hvað fer af áli og hvað af öðru í vopn, en þetta sagði aðstoðarefnahagsmálaráðherra rússneska lýðveldisins. Mér var einnig tjáð af þeim verkfræðingi, sem ég vísaði til áðan og veitti mér upplýsingarnar í byrjun september, sem ég hitti reyndar í Moskvu, að Rússar væru núna að leita eftir endurbyggingu á álverum sínum og hygðust greiða fyrir það í áli, sem allt færi náttúrlega úr landi.
    Nú segi ég aftur að ég efa ekki að menn eins og Paul Drack hjá Alumax þekkja þetta miklu betur en ég að sjálfsögðu. Þá spyr maður sjálfan sig: Af hverju halda þeir þessum samningum þó áfram? Er það þess vegna að þeir telja sig hafa komist svo langt með

okkur Íslendinga --- við skulum bara orða það þannig --- og hafa í raun og veru allt í sinni hendi, þurfa engu að hætta, engar ábyrgðir að veita eins og hér hefur verið rakið? Móðurfyrirtækin veita ekki ábyrgðir heldur eiga þær að koma eftir öðrum leiðum í gegnum dótturfyrirtæki hér. Sömuleiðis geta þeir tekið sér frest eftir frest. Eru þeir með öðrum orðum að draga okkur á asnaeyrunum? Ég ætla ekki að segja hæstv. iðnrh., það er ekki kurteislegt, bara okkur öll. Eru þeir að því? Er nokkuð undarlegt þótt slíkar spurningar vakni?
    Ég vil sem sagt vísa því algjörlega á bug að það þýði andstöðu við byggingu álvers af hálfu okkar framsóknarmanna sem höfum lýst yfir stuðningi við byggingu álvers, að við viljum skoða allar hliðar þess, m.a. hvort rétt sé að halda þessum samningum núna áfram. A.m.k. vil ég segja strax að ég tel að það verði að vera svigrúm til þess nú þegar að skoða alla aðra kosti. Samningarnir við þessi þrjú erlendu fyrirtæki mega á engan máta draga úr vilja okkar eða heimild til að skoða alla aðra kosti til að nýta orkuna, e.t.v. að flytja hana úr landi eins og hæstv. iðnrh. hefur stundum nefnt. Það vill nú svo merkilega til að fyrsta verk sem ég fékk þegar ég kom til landsins sem rafmagnsverkfræðingur var að skoða þann kost, það var fyrir nokkuð löngu, og þá reyndist hann óhjákvæmur og nánast algjörlega útilokaður. Ég hef kynnt mér þessi mál dálítið síðan og þetta er afar kostnaðarsöm lausn og tekur mörg ár að framleiða kapalinn einan. Líklega borgar sig ekki að fara með hann á land í Færeyjum vegna þess að Færeyingar nota litla orku. Það væri líklega betra að fara fram hjá. Það er ótal mörgum spurningum ósvarað í þessu sambandi. Ég hef því ekki trú á því að sú lausn sé í nánd. Auk þess, þegar atvinnuástand hér heima er orðið svo slakt eins og það er núna er þetta mjög slæm lausn. Það er svona svipað og að flytja þorskinn jafnvel óslægðan úr landi. En sannarlega ber að halda þessu áfram og ég met það við hæstv. iðnrh. að það er skoðað, en hann getur alls ekki bent á það sem nokkra lausn á erfiðleikum þessa þjóðfélags núna á næstu árum, jafnvel áratug.
    Hæstv. forsrh. bar hönd fyrir höfuð síns iðnrh. og það var honum rétt að gera að sjálfsögðu, en hér hefur nú þegar verið rakið hvernig hann gagnrýndi harðlega meðferð hæstv. iðnrh. á þessu máli áður en hann kom í forsætisráðherrastólinn.
    En ég vil aðeins út af því sem hann sagði um svokallaða bjartsýnisskýrslu, og fleira sem í því sambandi hefur verið unnið, leyfa mér að halda því fram að í þeirri skýrslu felist ótrúlega margir möguleikar og hún er ekki bara, eins og skilja mátti af hæstv. forsrh., eins konar lauslegt yfirlit. Hún er miklu meira. Hún vekur athygli á því að hér á landi er hægt að byggja upp mjög öflugan sérhæfðan ferðaiðnað. Ferðaiðnað sem sinnir ákveðnum þörfum erlendra manna og við getum haft það afar mikið í okkar hendi og reyndar er þegar búið að stofna fyrirtæki sem ætlar að snúa sér að slíkum hlutum eins og t.d. heilsurækt og fleira þess háttar, læknisaðstoð, læknisskoðunum. Í þeirri skýrslu kemur t.d. fram að við Íslendingar höfum líklega eitthvert best menntaða lið lækna í heiminum og það eru mjög góð tækifæri að nota þá miklu auðlind, ef ég má kalla það svo, til þess að veita sérhæfða þjónustu á ýmsum heilsuræktarsviðum. Hins vegar var það niðurstaðan að allt þetta þyrfti vissrar aðstoðar hins opinbera, a.m.k. sjóða og þegar við heyrum nú að hið opinbera afneitar allri aðkomu að atvinnulífinu og fordæmir þá sjóði sem hafa lagt til að koma af stað nýjum atvinnugreinum eða styðja við þær gömlu, þá er ekki óeðlilegt að sú spurning vakni hvort eigi einnig að varpa þessum kostum í ruslakörfuna. Þeir eru þarna. Ég veit ekki til þess að rætt hafi verið um framhaldið við þá menn sem þetta verk unnu. Það liggja fyrir tillögur frá þessum aðilum um framhald þessarar vinnu.
    Mér þykir leitt ef svo lengi dróst að fá skýrslu um Keflavíkurflugvöll. Ég hef ekki séð þá skýrslu og get ekki metið hana. En það er sannfæring mín að Keflavíkurflugvöllur bjóði upp á mjög mikil atvinnutækifæri, gífurlega mikil atvinnutækifæri og vitanlega á Keflavíkurflugvöllur að keppa við alþjóðlega flugvelli í löndunum í kring, eins og t.d. í Danmörku og Hollandi um verkefnin; um lendingar, um gífurlega mikil viðskipti og ég tel að Keflavíkurflugvöllur hafi marga möguleika til þess. Mér þykir gott að heyra frá hæstv. iðnrh. að verið er að skoða fríverslunarsvæði --- það hefur að vísu verið gert oft og því hefur verið haldið fram að slíkt fríverslunarsvæði hafi stórum minni möguleika eftir að tollar eru fallnir niður á milli landa. Athugun sem Byggðastofnun gerði á þessu fyrir örfáum árum leiddi einmitt í ljós að t.d. fríhöfnin hjá Shannon hefur stórlega misst sitt gildi eftir að tollar á milli landa voru lækkaðir og felldir niður. En sjálfsagt er að halda áfram að

skoða slíkt. Ég held að vel komi til greina fyrir hæstv. ríkisstjórn að einkavæða Keflavíkurflugvöll. Gera hann að sjálfstæðu fyrirtæki, láta hann hafa þær tekjur sem þar koma inn til uppbyggingar, til að veita öðrum flugfélögum aðstöðu til að starfa þar, til að verða miðstöð flutninga með ferskan fisk og fjöldann allan annan varning til útlanda. Síðan getur þetta fyrirtæki, sem yrði að sjálfsögðu í eigu ríkisins, hygg ég að mestu, greitt arð af sínum tekjum til ríkisins. Vafasamt er, eins og gert er, að hirða allar tekjur af vellinum fyrst og segja síðan: Hann er rekinn með halla. Hann er nefnilega alls ekki rekinn með halla ef litið er á þær tekjur sem ríkissjóður fær t.d. af fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Ég er sannfærður um að hægt er að auka umferð um völlinn mjög mikið ef rétt er haldið á þeim málum. Þetta er ein ábending í þeirri von að ríkisstjórnin taki slíkt mál upp hvort sem sú skýrsla sem var gerð bendir til þessa eða ekki. Ég er sannfærður um að þetta beri að athuga.
    Ég sagði áðan að hæstv. iðnrh. svaraði að vísu afar litlu af þeim spurningum sem ég beindi til hans. Kannski telur hann sig ekki í stakk búinn til þess að svara þeim spurningum með svo litlum fyrirvara sem undirstrikar það, sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að náttúrlega er nauðsynlegt að ræða þetta mál miklu ítarlegar. Ekki vegna fortíðar, ég get tekið undir það þó nauðsynlegt sé að hafa hana í huga, heldur vegna framtíðar því hér í þessu landi mun skapast vaxandi kreppuástand ef ekki er á þessu málum öllum tekið. Mér þykir satt að segja allt of seint að fá ekki tækifæri til slíks fyrr en eftir jól eins og hæstv. iðnrh. upplýsti, að hann mundi leggja hér fyrir skýrslu. Hvað þýðir það? Það þýðir í lok janúar eða byrjun febrúar og það eru nokkrir mánuðir þangað til.
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann geti ekki hraðað þessari skýrslu þannig að við getum fengið hana innan nokkurra daga. Hann hefur mikið starfslið sem hefur unnið í þessu jafnt og þétt og hlýtur að geta skrifað með litlum fyrirvara góða skýrslu um þetta mál. Enda þekki ég hæstv. iðnrh. sjálfan að því að ef hann gerði þetta sjálfur þá yrði hún tilbúin í fyrramálið. Ég var vanur því þegar hann var forstjóri Þjóðhagsstofnunar að maður bað hann um eitthvað að kvöldi og það var tilbúið að morgni. Að vísu þurfa menn að gæta sín á að lesa það vel. En ég er sannfærður um að það er hægt að gera þetta á miklu skemmri tíma og vil í fullri einlægni biðja hæstv. iðnrh. um að þessari skýrslu verði mjög hraðað.
    Mér þótti dálítið leitt að heyra eins og dregið í efa eða ekki staðfest að ég hefði veitt hæstv. iðnrh. upplýsingar sem ég fékk og nefndi hér um framtíð áliðnaðarins. Það var hins vegar staðfest af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það var vitanlega gert. Og ég vona að það liggi á hreinu. Það er hins vegar mikill misskilningur sem kom fram í orðum iðnrh. að mér hefði alla tíð verið ljóst að grundvöllurinn væri veikur, það var mér ekki, alls ekki. Mér var í raun og veru ekki ljóst að hann gæti verið veikur fyrr en ég fékk þessar upplýsingar um framtíð álverðs og þá að sjálfsögðu þegar ljóst var orðið að álverðið yrði undirstaða allrar afkomu Landsvirkjunar frá þessu fyrirtæki. Og ég vil vekja athygli á því að ég gerði m.a. athugasemdir við það að hafa ekkert gólf. Því var þá svarað að ef ætti að vera gólf þá yrði að vera þak á orkuverðinu. En síðan var að vísu tekið inn gólf á fyrstu tveimur árunum ef ég man rétt.
    Eins og ég sagði þá svaraði hæstv. iðnrh. ýmsu ekki og ég ætla aðeins að fara yfir fáein atriði. Í fyrsta lagi eru umhverfismálin. Ég spurði hvort búið væri að breyta því ákvæði í aðalkjarasamningi sem ég nefndi í minni ræðu og að mínu mati var afar slæmt. Í skýrslu sem hæstv. iðnrh. lagði fyrir Alþingi vorið 1991 segir svo um þetta mál, með leyfi forseta, og þar er talað um starfsleyfið:
    ,,Leyfið verði einungis endurskoðuð eða því breytt ef:
    1. Nýjar aðferðir, aðgerðir eða tæki til að stjórna útrennsli, útstreymi eða losun lofts, vökva eða fasts efnis hafa á grundvelli alþjóðlegra sáttmála almennt verið skyldubundnar og komið til framkvæmda í álverum í OECD-ríkjunum, sem hönnuð eru um svipað leyti og Atlantsálverið og með áþekkri tækni og Atlantsálverið.
    2. Nýrra aðferða, aðgerða eða tækja er krafist samkvæmt íslenskum lögum.
    3. Nýrra mengunarvarna verði þörf vegna staðbundinna skilyrða á Keilisnesi.``
    Og aðeins til að hafa þetta skýrt. Það er þetta síðasta og sem ég er að vísa til, þ.e. ekki er heimilt að gera auknar kröfur um umhverfisvernd nema allir þessir þrír þættir séu

uppfylltir. Og sá síðasti er að sýnt sé fram á að staðbundin skilyrði á Keilisnesi í raun krefjist þess.
    Ég sagði strax þegar ég sá þetta að þetta ákvæði væri útilokað. Staðbundnar aðstæður á Keilisnesi mundu aldrei krefjast þess að þar yrðu mengunarvarnir auknar. Ég efast um að hægt verði að mæla áhrif álversins í næsta nágrenni þess, gróðurinn er þannig á því svæði. Hins vegar geta þau orðið mikil fjær eins og t.d. í að auka brennisteinstvíildi í loftinu o.s.frv., sem getur orðið til þess að alþjóðlegar kröfur verða hertar.
    Þetta fékk sú nefnd í Alþingi sem hefur með umhverfismál að gera til athugunar. Hún fékk síðan nokkrar skýringar 6. sept. Þær eru stimplaðar sem trúnaðarmál og þó ég hafi þær tel ég mér ekki frjálst að lesa upp úr þeim. En ég veit að hæstv. iðnrh. getur það að sjálfsögðu og getur þá upplýst hvernig þessum þriðja lið hefur verið breytt. Eins og ég hef séð hann vil ég hins vegar taka fram strax að það er algjör kattarþvottur og lagar í raun sáralítið þennan þriðja lið frá því sem áður var. En ég vildi gjarnan að hann skýrði það nánar fyrir okkur. Ég vil vekja athygli á því að hv. umhvn. Alþingis skrifaði 12. sept. og bað um að fá aðalsamninginn til meðferðar eða þetta atriði hans en hefur ekki fengið það enn. Í starfsleyfinu er hins vegar vísað til aðalsamningsins og þetta því mjög tengt saman.
    Ég sagði líka í ræðu minni og fékk ekki svör við því að nauðsynlegt væri að sjálfsögðu að stytta mjög þann tíma sem raforka er boðin með afslætti. Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hæstv. iðnrh. hvort hann telur í framhaldi samninganna það ekki í raun sjálfsagt mál. Við verðum núna að reka Blönduvirkjun með mjög litlu álagi og mjög kostnaðarsamri framleiðslu, þannig að sá tími styttist sem við getum boðið upp á afslátt. Er ekki alveg sjálfsagt að þessi tími verði þar með styttur? Ég spurði einnig að því hvort hinir erlendu aðilar mundu fáanlegir til þess að standa straum af þeim kostnaði sem við höfum lagt í og munum kannski leggja í einhvern tíma í framtíðinni. Reyndar væri fróðlegt að fá svar við þeirri spurningu sem kom fram hjá einum hv. ræðumanni: Hver er kostnaðurinn orðinn? Við vitum nokkurn veginn hver hann er orðinn hjá Landsvirkjun en við vitum einnig að iðnrn. hefur varið til þessa máls miklu fjármagni. Getur hæstv. iðnrh. sagt okkur hvað kostnaðurinn er orðinn mikill? Þannig mætti vitanlega halda áfram að spyrja margra fleiri spurninga.
    En ég vil leyfa mér að segja að hæstv. iðnrh. hættir mjög til að sjá aldrei bjálkann í eigin auga, svo ég orði það svo. Það er slæmt. Eflaust hefur okkur öllum orðið á einhver mistök. En hann hefur farið með þetta mál og verið ábyrgur fyrir því. Ég er enn þeirrar skoðunar að afar skakkt hafi verið að sýna viðsemjendum það mikla kapp sem lagt var á að ná þessum samningum. Ég var t.d. staddur í Bandaríkjunum í lok september þegar fyrir lá minnisblað --- og reyndar miklu meira þá en minnisblað --- sem hæstv. iðnrh. vildi fá undirritað og ég sá mér ekki annað fært eftir þann fund með forstjóra Alumax en að hringja í hæstv. iðnrh., sem reyndar var þá á leiðinni frá Búdapest til Washington í Bandaríkjunum, og vara hann við, vara hann við að sýna svona gífurlega mikið kapp. Og þó að þessir menn hafi vitanlega upplýsingar um ástand og horfur hér þá held ég að skynsamlegra sé, eins og pókerspilararnir gera, að sýna ekki andlit sitt nema helst sem steingerving. Ég held að einmitt í þessu máli hafi þessa alls ekki verið gætt, því miður. Það var svo mikið kapp lagt á að undirskrifa minnisblað sem að mínu mati var einskis virði og reyndar með tilliti til umhverfismálanna miklu verra en það, og oftar var þetta sama kapp sýnt.
    En nú er það spurningin: Hvernig getum við bætt það ástand sem hér er? Við heyrðum í fréttum áðan að að öllum líkindum verður miklum fjölda manna í byggingariðnaðinum sagt upp og jafnvel heyrðum við tillögu frá framkvæmdastjóra Sambands verktakafyrirtækjanna að taka ætti erlend lán til að stofna hér til meiri framkvæmda. Ég veit að það er ekki góður kostur að taka erlend lán en ég skil þennan mann mætavel. Og ég vil gjarnan spyrja: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að draga úr því atvinnuleysi sem fram undan virðist svo sannarlega vera? Ég spurði m.a. að því áðan hvort ríkisstjórnin hygðist hverfa frá þeirri stefnu sinni að hafa ekki afskipti af atvinnulífinu. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera fyrir grundvallaratvinnuvegi landsins eins og sjávarútveginn, sem á nú í vaxandi erfiðleikum? Reyndar væri fróðlegt að fá að vita, ef tíminn leyfir, hvað ríkisstjórnin hyggst

gera fyrir Vestfirðina sem hafa orðið hvað verst úti í sambandi við þann samdrátt sem orðið hefur í botnfiskveiðum. Segja má að þær riði til falls. Tímans vegna er varla hægt að gera ráð fyrir öðru en að fá mjög stutt svar við því, en það er vitanlega hlutur sem hlýtur að verða ræddur hér á Alþingi alveg á næstunni.
    Ég vildi líka gjarnan spyrja hæstv. iðnrh., þar sem hann ýjaði að því að verið væri að skoða þilplötuverksmiðju: Hvað líður því máli? Hvar stendur það? Hvar er líklegt að sú þilplötuverksmiðja rísi? Það var nokkuð um það deilt fyrir nokkrum mánuðum hvar hún ætti að rísa. Liggur það nánar fyrir?
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta enda er tími minn senn á þrotum. En ég vil endurtaka það hér í lokin að ég vona svo sannarlega að hæstv. ríkisstjórn breyti í grundvallaratriðum um stefnu í atvinnumálum. Og ég vil treysta því að við getum mjög fljótlega rætt langtum ítarlegar um framtíðina fyrst og fremst og hvaða kosti ríkisstjórnin býður upp á í því erfiða ástandi sem hér virðist vera undan.