Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 21:50:00 (896)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, gerði þá athugasemd við ræðu mína að hann bæri ekki ábyrgð á samningum sem leitað var eftir á vegum iðnrh. í fyrri ríkisstjórn, þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. veitti forustu.
    Auðvitað er mér það ljóst að iðnrh. hverju sinni ber stjórnskipulega ábyrgð á þeim samningum sem hann vinnur að. Hins vegar finnst mér það afar einkennilegt þegar forsrh. neitar að bera ábyrgð á verkum sem unnin eru á vegum þeirrar ríkisstjórnar sem hann veitir forustu. Þess vegna vakti það sérstaka athygli mína í ræðu hv. þm. hér í dag að hann skyldi veitast svo harkalega að iðnrh. sem hann gerði. Og ég undrast það. Það kann vel að vera að það sé bærilegur háttur í pólitík að afneita gjörðum sínum en það kemur mér mjög undarlega fyrir sjónir að forsrh., sem ekki hefur gert sérstaka athugasemd eða jafnvel hótað viðkomandi ráðherra að biðjast lausnar fyrir hans hönd, skuli eftir sem áður afneita gjörðum þessa sama ráðherra. Þess vegna vakti ég athygli á þessu í minni ræðu.