Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 21:52:00 (897)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Herra forseti. Hv. þm. taldi mig afneita ábyrgð á þeim samningum sem hefðu verið gerðir í minni ríkisstjórn, svo orðaði hann það í upphafi síns máls. Það voru engir samningar gerðir. Ef samningur hefði verið gerður og ríkisstjórnin lagt hann fram eða hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstjórnar, þá hefði ríkisstjórnin að sjálfsögðu í heild og ekki síst forsrh. borið á honum ábyrgð. Ég vil taka það fram að ég hefði glaðst manna mest ef þessir samningar hefðu náðst og verið viðunandi í sambandi við orkuverð og fjölmargt fleira. Því miður hafa þeir ekki náðst og eins og rakið hefur verið vandlega hér í umræðunum í dag hafa þeir lengi verið á næsta leiti eins og menn tala um í dag, í ein tvö ár, og hafa ekki náðst enn.
    Stundum er sagt að sannleikanum sé hver sárreiðastur. Ég sé ekki að óeðlilegt sé að rekja gang málsins og mótmæli því að það sé að veitast harkalega að hæstv. iðnrh. að rekja gang málsins. Þá væri eitthvað mjög skítugt í pokahorninu.