Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 21:53:00 (898)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég koma þeirri ábendingu til forseta þingsins að ég held að þessi utandagskrárumræða sýni það ásamt nokkrum öðrum, sem hér hafa farið fram á þessu þingi, að það þarf nauðsynlega að endurskoða þingsköpin varðandi utandagskrárumræður. Ég gagnrýndi það ákvæði að ráðherra hefði bara rétt til að taka tvisvar til máls í slíkri umræðu þegar þingskapalögin voru sett og ég geri það aftur nú vegna þess að það er mjög óþægileg aðstaða fyrir hæstv. iðnrh. að þurfa að vera í þeirri aðstöðu að geta talað bara einu sinni til viðbótar við sína upphaflegu ræðu og þurfa þá að svara öllum. Og það er líka mjög óþægilegt fyrir okkur hina að þurfa að tala hér aftur áður en hæstv. ráðherra hefur talað. Þetta er óþægilegt, sérstaklega út frá þeim mannlegu samskiptum og rökræðum sem þurfa að vera í þinginu. Ég held að þetta gangi aldrei upp til lengdar og vil beina því til forsetanna og formanna þingflokkanna að endurskoða þetta ákvæði

vegna þess að ég held að það þjóni ekki skynsamlegri umræðu hér í þinginu.
    Hér fyrr í dag vék ég að því að sú margbreytilega aðferð sem höfð var við viðræðurnar við hin erlendu fyrirtæki hafi átt verulegan þátt í því að málið dróst á langinn og tökin á því af hálfu Íslendinga voru alls ekki nógu skýr. Ég vil nefna aftur, sem frekari rökstuðning fyrir því, að núv. iðnrh. setti af hina formlegu samninganefnd sem var við lýði þegar hann tók við og kom á fót í staðinn samráðsnefnd sem var skipuð fulltrúum allra flokka. Þó að flokkarnir veldu ekki einstaklingana þá voru þeir með tengsl inn í alla flokka nema Kvennalistann. Hins vegar var svo ákveðið eftir nokkurn tíma að setja þessa nefnd til hliðar, en hún hefur ekki enn verið sett af, ég vil geta þess hér, hún er enn þá formlega til þó ég viti að einstakir nefndarmenn í henni hafi verið að orða það að þeir vildu gjarnan að hún yrði lögð af. Í staðinn var svo valin innri nefnd sérstakra trúnaðarmanna og það voru þeir sem fylgdust með málinu og áttu í viðræðum, en t.d. hv. fyrrv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem var og er enn í þessari samráðsnefnd, og Baldur Óskarsson, sem var og er enn í þessari samráðsnefnd, hafa ekki fengið að koma að þessum viðræðum núna í rúmt ár.
    Síðan var iðnrh. sjálfur hvað eftir annað að fara inn á vettvang viðræðnanna og fór þá eðlilega fram fyrir formann nefndarinnar Jóhannes Nordal, þannig að það var mjög óljóst á köflum hver var með forræði í málinu. Og t.d. sá frægi fundur í Hollandi, þegar iðnrh. handsalar raforkuverðið, er auðvitað dæmi um það þegar ráðherrann hleypur inn í viðræðurnar og lýkur ákveðnum þætti málsins þannig að þegar hinn formlegi aðili sem raforkuverðsviðræðurnar átti að annast, þ.e. stjórn Landsvirkjunar, kom að þeim þætti málsins þá sögðu forsvarsmenn fyrirtækjanna þriggja: Við erum búnir að handsala raforkuverðið við iðnrh. Það handsal var aldrei borið upp í síðustu ríkisstjórn, hvorki fyrir né eftir að það var framkvæmt.
    Eins kom í ljós að það var allt á reiki hvers konar umboð Jóhannes Nordal hafði í þessum viðræðum. Ég hef undir höndum drög, fleiri en ein, af þeim skjölum sem undirrituð voru í október 1990 með pompi og prakt og hátíðlegri viðhöfn. Allt fram á morgun undirritunardags stendur í þeim drögum að Jóhannes Nordal undirriti fyrir hönd stjórnar Landsvirkjunar. Ekki sem formaður viðræðunefndarinnar eða fulltrúi iðnrh. heldur fyrir hönd stjórnar Landsvirkjunar. Og ég þráspurði iðnrh. dagana á undan og reyndar vikurnar á undan, m.a. þegar við vorum saman úti í Washington í septembermánuði: Hefur Jóhannes Nordal umboð stjórnar Landsvirkjunar? Þá svaraði iðnrh. mér því að hann vænti þess að Jóhannes Nordal hefði umboð Landsvirkjunar. Ráðherrann vissi ekki sjálfur hvort Jóhannes Nordal hefði umboð Landsvirkjunar eður ei og þess vegna voru öll undirbúningsskjölin bæði á íslensku og ensku allt fram á morgun undirritunardagsins og skráð á þann veg að Jóhannes Nordal undirritaði fyrir hönd Landsvirkjunarstjórnar. Síðan varð að breyta öllu á elleftu stundu vegna þess að hann hafði ekki umboð og hafði ekki haft vikum og mánuðum saman. Þetta væri auðvitað hægt að rekja hér í miklu lengra máli og sýnir hve laus tökin voru, hve ruglandinn var mikill í því hver færi með samningsumboð fyrir hvern, hvenær og hvar. Enda kom það á daginn að Landsvirkjunarstjórnin kaus svo sérstaka nefnd til þess að annast viðræðurnar vegna þess að Jóhannes Nordal hafði ekki haft umboðið. Og það er auðvitað þetta sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson átti hér við og hv. þm. Sturla Böðvarsson virtist eiga erfitt með að skilja að innan síðustu ríkisstjórnar var málið aldrei formlega tekið fyrir eða formlega afgreitt. Okkur var t.d. sagt mánuðum saman í ríkisstjórninni, á ríkisstjórnarfundi eftir ríkisstjórnarfund og í ráðherranefndinni að Landsvirkjun annaðist viðræðurnar um orkuverðið. Ég játa það að við höfðum ekki hugmyndaflug til þess að spyrja iðnrh.: Er þetta satt? Við trúðum orðum hans. En síðan kom það bara á daginn að Landsvirkjun var ekkert í þeim viðræðum, hún hafði ekki valið neina til þess og Jóhannes Nordal hafði ekki umboð frá stjórn Landsvirkjunar. Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri, og hv. þm. Páll Pétursson ásamt Birgi Ísl. Gunnarssyni fóru síðan í viðræðurnar en okkur var beinlínis greint rangt frá í ríkisstjórninni á sínum tíma þegar okkur var sagt að Landsvirkjun annaðist þessar viðræður. Ef hér væri langur tími væri hægt að rekja fjöldann allan af dæmum úr þeim þykka gagnabunka sem við höfum undir höndum sem sýna að aldrei var formlega gengið frá neinu með skýrum hætti í meðferð málsins, því miður. Það er auðvitað ein af ástæðum þess að svo hörð ummæli komu fram hjá

þáv. borgarstjóra í Reykjavík og stjórnarmanni í Landsvirkjun gagnvart þeim vinnubrögðum. Ég ætla ekkert að fara að halda þeim að ráðherranum hér og nú. Ég veit að hann verður að sýna tillitssemi og skilning við iðnrh. í núv. ríkisstjórn. En við sem fylgdust náið með málunum, og ég minni á að ég átti sæti í stjórn Landsvirkjunar áður en ég tók við embætti fjmrh., þekkjum þá sögu mjög vel þó við færum ekki að rekja hana hér í þingsal.
    Það hefur nokkuð verið vikið að því hér, bæði af hæstv. ráðherra og eins þm. Alþfl. að ég hafi gert það að umtalsefni bæði nú og fyrir ári að það ætti að hefja viðræður við önnur fyrirtæki til þess að breikka grundvöllinn. Það hafa verið höfð stór orð um það að siðaðir menn gerðu það ekki og slíkt væri ekki hægt. Ég vil minna á í fáeinum orðum að þau fyrirtæki sem við höfum átt í viðræðum við voru einnig að ræða við aðrar ríkisstjórnir og önnur lönd á sama tíma og þau voru að ræða við Ísland og núv. iðnrh. og fulltrúa hans. Ef fyrirtækin gátu verið að ræða við aðra, af hverjum gátum við þá ekki gert það líka? Ég minni t.d. á það að eftir að Alusuisse var búið að halda okkur uppi á snakki í nærri því tvö ár og hljóp svo frá viðræðunum kom í ljós að Alusuisse hafði samtímis átt í viðræðum við fulltrúa í Noregi. Ég veit ekki betur, þó að ég fari með það eftir minni, en að Alumax hafi átt í viðræðum við stjórnvöld í Kanada og þannig megi rekja fleiri dæmi um það að fyrirtækjunum fannst sjálfsagt að vera í viðræðum við aðra aðila. Og hvers konar barnaskapur er það þá að við getum ekki gert slíkt og hið sama? Að sjálfsögðu. Haldið þið að eitthvert ríki veiti erlendum fyrirtækjum forgang að orkulindum sínum árum saman ef fyrirtækin vilja ekki gera upp sinn hug? Eru menn virkilega að leggja að jöfnu sjálfstætt þjóðríki og einhver fyrirtæki og segja að hið sjálfstæða þjóðríki geti ekki leyft sér að ræða við marga aðila þegar fyrirtækin gera slíkt og hið sama. Við skulum ekki gleyma því að við erum búnir að veita þessum erlendu fyrirtækjum forgang og einokunaraðstöðu á því að velta fyrir sér nýtingu íslenskra orkulinda um áraraðir. Það er ærið mikið fyrir lítil þjóðríki að gera að veita erlendum fyrirtækjum slíkan forgang og slíkan rétt og hafa svo ekkert upp úr því og sitja eftir með engan hagvöxt, minni þjóðartekjur, skerta byggðaþróun og fjölmargt annað. Þess vegna er það auðvitað hreinn barnaskapur, sem hér hefur komið fram hjá talsmönnum Alþfl., að það hafi ekki verið sjálfsagt og eðlilegt mál að leita eftir viðræðum við aðra aðila. Hitt er svo annað mál hvernig það hefði gengið en það mátti reyna. En við sem höfum fylgst með málinu árum saman finnum í því einn þráð umfram alla aðra, hina miklu ofurtrú iðnrh. á það að hann mundi ávallt og í öllum kringumstæðum hafa stjórn málsins í sínum höndum. Ég gæti rakið hér fjölmörg dæmi um það. Ég gæti rakið viðræður mínar við hæstv. ráðherra í septembermánuði 1990 þar sem hann lýsti í mörgum orðum hvernig hann treysti því að fyrirtækin mundu ganga frá almennum heildarsamningum í októbermánuði á sl. ári og hann muni knýja þau til þess en það varð auðvitað ekki.
    Ég nefni þetta hér ekki vegna þess, virðulegi forseti, að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á því að ráðast á hæstv. iðnrh. Ég tel satt að segja að málið sé þannig vaxið að það sé ekki þáttur málsins. Ég nefni þetta vegna þess að Íslendingar verða að læra af þessari reynslu, læra af þessum mistökum, læra af þessum óförum, draga ályktanir og spyrja sig heiðarlega: Hvernig stendur á því, er ekki eitthvað rangt í því sem við höfum gert? En í staðinn er einhverjum spakmælum raðað saman hvað eftir annað og haldið að þar með sé hægt að skýra málið.
    Hér hafa orðið alvarleg mistök, því miður, og það verður að ræða málið í heild og læra af þeim. Eitt af því sem ég bendi á, og ég gerði það líka þegar ég var í stjórn Landsvirkjunar, er þessi sífellda tilhneiging ráðherra, hverjir svo sem þeir eru, til þess að vera með málið í sínum höndum. Ég lagði það til í stjórn Landsvirkjunar á sínum tíma að viðræður af þessu tagi væri í höndum stofnunar sem starfaði á vegum Landsvirkjunar, væri óháð ráðherrum sem koma og fara og annaðist málið í samfellu án þess að fléttast inn í pólitískar framavonir eða pólitískt líf viðkomandi ráðherra. Það væri eina skynsemin að hefja slíkar viðræður út fyrir persónulegan metnaðarvettvang viðkomandi ráðherra, hver svo sem hann er. Ég er enn þeirrar skoðunar að það sé miklu vænlegri braut heldur en búa til hirð trúnaðarmanna í kringum ráðherrann og hafa þá sem leyndarráð í þessum efnum. Niðurstaða málsins nú sýnir að slíkar aðferðir duga ekki.

    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Það er mjög dökkt fram undan í íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og Alþingi þurfa að taka á erfiðari verkefnum en menn hafa glímt við í mjög langan tíma og orsakirnar eru margvíslegar. Nú reynir mjög á að ríkisstjórn og þjóðþingið hafi yfirsýn, manndóm og dug til þess að ná mönnum saman að því erfiða verki. Það verður mikill prófsteinn á ríkisstjórnina og þjóðþingið á næstu vikum. Ég vona satt að segja að menn beri gæfu til þess að fara að feta sig inn á þá braut að ná mönnum saman, gera samkomulag um það í hvaða verkefni verði farið. Menn leggi kreddurnar um afskiptaleysi stjórnvalda til hliðar og einhver gömul markaðsforrit sem ekki ganga upp í núverandi aðstæðum, hvorki kenningunni né í raunveruleikanum. Það var kannski hugsanlegt að þau gætu gengið upp ef menn væru að sigla með íslenskt þjóðfélag inn í tímabil mikils hagvaxtar en það er ekki gert. Við erum að horfa fram á enn eitt samdráttarárið, enn eitt erfiðleikaárið. Þá þarf þjóðin á ríkisstjórn að halda sem leiðir menn saman en sundrar þeim ekki. Ég vona satt að segja að núverandi ríkisstjórn beri gæfu til þess, að hún velji núna verkefni í samvinnu við þjóðþingið til þess að ýta af stað, stuðla að fjármögnun þeirra, ráði fólk til þess að framkvæma þau þannig að við getum fetað okkur áfram á þessari braut en bíðum ekki bara eitt, tvö eða þrjú ár í viðbót meðan hæstv. iðnrh. heldur áfram að vitja þessara þriggja erlendu fyrirtækja eins og hann hefur svo skemmtilega orðað það að hann muni gera á næstu mánuðum. Við skulum ekki fara í fleiri vitjanir, hæstv. iðnrh. Við skulum hefja verkin.