Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:25:00 (901)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það eru u.þ.b. fimm ár síðan stjórn Landsvirkjunar hóf athugun á því hvort arðbært væri að selja raforku gegnum sæstreng til annarra landa. Þegar nýjar upplýsingar komu fram fyrir tveimur til þremur árum sýndi það sig greinilega að þetta var orðið raunverulegt viðfangsefni. En þá var augljóst að frekari forgangsathugun, og ég legg áherslu á það, forgangsathugun á sölu rafmagns gegnum sæstreng var ýtt til hliðar vegna þess að þær álversframkvæmdir sem nú hefur verið frestað voru látnar hafa þennan forgang. Það vissu allir að íslenska hagkerfið mundi ekki ráða við það að reisa í senn stórvirkjanir fyrir nýtt álver og stórvirkjanir vegna sölu á rafmagni með sæstreng. Þá var það núv. hæstv. iðnrh. og aðrir sem höguðu málum þannig beint og óbeint að álversframkvæmdirnar fengju forgang og ekki var lagður forgangskraftur í það að hefja nú þegar undirbúning að sölu rafmagns um sæstreng.
    Þetta er eitt dæmi, virðulegi forsrh., um það hverju var ýtt til hliðar í athugunum. Þótt málið með sæstrenginn væri vissulega skoðað áfram þá fékk það ekki þá áherslu sem því bar.
    Ég vona síðan að hæstv. forsrh. hætti að kenna mér um stöðu Framkvæmdasjóðs, eins og hann gerði í ræðu sinni. Ég minni hann enn á ný á það að fjárhagserfiðleikar Framkvæmdasjóðs stafa aðallega af ákvörðunum sem voru teknar í ríkisstjórnartíð Sjálfstfl., bæði þegar Sjálfstfl. var með fjmrn. og þegar Sjálfstfl. var með forsrn. Fulltrúi minn í stjórn Framkvæmdasjóðs var núv. hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl. Ef hæstv. forsrh. hefur þess vegna einhverjar grunsemdir um að hann hafi hagað sér óskynsamlega sem fulltrúi minn í stjórn Framkvæmdasjóðs þá óska ég eftir því að hann ræði það fyrst við formann þingflokks Alþfl. vegna þess að ég varð aldrei var við það að hann hegðaði sér óskynsamlega meðan hann var fulltrúi minn í stjórn Framkvæmdasjóðs.