Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:27:00 (902)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ýmislegt í ræðu hæstv. forsrh. nú þarfnast í raun mjög ítarlegrar umræðu. Mér var vitanlega ljóst þegar ég bað hann áðan að segja nokkur orð um atvinnumálin og atvinnumálastefnuna að ekki gæfist tækifæri til að fara ítarlega í það nú. En það sem hann sagði undirstrikar svo sannarlega að við þurfum að ræða þessi mál mjög vandlega á næstunni.
    Núna hef ég aðeins tækifæri til að leiðrétta eitt sem kom fram hjá hæstv. forsrh. Hann sagði, ef ég heyrði rétt, að ég léti eins og ég hefði ekki þekkt þetta mál í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það er alrangt. Ég sagði í fyrstu ræðu minni að ég þyrfti ekki að kvarta undan því að hæstv. iðnrh. hefði ekki látið mér í té upplýsingar um málið. Ég sagði hins vegar að það hefði skort mjög á að samstarf væri nægilegt á milli stjórnarflokkanna allra og rakti það hvernig sú nefnd sem upphaflega var skipuð fulltrúum flestra flokka var í raun sett af. Það var það sem ég gagnrýndi.
    Í þessum sömu orðum sagði hæstv. forsrh. að ég hefði ekki þekkt þetta mál sem þó heyrði undir mig, ef ég heyrði hann rétt. Það er náttúrlega misskilningur. Málið heyrði ekki undir mig en vegna kunnáttu minnar á því gat ég gert ýmsar alvarlegar athugasemdir við málið. Málið heyrði hins vegar undir iðnrh. og hann kaus að taka þær ekki til greina. Það var á hans valdi að ákveða það. Hins vegar hlaut ríkisstjórnin að koma málinu í heild sinni ef málið hefði verið lengra á veg komið.