Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:32:00 (905)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst leitt að hæstv. forsrh. skyldi ekki líka víkja að því sem ég sagði í mínu andsvari fyrst hann kaus að biðja um orðið eftir að öll andsvörin höfðu komið fram og ítreka það sem ég sagði í mínu andsvari og bið hann að hugleiða það.
    Hins vegar vil ég taka undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að mér fannst þessar upplýsingar merkilegar vegna þess að ég lét sem fjmrh. tvö viðurkennd erlend fyrirtæki, sem hafa það sem verkefni að meta lánstraust þjóða, meta lánstraust íslenska ríkisins. Þau gerðu það og við fengum nokkuð góða útkomu. Þess vegna vekja ummæli hæstv. forsrh. spurningar um það hvort núv. hæstv. fjmrh. hefur látið þessi fyrirtæki, eins og t.d. Standard and Poor's meta lánstraust íslenska ríkisins á ný. Ef svo er og íslenska ríkið hefur fengið lakari útkomu er auðvitað nauðsynlegt að það komi fram. Það væru tíðindi fyndist mér ef svo væri á svo skömmum tíma. Ég vil því ítreka það að við fáum gleggri upplýsingar um þetta mál.