Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:49:00 (909)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Stjórnarliðum hefur í kvöld og raunar fyrr í dag orðið nokkuð tíðrætt um gagnrýni stjórnarandstæðinga á hæstv. iðnrh. og hafa margir hverjir furðað sig á þeirri gagnrýni. Ég vil vekja athygli þeirra á því, sem ég veit að þeir hafa auðvitað tekið eftir þó þeir hafi ekki nefnt það, að gagnrýnin á iðnrh. hefur verið af nokkuð misjöfnum toga. Það er ekki hægt --- þó að stjórnarandstaðan standi saman í því að gagnrýna núv. ríkisstjórn og núv. iðnrh. --- að setja alla undir sama hatt. Ég gagnrýni í sjálfu sér ekki iðnrh. fyrir það að hafa ekki farið á fjörurnar við einhver önnur álfyrirtæki til þess að fá þau inn í myndina þegar sýnt var að þau fyrirtæki sem samningaviðræður stóðu yfir við voru að detta úr skaftinu. Ég gagnrýni hann ekki fyrir það. Ég og við kvennalistakonur gagnrýnum hann öðru fremur fyrir þá áldrauma sem hann hefur alið á. Hann hefur auðvitað ekki verið einn um það að ala á þessum áldraumum, en sem iðnrh. hefur hann verið fremstur meðal jafningja. Þess vegna hljótum við öðrum fremur að gagnrýna hann. En ég ætlaði ekki að gera hæstv. iðnrh. að umtalsefni.
    Það var tvennt sem mig langaði til að minnast á og það kom hvort tveggja fram í ræðu hæstv. forsrh. Hann gerði hagvöxt og stóriðju að umtalsefni þó kannski með óbeinum hætti væri. Hann sagði nefnilega að þegar kvennalistakonur hefðu fagnað því í sjónvarpinu að áldraumarnir væru farnir veg allrar veraldar hefði komið fram hjá þeim að Kvennalistinn væri á móti hagvexti, sérstaklega mengandi hagvexti. Hann sagðist ekki geta

ímyndað sér að þjóðin skildi þetta tal, að almenningur skildi þetta tal. Hann sagði líka að það væri augljóst af tali kvennalistakvenna að þær teldu að stóriðja og ferðamannaþjónusta gæti ekki farið saman og þetta væri þröngsýni sem fengist ekki staðist. Vegna þessara orða hæstv. forsrh. langar mig að gera þetta tvennt að umtalsefni, þ.e. hagvöxtinn og stóriðjuna.
    Við höfum vissulega gagnrýnt hagvaxtarhugtakið og við höfum kannski verið nokkuð einar um það þó að einstaka aðrir þingmenn hafi gagnrýnt þetta hugtak líka. Við höfum gagnrýnt þetta hugtak vegna þess hversu gagnrýnislausir menn eru í meðferð þess. Þegar menn eins og hæstv. forsrh. taka sér í munn orðið hagvöxtur þá er eins og hagvöxtur feli sjálfkrafa í sér gæði. Það sé gildishlaðið hugtak sem feli sjálfkrafa í sér gæði; lífshamingju, lífsgæði. Þannig er það ekki. Hagvöxtur er auðvitað bara hugtak sem er notað í útreikningum. Það er notað sem mælikvarði á veltu peninga. Hagvöxtur þarf í sjálfu sér ekki að skilja neitt eftir sig. Við getum tekið dæmi af framkvæmdum sem hæstv. forsrh. og fyrrv. borgarstjóri Reykjavíkur hefur staðið fyrir, byggingu Perlunnar og ráðhússins í Reykjavík. Báðar þessar byggingar, með þeim hraða sem þar hefur verið viðhafður og því fjármagni sem í þær hefur verið sett, hafa eflaust skilið eftir sig einhvern hagvöxt. Þær hafa mælst inn í hagvaxtarútreikninga meðan á framkvæmdum stóð. En hvað skilja þær eftir sig? Hvað gefa þær af sér? Þær gefa ekki af sér nokkurn arð. En þetta er hagvöxtur.
    Við getum tekið annað dæmi: Ef við Íslendingar veiddum allan fisk í sjónum á nokkrum árum, stunduðum gegndarlaust arðrán á auðlindum okkar, þá mundi það auðvitað skila sér í mjög góðum hagvaxtartölum. Við fengjum alveg gífurlegan hagvöxt þau árin sem við værum að stunda þessa rányrkju. En hvernig yrði framtíðin? Hvernig blasti framtíðin þá við? Það er þetta sem við gagnrýnum. Við gagnrýnum hvernig menn nota þetta hugtak án þess að velta því fyrir sér hvað í því felst.
    Þegar við ræðum um hagvöxt og allt sem honum fylgir verða menn að horfast í augu við staðreyndir. Menn verða að horfast í augu við það að við eigum bara þessa einu jörð og við verðum að fara vel með hana. Ef menn fara hins vegar út á þann hála ís að ræða á þessum nótum, þá standa þeir auðvitað andspænis mjög óþægilegum pólitískum samviskuspurningum sem þá langar hreinlega ekki til að svara held ég. Ég held þá langi ekki til að svara þessum spurningum, hvorki sjálfum sér né kjósendum sínum.
    Ef við tökum svo aftur stóriðjuna. Við kvennalistakonur erum ekki andsnúnar stóriðju eins og hæstv. forsrh. sagði og við erum heldur ekki andsnúnar orkufrekum iðnaði svona ,,per se`` en við erum á móti mengandi stóriðju. Við höfum alla tíð verið á móti mengandi stóriðju. Forsrh. þyrfti ekki annað en líta á þá vetnistillögu sem við höfum flutt á Alþingi nú öðru sinni til þess að vita það að við erum ekki á móti stóriðju. Þá hefðum við aldrei flutt slíka tillögu. Vetnisframleiðsla er auðvitað stóriðja. Þetta er orkuferk framleiðsla og hún útheimtir dýrar fjárfestingar. Þess vegna er þetta stóriðja. Við erum ekkert á móti henni, en við erum á móti mengandi stóriðju. Það er alveg ljóst.
    Þegar við ræðum um raforkuna í landinu verðum við að hafa í huga að þetta er mjög dýrmæt auðlind sem við eigum. Orkunotkun í heiminum hefur vaxið gífurlega á undanförnum árum og ef við förum dálítið langt aftur í tímann þá sjáum við hversu gífurleg aukning hefur verið á notkun orku. Fyrir 150 árum notaði mannkynið sem samsvarar 8 millj. tunna af olíu á dag en í dag notar mannkynið, auðvitað mun fjölmennara en þá var, orku sem samsvarar 161 millj. tunna af olíu á dag. Svo gífurleg hefur aukningin verið í orkunotkun. Orkunotkunin á enn eftir að vaxa. Mannkynið stendur hins vegar andspænis því að flestir orkugjafar eru mengandi. Kjarnorkan býður heim miklum hættum. Hún er kannski ekki eins mengandi og margt annað en hún er ekki fýsilegur kostur, bæði vegna þeirrar hættu sem fylgir henni fyrir umhverfi okkar og mannfólk og eins hversu dýrt er að fjárfesta í henni. Við skulum athuga að það þyrfti ekki nema eitt Tsjernóbil í viðbót --- við skulum vona að það verði ekki, svo sannarlega --- t.d. í Búlgaríu, sem byggir mjög á kjarnorku og þetta eru kjarnorkuver sem eru mjög illa útbúin hvað öryggi varðar, til þess að almenningsálitið í heiminum mundi hafna kjarnorkunni og menn mundu hreinlega krefjast þess að kjarnorkuverum jafnvel á Vesturlöndum yrði lokað.
    Við eigum hins vegar verðmæta auðlind sem eru fallvötnin og sú raforka sem í þeim býr. Þessi auðlind okkar er þeim ótrúlegu hæfileikum gædd að hún er ekki mengandi og það er fátt mikilvægara heiminum í dag. Það blasir við að orkunotkun í heiminum í dag leiðir af sér meiri umhverfisspjöll en nokkuð annað sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Þess vegna hljótum við að leggja ríka áherslu á það að við eigum orkugjafa sem eru ekki mengandi. Það er eins og hver önnur gullnáma, gullkista sem við sitjum á, og við verðum að nýta þessa gullkistu rétt, meta hana rétt og ekki setja hana á útsölu.