Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 23:52:00 (915)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég kann því afskaplega illa þegar rangt er farið með mál mitt. Því miður kemur það stundum fyrir. Ég vona að hér sé um mistök að ræða en ekki ásetning.
    Varðandi það sem ég hafði eftir fyrirspyrjendum á fundi í september í Vogum á Vatnsleysuströnd, þá vil ég ítreka það sem ég sagði og það er rétt. Einn íbúa Vatnsleysustrandarhrepps spurði á þessum fundi hvers vegna ekki væru samhliða notuð hreinustu skaut, þ.e. sá þurrhreinsibúnaður sem á að nota og jafnframt vothreinsibúnaður. Þetta hlyti að vera hinn besti kostur. Þessari spurningu svaraði hæstv. umhvrh. á þá leið að þetta væri spurning um kostnað, það væri hreinlega of dýrt að nota þetta tvennt saman. Þetta er eitt af því sem ég nefndi til sem afslátt á mengunarvörnum.
    Ég held að ég verði að segja að það að telja áliðju á Íslandi eitthvert sérstakt framlag til mengunarvarna í heiminum, hljóti þau ummæli að dæma sig sjálf. Ef þau gera það ekki og ef fólk skilur ekki hvað ég á við þá vil ég benda á að sá afsláttur sem við veitum á mengunarvörnum er því miður of mikill til þess að hægt sé að líta á þetta sem eitthvert framlag, jafnvel þótt við framleiðum okkar orku á þann hátt að við völdum ekki mengun.
    Varðandi mengunarvarnir í Noregi, þá heyrði ég ekki betur en hæstv. iðnrh. segði að að jafnaði væru nýjustu kröfur í mengunarvörnum í Noregi á borð við eða vægari heldur en íslensku kröfurnar. Það eru ekki ströngustu kröfur. Við erum að tala um ströngustu kröfur, ekki jafnaðarkröfur.