Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 00:36:00 (923)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Það var aðallega eitt atriði sem fékk mig til að koma í ræðustól. Það er vegna þess að mér finnst ekki hafa komið fram í umræðunni hvað þjóðin og ráðamenn hennar hafa verið að stórum hluta til sammála um að leggja mikið undir í sambandi við stóriðjuframkvæmdir. Mér finnst ástæða til að ræða það lítils háttar við þessa umræðu.
    En fyrst langar mig til að ræða örlítið um staðsetningu álvers sem hefur verið rædd í kvöld og hæstv. iðnrh. sagði að hefði vissulega verið rétt og vel ráðin. Ég er mjög ósammála þessu. Ég tel ákaflega slæmt að menn skyldu enda á því að ákveða að þetta álver, sem búið var að telja fólki trú um að yrði byggt í landinu, yrði sett á suðvesturhornið. Ég ætla ekki að rekja þær röksemdir sem eru þar á bak við en ég er alveg sannfærður um að sú ákvörðun sannfærði marga landsbyggðarmenn um að þeir ættu að fara að huga að því að flytja sig til á landinu. Hæstv. iðnrh. sagði sjálfur að hundurinn væri grafinn í þessari staðsetningu og ég vil taka undir það en með þessum þætti.
    Þarna fór fram leikþáttur handa landsbyggðinni sem iðnrh. stóð fyrir og ég veit vel að þetta var leikþáttur, vegna þess að ég kom aðeins að í einu tilviki. Ég var þá í bæjarstjórn á Akranesi og við óskuðum eftir fundi með iðnrh. um staðsetningu álvers. Bæjarstjórnin var að benda á jákvæða þætti í því að staðsetja álver inni í Hvalfirði. Á þeim fundi var okkur sagt að vissulega væri Hvalfjörður einn af þremur eða fjórum bestu kostum. Meira var það nú ekki. Ég varð ekki var við að Hvalfjörður væri nefndur meira í þessari umfjöllun. Þó hafði staðarvalsnefnd komist að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að Hvalfjörður væri númer eitt, ef ég man rétt, af þeim kostum sem hún benti á fyrir nýja stóriðju.
    Í sambandi við staðsetninguna og byggðamálin sem óhjákvæmilega hljóta að tengjast henni, þá saknaði ég þess í umræðunni að ekki skyldi koma fram, því það hefði virkilega verið ástæða til að það gerði það, hvað það er sem stendur á bak við þá setningu í hinni hvítu bók ríkisstjórnarinnar sem ég vitna í, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin vill í samvinnu við heimamenn beita sér fyrir uppsetningu orkufreks iðnaðar á landsbyggðinni.``
    Það er ekki lítið sagt. Þetta hefði ég viljað fá að heyra í umræðunni í kvöld. Ég tel að það hafi verið allt of mikill ákafi á ferðinni í sambandi við þessi áliðjumál. Ákafinn er svo mikill enn þá að menn eru tilbúnir til að gera samninga nánast á hnjánum þegar það er vitað að það er enginn sem vill skrifa undir samninga sem eiga að taka gildi heldur ætla einhverjir að skrifa undir samninga sem eiga ekki að taka gildi. Það getur ekki verið að þetta sé góð samningsstaða og þá er þessi samningur orðinn staðreynd. Hann er til á prenti einhvers staðar og þá erum við búnir að strika undir þær kröfur og þann vilja sem er okkar megin í þessum samningum. Ég tel að það hljóti að vera niðurstaðan að menn hætti

þessu og byrji seinna aftur á samningum ef mönnum býður þannig við að horfa.
    En aðalástæðan til þess að ég kom hér upp var það að ég tel að iðnrh. sé ekki einn um að bera ábyrgð á þessu máli. Ég tel hann reyndar vera mjög góðan fulltrúa fyrir þá sem hafa lagt ofurkapp á að byggja hér álver og hafa gengið svo langt í því að mann furðar nánast að ekki skuli hafa verið gagnrýnt meira hvernig að málum hefur verið staðið. Það er ekki bara búið að setja milljarð í þessar undirbúningsframkvæmdir. Það er búið að leggja í virkjun sem hefur kostað marga milljarða. Við getum verið að tala um herkostnað í þessu orkudæmi upp á, það vita aðrir hér inni betur hvað það er mikið, en 8--12 milljarða sem búið er að verja til að flýta framkvæmdum í orkumálum á Íslandi vegna þess að menn hafa gengið með glýju í augum allan þennan tíma. Og ég held að það sé alveg ástæða til að það sé nefnt í þessari umræðu.
    Mér þótti afar slæmt að í þessari umræðu skyldu ekki neinar viðvörunarbjöllur ná eyrum hæstv. iðnrh. Hann heyrði a.m.k. ekki bjöllinni í hv. Alþingi og hann hefur ekki heyrt í neinum viðvörunarbjöllum allan þann tíma sem það hefur tekið að fást við þessa samninga.
    Hæstv. ráðherra sakaði þá sem ekki eru allt of hrifnir af þessum álverssamningum um þórðargleði. Ég tel ástæðulaust að gera það. Mér hefur ekki fundist að menn væru að hælast neitt um yfir því að svona væri komið og það er síst ástæða til þess. Mér þykir það mjög slæmt að svo virðist sem menn hafi gert þetta mál, sem í raun og veru snýst um miklu stærri hluti en atvinnumál á Suðurnesjum, að einhvers konar kjördæmismáli að því leyti til að verið sé að tala um atvinnustig í einu kjördæmi landsins. Að vísu eru miklir valdamenn kjörnir þingmenn fyrir það kjördæmi og kannski þá meiri ástæða til að halda að menn hafi aukið kappið einfaldlega af þeirri ástæðu að það væri vandamál í kjördæmi þeirra. Það er afleitt mál. Ég held að þetta snúist nefnilega að minni hluta um atvinnumál. Þetta snýst um arðnýtingu fallvatnanna og ég er ekki á móti því að menn leiði hugann að því og reyni að finna bestu kosti sem hægt er til þess að nýta fallvötnin. En mér finnst að menn hafi ekki farið með gát og mér finnst að menn hafi raunverulega lagt of mikið undir og af því að menn hafa orðað það þannig þá held ég að það hljóti að vera dýrasta gulrót í heimi sem hefur verið byggð fyrir norðan.
    Mig langar að lokum að segja ykkur smásögu sem mér hefur verið að detta í hug öðru hvoru undir þessum umræðum vegna þjóðarinnar sjálfrar og iðnrh., sem ég vil meina, eins og ég sagði áðan, að sé persónugervingur fyrir áhuga manna á að byggja álver. Þetta er saga vestan af Hellissandi. Hún er um gamlan mann sem sá illa og heyrði enn verr en hann átti hest --- og það var einhver hér sem líkti því að eltast við hest að eltast við þetta álmál. --- Einu sinni ætlaði hann að nota hestinn og sótti hann í hagann. Það var nokkuð langt að fara en hann reið aldrei þessum klár sínum heldur dró hann á eftir sér í taumi. Þegar hann var kominn nokkuð áleiðis heim sá einhver hrekkjalómur af svæðinu til hans, fór aftan að honum, skar á tauminn og gekk síðan og hélt í tauminn alla leið heim að hliði hjá þessum ágæta manni og kvaddi hann svo þar. Hann varð náttúrlega felmtri sleginn þegar hann sá að hestinn vantaði og hann var bara með tauminn. Auðvitað kenndi hann hrekkjalómnum um þetta og fann sinn sökudólg. Og það fannst mér svolítið skemmtilegt að iðnrh., sem ævinlega er samur við sig, skyldi finna sinn sökudólg fyrir austan tjald.