Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 13:58:00 (926)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga sem hefur, eins og fram kom, þrisvar áður verið lagt fram á Alþingi en ekki verið afgreitt. Þetta frv. er vafalaust til bóta en ég vil þó við 1. umr. vekja athygli á nokkrum atriðum í frv. sem orka tvímælis.
    Í 1. mgr. 2. gr. frv. segir að hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manneskju til kynferðismaka skuli sæta fangelsi allt að 10 árum. Ekki er getið um lágmarksrefsingu, eins og gert er í 2. mgr. sömu greinar þar sem kveðið er á um refsingu ef hættuleg aðferð er notuð við verknaðinn. Í því tilviki er lágmarksrefsing eins árs fangelsi. Ef lágmarksrefsing er ekki tilgreind sérstaklega gilda ákvæði 34. gr. hegningarlaga sem þýðir að lágmarksrefsing er 30 daga fangelsi.
    Það er því ljóst að hér er verið að milda sambærilegt refsiákvæði í gildandi lögum. Úr þessu mætti bæta með því að sama lágmarksrefsing, eða eitt ár, sé í refsiákvæðum beggja málsgreina. Hv. þm. mega líka gjarnan gera sér grein fyrir því að 30 daga fangelsisvist getur þýtt 20 tíma þjónustu við samfélagið í frítíma viðkomandi brotamanns samkvæmt öðru frv. sem hér hefur verið lagt fram.
    Þá finnst mér ósamræmi í ákvæðum um refsingar í hinum ýmsu greinum frv. án þess að rök séu færð fyrir því í athugasemdum við frv. Dæmi um þetta er að finna í 4. og 5. gr. frv.
    Í 4. gr. segir að hver sem notfæri sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manneskju til þess að hafa við hana kynferðismök skuli sæta fangelsi allt að sex árum.
    Í 5. gr. segir hins vegar að ef umsjónarmaður eða starfsmaður á geðsjúkrahúsi hefur kynferðismök við vistmann eða vistkonu þá varði það fangelsi allt að fjórum árum.
    Það er sem sagt gert ráð fyrir vægari dómi í síðara tilvikinu þrátt fyrir að ganga megi að því vísu að starfsmanni á geðsjúkrahúsi sé fullkunnugt um ástand vistmanns. Hann hlýtur að vita hvað hann er að gera og ekki síður en þeir sem skv. 4. gr. frv. notfæra sér geðveiki eða andlega annmarka manneskju. Það er furðulegt að refsiákvæði skuli ekki vera sambærileg í þessum tveimur greinum eða jafnvel þyngri í 5. gr. en þeirri 4.
    Sama má reyndar segja um 8., 9. og 10. gr. frv. Þar eru refsiákvæðin misjöfn og mismunurinn ansi furðulegur, þó ekki sé annað sagt.
    Í 8. gr. er fjallað um þann sem misnotar barn sitt eða annan niðja. Þar er ákvæði um refsingu allt að sex ára fangelsi og allt að tíu ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.

    Í 10. gr. er fjallað almennt um þá sem tæla börn og misnota. Þar eru aldursmörkin lægri, eða 14 ár, og refsingin allt að tíu ára fangelsisvist. Sé barnið á aldrinum 14--16 ára skal refsingin vera fangelsi allt að fjórum árum, eða heldur mildari en ef um foreldri væri að ræða.
    Í 9. gr. er síðan fjallað um þann sem misnotar kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Í því tilfelli er refsing að hámarki fjögurra ára fangelsi og allt að sex ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Með öðrum orðum er refsiákvæðið mun vægara þegar fósturforeldri á í hlut en þegar um aðra er að ræða. Hver rökin eru fyrir því koma ekki fram í athugasemdum með frv. og vandséð að þau séu yfir höfuð til.
    Ég skil ekki hvaða rökum er beitt þegar aldursmörk barna eru sett í þessum greinum frv. Því síður skil ég það misræmi sem er í refsiákvæðunum. Ég legg ekki dóm á það hvort hér er verið að leggja til nógu harða refsingu fyrir jafnalvarlegt brot og þessi eru, en bið hv. þm. að hugleiða það.
    Það mætti áreiðanlega, hæstv. ráðherra, skrifa 7. gr. frv. á annan hátt, þannig að hún verði betur skiljanleg og ég beini því til hv. allshn. að skoða þessa grein með það í huga. Og fyrst ég nefni þetta má einnig koma fram að í frv. og athugasemdum með því eru orð sem ég hef aldrei séð á prenti áður, eins og t.d. orðið ,,fullframning``.
    Að síðustu virðulegi forseti, vil ég nefna 13. gr. þessa frv. sem fjallar um vændi. Þar er ákvæði um að hver sá sem verður uppvís að því að stunda vændi skuli sæta fangelsisvist allt að fjórum árum. Sama refsing skal einnig eiga við þá sem hvetja ungmenni yngri en 18 ára til þess að hafa ofan af fyrir sér með lauslæti. Samkvæmt orðanna hljóðan er líklega átt við þá sem hvetja ungmenni til að stytta tímann með lauslæti.
    Einnig er gert ráð fyrir sömu refsingu til handa þeim sem stuðla að útflutningi manns í sama tilgangi, en ekki orð um þá sem hugsanlega stunda innflutning.
    Loks eru ákvæði um þessa sömu refsingu allt að fjögurra ára fangelsi fyrir þá sem hafa milligöngu eða gera sér lauslæti annarra að tekjulind. En sá sem kaupir þjónustuna, karl eða kona, á enga sök á verknaðinum samkvæmt þessu frv. og það er, virðulegur forseti, engu líkara en sá aðili sé þolandi en ekki gerandi.