Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 14:40:00 (930)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst í lok þessarar umræðu þakka góðar undirtektir undir meginefni frv. og stuðning sem fram hefur komið þar við. Hér hafa komið fram málefnalegar athugasemdir, sumar þeirra hafa lotið að orðalagi og hugtökum, aðrar hafa lotið að mismunandi sjónarmiðum um refsimörk og jafnvel athugasemdir um óeðlilega mismunun að því er það varðar. Ég hygg að þær athugasemdir séu hvað sterkastar að því er varðar 8. og 9. gr. frv. Loks eru sjónarmið og athugasemdir sem lúta að sérstökum siðferðilegum viðhorfum sem eðlilega geta verið mismunandi. Allt eru þetta efni sem ég tel mjög eðlilegt og nauðsynlegt að nefndin ræði ítarlega og taki til athugunar. Ég tek undir það sjónarmið hv. 2. þm. Suðurl. að nefndin freisti þess að fara yfir þessar athugasemdir og leiða hugsanleg ágreiningsefni til lykta á þann veg að sem flestir geti stutt framgang frv. á þessu þingi þannig að það tefjist ekki frekar en orðið er. En ég ítreka svo, herra forseti, þakklæti fyrir góðan stuðning við megintilgang frv.