Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:00:00 (933)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég gegndi starfi dómsmrh. þegar fyrstu tilraunir til samfélagsþjónustu á Norðurlöndum stóðu yfir. Mér fannst þá um mjög athyglisverða tilraun að ræða og æskilegt ef hægt væri að gera hana sem fyrst hér á landi. Ég óskaði eftir því að starfsmenn ráðuneytisins sem með þessi mál fara skoðuðu þennan möguleika. Því miður fór það svo að þeir töldu að svo margar spurningar og annmarkar væru í sambandi við framkvæmd samfélagsþjónustunnar að meðan ekki fengist meiri reynsla af henni hjá nágrannaþjóðum okkar, þá væri ekki fært að leggja út í það hér. Þessi tilraun hefur nú staðið yfir í nokkur ár hjá nágrannaþjóðum okkar og fest sig í sessi vegna þeirrar jákvæðu reynslu sem af henni er fengin. Því hefur það orðið niðurstaða að slík tilraun verði gerð hér á landi og hér liggur fyrir frv. flutt í annað sinn af hæstv. dómsmrh. um það efni. Hlýt ég að fagna því að svo er komið.
    Þrátt fyrir það er mörgum spurningum enn ósvarað í sambandi við framkvæmdina og ekki kemur skýrt fram í frv. hvernig hún verður leyst. Það sést t.d. ekki hvaða störf það eru sem þarna er hugsanlegt að láta viðkomandi aðila annast. Þetta eru störf sem ekki mega taka vinnu frá öðrum og þarf því að leita að einhverri þjónustu sem ekki er innt af hendi fyrir. Síðan er það spurning um framkvæmd að öðru leyti. Þarf ekki stöðuga umsjón með þeim sem afplánar refsingu á þennan hátt? Þarf ekki umsjón með hverjum einstaklingi? Í grg. kemur fram að eftirlit vinnustaða hafi ekki reynst fullnægjandi í nágrannalöndunum og þá kemur náttúrlega í hugann kostnaðurinn sem mönnum virtist við fyrstu athugun að mundi verða allmikill. Nú má kannski ekki horfa of mikið á þá hlið ef hér er leið sem skilar þeim árangri að menn verði betri eftir að hafa innt þessa þjónustu af hendi og ávinningurinn komi í veg fyrir ítrekuð brot og allar þær afleiðingar sem það hefur fyrir viðkomandi einstakling og þjóðfélagið í heild. Hins vegar hafa áreiðanlega allir, a.m.k. þeir sem nálægt fangelsismálum hafa komið, fundið að það hefur verið allt of mikil tregða hjá fjárveitingavaldi að veita nægilegu fjármagni í þá starfsemi til þess að hægt væri að haga henni á þann veg sem æskilegast væri. Það á við um fleira en samfélagsþjónustu þ.e. bæði skipulag fangelsa, allan aðbúnað þar og margt annað. En vonandi stendur ekki á þeirri hliðinni frá hendi fjárveitingavalds til að þessi tilraun verði gerð.
    Síðan er annað atriði sem óneitanlega kemur í hugann líka og það er spurningin um viðhorf til þeirra sem gegna svona samfélagsþjónustu, viðhorf umhverfisins. Í okkar þjóðfélagi, sem er svo fámennt og margir þekkja marga, held ég að búast megi við að það verði viðkvæmara en þar sem fjölmenni er meira.
    Hv. 4. þm. Suðurl. minntist á þá erfiðleika sem þeir sem hafa afplánað setu í fangelsi eiga í þegar þeir koma aftur út á vinnumarkaðinn. Það er litið misjöfnum augum til þeirra sem hlotið hafa dóm. Og hvernig verður þá viðhorf samfélagsins til þessara einstaklinga? Ég held að það sé mjög vandasamt að finna heppileg störf þar sem ekki er hætta á að þetta komi fram. Kannski er þessi spurning sérstaklega ofarlega í huga núna vegna þess sem nýlega hefur gerst í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem meiri hluti hennar hefur ákveðið að skipta þjóðinni í tvo hluta, annars vegar geðfatlað fólk og hins vegar hina sem ekki eru geðfatlaðir. Ef slíkur hugsunarháttur fer að verða ríkari í okkar þjóðfélagi en verið hefur gagnvart þeim sem af einhverjum ástæðum eiga í erfiðleikum, hvort sem það er af viðráðanlegum eða óviðráðanlegum ástæðum, þá held ég að hér sé enn þá meiri hætta á ferðum.
    En hv. 4. þm. Suðurl. vék líka að öðru atriði. Það var um að reyna að draga úr

áhættunni á því að fólk lendi í þeirri stöðu að fá dóm á sig hvort sem þar er um að ræða dóm sem yrði dæmt í til samfélagsþjónustu eða annars. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmrh. að því hvort hann hafi í huga eða í undirbúningi einhverjar ráðstafanir til þess að vinna að slíku. Ég held að það hljóti að hafa farið svo fyrir fleirum en mér að sú spurning hefur verið mjög áleitin að undanförnu hvað við getum gert til þess að draga úr ógæfu fólks sem leiðir til þess að það lendir í slíkri stöðu vegna þeirra sífelldu frétta sem berast af versnandi ástandi, m.a. hér í höfuðborginni, sem leiðir til ofbeldis og margs konar ógæfuverka.
    Ég minnist þess að þegar ég var í dómsmrn. þá stóð ég í nokkru þrefi við borgarstjórn Reykjavíkur um þau mál í formi þess að þá var sótt mjög á um fjölgun vínveitingastaða. Við höfum heyrt það frá lögreglunni hér í Reykjavík að það fer ekki milli mála að mikið af þeim vanda sem við er að eiga t.d. í miðborginni stafar af þeim mikla fjölda vínveitingastaða sem þar er orðinn nú. Ég taldi að það væri rétt að reyna að sporna þar við, en meiri hluti borgarstjórnar studdi mjög fjölgun slíkra staða. Reyndar hefur það svo komið í ljós að borgarstjórn taldi framtak einstaklinganna ekki nægilegt í þeirri atvinnugrein heldur hefur staðið í þeirri dýrustu byggingu yfir slíka starfsemi sem ég held að reist hafi verið hér á landi í þessu skyni, þrátt fyrir að fjöldinn hafi þar um alllangt skeið verið slíkur og samkeppnin svo hörð að stöðugt eru einhverjir sem af bjartsýni hafa lagt út í þessa atvinnugrein að lenda í strandi. En það er nú önnur saga.
    Þetta held ég að sé skýrt dæmi um það hvernig stjórnvald getur haft áhrif á mótun umhverfis. Það er auðvitað umhverfið sem stjórnvöld að miklu leyti bera ábyrgð á. Þau ráða í hvernig umhverfi æskan elst upp. Það er ekki við unglingana að sakast um það hvernig fyrir þeim fer, heldur að sjálfsögðu okkur hin eldri sem mótum umhverfið. Þarna held ég að ábyrgð stjórnvalda sé ákaflega mikil hvort sem það er ríkisvald eða viðkomandi sveitarstjórnir. Því að allir eru unglingarnir venjulegir menn. Hér var áðan talað um venjulega fanga. Ég held að við séum öll venjulegt fólk sem hins vegar aðstæðurnar í þjóðfélaginu sem menn búa við og umhverfið hafa misjöfn áhrif á.
    Ég vildi víkja að þessu sérstaklega vegna þess að mér finnst nokkuð augljóst að brot flestra þeirra einstaklinga, sem eiga kost á að afplána sinn dóm með samfélagsþjónustu, stafa af áfengisneyslu. Áfengisneyslan er nær undantekningarlaust undanfari annarrar vímuefnaneyslu. Það munu vart vera til þeir sem byrja á öðrum vímuefnum á undan. Því er sérstakt tilefni til þess nú að spyrja hvort ekki eigi líka að vinna að því að draga úr fjölda þeirra sem lenda í þessari ógæfu.
    Ég geri ráð fyrir því að þegar þetta mál kemur til meðferðar allshn., þar sem ég á sæti, muni bæði koma fram margar spurningar um efni þessa frv. og við fá þar skýringar og svör við því sem kemur í hugann. En ég vil sérstaklega beina þessum tveimur spurningum til hæstv. dómsrmh. hvort það liggi nokkuð fyrir í hvaða störfum sé hugsanlegt að þessi samfélagsþjónusta geti farið fram og enn fremur hvort ekki sé verið að vinna að því í dómsmrn. að gera einhverjar ráðstafanir til þess að fækka þeim sem í þessu böli lenda.