Umferðarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:20:01 (936)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér breytingar á umferðarlögum. En eins og hv. alþm. er kunnugt hafa verið í deiglunni að undanförnu breytingar á ýmsum þáttum sem lúta að umsjón og framkvæmd ökuprófa og kennslu til aukinna ökuréttinda. Þetta frv. felur í sér breytingar á þessu sviði, tilflutning á umsjón þessara verkefna frá Birfreiðaprófum ríkisins til Umferðarráðs.
    Aðdragandi þess máls er sá að í vor fól ég Hagsýslu ríkisins að kanna hvernig heppilegast væri að skipa þessum málaflokki til frambúðar, m.a. hvort rétt væri að tengja starfsemina eða fella undir aðra stofnun eins og til að mynda Umferðarráð. Hagsýslan vann hratt og örugglega að þessu verki og skilaði tillögum 2. júlí sl. í ítarlegri skýrslu. Þar koma fram ýmis grundvallaratriði varðandi skipan þessara mála. Þar segir m.a.:
    Einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem uppfylla ákveðin skilyrði verði heimilt að starfrækja skóla til undirbúnings hvaða tegundar ökuréttinda sem er.
    Þeim sem eldri eru, einkum foreldrum og öðrum forráðamönnum unglinga, verði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum gefnir möguleikar á að þjálfa ökunema að lokinni undirbúningsþjálfun hjá ökukennara.

    Nám ökukennaraefna verði tengt námi við Kennaraháskóla Íslands.
    Landið allt verði eitt útgáfusvæði ökuréttinda og ökuskírteinaskrá verði færð í tölvuvædda landsskrá.
    Kostnaður við ökunám og ökupróf verði áfram greiddur af viðkomandi einstaklingi en ekki af sameiginlegum sjóðum. Þessi regla tryggir jafna samkeppnisstöðu þeirra sem bjóða fram ökukennslu.
    Enn fremur benti Hagsýslan á ýmis atriði sem athuga þarf varðandi tilhögun ökunáms og ökuprófa, endurskoðun ökuréttindaflokka og fleira af því tagi.
    En sú lagabreyting sem hér er gert ráð fyrir miðar fyrst og fremst að því að gera þá stjórnskipulegu breytingu að færa þennan málaflokk til Umferðarráðs. En það hefur jafnframt í för með sér vissar breytingar á skipulagi Umferðarráðs og stjórn þess.
    Þetta er einungis fyrsta skrefið í breytingum á fyrirkomulagi ökuprófa og ökukennslu í samræmi við þær tillögur sem fyrir liggja, nauðsynlegt skref til að sá aðili sem hafa á þetta með höndum geti unnið með Hagsýslu og dómsrn. að öðrum nauðsynlegum endurbótum að framkvæmd þessara mála í samræmi við þær meginniðurstöður sem fyrir liggja. Er stefnt að því að aðrar þær breytingar sem þarf að gera á umferðarlögum varðandi ökukennslu og ökupróf verði teknar með í þá heildarendurskoðun sem fram á að fara á umferðarlögunum samkvæmt sérstöku ákvæði í þeim lögum.
    Auk þess sem hér er lagt til, að ökukennslan færist til Umferðarráðs, er í þessu frv. lagt til að Bifreiðaskoðun Íslands eigi aðild að ráðinu í stað Bifreiðaeftirlits og að Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga eignist þar fulltrúa.
    Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi. Það liggur skýrt fyrir. Hér er um einfalda skipulagsbreytingu að ræða sem ég tel vera til hagræðis og geti stutt að meiri festu og betri framkvæmd á umferðarkennslu og lagt grundvöll að umbótum á því sviði eins og hugmyndir eru uppi um.
    Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.