Viðskiptabankar

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:27:01 (938)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frv. um tengd efni eins og fram kom hjá virðulegum forseta. Hið fyrra er frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka, en þetta frv. er á þskj. 22. Hið síðara er frv. til laga um breytingu á lögum um sparisjóði. Það frv. er á þskj. 23.
    Frv. um breytingu á viðskiptabankalögunum er flutt í tvennum tilgangi. Annars vegar til að fella ákvæði viðskiptabankalaganna að lögum nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, með því að skilgreina í viðskiptabankalögunum útibú erlendra hlutafélagsbanka hér á landi. Hin ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er að fella eiginfjárreglur banka að alþjóðlegum reglum. Seinna frv., um sparisjóðina, er flutt til að fella eiginfjárreglur um sparisjóði að þessum sömu alþjóðlegu reglum.
    Ég vil líka vekja athygli þingmanna á því að lagt hefur verið fram í þinginu frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem einnig er fjallað um útibú erlendra hlutafélagsbanka.
    Vík ég þá fyrst að ákvæðinu um útibú erlendra hlutafélagsbanka í frv. um breytingu á viðskiptabankalögum.
    Á síðustu árum hafa tengsl íslensks efnahagslífs og fjármagnsmarkaðar við útlönd verið treyst með margvíslegum hætti. Þar nefni ég sérstaklega breytingar á gjaldeyrisreglunum á árinu 1990, sem eru einar þær róttækustu á því sviði síðan 1960, lögin nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, sem Alþingi samþykkti í mars á þessu ári. Í þeim lögum er erlendum hlutafélagsbönkum sem skráðir eru erlendis og eiga þar varnarþing heimilað að hefja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskrh. frá 1. jan. 1992 að telja. Þá er í þeim lögum almenn heimild fyrir erlenda aðila til að eignast fjórðung hlutafjár í íslenskum hlutafélagsbönkum.
    Með því að heimila erlendum bönkum að opna útibú hér á landi fetum við í fótspor nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum. Danir leyfðu útibú erlendra banka fyrir mörgum árum, Svíar árið 1990 og Finnar fyrr á þessu ári. Í öllum þessum ríkjum hafa erlendir bankar um árabil haft heimild til að reka starfsemi í formi dótturbanka og umboðsskrifstofa. Norðmenn hafa heimilað starfsemi erlendra dótturbanka frá árinu 1984 og rekstur umboðsskrifstofa hefur verið heimil þar enn lengur. Þeir hafa hins vegar enn ekki leyft útibú erlendra banka en með samningunum um Evrópskt efnahagssvæði munu þeir stíga sama skref og við stigum á liðnu vori. Það má líta á þetta skref sem aðlögun að reglum hins Evrópska efnahagssvæðis, en þær kveða á um að bönkum sé almennt heimilt að opna útibú í hvaða aðildarríki EES sem er. Reynsla okkar grannþjóða bendir alls ekki til þess að erlendir bankar muni gera hér strandhögg þótt þessari takmörkun á starfsemi þeirra hér á landi verði aflétt með EES-samningunum. Til þess að útibú erlendra banka geti starfað á Íslandi með eðlilegum hætti og búið við sambærilegar aðstæður og innlendir bankar er nauðsynlegt að ákvæðum viðskiptabankalaganna og reyndar einnig laga um Seðlabanka Íslands verði breytt þannig að þau taki einnig til útibúa erlendra banka.
    Í 2. gr. frv. um breytingu á viðskiptabankalögum er því lagt til að lögin gildi um útibú erlendra hlutafélagsbanka eftir því sem við getur átt. Þetta er í samræmi við það meginsjónarmið að aðstaða hinna erlendu útibúa skuli í hvívetna vera hin sama og innlendra hlutafélagsbanka. Sérstaklega er tekið fram að ákvæði hlutafélagslaga gildi um útibúin rétt eins og þau gilda um hérlenda hlutafélagabanka. Í þessari grein frv. er viðskrh. jafnframt veitt heimild til að setja nánari reglur um starfsemi útibúa erlendra banka að fengnum tillögum bankaeftirlitsins. Í slíkum reglum verður m.a. fjallað um skilyrði fyrir leyfisveitingu og afturköllun leyfis ef rekstur brýtur í bága við settar reglur. Í viðskiptabankalögunum er kveðið á um að viðskiptabönkum sé skylt að nota í sínu firma orðið ,,banki`` eitt sér eða samtengt öðrum orðum. Hins vegar þykir rétt að heimila að erlendur hlutafélagsbanki geti notað heitið sitt óbreytt á útibúi hérlendis þótt svo kunni að standa á að í nafni

hans felist ekki orðið banki. Ákvæði þessa efnis er í 1. gr. frv. Þetta tel ég eðlilegt þar sem heiti erlends banka er víða hluti af ímynd hans, nánast eins og vörumerki.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að lögfest verði tilkynningarskylda til bankaeftirlitsins um stofnun útibúa viðskiptabanka. Þetta á við hvort sem innlendur eða erlendur banki hyggst stofna útibú hér á landi eða innlendur banki erlendis.
    Virðulegi forseti. Ég vík þá máli mínu að reglum um eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða. Reglur um lágmark eigin fjár viðskiptabanka hér á landi voru í fyrsta sinn lögfestar með lögunum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, sem tóku gildi í ársbyrjun 1986. Sambærileg ákvæði voru þá einnig lögfest fyrir sparisjóðina með lögum nr. 87/1985, um sparisjóði, sem einnig tóku gildi 1. janúar 1986. Reyndar var að finna ákvæði um eigið fé sparisjóða í eldri sparisjóðalögum frá árinu 1941. Núgildandi lagaákvæði um eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða eru samhljóða. Þau eru afar einföld í framsetningu og það er auðvelt að reikna út eigið fé samkvæmt þeim. Hins vegar er þar ekki að öllu leyti tekið tillit til þess að mismunandi áhætta getur fylgt ólíkum þáttum í rekstri og efnahag þessara lánastofnana. Samkvæmt heimild í gildandi lögum voru árið 1986 settar reglur um gerð ársreikninga fyrir viðskiptabanka og sparisjóði. Samræmdar reikningsskilareglur fyrir þessar stofnanir eru afar mikilvægar vegna ákvæðis laganna um lágmark eigin fjár. Frá því að viðskiptabanka- og sparisjóðalögin tóku gildi hafa komið upp tilfelli þar sem reynt hefur á ákvæði laganna vegna þess að innlánsstofnun hefur ekki lengur getað uppfyllt eiginfjárkröfurnar eða hætta hefur verið á því talin að stofnunin gæti það ekki í náinni framtíð yrði ekki gripið til sérstakra aðgerða. Hefur verið tekið á þeim málum í samræmi við ákvæði laganna og ég vil halda því fram að þau hafi reynst vel hvað þetta varðar.
    Eftir því sem starfsemi lánastofnana hefur orðið alþjóðlegri og milliríkjaviðskipti meiri hefur orðið ljósari nauðsyn þess að settar verði samræmdar reglur milli ríkja um eigið fé banka. Markmið slíkrar samræmingar er tvíþætt: Annars vegar að jafna samkeppnisstöðu banka frá hinum ýmsu ríkjum þar sem eiginfjárkröfurnar geta haft áhrif á útlánagetu og vaxtamun bankanna. Hins vegar að tryggja að viðskiptavinir geti jafnan treyst því að hið alþjóðlega bankakerfi standi á sæmilega traustum grunni. Á vegum nefndar opinberra eftirlitsaðila með innlánsstofnunum í nokkrum helstu Vesturlöndum var fyrir nokkrum árum unnið að því að samræma reglur um lágmark og útreikning eigin fjár fyrir innlánsstofnanir sem starfa á alþjóðamörkuðum. Þessi nefnd hittist reglulega í alþjóðlega greiðslubankanum í Basel í Sviss, en heiti þess banka á ensku er skammstafa BIS. Þessar reglur eru því ýmist kallaðar BIS-reglurnar eða BASEL-reglurnar. Á alþjóðlegri ráðstefnu opinberra eftirlitsaðila með innlánsstofnunum sem haldin var í október 1988 hlutu tillögur þessar víðtækan stuðning. Þar var samþykkt að stefnt skyldi að lögfestingu þeirra eða viðurkenningu með öðrum hætti fyrir allar innlánsstofnanir fyrir árslok 1992. BIS-reglurnar hafa nú þegar verið lögfestar í allmörgum löndum og í öllum löndum sem stunda alþjóðleg bankaviðskipti svo einhverju nemur.
    Evrópubandalagið hefur þegar samþykkt tilskipanir á sviði bankamála sem fela í sér sambærilegar reglur og með samningi um Evrópskt efnahagssvæði hefur verið ákveðið að þær skulu einnig gilda í EFTA-ríkjunum eftir að samningurinn um EES hefur verið staðfestur. Lögfesting slíkra reglna hér á landi er því liður bæði í alþjóðlegri samræmingu og aðlögun að þeim reglum sem munu gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Reglur þessar hafa þegar verið lögfestar á öðrum Norðurlöndum, fyrst í Danmörku árið 1989 og í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð fyrr á þessu ári. Í öllum tilfellum hafa innlánsstofnanir fengið nokkurn umþóttunartíma til að uppfylla ákvæði reglnanna. Ég vík þá að meginatriðum þeirra.
    Megininntak þessara tveggja frumvarpa er að breyta gildandi ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði um lágmark eigin fjár til samræmis við hin alþjóðlega viðurkenndu sjónarmið. Eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða er skilgreint í þessum reglum og þeir efnahagsliðir sem mynda eigið fé eru nákvæmlega tilgreindir. Gerður er greinarmunur á því sem í þessum lagafrumvarpstillögum er kallað hreint eigið fé og blandað eigið fé og skal hið fyrrnefnda, þ.e. hreint eigið fé nema a.m.k. helmingi af samtölu beggja hluta. Ég bendi á að fram hafa komið athugasemdir við þessi heiti á hugtökunum á þessum sviðum og e.t.v. kann að vera rétt að leita annarra orða betri sem þó hafa enn ekki fundist. Til

þess, sem hér er nefnt blandað eigið fé, er talið m.a. það sem kalla mætti víkjandi lán og er það nýmæli í löggjöf um viðskiptabanka og sparisjóði hér á landi. Með útgáfu sérstakra skuldaviðurkenninga sem uppfylla skilyrði víkjandi lána gæti viðskiptabanki eða sparisjóður aflað sér fjár til rekstrarins sem auk þess teldist til hans eigin fjár að vissu marki. Fyrir ríkisviðskiptabanka og sparisjóði sem nú eiga þess ekki kost samkvæmt gildandi lögum að afla sér aukins eigin fjár með útgáfu hlutabréfa kann sérstök fjáröflun í formi víkjandi lána að vera gagnlegur, jafnvel heppilegur valkostur til að auka eigið fé þeirra. Vegna ríkisábyrgðar á innlendum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna samkvæmt gildandi lögum er ekki um það að ræða að kröfuhafar víkjandi lána séu verr settir en aðrir kröfuhafar ríkisviðskiptabanka. Að sama skapi er ábyrgð ríkissjóðs hin sama þótt hluti eigin fjár viðskiptabanka verði víkjandi lán.
    Samkvæmt reglunum, sem hér eru gerðar tillögur um, skal eigið fé, skilgreint eins og lögin kveða á um, aldrei vera lægra en sem svarar 8% af því sem skilgreint er sem áhættugrunnur. Áhættugrunnurinn er heildareignir banka eða sparisjóðs að viðbættum liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt nánari reglum þar að lútandi sem Seðlabankinn skal setja. Það er talið eðlilegt að hafa þann hátt á að fela Seðlabanka Íslands, sem hinum opinbera eftirlitsaðila með starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, að setja ofangreindar reglur fremur en að lögfesta þær í einstökum atriðum. Starfsemi þessara stofnana, þ.e. lánastofnananna, er sífellt að breytast. Nýir efnahagsliðir kunna að verða til og það yrði þungt í vöfum að breyta lögum í hvert sinn sem slíkar breytingar verða. Þess skal getið að eigið fé banka eða sparisjóða samkvæmt núgildandi lagaákvæði skal eigi vera lægra en sem svarar til 5% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings. Ég tel rétt að leggja á það ríka áherslu að 8% hlutfallið í nýju reglunum er ekki sambærilegt í beinum tölum við núgildandi lagaákvæði. Í báðum frumvörpunum, þ.e. bæði viðskiptabankafrv. og sparisjóðafrv. er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að bankar og sparisjóðir fái aðlögunarfrest til loka ársins 1992 að uppfylla ákvæði laganna um eigið fé. Ég vil í þessu sambandi benda á að í Finnlandi fengu þeir bankar og sparisjóðir sem ekki reka starfsemi erlendis, sem ekki stunda milliríkjaviðskipti, aðlögunarfrest til ársins 1996. Aðrar lánastofnanir þurfa að uppfylla kröfurnar í árslok 1992 eins og í frumvörpum þessum er lagt til að allir bankar og sparisjóðir geri. Ég tel heppilegt að hv. efh.- og viðskn. kanni kosti þess að breyta aðlögunarfrestinum hér á landi, þó þannig að eiginfjárhlutfallið verði aldrei lægra á aðlögunartímabilinu en það var við gildistöku laganna samkvæmt skilgreiningum þeirra. Hefji banki hins vegar starfsemi erlendis á aðlögunartímabilinu yrði hann að sjálfsögu að uppfylla allar kröfurnar að fullu um leið.
    Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þeim áhrifum sem þessar nýju eiginfjárreglur kunna að hafa á niðurstöðutölur lánastofnana. Lausleg athugun sem gerð hefur verið á eiginfjárhlutfalli banka og sparisjóða um sl. áramót samkvæmt hinum nýju reglum sem kenndar eru við BIS sýnir að engin íslensku lánastofnananna fellur undir 8% lágmarkið. Jafnframt skal á það bent að bankar og sparisjóðir gætu samkvæmt tillögu frv. styrkt sína eiginfjárstöðu með víkjandi lánum sem þeim gefst ekki kostur samkvæmt gildandi lögum. En þetta mál þarf að athuga mjög vandlega og þess þarf að sjálfsögðu að gæta að allir bankar og útibú erlendra banka sitji við sama borð hvað starfsskilyrði varðar og þar eru þessar kröfur, eiginfjárkröfurnar, ekki síst um verðar.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessum tveimur tengdu frumvörpum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.