Viðskiptabankar

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:42:00 (939)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Þessi frumvörp eru flutt í framhaldi af breytingum á lögum sem síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir á síðasta þingi og er ekkert nema gott um það að segja að hæstv. viðskrh. fylgi því máli eftir með þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu. Ég tel í sjálfu sér ekki þörf á að ræða þessi frumvörp ítarlega. Þau verða skoðuð í hv. efh.- og viðskn. En ég vildi spyrja hér um tvö atriði sem mér finnst nauðsynlegt að fá aðeins nánari mynd af við 1. umr.
    Hið fyrra er það sem hæstv. ráðherra vék að í lokaorðum sínum, þ.e. að hve miklu leyti íslenskar lánastofnanir, viðskiptabankar eða kannski sérstaklega sparisjóðir þurfi að

beita sér fyrir sérstökum ráðstöfunum á næstu missirum til þess að geta starfað á jafnréttisgrundvelli samkvæmt þessum lögum. Það kemur fram í greinargerðinni varðandi frv. um sparisjóði að sérstök fjáröflun í formi víkjandi lána kunni að vera heppilegur valkostur til þess að auka eigið fé. Mér þætti fróðlegt að fá nánari lýsingu hæstv. ráðherra á því hvernig hann hugsar sér að það gerist.
    Hitt atriðið sem mig langaði til þess að spyrja um snertir réttindi og stöðu bankaeftirlitsins á Íslandi gagnvart hinum erlendu útibúum. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra þá tengjast þessi frumvörp að nokkru leyti undirbúningi sem sumir vilja kenna við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Að vísu tel ég nú að það sé að nokkru leyti rangt vegna þess að breytingar af þessu tagi gætu átt fullan rétt á sér hvað sem hefði orðið um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Og mér finnst það nokkur misskilningur og villandi gagnvart almenningi og þinginu að túlka allar breytingar í þessa átt á þann veg að þær séu tengdar samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég tel t.d. að þessi frumvörp sem hér er verið að ræða eigi fyllilega rétt á sér jafnvel þótt ekkert hefði orðið af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Og ef þeim samningum hefði lyktað með slitum í Lúxemborg fyrir nokkrum vikum síðan hefði viðskrh. að mínum dómi engu að síður átt að flytja þessi frumvörp hér. Ég vildi árétta það sjónarmið að ég tel ekkert beint samhengi þar á milli.
    En það atriði sem ég vildi spyrja um er að, ef ég fer með það rétt, að vísu er það samkvæmt minni, gert mun verða ráð fyrir því í þeim reglum um bankastarfsemi og fjármálastofnanir sem eiga að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði að bankaeftirlit aðseturslands hafi ekki möguleika á því að hafa eftirlit með starfsemi hinna erlendu útibúa. Það sé eingöngu réttur bankaeftirlits í heimalandi aðalbankans, sem rekur útibúið, sem hafi rétt til eftirlitsstarfa. Mig langar til þess að spyrja um þetta atriði, hvort þetta sé með þessum hætti og leita eftir áliti ráðherrans á því. Mér finnst í sjálfu sér óeðlilegt að bankaeftirlitið hér á landi hafi ekki möguleika á því að hafa eftirlit með hinum erlendu útibúum á sama hátt og það hefur eftirlit með hinum íslensku samkeppnisbönkum þeirra útibúa. Það er nokkuð mikil breyting á skipan bankaeftirlits hér á landi ef þannig á að skerða möguleika íslenska bankaeftirlitsins til að hafa heildarsýn yfir íslenska bankakerfið, íslenska bankamarkaðinn. Ef ég fer rétt með þessi ákvæði, þá mundi skipan mála í kjölfar EES-samningsins vera á þá leið að enginn einn aðili hefði bankaeftirlit með hinum íslenska peningamarkaði. Skipanin yrði annars vegar á þann veg að íslenska bankaeftirlitið hefði eftirlit með íslensku viðskiptabönkunum og síðan hefðu hin og þessi bankaeftirlit heimalanda hinna erlendu útibúa eftirlit með þeim hvert fyrir sig.
    Ég er ekki viss um að það sé æskileg skipan, sérstaklega með tilliti til þess hvað íslenskur peningamarkaður er almennt vanþróaður og verður það að öllum líkindum á næstu árum, hvað sem líður næstu öld, að enginn einn aðili hafi rétt til þess að framkvæma samræmt eftirlit með íslenska peningamarkaðnum á t.d. þessum áratug meðan hann er að þróast.
    Ég vildi gjarnan, virðulegi forseti, fá að heyra álit ráðherrans á þessum atriðum sem ég hef hér nefnt.