Viðskiptabankar

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 15:51:00 (941)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Ég tek undir það með hv. 8. þm. Reykn. að þessi frumvörp eiga rétt á sér alveg óháð samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði en þau tengjast engu að síður þeim veruleika sem íslenskt efnahagskerfi, íslenskt fjármálalíf, hrærist í.
    Hv. 8. þm. Reykn. spurði um tvennt. Í fyrsta lagi hvort íslenskar lánastofnanir uppfylltu nú kröfurnar sem gerðar væru í þessum frumvörpum og hvort þær þyrftu grípa til sérstakra ráðstafana vegna þessara lagaákvæða. Hann vék sérstaklega að því sem hér eru nefnt víkjandi lán sem hugsanleg eiginfjáröflunarleið fyrir sparisjóði og ríkisviðskiptabanka.
    Í fyrsta lagi, eins og kom fram í máli mínu, uppfylltu um liðin áramót allar íslenskar innlánsstofnanir þær kröfur sem þessi lög gera líkt og þær gerðu einnig hvað varðar gildandi lög. Það er auðvitað misjafnlega rúmlega sem þær uppfylla þessar kröfur. Sú athugun sem bankaeftirlitið gerði á málinu var ekki alveg endanleg vegna þess að ýmsar skilgreiningar á ýmsum fjárskuldbindingum nýrrar gerðar sem talin voru með í þessum eiginfjárhlutföllum og áhættugrunni hafa enn ekki verið mótaðar til fulls og verða ekki fyrr en lögin hafa verið samþykkt. En ég leyfi mér að fullyrða að ekki þarf að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þessarar lagasetningar eins og málin blasa nú við þótt aldrei sé hægt að útiloka að einhver einstök lánastofnun þurfi að útvega sér eigið fé, en ég vildi leyfa mér að fullyrða að það hefði hún þá hvort sem er þurft að gera.
    Það sem er mikilvægt í frv. og í raun og veru hin efnislega breyting er það að bankar, sem ekki eru reknir í formi hlutafélags, eða sparisjóðir geta útvegað sér víkjandi lánsfé með útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar, sem uppfyllir þær kröfur sem skilyrði verða sett um í reglum Seðlabankans um þessi víkjandi lán, aflað sér fjár til rekstrarins sem auk þess teldist eigið fé að vissu marki. Þetta er ekki unnt samkvæmt gildandi lögum og eins og dæmin sanna hefur ríkið þurft að leggja ríkisviðskiptabönkum til aukið eigið fé af skattfé og ekki alltaf haft mikið erindi upp úr því erfiði. Fyrir sparisjóðina hefur eiginfjárstaðan einatt verið mikið vandamál, enda eru þeir lokuð félög samkvæmt gildandi lögum.
    Ég bendi á þetta sem kost við þessa lagasetningu vegna þess að hún gefur færi á skynsamlegri þróun í okkar lánamálum. Ég vildi jafnframt vekja athygli þingheims á því að svo kynni að fara að einmitt þetta ákvæði sætti gagnrýni af hálfu hlutafélagsbankanna, að þeir teldu að samkeppnisstöðu þeirra væri ,,ógnað`` eða öllu heldur að það sem þeir hafa nú umfram hina er að geta snúið sér til fjármagnsmarkaðarins og beðið um aukið eigið fé í formi viðbótarhlutafjár. Þetta atriði tel ég þess vegna að hv. efh.- og viðskn. þurfi að skoða sérstaklega. Það er mjög mikilvægt að allir sitji við sama borð í þessum efnum og að ekki séu opnaðar neinar leiðir til ógætilegra fjárráðstafana með þessum hætti. En ég tek það fram að það sem við höfum gert er að fylgja nákvæmlega þeirri forskrift sem hin alþjóðlega nefnd komst að niðurstöðu um og gerir tillögu um að verði gerð að sameiginlegri reglu allra þeirra sem eiga aðild að þessari samþykkt.
    Ég vík þá að seinni spurningu hv. 8. þm. Reykn. um stöðu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands gagnvart útibúum erlendra banka. Samkvæmt tillögum þessa frv. sem hér liggur fyrir er það gert alveg skýrt að íslensk bankalög, íslensk hlutafélagalög og íslenskt bankaeftirlit gilda um starfsemi hinna erlendu útibúa. Það er efni frv. öðrum þræði. Hitt efnið er samræmd eiginfjárregla. Þetta getur ekki skýrara verið. Þess vegna mun hið íslenska bankaeftirlit hafa heimildir til og möguleika á að líta eftir þessum reglum.
    Hitt er rétt að samkvæmt bankatilskipunum þeim sem gilda innan Evrópubandalagsins og gilda munu á hinu Evrópska efnahagssvæði gildir það sem kalla mætti heimalandsregla, þ.e. hver banki sem starfar í öðru landi en sínu heimalandi lýtur reglum og eftirliti heimalandsins en ekki athafnalands. Í þessu felst þó ekki, eins og ég skil það, að aðseturslandið hafi ekki rétt til eftirlits. Það sem er mikilvægt í reglunni og er reyndar hin stóra nýjung í Evrópska efnahagssvæðinu, er að það er ekki gerð tilraun til að samræma út í hvern starfkrók allar reglur allra landanna, heldur eiga reglur allra landanna að uppfylla ákveðinn lágmarksstaðal og svo viðurkennir hvert land gagnkvæmt reglur hinna. Í þessu felst, eins og ég lít á málið --- og ég tek það fram að ég hef ekki við höndina neitt af þeim lögfræðilegu gögnum sem ég þyrfti að hafa til að fullyrða um málið, að það er heimalandsreglan sem ríkir en það er ekki heimalandseftirlitið eitt sem hefur eftirlitsrétt. Hins vegar mun samræmingin á eftirlitsreglunum smám saman gera það óþarft að gera mikinn mun á því hvort það eru hinar dönsku reglur sem gilda eða hinar hollensku ef um væri að ræða danskan banka sem starfaði í Hollandi eða hollenskan banka sem starfaði í Danmörku.
    Ég vona að fram af því sem ég hef sagt gangi upplýsingar um málið sem hv. 8. þm. Reykn. spurði réttilega um. Ég lít svo á að eftir sem áður að EES-samningnum samþykktum geti íslenskt bankaeftirlit haft heildaryfirsýn yfir íslenska lánamarkaðinn eftir því sem það er kostur. Ég ætla ekki að segja um þetta fleira, enda er það mál ekki til umræðu.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði nánar um aðlögunartímann. Það er rétt að ég vék að því að það kynni að vera ástæða til þess að huga að því hvort þær lánastofnanir sem ekki starfa á alþjóðagrundvelli gætu fengið eitthvað lengri aðlögunarfrest. Ég er ekki að mæla með því fyrir fram en ég bendi á að það hefur verið gert í einu af okkar grannlöndum, Finnlandi, að gera mun á milli þeirra banka sem starfa alþjóðlega og hinna sem eru algerlega heimabankar. Vegna þess hversu fáir og smáir okkar bankar eru finnst mér ekki rík ástæða til þess að gera þarna mikinn mun, en vildi þó nefna þetta af því að ég tel að þetta atriði sé eitt af því sem nefndin ætti sérstaklega að huga að. Ég tek það fram að ég hef ekki aðra tillögu á þessu stigi máls en þá sem frv. geymir og tel nauðsynlegt að þær af okkar lánastofnunum sem starfa í milliríkjaviðskiptum fullnægi þegar í lok næsta árs þeim kröfum sem frv. gerir.