Lögverndun starfsréttinda

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:31:00 (943)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
     Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um lögverndun starfsréttinda. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Hvað líður störfum nefndar sem á að samræma löggjöf um löggildingu starfsstétta og lögverndun starfsheita þróun á vinnumarkaði á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu, svo sem boðað er í svari forsrh. á þskj. 979 á 112. löggjafarþingi við fyrirspurn Friðriks Sophussonar.``
    Ég tel mjög brýnt að Íslendingar athugi á hvaða braut þeir eru í lögverndun starfsheita og starfsréttinda. Það þarf vissulega að vera um lögverndun að ræða undir sumum kringumstæðum. Hins vegar er spurning hvort við gætum staðið að þessu eins og við værum einir í heiminum og komið hér upp kerfi eins og verið hefur að gerast með stöðugt fleiri og fleiri stéttum sem eru komin með lögvernduð starfsréttindi. Ég tel þess vegna brýnt að sú vinna, sem hér er verið að tala um, sé framkvæmd og leita því eftir upplýsingum hjá hæstv. forsrh. um hvað líði þessu máli.