Bætt atvinnuástand á Suðurnesjum

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:57:00 (953)

     Karl Steinar Guðnason :
     Hæstv. forseti. Ég legg á það mikla áherslu að atvinnuástand Suðurnesjum er mjög alvarlegt. Hins vegar hefur enginn misst vinnuna vegna nýs álvers. Fjöldi manns hefur misst vinnuna vegna þess að skip og bátar hafa siglt í burtu og varnarliðið hefur ekki ráðið til sín nýtt fólk. Þar hafa starfað um 200 manns. Ég legg hins vegar á það áherslu að Suðurnesjamenn vilja engir gustukamenn vera. Það hlýtur að vera sameiginleg ákvörðun innan Atlantshafsbandalagsins hvort varnarliðið eigi að vera eða fara. Það er fullyrt að það eigi að vera hér og ef starfsemi á að vera óbreytt þá verður starfsfólk að vera í þeim mæli að hægt sé að reka þessa varnarstöð. Það er kjaramál að íslensku starfsfólki sé ekki ofboðið með miklu vinnuálagi. Ég tel hins vegar að það séu miklir möguleikar og björt framtíð fram undan á Suðurnesjum ef rétt og skynsamlega er á haldið.
    Það er fullyrt í viðtali við Jóhann Antonsson í Degi um helgina að hinir nýju Evrópusamningar muni gera það að verkum að það verði alger umbylting í sjávarútvegi og að sú umbylting sé á við tvö álver og álver þarf að byggja líka, segir hann. Suðurnesjamenn munu taka sinn þátt í nýsköpun í fiskiðnaði og aðstæður eru þar hvað bestar með tilliti til samgangna.
    Tíminn gerir það að verkum að lengra get ég ekki haldið en ég legg áherslu á að þrátt fyrir vonbrigðin í sambandi við álver er ástæða til að herða róðurinn, gefast ekki upp, taka á þessum málum af fullum þunga og byggja upp nýja bjartsýni, nýjan tíma með nýrri Evrópu.