Listskreyting Hallgrímskirkju

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:29:00 (963)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. kirkjumálaráðherra fyrir greinargóð svör. Það er ánægjuefni að hann talaði með vinsemd um málið og er áreiðanlega fús til þess að veita því brautargengi. Vegna þess sem fram kom í máli hans um að framlög fjárveitinganefndar hefðu ekki verið nýtt verð ég að upplýsa að þar er um einhvern misskilning að ræða. Ráðuneytið mun ekki hafa kynnt sóknarnefndinni að fjárveitingin hefði verið veitt og samkvæmt upplýsingum forráðamanna þar mun að sjálfsögðu verða gengið eftir þeim fjármunum. Ég vænti þess að hæstv. kirkjumrh. styðji sóknarnefndina í því að innheimta þetta fé.
    Eins og mönnum er kunnugt stendur sóknarnefndin fyrir smíði mikils orgels sem er vitaskuld mikill þáttur í innréttingu kirkjunnar og hefur þar söfnuðurinn eins og ævinlega áður unnið þrotlaust starf til að afla fjár í þetta mikla verkefni en hljóðfærið kostar tugi milljóna.
    Það hefur komið mér nokkuð á óvart varðandi Jöfnunarsjóðinn, sem hæstv. ráðherra minntist á, að þar er beinlínis gert ráð fyrir að fjórar höfuðkirkjur njóti sérstakra forréttinda, en það eru Skálholtskirkja, Hóladómkirkja, Dómkirkjan í Reykjavík og Hallgrímskirkja. En það verður að segjast eins og er að það er erfitt að sjá að þessar kirkjur hafi notið þessara forréttinda. Að vísu er búið að gera töluvert að Hólum en Hallgrímskirkja hefur satt að segja ekki notið mikils góðs af Jöfnunarsjóði enn þá og ég vona að það standi til bóta.
    Ég hef orðið vör við það gegnum árin að áhugi minn á þessari kirkju hefur valdið nokkurri undrun og það verður að hafa það. En þessi mikla kirkja í minningu hins mikla sálmaskálds, sem mér er mjög kært og væntanlega öllum Íslendingum, er risin fyrir þrotlaust starf safnaðarins og það er auðvitað útilokað að það sé á valdi hans að gera kirkjuna þannig úr garði að hún megi um aldur og ævi vera til sóma. Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að koma til hjálpar til þess að hinu mikla skáldi, séra Hallgrími Péturssyni, og frumherja íslenskrar húsagerðarlistar, Guðjóni Samúelssyni, sé sá sómi sýndur sem þeir eiga skilið.
    Ég vænti því þess, hæstv. forseti, að hæstv. kirkjumrh. komi myndarlega til móts við Hallgrímssöfnuð, og raunar Íslendinga alla, og beiti sér fyrir að þarna verði sett á fót ný nefnd til að ljúka því verki sem fyrri nefnd gafst enginn kostur á að ljúka. Hér er ekki verið að biðja um þau fjárframlög að úrslitum geti valdið um fjárhag þjóðarinnar. Hér er ekki verið að tala um að ljúka listskreytingu Hallgrímskirkju á örfáum árum. Eins og með aðrar slíkar kirkjur tæki það verk mörg ár og kannski ekki svo mikla peninga á hverju ári. Aðalatriðið er að unnið sé að málinu að bestu manna ráðum og þeirra sem gerst þekkja. Við eigum listamenn sem eru fullfærir um að skreyta þessa miklu kirkju og þá væntanlega með hin miklu ljóð og sálma séra Hallgríms að leiðarljósi og ég held að það sé ekki til of mikils mælst að Íslendingar séu menn til þess jafnvel þó að eitthvað blási í móti um sinn í fjármálum.