Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:39:00 (967)

     Flm. (Hjálmar Jónsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vek hér máls á viðkvæmu og vandasömu efni, sjálfsvígum. Það er viðkvæmt vegna þess að fjöldi fólks á um sárt að binda vegna sjálfsvígs í fjölskyldu, ástvina- og vinahópi. Það er vandasamt vegna þess að umfjöllun verður í öllum greinum að vera ábyrg og hlutlæg. Fátt er átakanlegra en sjálfsvíg. Vandamál og vanlíðan einstaklinga eru og verða óleyst vegna þess að viðkomandi hefur ekki leyst þau í lífi sínu en horfið frá þeim. Eftir standa ástvinir með sárin og harminn, allar efaspurningarnar og eftirsjána, öllum þeim votta ég dýpstu samúð.
    Jafnframt eru sjálfsvíg og tíðni þeirra áhyggjuefni þjóðfélagsins í heild. Víða er verið að hugsa um þessi mál, bæði hérlendis og erlendis. Ég kem að því síðar og vil einnig hyggja að hugsanlegum úrbótum.
    Flestar rannsóknir á tengslum þjóðfélagslegra þátta við sjálfsvíg taka mið af tímamótarannsóknum félagsfræðingsins og heimspekingsins Émile Durkheim á sjálfsvígum. Bók hans ,,Sjálfsvíg`` --- ,,Le Suicide`` kom út árið 1897 og enda þótt eitt og annað hafi verið fundið að aðferðum hans til rannsókna má segja að meginhugmyndir hans hafi staðist síðari tíma athuganir. Í stuttu máli má segja að niðurstöður rannsókna hans og síðari tíma sýni eftirfarandi:
    Til aukinnar tíðni sjálfsvíga leiða:
    1. Örar þjóðfélagslegar breytingar.
    2. Miklar sveiflur í efnahagslífi.
    3. Gagngerar breytingar á atvinnuháttum.
    4. Aukið atvinnuleysi.
    5. Veik staða meginstofnana þjóðfélagsins eins og fjölskyldu og kirkju.
    6. Hnignun hefða og rótgróinna siða.
    7. Hnignun menningarlegra gilda með þar af leiðandi óljósu gildismati.
    Margt bendir til þess að við þessar aðstæður skapist upplausnarástand sem leiðir til ýmissa félagslegra vandamála. Þegar litið er yfir kenningar Durkheims og það sem síðari tíma rannsóknir hafa bætt við þær sést því miður glöggt að forsendur hækkandi tíðni sjálfsvíga eru fyrir hendi, einkum í tæknivæddum, vestrænum heimi. Óvíða eru sveiflur í þjóðfélagi eins miklar og einmitt hér á landi. Fljótt á litið virðast flestar þær ástæður sem að framan eru taldar eiga við íslenskt nútímaþjóðfélag og fremur það en mörg önnur þjóðfélög. Einhliða áhersla á sumar hliðar velferðar kann einnig að vera orsakavaldur.
    Víða erlendis hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á sjálfsvígum og hugsanlegum orsökum þeirra. Að þeim er staðið af færustu sérfræðingum og oft að tilhlutan stjórnvalda. Þannig leggur Bandaríkjaforseti, George Bush, mikla áherslu á að efldar séu rannsóknir á menntamálum og aðstæðum unglinga þar í landi.
    Full þörf er á að taka þessi mál hérlendis öruggum og föstum tökum. Þörfin fyrir rannsóknir er ótvíræð þar sem einhlítar skýringar á stóraukinni tíðni sjálfsvíga eru vandfundnar, einkum meðal ungmenna. Það dylst ekki að mitt í velferðinni eru brotalamir og alvarlegir brestir. Velferðin stendur ekki á varanlegum grunni nema mannlegi þátturinn sé metinn mestur, að maðurinn, lífið og gildi þess sé efst á listanum hvað velferð viðkemur. Full þörf er reyndar á því að skilgreina velferðarhugtakið og hyggja að því hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til þess að mannleg velferð fái risið undir nafni.
    Þegar litið er á tölur um fjölda sjálfsvíga á Íslandi sést ógnvekjandi þróun. Tíðni

þeirra fer hratt vaxandi. Aukin tíðni hefur átt sér stað á síðustu 10 árum meðal kvenna á aldrinum 45--55 ára. En langsamlega mest er tíðni sjálfsvíga meðal ungra karlmanna, 15--24 ára. Hún hefur margfaldast á síðustu áratugum og er vafalítið hærri en tölur sýna vegna þess að óvíst er hvort sjálfsvíg séu alltaf skráð sem slík. Það er ekki alltaf ljóst hvort um ásetning eða slys er að ræða. Þetta gildir reyndar um sjálfsvíg í öllum aldurshópum.
    Orsakir sjálfsvíga eru flóknar og taka til margra ólíkra þátta. Það er t.d. misskilningur að efnahagur og ytri aðstæður hafi úrslitaáhrif. Það er líka útbreiddur misskilningur að sá sem tali um að fremja sjálfsvíg láti ekki af því verða.
    Sú rannsókn sem ég tel nauðsynlegt að fari fram af hálfu stjórnskipaðrar nefndar þarf að vera víðtæk og taka til margra þátta, bæði í umhverfi og innan að, frá sálarlífi og hugarheimi. Vitað er að bein tengsl eru í mörgum tilfellum milli þunglyndis og sjálfsvíga. Geðlæknar telja að í meira en helmingi tilfella sé sjálfsvíg framið í sjúklegu þunglyndi. Rannsóknir sýna að þunglyndi, sem einnig er nefnt geðlægð, er algengt --- algengara en flesta grunar. Um 25% kvenna og 10% karla þjást af þunglyndi á einhverju aldursskeiði. Einkennin eru kvíðatilfinning, leiði, einbeitingarleysi, sektarkennd, lækkað sjálfsmat, tilgangs- og áhugaleysi, ranghugmyndir, sjálfsvígshugleiðingar og stundum sjálfsvíg. Svonefnt sjálfsvígsferli hefur að sjálfsögðu verið reynt að kanna og skilgreina eftir föngum. Geðlæknar telja að til geðlægðar og geðkvilla ýmiss konar megi rekja eins og áður sagði mikinn hluta sjálfsvíga. Og hlutur ungs fólks er mjög vaxandi eins og áður er sagt, einmitt þeirra sem við teljum vera í blóma lífsins og ættu að eiga þrótt til lífs og starfa. Rannsóknir, einkum erlendis, benda þó ekki til þess að geðlægð sé algengari nú en áður heldur valdi ytri aðstæður því að þeim sé nú hættara sem eru veikir fyrir.
    Álit geðlækna fellur í líkan farveg og þeirra sem hafa lagt sig eftir að kanna hina félagslegu þætti. Sé litið á íslenskar og erlendar athuganir á stöðu ungs fólks kemur í ljós að tengsl eru milli þunglyndis og kvíða, félagslegrar einangrunar og sjálfsvígshugleiðinga. Geðlæknar benda reyndar á að sá einangrist sem finnur til vanlíðunar og kvíða, leiða og áhugaleysis. Hann slíti oft ósjálfrátt tengslin við vinahópinn og fjölskyldan geti ekki nálgast hann. Sama gildir um aðra hjálparaðila. Hætta er einnig á að einkennunum sé stundum ruglað saman við svonefnda unglingaveiki sem eldast muni af.
    Hin aukna tíðni sjálfsvíga meðal ungs fólks á Íslandi leiðir hugann að aðstæðum þeirra, högum og kjörum. Nokkur viðleitni hefur verið til að kanna þær aðstæður og undir stjórn Þórólfs Þórlindssonar prófessors er nú í undirbúningi rannsókn á högum íslenskra unglinga og er sú rannsókn fyrirhuguð í vetur. Vitað er frá fyrri könnunum að um 13% 16--20 ára skólafólks segjast haldin kvíða, þunglyndi og streitu og þurfi hjálp. Sum þeirra segjast einmitt hafa hugleitt sjálfsvíg. Álíka stór hópur segist ekki eiga við vandamál að stríða í lífi sínu en sýnir samt sem áður veruleg einkenni kvíða og þunglyndis í svörum sínum. Þessum hópi tilheyrir fólk sem framkvæmir eins konar sviðsett sjálfsvíg sem er tífalt algengara en sjálfsvíg. Þá er ekki ætlunin beinlínis að stytta sér aldur heldur er beitt vægum tilraunum og látið sérstaklega af þeim vita. Oftast er þar um að ræða kreppu í kringumstæðum og er þessari aðferð þá beitt til að brjótast út úr kreppunni og knýja fram breytta stöðu. Slík tilvik eru raunar alls ekki bundin einum aldurshópi öðrum fremur en konur eru í þessum hópi þrefalt fleiri.
    Virðulegi forseti. Af framansögðu ætti að vera ljóst að fyrir löngu er tímabært að taka þessi mál til gagngerrar athugunar og kanna aðstæður, umhverfi, viðfangsefni og lífsvanda fólks, einkum ungs fólks. Það er ekkert lögmál að svo og svo margir fyrirfari sér á ári. Það er líka vitað og sannað að forvarnaraðgerðir bera árangur. Í Bandaríkjunum hefur miklu verið kostað til rannsókna og þar í landi er farinn að heyrast vonartónn. Fyrirbyggjandi aðgerðir og meiri umhyggja fyrir ungu fólki skilar árangri. Rannsóknir og nokkuð markvissar aðgerðir í nágrannalöndum okkar benda til hins sama. Vafalaust getur rannsóknarnefnd hérlendis hagnýtt sér þá vinnu í einhverjum mæli og einnig þær athuganir, sem gerðar hafa verið erlendis af einstaklingum og stofnunum. Erlendar kannanir verða þó ekki heimfærðar nema að nokkru leyti á íslenskan veruleika.
    Virðulegi forseti. Allur almenningur hlýtur að hafa áhyggjur af aukinni tíðni sjálfsvíga í landinu. Ég hef aflað mér upplýsinga um sjálfsvíg ungs fólks og fólks yfirleitt á þessu ári, 1991. Þær tölur og staðreyndir eru trúnaðarmál og því greini ég að sjálfsögðu

ekki frá þeim. En þær greina því miður frá þeirri sorglegu staðreynd að sjálfsvígstíðni er ekki að lækka. Fjarri því. Hér þarf að bregðast við með festu, ábyrgð og allri þeirri þekkingu sem völ er á.
    Virðulegi forseti. Almenn viðhorf og efnistök í þjóðfélagsumræðu skiptir einnig töluverðu máli. Efnahagsmál og efnahagsástand eru tíðrædd og að sjálfsögðu einkum hér á hinu háa Alþingi. Dökk mynd er oft upp dregin af afkomu þjóðarbúsins og einstaklinganna. Síst sæti á okkur að neita því hér. En tal um versnandi hag, t.d. hér og í fjölmiðlum, tal um nær gjaldþrota þjóð er engum samboðið. Slíkt eykur ekki lífsvilja þeirra sem eru veikir fyrir. Í víðum skilningi þarf að ræða varanlega velferð, þá velferð sem við stefnum að í landinu svo að þjóðin geti sagt með sanni að hún sé hamingjusöm, jafnvel hamingjusömust allra þjóða. Að þessu stefnum við og skulum sameinast um.
    Allt böl má bæta. Aldrei þarf að vera svo dimmt að ekki finnist leiðir úr vandanum. Þær eru til ef leitað er hjálpar og þekkingar á þeim leiðum. Markmiðið hlýtur að vera að efla lífsviljann og raunveruleg lífsgæði svo að lífið sé eftirsóknarverðara og öllum landsmönnum meira virði en dauðinn.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að tillögunni verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til síðari umræðu og hv. menntmn.