Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:26:00 (973)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. Hjálmari Jónssyni fyrir þessa þáltill. og lýsa yfir stuðningi mínum við hana. Hér er hreyft afar viðkvæmu máli sem brýn nauðsyn er þó á umræðu um. Það er átakanlegt að sjá tölur um þennan fjölda sjálfsvíga, ekki síst þar sem um ungmenni er að ræða. Við þurfum að reyna að finna orsakir þess hvers vegna

þessi þróun hefur orðið. Það eru að sjálfsögðu ótalmargir þættir sem hér koma til athugunar og álita og bent hefur verið á nokkra þeirra í þessari umræðu.
    Við vorum í gær að ræða um frv. til breytinga á núgildandi hegningarlögum þar sem um er að ræða kynferðisbrot m.a. gegn börnum og unglingum. Í því sambandi vitnaði ég í skýrslu Aðalsteins Sigfússonar sálfræðings sem hann gerði fyrir Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og fjallaði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og unglingum. Mig langar í þessu sambandi til að vitna aðeins í lokaorð hans, þar sem hann segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Fagfólk verður að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd og þora að horfast í augu við hana að mörg barnanna sem leita til þeirra af ólíkum ástæðum búa við aðstæður sem eru hættulegar andlegri heilsu þeirra. Of oft er leitað ódýrra lausna sem þjóna fremur fagaðilunum sjálfum og viðtekinni hefð en hagsmunum barnanna. Erlendar og innlendar rannsóknir hafa margoft sýnt fram á samhengi uppeldisaðstæðna og hegðunar, hvort sem um er að ræða skemmri eða lengri tíma.
    Fagfólki hefur lengi verið ljóst að ýmsa geðræna erfiðleika, andfélagslega hegðun, námsörðugleika og önnur bágindi, sem draga úr getu einstaklinga til að takast á við kringumstæður sínar, bæði tilfinningalegar og félagslegar, má rekja til óviðunandi uppeldisaðstæðna, nema til komi sérstök vandamál sem eru þó oftast af líffræðilegum toga. Þetta er leikmönnum ekki alltaf ljóst.
    Óeðlileg hegðun barna og unglinga, sem leiðir af slæmum uppeldisaðstæðum, kemur oft ekki fram fyrr en að svo löngum tíma liðnum að erfitt er að sjá samhengið. Auk þess er börnum og unglingum eðlilegt að fara leynt með þær aðstæður sem þau búa við. Umhverfinu er gjarnt að persónugera hegðunina án tillits til þeirra forsendna sem einstaklingarnir höfðu til að ná eðlilegum þroska. Óvægnir dómar og neikvæð viðhorf til þeirra eru því fremur regla en undantekning og má því segja að hinum óheppilegu aðstæðum sé við haldið utan heimilis og eftir að viðkomandi fer að heiman.``
    Ég tel að í þessum orðum felist nytsamleg ábending og er ljóst að við verðum öll að reyna að setja okkur betur inn í aðstæður barna og unglinga.
    Ég ítreka þakkir mínar til 1. flm. og annarra flm. fyrir þessa till. Ég vona að hún fái vandaða meðferð í þeirri nefnd er fær hana til meðferðar.