Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:32:00 (975)

     Hjálmar Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þær viðtökur sem þáltill. þessi hefur fengið. Líka fyrir það hvernig umræðan hefur verið, hver tónninn hefur verið í henni. Það má finna það glöggt hjá öllum að þessi mál taka til hjartans, svo viðkvæm sem þau eru. Veit ég að flestir þekkja af eigin reynslu einhver slík mál. Að mínu mati hefur umræðan hér verið í réttu horfi. Umhyggja og persónuleg, alúðleg samskipti eru alltaf afar

mikilvæg. Við þurfum að gefa gaum að náunganum, líðan hans, velferð þeirra sem við umgöngumst, gera samskiptin svo persónuleg sem hægt er, líka samskiptin við kerfið en á það finnst sumum stundum skorta. Það er nauðsynlegt að allir gæti að því sem stendur þeim næst. Þeir sem vegna starfa sinna koma að þessum efnum vinna virðingarvert og gott starf. Þar má t.d. nefna presta og lækna, sálfræðinga og félagsfræðinga. Engar tölur eru til um það hver mörgum fyrirhuguðum sjálfsvígum er afstýrt. Ástæða er til að ætla að stöðug vaktskylda þessara aðila skipti miklu máli.
    En það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom hér að síðast vil ég einmitt árétta. Það er þetta að allir þeir aðilar sem í þessu vinna haldi áfram að vinna að málunum og að umræðan verði ekki aðeins núna heldur áfram, að við tökum hana alvarlega og þessa þróun.
    Ég vil líka þakka fyrir það sem fram kom hér að fólk leiti sér hjálpar ef það finnur fyrir slíkum vandamálum hjá sér, þunglyndi og öðru í þeim dúr. Líkur benda sterkt til að ákveðinn fjöldi fólks á hverjum stað þjáist af þunglyndi. Sú vanlíðan leiðir stundum til dauðahugsana, dauðaóska, sjálfsvígshugsana og síðan áætlana og tilrauna. Það verður nefndarinnar að rannsaka, ef skipuð verður.
    Ég vil ekki lengja umræðuna mikið en mig langar að benda á, einmitt út frá þjóðfélagslegum aðstæðum hjá okkur og af því að við höfum hér á hinu háa Alþingi á undanförnum dögum rætt um efnahagslægð, að þegar kreppunni miklu lauk forðum þá var farið að kanna ástæðurnar fyrir henni og þær kannanir leiddu í ljós að ástæðurnar voru líka og jafnvel ekki síður huglægar. Fólk missti kjarkinn, fylltist vonleysi og framtaksleysi eins og enginn hefði úrræði eða vilja til þess að fást við vandamálin. Því magnaðist ýmiss konar þjóðfélagsvandi.
    Ég vænti þess að niðurstöður nefndarinnar verði mikilvægar og grundvallandi í forvarnaraðgerðum og á þeim verði byggt. Þá tekst okkur miklu fremur að snúa við þessari óheillaþróun ef sérfræðingar úr öllum áttum og þeir sem þekkja þessi mál best leggjast á eitt, koma saman í nefnd til þess að leita bestu leiðanna. --- [Fundarhlé.]