Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 13:11:00 (977)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það má segja að um stjórnvöl á þjóðarskútunni haldi nú ungir menn sem sumir hverjir hafa vafalaust komið með nýjar hugmyndir inn og aðrir dustað rykið af gömlum hugmyndum og boðað að þær séu nýjar. Ég vil nálgast þetta verkefni með því að byrja á því að fara yfir auðlindir Íslands vegna þess að það hlýtur að vera grundvallaratriði ef við viljum ræða þróun byggðar í landinu hvernig við nýtum auðlindir Íslands.
    Auðlindir Íslands flokka ég í þrennt. Í fyrsta lagi er það þjóðin sjálf, hæfileikar hennar og menntun. Vel menntuð þjóð eins og Íslendingar eru hlýtur að eiga mikla möguleika án allra auðlinda. Gleggsta dæmið um þetta eru Svisslendingar sem komust að því að það þurfti ekki mikið hráefni til að framleiða úr en það þurfti aftur á móti að framleiða betri úr en hinir svo hægt væri að selja þau. Á fleiri sviðum ruddust þeir inn í atvinnumál heimsins með það eitt að leiðarljósi að gera hlutina betur en aðrir.
    Sú þjóð sem fer mesta sigurför í dag í heiminum á ekki auðlindir, svo hreint er það, þær eru sáralitlar, sé það skoðað miðað við mannfjölda og miðað við auðlindir annarra þjóða. Það er Japan. Og það er umhugsunarefni, það hefur aðeins ein frétt, sem ég hef heyrt, komið frá fjármálaráðherra Japans á þessu hausti. Ef einhver hyggur að það hafi verið frétt um ríkisskuldabréf, það hafi verið frétt um einhverja stofnun sem fór fram úr fjárlögum, þá er það misskilningur. Sú frétt fjallaði um eina aðalatriðið í efnahagsmálum hverrar þjóðar. Það voru fréttir um það að viðskiptajöfnuður Japana var helmingi hagstæðari í október en hann hafði verið árið á undan í sama mánuði.
    Þá ætla ég að snúa mér að næstu auðlegð Íslands, sem er landið, landið sjálft. Og hvað er það? Það er í fyrsta lagi græna beltið upp frá ströndinni. Það er útbreiddur misskilningur að aðalvandamál þeirra sem vilja rækta á þessari jörð sé glíman við kulda. Aðalvandamál þeirra sem vilja rækta á þessari jörð er glíman við þurrkana. Og glíman við þurrkana harðnar með hverju árinu sem líður. Ég efa að nokkur Íslendingur hafi dregið upp skýrari mynd af því en hæstv. núv. utanrrh. á þingi Sameinuðu þjóðanna þegar hann gerði grein fyrir því hvílíkt óhemjulandsvæði sem áður voru akrar en eru nú eyðimerkur einar, og hversu stór svæði það eru sem áður voru akrar er ekki hægt að plægja í dag vegna þess að þá mundi það svæði verða að eyðimörk. Því að eyðimerkurnar eru að færast úr stað á jarðarkringlunni og hið ræktanlega land er á undanhaldi. Það er líka umhugsunarefni að FAO hefur gefið það út að helmingi meiri þörf verði fyrir aukningu matvæla á þeim áratug sem við lifum nú á heldur en það uppskerumagn sem muni bætast við.

    Næsta auðlind Íslands sem ég vil nefna er hin ósnortna náttúra. Hin ósnortna náttúra hefur slíkt aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn að þó við höfum að mínu viti staðið illa að þeim málum þá varð 60% aukning á sl. þremur árum á erlendum ferðamönnum. Og það er umhugsunarefni að það er ekkert sem bendir til annars en að við getum stóraukið þennan þátt til eflingar þjóðartekna, þ.e. ef við höfum vit á því að standa þannig að málum að við dreifum ferðamannastraumnum um allt land en vísum þeim ekki bara á örfáa staði sem við höfum auglýst upp og stuðlum að því að allt fari í örtröð á þeim stöðum.
    Það næsta sem ég vil nefna er orka fallvatnanna og jarðhitinn. Orkan í jarðhitanum, háhitasvæðunum er helmingi meiri en í fallvötnunum og þess vegna ærið umhugsunarefni. Það er vissulega rétt að við höfum í dag þá stöðu að það er ólíklegt að málmar muni hækka í verði á næstu árum. Ástæðan er sú að það er mun friðvænlegra í heiminum en verið hefur. Og verður nú varla við nokkurn að sakast í þeim efnum. En það er ýmislegt annað sem hægt er að nota orku í og það er umhugsunarefni að skógarþjóðirnar, Svíþjóð og Finnland flytja inn mikið af trjám frá öðrum heimsálfum, m.a. Suður-Ameríku, til að vinna í sínum pappírsverksmiðjum. Jafnframt hafa Svíar gert plöntunarsamninga á landsvæðum í Suður-Ameríku.
    Við eigum ódýrari orku en aðrir í þessu sambandi sem er jarðhitinn og það er ekkert sem mælir gegn því að þetta mál verði tekið upp og skoðað t.d. varðandi Suðurnesin.
    Ég ætla að minnast hér á önnur verðmæti í iðrum jarðar. Það eru ýmsar námur til á Íslandi, en við höfum sáralítið nennt að athuga þetta. Hvernig hefur hæstv. iðnrh. gengið í olíuleitinni í Axarfirði? Vitið þið það? Það er nú ekki hægt að segja að hann hafi hlaupið af sér hornin, blessaður, við þá framkvæmd. Samt er það staðreynd að þar kemur jarðgas upp úr jörðu, sams konar jarðgas og er fyrirboði þess að olía sé undir. Það var miklu hraðari afgreiðsla Alþingis Íslendinga á ábyrgðunum til gullleitar á Skeiðarársandi.
    Ég ætla að nefna eitt enn og það er íslenska vatnið. Íslenska vatnið er auðlind. Við erum rétt að byrja útflutning á því. Það er umhugsunarefni að þegar áhugamenn tóku sig til á Snæfellsnesi og fóru að selja ölkelduvatn og auglýstu þetta upp eins og auglýsendur gera, sem góða vöru, sérstaklega góða vöru, hvað gerðist þá? Heilbrigðiseftirlitið tók vatnið í rannsókn. Það sagði að þetta væri ekkert merkilegt vatn, það væri alveg fráleitt að auglýsa þetta upp sem eitthvert sérstakt vatn. Hvað haldið þið að yrði um vissar vatnslindir Frakka, sem eru ekkert annað en ölkelduvatn, sem eru auglýstar upp með aðstoð dýrlinga hvað þá heldur annars? Það hefur ekkert heilbrigðiseftirlit í Frakklandi verið sent til höfuðs þessu til rannsóknar til að drepa það niður að hægt væri að selja ölkelduvatn frá Frakklandi. Nei, íslensk vinnubrögð eru dálítið sérstæð á sumum sviðum.
    Ég ætla næst að víkja að þeim fjórum atriðum sem ég tel að séu undirstöðuatriði þess hvernig byggðarþróun á Íslandi er á hverjum tíma. Það skal fyrst tekið fram að þar ræður gengisskráning íslensku krónunnar mestu, hvert raungengi krónunnar er á hverjum tíma. Ástæðan fyrir því að þetta ræður svo miklu um byggðarþróun er sú staðreynd að framleiðsluatvinnugreinarnar, sem standa fyrir framleiðslunni á mestöllum þeim erlenda gjaldeyri sem þjóðin notar, eru staðsettar úti á landi. Og um leið og framleiðsluatvinnugreinum Íslands er skipað að afhenda þennan gjaldeyri á lægra verði en það kostar að framleiða hann, hæstv. viðskrh., þá er verið að brjóta niður landsbyggðina og það er verið að gera það í dag með þessum vinnubrögðum. Treystir hæstv. viðskrh. sér til að reka sjoppu við Laugaveginn ef kúnnarnir sem koma inn af götunni ráða verðinu á vörunni sem seld er í sjoppunni? Valdið til að segja nei er tekið af seljandanum og honum skipað að selja vöruna út úr sjoppunni á því verði sem kúnnarnir vilja. Þetta er það sem Seðlabanki Íslands gerir hér við Arnarhól. Framleiðendur vörunnar, frystihúsin á Íslandi, saltfiskverkendur og allir aðrir sem standa að því að skapa erlendan gjaldeyri, afhenda þennan gjaldeyri í Seðlabankanum, til þess steinrunna apparats sem þar er og segir: Við kaupum hann af ykkur á þessu verði, því miður er það lægra verð en kostar að framleiða hann en okkar er valdið.
    Og hvað er boðið upp á í dag undir rós og beint þegar rætt er um þessi mál? Jú, það er boðið upp á það að menn séu svo sem reiðubúnir að samþykkja það að raungengi íslenskrar krónu verði lækkað ef sjávarútvegurinn samþykkir auðlindaskatt yfir sig í staðinn. Þetta hefur hæstv. viðskrh. látið skína í hér í ræðustólnum með því að segja að auðlindaskatturinn muni ekki skerða möguleika sjávarútvegsins þá verði önnur viðmiðun sett á gengi krónunnar. Þetta sagði hæstv. fjmrh. einnig í útvarpinu þegar hann gat þess að ef þetta yrði tekið upp yrði sett önnur viðmiðun á gengi krónunnar. Spurningin er: Er ætlunin í dag, með hinu háa raungengi, að þvinga sjávarútveginn svo á hnén að menn biðji nánast um hvað sem er?
    Ég vil vekja athygli á því að það er líka til seðlabanki í Japan og í Þýskalandi. Og þá sjaldan sem við fréttum af störfum þessara stofnana þá er það yfirleitt á sama veginn: Þessir seðlabankar eru að reyna að koma í veg fyrir það að japanska jenið og þýska markið hækki í verði. Þeir eru að reyna að koma í veg fyrir það að raungengi japanska jensins fari svo hátt upp að iðnaðarvara Japans seljist ekki erlendis. Og hvað eru þeir að gera í Þýskalandi? Þeir eru að berjast fyrir því að raungengi þýska marksins fari ekki upp svo að hægt sé að selja þýskan varning erlendis. Og hvað hefur seðlabanki Japans og seðlabanki Þýskalands gert til að ná þessu marki sínu? Þeir hafa af og til eytt óhemjuupphæðum til þess að kaupa bandaríska dollara þegar dollarinn hefur ætlað að fara niður til að koma í veg fyrir það að hann færi jafnlangt niður og þörf útflytjenda í Bandaríkjunum hefur verið. Með því að koma í veg fyrir að hann færi niður hafa þeir í reynd haldið sínum gjaldmiðli lægri en hann ella væri. Ef þeir hefðu ekki gert þetta þá hefði japanska jenið farið upp og þýska markið farið upp vegna þess að í afstæðnaheimi er það hlutfallið á milli sem skiptir öllu máli. Hlutfallið á milli í gengisskráningunni.
    Ég ætla þá að snúa mér að öðru atriðinu sem skiptir höfuðmáli í byggðarþróun og það eru samgöngur. Það eru samgöngur og aftur samgöngur. Samgöngur eru slagæðakerfi þjóðfélagsins og ef ákveðin svæði eru einangruð eins og um smáeyjar væri að ræða með því að ræna þær möguleikum til daglegra samgangna um landið þá er í reynd verið að setja þau svæði í annan flokk hvað það snertir að hafa möguleika til þess að þjóna sínum atvinnuvegum jafn vel og hin þar sem um daglegar samgöngur er að ræða. Þess vegna er það undirstöðuatriði að gera sér grein fyrir því að uppbygging vegakerfisins er eitt brýnasta verkefnið sem þjóðin hefur við að glíma ef hún vill auka sinn hagvöxt, m.a. ferðamannaþjónustuna, og ef hún vill skapa jafnræði á milli svæða í stuðningi við sína atvinnuuppbyggingu.
    Þriðja atriðið sem einnig skiptir höfuðmáli er þetta: Hvar staðsetja menn starfsmenn hinnar opinberu þjónustu? Ef við söfnum allri opinberri þjónustu á einn blett, eins og því miður hefur verið gert í allt of ríkum mæli, þá erum við um leið að færa til þann hluta íslenskrar þjóðar sem fer í nám og staðsetja hann á þeim stöðum þar sem þessi opinbera þjónusta er.
    Það er vitað að á næstu árum, næsta áratug og þar næsta, mun hvergi verða meiri fjölgun í störfum en í þjónustugeiranum. Þetta er ekkert séríslenskt lögmál. Þetta er alls staðar í heiminum. Þetta gerir það að verkum, ef þetta er skoðað, að t.d. í Svíþjóð hefur ekki aðeins 90% nýrra starfa orðið til í þjónustu, heldur yfir 100%, þ.e. það hefur fækkað í iðnaðinum, það hefur fækkað í námugreftrinum, það hefur fækkað í landbúnaðinum. Ef við berjum hausnum við steininn og segjum: Það skiptir ekki máli hvar við staðsetjum ný störf í þjónustu og færum þau öll á ákveðinn stað á landinu, þá erum við að sjálfsögðu að stuðla að því með opinberum aðgerðum í gegnum íslensku fjárlögin að byggðin færist úr stað.
    Þá kem ég að fjórða atriðinu og það er framfærslukostnaður hinna ýmsu svæða. Það eru nokkur atriði sem við verðjöfnum í þessu landi. Við verðjöfnum olíuna, við verðjöfnum landbúnaðarvörurnar. Með því að verðjafna þessa tvo þætti má segja sem svo að við hækkum verð á olíu á vissum svæðum á Íslandi. Trúlega má gera ráð fyrir því að bestu útgerðarstaðirnir væru með eitthvað lægra olíuverð, þó ekki muni miklu, heldur en það er í dag, ef þetta væri frjálst. En við jöfnum þetta og stuðlum þannig að því að allir séu með sama olíuverðið. Það sama má segja um landbúnaðarvöruna. Auðvitað væri landbúnaðarvaran ódýrari á Selfossi, Hvolsvelli og Hellu ef hún væri ekki jöfnuð. Hún væri ódýrari í Dalasýslu og Borgarfirði ef hún væri ekki jöfnuð. Hún væri hærri hér í Reykjavík. En við höfum náð sáttum um þessa stefnu og stöndum þannig að þessum málum.
    Viss atriði höfum við líka náð verulegum sáttum um. Við höfum náð sáttum um það

að koma á miklu meiri jöfnuði í símakostnaði en var áður. Þar má segja að tæknin hafi hjálpað okkur og við erum ekki með þann mismuninn sem var.
    En á einu sviði brjótum við öll markaðslögmál, rústum þau, látum handaflið ráða, og það er varðandi upphitunarkostnaðinn. Það þýðir ekkert að halda því fram að það sé einhver heiðarleiki í því þegar offramleiðsla er á rafmagni í landinu, gífurleg offramleiðsla er á rafmagni, að standa þannig að málum að segja að það sé einhver styrkur við landsbyggðina þó hún fái raforkuna þá á lægra verði til upphitunar. Það er bara kalt markaðslögmál, hún ætti að falla í verði. Henni er haldið fastri með einokun. Með einokunaraðgerðum er henni haldið fastri. Hækkanirnar á raforkunni í landinu eru svo grófar að það er búið að ljúga því að íslenskri þjóð að við skuldum Blönduvirkjun. En Landsvirkjun skuldar minna í dag en áður en Blanda var byggð. Þannig standa málin. Landsvirkjun skuldar minna í dag en áður en Blanda var byggð, það er búið að borga Blönduvirkjun kontant út úr kassanum.
    Ég hygg að jafnvel hér í þéttbýlinu sjáist þess merki hverjar eru afleiðingar af kolvitlausri verðlagningu á raforku. Er það skynsamlegt að flytja inn gas til þess að elda mat á veitingahúsunum í Reykjavík? Væri ekki skynsamlegra að nota raforkuna og selja hana þá við því verði sem hægt er að selja hana?
    Framfærslukostnaður hinna ýmsu svæða getur verið nokkuð mismunandi eins og ég hef leitt hér rök að og það er dálítið merkilegt að það er aftur á móti unnið að því með ýmsum aðferðum að koma í veg fyrir það að eðlileg hagræði landshluta, eins og t.d. Austfjarða, fái notið sín ef það er skoðað.
    Ef tollalöggjöfin íslenska væri þannig að aðflutningsgjöldin væru ekki reiknuð út af tollinum út frá einhverju meðaltali í flutningskostnaði, þ.e. að ofan á réttan flutningskostnað eins og reikningurinn hljóðaði upp á yrði skatturinn reiknaður, þá mundi bílainnflutningur Íslendinga fara í gegnum Austfirði en ekki Reykjavík. Svo einfalt er það mál. Vegna þess að það er mun ódýrara að flytja alla bílana til Austfjarða. En tollakerfið sér um það að halda þessum flutningum beint til Reykjavíkur.
    Það var verulegt umhugsunarefni fyrir mig sem landsbyggðarþingmann að horfa á það að þegar tollgæslan í Hafnarfirði sótti stöðugt á vegna sinnar þjónustu og meiri og meiri flutningur fór í gegnum Hafnarfjörð, þá var handaflinu beitt til að koma í veg fyrir það. Það var of langt frá Sundahöfn til þess að það gæti verið sanngjarnt að flytja vörur inn til landsins til Hafnarfjarðar. Svona vopnaburður á bak við er kannski eitt af því sem menn þyrftu gjarnan að skoða og hugleiða hvort það getur flokkast undir heiðarlegar leikreglur í þessu landi.
    Þá ætla ég að snúa mér að því sem hlýtur að vera þó nokkuð umhugsunarefni í þeirri stöðu sem við erum og það er sú kenning að byggðastefnan hafi brugðist. Ég er hér með grein eftir hv. 3. þm. Reykv. sem er að því leyti til fyrirmyndar fram yfir marga aðra í landinu að hann kemur mikilli hugsun fyrir í stuttu máli og verður það að segja honum til hróss. Hann segir í þessari grein að það sé skýr starfsáætlun stjórnarflokkanna --- og það efa ég ekki. Það blasir við að mikil umskipti hafa orðið í íslenskum þjóðmálum eftir að núv. ríkisstjórn komst til valda. Skýrust voru þó umskiptin hjá hæstv. forsrh. Það má segja að það sé svipað ástand með hugmyndir hjá iðnrh. og utanrrh. og var, þar eru menn í sömu stólum og þeir voru. En hjá núv. forsrh. hefur verið boðuð ný stefna í atvinnumálum og byggðamálum. Og hver var fyrstur allra Íslendinga að átta sig á þessari stefnu? Vitið þið það sem hér eruð í salnum? --- Það var ríkisendurskoðandi. Enginn maður var jafnfljótur að átta sig á þessum vatnaskilum og ríkisendurskoðandi. Hann hefur það hlutverk að skrifa undir ársreikninga Framkvæmdasjóðs, Byggðastofnunar og Atvinnutryggingarsjóðs og hann hafði skrifað undir alla þessa ársreikninga miðað við það að landinu væri stjórnað með hagsmuni atvinnuveganna fyrir augum, ásamt hagsmunum fólksins. Hann var svo snöggur að átta sig á breytingunni að þó að blekið væri varla þornað á hans fyrri undirskrift undir alla þessa reikninga, þá skrifaði hann undir nýja útgáfu af öllum reikningunum. Mér er til efs að nokkur endurskoðandi á Íslandi hafi verið jafnsnöggur að rifa seglin og breyta seglabúnaði. Milljarða töp. Og hvar er það sem hann staðfestir það hvers vegna hann gerði þetta? Það er í Morgunblaðinu, því víðlesna blaði þjóðarinnar. Hann vissi sem var að svona stórtíðindi væri ekki hægt að koma á framfæri af viti annars staðar í lesendahópnum en í

Morgunblaðinu. Stjórnarstefnan, segir hann, stjórnarstefnan kostar þetta fyrir sjóðakerfið. Svo einfalt er það. Ég hélt satt best að segja fyrst að það hefði slegið eitthvað fyrir í kollinum á þeim ágæta manni. En auðvitað var það algjör misskilningur og mín fáfræði að láta mér detta það í hug. Hann var bara með skarpari kveikju en hinir. Hann áttaði sig á því að nýja stefnan, sem var á þann veg að nú skyldi raungengið híft upp, þýddi það að hrun atvinnuvega, hrun fyrirtækja blasti við og gjaldþrot sjóðanna mundi verða niðurstaðan.
    Þetta voru merkileg tíðindi fyrir íslenska þjóð, hæstv. forsrh., að það skyldi geta gerst að sami aðilinn sem skrifað hafði undir reikninga með þessari niðurstöðu skyldi í einum grænum hvelli láta breyta öllum niðurstöðunum og skrifa undir upp á nýtt.
    Fyrir rétti gerist það stundum að vitni breytir sínum framburði. Hvað er sagt? Það er dæmt úr leik sem vanhæft til að bera vitni, af því að það er búið að breyta framburðinum. Þess vegna hlaut ríkisendurskoðandi að gera sér grein fyrir að hann yrði talinn óhæft vitni í efnahagsmálum Íslands nema hann hefði skýringar. Og hann hafði skýringarnar. Það er búið að breyta stjórnarstefnunni. Þessi breytta stefna þýðir þetta. Þetta er alveg eins og ef skipstjóri á strandferðaskipi breytir stefnunni á leið út fjörðinn og ákveður að sigla á aðra hvora fjallshlíðina. Það er auðvitað strand.
    Ég verð að segja eins og er að það hefur auðvitað komið fyrir að menn hafa hlaupið eftir alls konar villuljósum í þessum efnum. Svona til að létta andrúmsloftið langar mig til að segja hæstv. forsrh. frá því að það mun einu sinni hafa gerst þegar strandferðaskip sigldi inn fjörð á Vestfjörðum, og var farið að skyggja, að það ruglaðist á þessu rétta innsiglingarljósi og þeirri hagsýnu lausn sem ákveðinn bóndi hafði haft á því hvernig hann fór að því að handsama tvær kýr sem hann átti á kvöldin til að mjólka þær. Bóndinn vann í frystihúsinu og hafði ekki tíma til að mjólka kýrnar fyrr en komið var svartamyrkur og það var vandi að finna kýrnar svo hann hengdi bara baujulugt á aðra beljuna. Og svo þegar blessað strandferðaskipið kom siglandi inn þá stefndi það á kúna en ekki rétta ljósið og afleiðingin var strandsigling. Þetta er náttúrlega hlutur sem virðist hafa gerst á fleiri sviðum og það ber bara ekki eins mikið á þessari strandsiglingu hjá ráðherrunum því þeir eru ekkert að auglýsa það að þeir hafi horft á vitlaus ljós þegar þeir tóku stefnuna.
    Ég ætla að víkja betur að grein hv. 3. þm. Reykv., og þeirri yfirlýsingu hans, sem er nú mikið hrós um Framsfl., að hann kemst að því að meðan menn urðu að vinna með Framsfl. þá sátu þeir fastir í því að þurfa að taka tillit til atvinnuveganna. Og þessu 20 ára tímabili, þegar framsóknarmenn nánast beygðu menn til þess að starfa á þennan veg --- ég hef nú aldrei litið svo á að það hafi þurft að beygja þá menn sem þá voru í ríkisstjórn fyrir Sjálfstfl. til þess að starfa líka í þágu atvinnuveganna. Ég hef alltaf litið svo á að það væri bara sjálfgerður hlutur, að þeir töldu það eðlilegt. Þeir komu margir þaðan, fulltrúar þeirra --- að þessu tímabili, að ríkisvaldið skipti sér á einhvern hátt af atvinnuvegunum, sé bara lokið.
    Mér er ekki alveg ljóst hvort það ber að túlka þetta á þann veg að Alþfl. vilji ekki skipta sér af atvinnuvegunum eða hvort það eigi að túlka þetta á þann veg að það þurfi ekkert tillit að taka til hans. Það er nefnilega umhugsunarefnið, hv. 3. þm. Reykv. Er staðan sú að það sé betra að vera í samstarfi með leiðitömum aðilum en hinum sem rífa kjaft og heimta eitthvað fyrir sinn snúð? Þetta er stóra spurningin --- og nú kinkar hv. 3. þm. Reykv. kolli. Ég er náttúrlega ekki alveg viss um hvað það merkir. Stundum var nú talið að það þýddi já. En þegar hæstv. fyrrv. forsrh. framsóknarmanna horfði á það að núv. 3. þm. Vestf. kinkaði kolli forðum, þá sagðist hann ekkert heyra og ekkert vita hvað það þýddi en kvartaði undan því að það gæti verið að það væru bara kvarnir, en hann heyrði það ekki.
    Það er nefnilega verulegt hrós fyrir Framsfl. að fá þá umsögn sem hv. 3. þm. Reykv. gefur í þessari grein um samstarf við hann. Þetta þýðir að það verður að taka tillit til Framsfl. ef menn eru í stjórn með honum. Þetta er hárrétt athugað og þetta er skarplega athugað og þetta er niðurstaðan af 20 ára samstarfi þessa flokks við aðra.
    En vel að merkja: Hver eru hin nýju stikkorð sem okkur eru sögð í byggðamálum? Þau eru tvö. Bara tvö. Annað stikkorðið er vaxtarsvæði. Hitt flutningastyrkir til þeirra sem vilja flytja. Og þá frá hvaða svæðum? Svæðum sem ekki eru vaxtarsvæði og e.t.v. eiga þá ekki að vera vaxtarsvæði. Þarna erum við nefnilega komin að kjarna málsins.

    Ég hef flett upp í íslenskum orðabókum og orðið vaxtarsvæði er ekki til. Það er ekki til í orðabókum. Það er talað um vaxtarstað, t.d. á trjám, það vita flestir hvar sá vaxtarstaður er. Ég veit ekki hvernig þetta yrði fært ef þetta yrði fært yfir á mennina, hvar vaxtarstaðurinn væri. Ég er ekki nógu fróður um það. En vaxtarsvæði? Hvar skyldi það orð vera til? Í hvaða bókum? Sú bók þar sem ég hef fundið þetta orð heitir ,,Tillögur að fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði`` og er frá 1965. Hún er þýdd úr norsku. Og vel að merkja: Í þessari bók eru líka hugmyndirnar um flutningastyrkina frá svæðunum sem ekki eiga að vera vaxtarsvæði til svæðanna sem eiga að vera vaxtarsvæði. Og þá vaknar þessi stórkostlega spurning: Eru þetta þá nýjar tillögur í byggðamálum eða eru þetta gamlar tillögur sem búið er að dusta rykið af? Það olli mér verulegri umhugsun. Ég, sem hélt að komnar væru nýjar tillögur, hallast nú mun meira að því að þetta séu gamlar tillögur sem menn hafa dustað rykið af.
    Af því að ég er nú úr Vestfirðingafjórðungi, þar sem menn skrifuðu bækur og þar sem menn reyndu að varðveita bækur, og fæddur á þeim stað þar sem Skálda fannst, þá þykir mér það merkilegur hlutur að þessi bók, ,,Tillögur að fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði``, var látin hverfa á sínum tíma. Hún var fjölrituð í verulegu upplagi en þegar greindir menn úr Sjálfstfl. og Alþfl. fóru að lesa bókina þá komust þeir að því að alveg eins og sagt var um Njál að hann væri misvitur, þá töldu þeir að norsku sérfræðingarnir væru misvitrir og ekki væri skynsamlegt að láta þessa bók fara fyrir almenningssjónir. Hún var ekki til í bókasafni Alþingis.
    Ég átti þessa bók fyrir mörgum árum vegna þess að ég handsamaði hana nánast með ofbeldi af ágætum starfsmanni Framkvæmdastofnunar, Sigfúsi Jónssyni, sem kom vestur á firði og flutti þar erindi. Ég sagði honum að bókin væri miklu betur geymd hjá mér og ég ætlaði ekki að skila henni. En það voru svo margir sem vildu fá að lesa hana að ég tapaði henni og var þá ekki búinn að fjölrita hana.
    Hvort bókin var brennd, sett á sorphauga eða geymd í kjöllurum einhvers staðar úti í bæ skal náttúrlega ósagt látið. Allir möguleikarnir eru til staðar. En stórt upplag hvarf. Það er söguleg staðreynd. Og hvaða bókafjöldi haldið þið að sé til í Byggðastofnun? Það er til eitt eintak á norsku og eitt eintak á íslensku, merkt fyrrv. forstöðumanni áætlunardeildar í Framkvæmdastofnun ríkisins, miklum hirðumanni, sem kannski vegna þess að hann er af þessari sérstæðu þjóð kominn sem varðveitir bækur vildi ekki brenna hvert einasta eintak eða láta það hverfa.
    En það sækir á mig sú hugsun hvort e.t.v. sé til í Valhöll annað eintak af Vestfjarðaáætlun, kannski á norsku og kannski á íslensku. Af því að núv. forsrh. er fagurkeri --- því það er hann og verður ekki af honum skafið, það hafa menn séð ef menn átta sig á því á hvaða framkvæmdum hann hefur haft áhuga --- þá er ekki ólíklegt að hann hafi farið að skoða í bókasafni Valhallar hvort þar mætti finna fróðleik um byggðamál og rekist á hina týndu Skáldu.
    Nú er rétt að fara örlítið yfir bókina og átta sig á því hvað í henni stendur:
    Norðmennirnir sem skoðuðu Ísland voru hinir hæfustu menn. Einn þeirra átti eftir að verða forstjóri norsku byggðastofnunarinnar og það er stutt síðan hann lét af störfum. En þeim fannst margt merkilegt þegar þeir skoðuðu landið vegna þess að þeir höfðu ákveðnar kenningar um það hvers vegna byggð legðist af. Allt var þetta miðað við Evrópu. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í örfá atriði. Á bls. 2 stendur:
    ,,Helstu einkenni landsvæða, sem dregist hafa aftur úr í efnahagsþróun eru lágar tekjur, tiltölulega mikið atvinnuleysi, of dauft atvinnulíf og útflutningur vinnuafls til landsvæða sem meira eru þróuð.``
    Aðeins eitt af þessum þremur atriðum átti við Vestfirði, þ.e. útflutningur vinnuafls til landsvæða sem meira eru þróuð. Atvinnuleysi var ekki til. Það var bara ekki til siðs á Vestfjörðum. Menn fluttu. Menn voru ekki atvinnulausir þar. Ef þeir höfðu ekki atvinnu færðu þeir sig annað. Og meðaltekjurnar? Þær voru með því hæsta á Íslandi. Það var því ekki skrýtið þó að Norðmönnum væri brugðið. Hver skrattinn var á seyði?
    Kenningin um atvinnuleysið annars vegar og lágar meðaltekjur hins vegar passaði ekki upp á Íslendinga. Þeir höfðu lengi vitað að það voru skrýtnir menn sem bjuggu hér norður í höfum en á þessu áttu þeir ekki von. Engu að síður er hæpið fyrir sérfræðinga að

yfirgefa fræðibækurnar og kenningarnar því að það getur verið að þeir séu að eiga við einhver undantekningartilfelli og kenningin kannski að mestu leyti rétt ef um venjulegt fólk er að ræða.
    Á bls. 5 segja þeir og ítreka enn skýringarnar:
    ,,Sá mælikvarði sem mest er notaður til þess að mæla efnahagslegt misræmi á milli landshluta eru tekjur á íbúa. Rannsókn sem gerð var á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1955 sýnir meðaltekjur á íbúa á hverju svæði sem hlutfall af meðaltekjum á íbúa í viðkomandi landi og verður það mælikvarðinn á landshlutamisræmi.
     Annar mælikvarði til að sýna svæðavandamálin er atvinnuleysisstigið. Ef stöðugt er í ákveðnum landshluta stærri hluti af vinnufæru fólki án atvinnu en gildir fyrir landið í heild verður að álíta að landshlutinn sé vanþróaður. Litlir atvinnumöguleikar hlutfallslega eða lág framleiðni vinnuafls er einnig notað sem mælikvarði á svæðismisræmi.``
    Framlag á vinnandi menn í sjávarútveginum var með því hæsta á Íslandi. Atvinnutekjurnar náðu þessari hæð og atvinnuleysið var ekki til staðar. Nei, kenningarnar gengu ekki upp.
    Með leyfi forseta ætla ég að fletta á bls. 16. Þar er fyrst hreyft við kenningunni um vaxtarsvæðin. Þar segir svo:
    ,,Út frá þeim upplýsingum sem eru fyrir hendi og þeim athugunum sem hafa verið gerðar virðist eðlilegt að líta á Vestfirði sem heild og óskipt svæði að því er samgöngur og íbúa snertir. Án tillits til þeirra lagalegu marka sem fyrir eru sýnist eðlilegt við gerð framkvæmdaáætlunar að hugsa sér að svæðinu sé skipt í fjögur héruð. Gróf hugmynd um slíka svæðisskiptingu er sýnd á meðfylgjandi uppdrætti.``
    Af því að ég veit að hér eru menn sem eru vel að sér í landafræði á Íslandi ætla ég í fáum orðum að lýsa þessum fjórum svæðum. Svæði 1 var Árneshreppur og hluti af Kaldrananeshrepp. Svæði 2 var Austur-Barðastrandarsýsla og Strandasýsla fyrir utan það sem ég nefndi áðan. Svæði 3 og 4 voru svo Barðastrandarsýsla að Austur-Barðastrandarsýslu undanskilinni og Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla.
    ,,Svæði 1. Héraðið einkennist af miklum burtflutningi, lélegum samgöngum á landi og skorti á nokkru þéttbýli að ráði. Ekki er útilokað að í framtíðinni búi fólk á nokkrum stöðum á svæðinu. Miðað við t.d. norskra reynslu er þó ósennilegt að bættar samgöngur og/eða aðrar aðgerðir í sambandi við framkvæmdaáætlun mundi geta komið í veg fyrir áframhaldandi fólksfækkun. Opinberar aðgerðir á svæðinu verða því fyrst og fremst að vera af félagslegum ástæðum. Hugsanlegar aðgerðir á vegum framkvæmdaáætlunar gæti þá verið í formi flutningastyrkja frá erfiðum stöðum með það í huga að koma af stað fólksflutningi til þéttbýlli staða á Vestfjörðum í stað þess að flutt væri út af svæðinu. Þetta gæti átt við um fleiri svæði.
    Svæði 2 er í stórum dráttum að því er atvinnulíf og samgöngur snertir líkara þeim héruðum sem sunnar eru en öðrum hluta Vestfjarða. Með tiltölulega litlum kostnaði fær héraðið fullnægjandi vegasamband við þéttbýlli svæði landsins. Þar eru einnig nokkrir möguleikar á áframhaldandi þróun landbúnaðar. Þar er þó ekki neitt þéttbýli að ráði og heldur ekki fólksfjöldi til neinnar kjarnamyndunar sem gagn er að. Það virðist vafasamt hvort sérstök áætlun fyrir Vestfirði getur breytt samsetningu búsetu eða atvinnuháttum á þessu svæði svo teljandi sé.``
    Í framhjáhlaupi vil ég geta þess að þetta er svæði sem ekki átti að vera vaxtarsvæði og enginn nothæfur byggðakjarni í. Þó er staðreynd að annar af tveimur stöðum á Vestfjörðum sem mest hefur vaxið er Hólmavík og má það furðulegt heita miðað við þá umsögn að þarna sé nánast vonlaust að mannlíf fái þrifist.
    ,,Svæði 3 og 4. Í þessum héruðum er við aðalvandamálið að etja og þarf bæði að vera unnt að efla íbúafjölda þeirra og atvinnulíf samkvæmt sérstakri áætlun. Í þessum héruðum er hér um bil allt þéttbýli, iðnaður, þjónustustarfsemi og félagslegar og menningarlegar stofnanir svæðisins í heild. Ef allt þéttbýli í þessum tveimur héruðum hefði verið af svipaðri stærð og haft svipaða hafnaraðstöðu og stækkunarmöguleika á landi hefði verið nærtækast að líta á þessi tvö héruð sem eina heild. Ef svo hefði verið hefði legið beint við að benda á Þingeyri sem aðalkjarna svæðisins.``
     Innskot frá mér: Mér er sagt að dr. Benjamín Eiríksson hafi talið það eðlilegt en

Jónas Haralz og Bjarni Einarsson voru vantrúaðir á að menn kæmust til höfuðstaðarins að vetrarlagi ef aðeins yrði hafður einn flugvöllur fyrir Vestfirði.
    Þá held ég áfram lestrinum:
    ,,Tilraun til þess að gera nýjan aðalkjarna á kostnað þeirra sem fyrir eru eða í samkeppni við þá mundi þurfa mjög mikillar opinberrar aðstoðar við, hvernig sem á málið er litið. Sé tekið tillit til íbúafjöldans er raunar ekki unnt að útiloka að slík tilraun misheppnaðist án tillits til þess hvaða tæki væru notuð. Fjarlægðir eru svo litlar að hægt ætti að vera að byggja upp Patreksfjörð sem fullnægjandi aðalkjarna fyrir stað eins og Sveinseyri og Bíldudal. [Sveinseyri er Tálknafjörður.] Miðað er þá við að til þessara staða séu góðir vegir og færir allt árið. Á sama hátt ætti Ísafjörður að geta verið fullnægjandi aðalmiðstöð fyrir Bolungavík, Hnífsdal, Súðavík, Suðureyri, Flateyri og sennilega einnig Þingeyri.``
    Hér er gripið á því sem Norðmennirnir, eftir að hafa skoðað stöðuna í atvinnumálunum varðandi þjóðartekjurnar og stöðuna varðandi atvinnuleysið, töldu aðalatriði málsins og það er að koma samgöngunum í það form að það yrðu daglegar samgöngur. Sem betur fer stöndum við í dag þannig að hafin er jarðgangagerð sem þeir töldu forsenduna fyrir því að hægt væri að efla Ísafjörð. Því skyldu menn ekki gleyma --- að hægt væri að efla Ísafjörð. Vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir því að ef Ísafjörður mundi ekki eflast og ef hin svæðin færu af þá yrði þar hnignun.
    Í dag stöndum við líka í þeim sporum að loksins er komin á vegáætlun ákvörðun um að leggja nothæfan veg yfir Hálfdán.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá að fá að lesa áfram á bls. 18 forsendurnar fyrir tillögunum sem koma seinna:
    ,,Tillögurnar byggjast á þeim aðalforsendum, sem nefndar hafa verið hér að framan, nefnilega að meiri samdráttur byggðar á svæðinu sé nauðsynlegur, að opinbert framlag til svæðis 1 sé takmarkað við þær aðgerðir sem taldar eru þjóðfélagslega nauðsynlegar og að það fólk, þær fjölskyldur sem óska að flytja frá bústöðum sínum fái styrk í einu eða öðru formi ef flutt er búferlaflutningum til þéttbýlis innan svæðisins, að reynt verði að beina verulegum hluta aðgerðanna samkvæmt áætluninni til svæðis 3 og 4. Og að í þessu sambandi sé stefnt ákveðið að því að efla Patreksfjörð og Ísafjörð sem svæðakjarna.
    Miðað við ríkjandi þjóðfélagskerfi á Íslandi í dag verður verulegur hluti áætlunarinnar að felast í því að hvetja með réttum aðgerðum til framkvæmda á svæðinu á vegum einkaaðila og á annan hátt. Að undantekinni einstakri frumfjárfestingu mælir þetta með því að ekki séu sett föst tímatakmörk fyrir framkvæmd áætlunarinnar.``
    Og nú komum við að hinni sögulegu staðreynd. Það var gefin út bók um það hvernig staðið hafði verið að Vestfjarðaáætlun eftir að búið var að fara í þessar framkvæmdir. Í þeirri bók kemur fram að allt fjármagnið var notað á 3. og 4. svæðið. Sú skýring er gefin að menn líti svo á að seinna meir sé eðlilegt ef gerð verði Norðurlandsáætlun að Strandasýsla sé höfð þar með. Og að Austur-Barðastrandarsýsla verði höfð með ef gerð verði áætlun um Dali. Hliðstæð framkvæmdaáætlun og gerð var fyrir þessi tvö svæði, 3 og 4, hefur aldrei verið gerð.
    En svo komum við að hinu atriðinu. Það eru styrkirnir sem átti að veita frá svæði 1 og 2 ef menn vildu flytjast á svæði 3 og 4, og vel að merkja.
    Ég efa það ekki eitt augnablik að þáv. forsrh. landsins hafi lesið þennan texta nokkuð oft og setið hljóður og hugsað. Þessi kenning var til staðar í heiminum þá. Hún var prófuð eftir 1950 á Nýfundnalandi og hún var prófuð í Norður-Svíþjóð. Á öðrum staðnum hagaði svo til að það voru 50 manna þorp vítt og breitt með ströndinni, á Nýfundnalandi, og það átti að greiða íbúunum styrk ef þeir vildu flytja til ákveðinna staða. Tiltækið gjörsamlega mistókst eins og hver önnur hringavitleysa. Í Norður-Svíþjóð var niðurstaðan nákvæmlega sú sama.
    Þetta var kolvitlaus stefna og sem betur fer átti Sjálfstfl. þá í sinni forustusveit þá mannvitsmenn að þeir gerðu sér grein fyrir því að svona lagað gekk ekki upp. Þetta var aldrei prófað af þessum forustumönnum Sjálfstfl. eða Alþfl. sem þá tóku ákvörðun um Vestfjarðaáætlun. Þetta er kerfi sem ekki gengur upp.
    Hvernig haldið þið að hefði farið ef ekki hefði verið breytt um stefnu og stuðlað að því að Strandasýsla og Austur-Barðastrandarsýsla ættu svipaða lífsmöguleika og önnur svæði á Íslandi? Ef menn hefðu haldið fast við það að aðeins félagsleg aðstoð ætti rétt á sér á svæði 1 og 2? Þá væri Patreksfjarðarsvæðið, Vestur-Barðastrandarsýsla og Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslur eins og eyja. Eins og eyja með eyðibyggðir á leiðinni suður.
    Ég hygg að hverjum sem hefur hlýtt á þetta megi ljóst vera að kenningin um búferlastyrkina til flutninga og kenningin um vaxtarsvæðin eru teknar beint úr þessari bók, ,,Tillögur að fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði.`` Það eina sem gert hefur verið er að dusta af þeim rykið. Menn gáfu sér ekki tíma til að kanna það hvort þessar kenningar hefðu einhvers staðar í heiminum skilað verulegum árangri.
    En hvað var það sem forustumenn íslenskrar þjóðar á sínum tíma lögðu áherslu á og tóku með réttu úr þessari bók og töldu rétt? Það var kenningin um að ná byggðunum saman með bættum vegum. Það er sú kenning sem hefur verið þjóðarsátt um sl. 25 ár að berja áfram í landinu og ábyrgir menn í byggðamálum Íslands hafa varið og munu verja.
    Ég ætla líka að vekja athygli á því að í þessari bók er fjallað um strandflutninga þó að ég fari ekki út í það nákvæmlega. Þar er talið að tvær ferðir í viku til Ísafjarðar og ein ferð í viku á hina staðina séu algjört lágmark sem þjónusta í þeim efnum.
    Það er umhugsunarefni að þegar búið er að forrita mannsheilann á þann hátt að ákveðnir hlutir eru komnir fastir inn er eins og það sé erfitt, oft tvöfalt erfiði, að fá menn til að snúa frá villu síns vegar. Það er nefnilega oft svo að það að ætla að leiðrétta skekkju sem verður til og kemst þannig inn getur tekið langan tíma. Eitt dæmið sem ég man eftir um einhverja alvarlegustu skekkju sem fór inn í sænska menntakerfið og tók engan smáræðis tíma að leiðrétta var þegar sænskur prófessor í stærðfræði setti mengjakerfið inn í grunnskólana í Svíþjóð. Hann taldi sig vita betur en aðrir um það að með þessari aðferð mundi æska Svíþjóðar skilja stærðfræðina í grunn. Og völd hans voru slík að mengjakerfið var sett inn í allar kennslubækur í grunnskólunum í Svíþjóð. Svo liðu árin frá 1. bekk og þar til prófessorinn fékk þessa nemendur í tíma hjá sér í háskólanum. Þá áttaði hann sig á því að þeir kunnu minna í stærðfræði en nokkrir aðrir sem höfðu komið upp úr grunnskólum Svíþjóðar. En það skal sagt honum til hróss að hann var maður til að leiðrétta vitleysuna eftir að þessi niðurstaða lá fyrir. Þegar þessi niðurstaða lá fyrir var hann maður til að játa það að sér hefði skjátlast og það yrði að rétta kompásinn af. En það var ekkert smáræðis tímabil sem um var að ræða frá því að vitleysan fór af stað, hafði sigur, og þar til tókst að leiðrétta hana.
    Ég segi fyrir mig: Búum við í dag við það að farið verði af stað með álíka vitleysu í stefnumörkun byggðamála, að samgönguþátturinn verði settur til hliðar að einhverju leyti og menn taki upp á öðru sem var afskrifað sem raunhæf stefna í byggðamálum í Evrópu fyrir mörgum árum?
    Með leyfi forseta ætla ég að lesa enn á bls. 45 sem líka er stuðningur við drauminn um búferlaflutninginn á fólkinu:
    ,,Fyrst og fremst ætti framleiðslan`` --- þetta er landbúnaðurinn --- ,,að vera í þeim héruðum og svæðum sem best skilyrði hafa til landbúnaðar. Framleiðslan á helst að vera þannig staðsett að unnt sé með sem minnstum flutningum að sjá þéttbýlinu og svæðinu fyrir venjulegum landbúnaðarvörum og e.t.v. einnig mynda grundvöll fyrir ákveðna frekari framleiðslu á einum eða fleiri af þessum stöðum. Á landbúnaðarsvæðunum verður að vera hægt að fá nægileg ræktunar- og beitilönd fyrir þá bændur sem óska að flytja frá núverandi jörðum sínum.``
    Hvar skyldi nú þetta ónumda land Vestfjarða hafa átt að vera ef við Einar Kristinn, hv. 3. þm. Vestf., færum nú að skoða í kringum Ísafjörð? Er það í Arnardal sem við mundum setja þessa miklu landbúnaðarbyltingu af stað fyrir vestan? Er það láglendið í Önundarfirði sem er nú að mestu leyti byggt? Er það Djúpið, Skötufjörðurinn? Ætli það yrði ekki dálítið þröngt um beit ef við flyttum alla bændur úr Austur-Barðastrandarsýslu á þetta svæði? Ætli það mundi ganga upp, gróðurverndarsjónarmiðin og allt það? Nei.
    Með leyfi forseta vil ég víkja að enn einu atriði á bls. 54. Þar eru tillögurnar blákaldar eins og þær komu fram. Að opinber framlög á 1. og 2. svæði séu takmörkuð við þær ráðstafanir sem taldar eru félagslega nauðsynlegar. Að þeir einstaklingar, þær fjölskyldur sem óska að flytja búferlum fái bætur í einni eða annarri mynd ef búferlaflutningar eru til þéttbýlisstaða innan svæðisins. Að reynt verði að beina aðalhluta framlagsins samkvæmt áætluninni að 3. og 4. svæði og að í þessu sambandi verði markvisst stefnt að því að efla Patreksfjörð og Ísafjörð sem svæðakjarna.
    Herra forseti. Hverjar eru þessar félagslegu nauðsynjar á svæði 1 og 2? Það er vafalaust gert ráð fyrir að þar verði áfram eðlilegt stand í trúmálum þjóðarinnar. Skólamál, mjög trúlegt, og einhver læknisþjónusta. Þá erum við eiginlega búnir að fara yfir þetta.
    Ég segi þetta hér og nú vegna þess að það er eitt að standa þannig að málum að menn trúi því að þeir séu að koma að ónumdu landi og vilji skipa byggð á Íslandi út frá því sjónarmiði. Annað er að vilja hafa áhrif á það sem fyrir er, þann arf sem menn taka við, hvort sem menn kalla hann fortíðarvanda eða eitthvað annað. Eða vilja menn koma þannig að að þetta sé allt saman ónumið og eigi að fara að skipuleggja þetta upp á nýtt?
    Mér verður oft hugsað til þess að flestir höfum við Íslendingar sennilega innprentað að Akureyri eigi að vaxa hraðar en aðrir staðir á Norðurlandi. Hafið þið ekki, sem hér eruð inni, einhvern tíma heyrt að þetta sé staðurinn sem eigi að vaxa? Svo tekur Sauðárkrókur upp á því að vaxa hraðar og spyr bara ekkert að því. Hann hefur hvergi verið stimplaður sem vaxtarsvæði. Þetta eru bara eitthvað afbrigðilegir menn á Sauðárkróki sem lúta ekki venjulegum lögmálum, þar sem lærðir menn hafa komist að ákveðinni niðurstöðu, sem halda áfram að búa í þessum firði, gera sér glaðan dag og eiga sína sæluviku. Og Sauðárkrókur vex.
    Lítill staður fyrir vestan, sem ekki er einu sinni hafður með því nafni sem hann hefur núna, í dag er talað um Tálknafjörð, þá hann hét Sveinseyri, tók upp á því að vaxa þó að búið væri að stimpla það að Patreksfjörður væri vaxtarsvæðið og ekkert annað en Patreksfjörður. Svona getum við haldið áfram.
    Ég verð að segja eins og er að það er ekkert skrýtið þó að ungir menn sem komast til valda á Íslandi fari að skoða hlutina og sjái að við höfum ekki alltaf siglt óskabyr, búið við barning og erfiðleika við að ná hlutunum áfram. Það er hægt að sýna fram á það að mannfjöldinn er ekki jafnmikill og hann var fyrir nokkrum árum. Við höfum þó horft á það að það eru blómlegar byggðir á þessum stöðum, vel byggð íbúðarhús sem mundu sóma sér í hvaða stórborg sem er erlendis. Við viljum ekki skrifa undir það að byggðastefnan, sem notuð hefur verið í 25 ár, og miðað hefur að því að reyna að ná byggðunum saman með bættu akvegakerfi, bættum samgöngum, hafi brugðist. Við erum einfaldlega ekki búnir að framkvæma hana nema á vissum svæðum landsins. Við höfum ekki náð hinu fram enn. Með kolvitlausri gengisstefnu, með því að neyða menn til að afhenda íslenskan gjaldeyri á lægra verði en það kostar að afla hans, er hægt að rústa allt í breiðum byggðum Íslands.
    Það er nefnilega umhugsunarefni að í Japan er það ekki gert í lok laxveiðitímabilsins að fara að kíkja á það hvort jenið sé rétt skráð, eða fyrir jól og á haustdögum. Það er fyrsta verk á hverjum einasta degi og það er setið yfir því eins og við mundum vakta ísbjörn ef við teldum að hann væri að gera áhlaup á okkur. Það er setið yfir því allan daginn að fylgjast með því hvort jenið sé rétt skrásett. Hér koma menn saman, eins og ég segi, í lok laxveiðitímabilsins og á nokkrum öðrum tímum til þess að gera úttekt á þessu. Þegar semja þarf fjárlög eru settir saman nokkrir spámenn og látnir segja fyrir um þetta. Það er orðið samningsatriði í kjarasamningum hver sé gengisskráning íslensku krónunnar. Það er ekki dónalegt að eiga svona gjaldmiðil sem þarf ekki að lúta neinum lögmálum. Og menn hafa bara í hótunum ef ekki er hægt að semja um það að gengi íslensku krónunnar skuli halda sínu gagnvart japanska jeninu.
    Ég held að það sé líka þó nokkurt umhugsunarefni að á vissu tímabili á þessu 25 ára tímabili, sem ég hef gert hér að umræðuefni, var gengið látið fljóta. Það var látið lúta þeim lögmálum alveg kalt að ekki ætti að hækka raungengi íslensku krónunnar. Vissulega var verðbólga á því tímabili af ýmsum ástæðum vegna þess að menn voru ekki sáttir við þetta heldur. Það hefur líka verið verðbólga bæði fyrir þennan tíma og eftir. Þetta var frá 1974--1978 í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Þá var gengið látið fljóta og viðurkennt að það væri ekkert nema íslensk framleiðsla sem réði því hvert verðmæti íslensku krónunnar væri. Hins vegar bjuggu menn þá við það að þeir voru herskáir sem verkalýðsforingjar í landinu og á tímabili var það viðurkennd stefna í átökum við stjórnvöld að það væri

svo sem allt í lagi að framleiða á Íslandi, það væri bara bannað að flytja út. Það var sagt að það væri alveg skaðlaust fyrir þjóðina þó að þessi stefnubreyting yrði framkvæmd að hér væri bara framleitt en ekkert flutt út. Auðvitað var hægt að sprengja með svona vinnubrögðum.
    Ég vil beina þeim orðum til hæstv. forsrh. að þegar þessi bók verður aftur tekin til yfirlestrar í Valhöll, þá verði hún lesin með sömu gætni og foringjar Sjálfstfl. og Alþfl. gerðu á sínum tíma. Þeir tóku út úr þessu það sem þeir töldu að væri rétt. Þeir höfnuðu kenningunum sem voru orðnar úreltar og höfðu verið reyndar eftir 1950. Þeir gerðu sér grein fyrir því alveg eins og ég sagði áðan að misvitur var Njáll og norsku sérfræðingarnir voru með hugmyndir sem ekki gengu upp. Þær ganga ekkert frekar upp í dag.
    Hver einasti forsætisráðherra þessa lands verður að gera sér grein fyrir því að vandamál byggðar á Íslandi og í Noregi eru ekki þau sömu. Vandamál byggðar á Íslandi hafa ekki verið þau að sjávarútvegssvæði séu með lægri meðaltekjur en víða annars staðar. Vandamálið hefur verið einhæft atvinnulíf vegna þess að þjónustan hefur verið staðsett á einum stað og skortur á samgöngum. Framleiðni þeirra þegna sem þarna hafa unnið hefur verið með því mesta í landinu.
    Ég hreinlega trúi því ekki að ef menn setjast niður á nýjan leik og skoða þessi mál, afla sér upplýsinga um það hvað hefur tekist í byggðamálum og hvað hefur ekki tekist, kynna sér söguna í Norður-Svíþjóð, kynna sér söguna frá Nýfundnalandi, þá verði menn verði svo fastir í kennisetningunum að þeir átti sig ekki á því að sumt gengur ekki upp þegar menn ætla að ráða örlögum fólks. Skagfirðingar spyrja aldrei Eyfirðinga að því hvar eigi að vera vaxtarsvæði á Norðurlandi.