Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 14:25:00 (978)

     Sturla Böðvarsson :
     Virðulegi forseti. Það fer ekki hjá því að við höfum áttað okkur á þeirri staðreynd að hv. 2. þm. Vestf. er mjög gamansamur maður og hefur tileinkað sér skáldlegan málflutning, ekki síst þegar hann fjallar um byggðamál. Það er vissulega athyglisverð aðferð sem hann hefur viðhaft í þessum ræðustóli í dag. Þegar hann hefur gert tilraun til þess að draga athygli frá stefnu Framsfl. í byggðamálum undangengin ár, þá skuli hann draga upp 25 ára gamlar hugleiðingar útlendinga um það hvernig ætti að skipa byggðamálum á Íslandi. En á þetta verður auðvitað að líta í ljósi þess sem hefur verið að gerast í byggðamálum á undanförnum árum.
    Skýrsla forsrh. um Byggðastofnun sem hér er til umræðu mótast að sjálfsögðu af því ástandi sem er hjá atvinnuvegunum og menn ræða svo mjög um þessar mundir.
    Samkvæmt lögum er hlutverk Byggðastofnunar að fylgjast með þróun byggðar í landinu og gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Byggðastofnun er gert í lögum að ná þessum tilgangi sínum með því að veita lán eða annan fjárhagslegan stuðning til þess að koma í veg fyrir óæskilega byggðarröskun.
    Það fer ekki á milli mála að Byggðastofnun er meðal allra mikilvægustu stofnana í stjórnkerfi okkar og tel ég ástæðu til að nefna það vegna þess að hinir frægu sjóðir, sem síðasta ríkisstjórn setti á fót og Byggðastofnun voru fengnir til umsjónar, hafa orðið til þess að skaða mjög þá ímynd sem stofnunin hafði.
    Í atvinnulífinu sem og í opinberri stjórnsýslu er það viðurkennt að markviss áætlanagerð og skýr markmiðssetning við stjórnun verður að vera fyrir hendi ef árangur á að nást. Þetta gildir einnig í byggðamálum þar sem setja verður upp áætlanir og markmið til langs tíma.
    Það hefur verið viðurkennt takmark allra stjórnmálaflokka að halda landinu öllu í byggð og nýta þannig eftir föngum auðlindir lands og sjávar eftir því sem efni hafa verið til hverju sinni. Eftir því sem kröfur um þjónustu hafa farið vaxandi og eftir því sem hærra hlutfall íbúa landsins hefur flust á höfuðborgarsvæðið til þess að sinna opinberri þjónustu hefur orðið þyngra fyrir fæti að standa fyrir þeirri öflugu byggðastefnu sem hið stóra land okkar krefst ef markmið um byggð um allt land á að nást. Mistök í atvinnuuppbyggingu og slaki í því að móta og marka skynsamlega byggðastefnu á vegum ríkisvaldsins hefur orðið til þess að menn skella skuldinni á hina svokölluðu byggðastefnu

landsbyggðarinnar og menn komast að þeirri niðurstöðu að byggðastefna síðustu ára hafi brugðist. Vissulega er hægt að taka undir það og vissulega er margt til í því. Staða og þróun byggðar í landinu bendir til þess að ekki hafi orðið árangur í aðgerðum stjórnvalda.
    Í hvítbók ríkisstjórnarinnar er leitast við að fara nýjar leiðir, marka á þá stefnu að byggja upp vaxtarsvæði og skapa heilbrigð rekstrarskilyrði fyrir atvinnulífið og styrkja þannig byggðina, ekki síst með bættum samgöngum.
    En hverjir móta byggðastefnuna? Er hún mótuð eða á hún einungis að vera mótuð í Stjórnarráðinu, eða við Rauðarárstíginn, í höfuðstöðvum Byggðastofnunar?
    Það fer auðvitað mest fyrir umræðum um aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisvaldsins í byggðamálum. Mönnum hættir mjög til þess að ræða byggðamál eins og þau séu sérstakt óskilgreint viðfangsefni sem eigi sjálfstæða tilveru og allt standi og falli með ráðstöfunum ríkisvaldsins í byggðamálum. Auðvitað á ríkisstjórn á hverjum tíma að móta þá stefnu sem hún vill fylgja í atvinnumálum og byggðamálum. En þar eiga fleiri að komast að og þar hafa vissulega fleiri komist að. Sveitarfélögin og samtök þeirra hafa mikið að gera með byggðamál með ákvörðunum sínum. Uppbygging þjónustu og afstaða sveitarfélaga til atvinnulífsins getur haft afgerandi áhrif á byggðarþróun.
    Vandamál sveitarfélaga er hins vegar það að þau eru lítil og dreifð og oft hefur þeim verið ætlað meira en þau hafa haft bolmagn til að sinna. En alvarlegasti og um leið neikvæðasti þáttur byggðamálanna sem snýr að sveitarfélögum hefur verið viðskipti þeirra við ríkisvaldið. Þegar sveitarfélögunum hafa verið færð stóraukin verkefni án þess að þeim hafi verið tryggðar tekjur hefur það leitt til þess að þau hafa orðið vanmegnug til þess að stuðla að atvinnuþróun og taka með óbeinum hætti þátt í atvinnuuppbyggingunni. Í allt of ríkum mæli hefur verið kallað til sveitarfélaganna þegar allt hefur verið komið í strand hjá atvinnufyrirtækjunum í staðinn fyrir að skapa þeim möguleika á að vinna með skipulögðum hætti að framtíðarviðfangsefnum.
    Þær byggðir sem eiga allt undir sjávarútvegi og landbúnaði hafa orðið að bera skaðann af miklum sveiflum meðan stóru sveitarfélögin á suðurhluta landsins hafa haft tryggar tekjur af þjónustustarfsemi í landinu og starfsemi ríkisstofnana. Þessar staðreyndir þarf að hafa í huga þegar þáttur sveitarfélaganna í byggðamálum er metinn og lagðar línur um nýja sókn í byggðamálum.
    Ef marka á nýja byggðastefnu verður hins vegar að gera það á grundvelli þess að sveitarfélögin verði stækkuð. Ekki einungis út frá fjölda íbúa, heldur á grundvelli þess að sveitarfélögin sem stjórnsýslueiningar og félagslegar heildir verði sem hagkvæmastar í rekstri og í atvinnulegu tilliti.
    Þáttur atvinnulífs og lánastofnana, svo sem banka, er ekki svo lítill í þróun byggðar. Stjórnendur atvinnufyrirtækja og lánastofnana geta með sínum ákvörðunum haft meiri áhrif á þróun byggðar oft á tíðum en margar opinberar nefndir og stjórnir. Þess vegna er það afar mikilvægt að ríkisstjórn á hverjum tíma skapi almenn skilyrði fyrir atvinnulífið þannig að ákvarðanir sem lúta að einstökum byggðum verði ekki handahófskenndar og réttur fólksins sem á allt sitt undir vexti og viðgangi atvinnulífsins á viðkomandi stað verði tryggður.
    En hverjar eru horfur í byggðum landsins núna og við hverju má búast? Vissulega eru víða mjög miklar blikur á lofti en aldrei fremur en nú tel ég vera nauðsynlegt að vinna skipulega að því að efla byggðina. Þegar við lítum til þess að tekjur af stóriðju munu láta standa á sér enn um sinn er ljóst að sjávarútvegurinn er það sem við verðum að treysta á. Til þess að svo geti orðið þarf að styrkja atvinnulífið í sjávarbyggðum og efla sveitarfélögin. Samningar um hið Evrópska efnahagssvæði gera ráð fyrir því að nær allur ávinningur þjóðarinnar felist í auknu vinnsluvirði sjávarafla. Sjávarbyggðirnar eiga sem sagt og verða áfram að standa undir lífskjarabata og framförum þjóðarinnar. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að gera okkur ljósar og menn ættu að hafa í huga þegar byggðamál eru rædd.
    En hvaða markmið eigum við að setja okkur þegar vandi einstakra fyrirtækja hefur verið leystur til þess að tryggja að sjávarbyggðirnar geti staðið undir þeim kröfum sem þjóðarbúið leggur þeim á herðar?
    Í fyrsta lagi verðum við auðvitað að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og auka

vinnslu sjávarafurða í sjávarbyggðunum og stórauka og efla rannsóknir á fiskistofnum og auka tekjur sjávarbyggðanna af útveginum.
    Í öðru lagi verðum við að lækka vexti.
    Í þriðja lagi verðum við að sameina rekstur hafna og bæta hafnaraðstöðu til hagsbóta fyrir útgerðina og fiskvinnslu, svo og sveitarfélögin.
    Í fjórða lagi verður að endurskoða vegáætlun með tilliti til þess að hraða framkvæmdum sem skila mestum arði í tengslum við skipulögð vaxtarsvæði.
    Í fimmta lagi þarf að jafna orkuverð í landinu og hefur það verið margnefnt í tengslum við byggðamál.
    Öll þessi atriði þurfum við að taka til meðferðar og öll þessi atriði þurfum við að ræða rækilega þegar við fjöllum um stefnu í byggðamálum.
    Reglugerð um Byggðastofnun hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Þá reglugerð þarf að vanda mjög, ekki síst vegna þess að ágreiningur hefur verið um það hvernig stofnunin á að starfa. En umfram allt verður að forðast það að auka miðstýringu með slíkri reglugerð. Það væri óviðunandi að sæta því að fyrirgreiðsla stöðvist við tiltekin verkefni eða einstök fyrirtæki vegna þess að ekki liggi fyrir byggðaáætlun eða að stjórn stofnunarinnar geti skotið sér á bak við slíkt og stöðvað þannig stuðning við heil byggðarlög sem heimamenn eða héraðsstjórnir telja að þurfi að veita. Ný reglugerð um Byggðastofnun þarf umfram allt að dreifa valdi og kalla fleiri til ábyrgðar við að byggja upp atvinnulíf, um allt land, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessar umræður en legg áherslu á það mikilsverða hlutverk ríkisvaldsins að hafa forustu um trúverðuga byggðastefnu. Hún þarf að birtast í fjárlögum, hún þarf að birtast í því að byggður verði upp orkufrekur iðnaður í landinu, hún verður að byggjast á vegáætlun, hafnaáætlun og nýrri reglugerð um Byggðastofnun.