Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 14:37:00 (979)

     Jón Kristjánsson :
     Herra forseti. Byggðarröskun er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Allar þróaðar þjóðir eiga við þetta vandamál að stríða. Þær eiga við að stríða flótta úr sveitum til þéttbýlis, flótta frá þéttbýli til stórborga. Það er nú svo að allar þjóðir sem telja sig þróaðar vilja leggja nokkuð af mörkum til þess að berjast við þennan vanda. Og hverjar eru þær íslensku aðstæður að þessu leyti? Það hefur oft verið rifjað upp og ég fer þar fljótt yfir sögu.
    Við höfum höfuðborg sem er mjög stór á þann mælikvarða sem við berum okkur saman við. Hún, með nágrannabyggðum sem eru sambærilegar við útborgir stórborga, telur yfir 50% þjóðarinnar. Hér hefur verið viðvarandi fjölgun umfram landsmeðaltal, hér hefur ríkisvaldið aðsetur, hér er þjónustumiðstöð, hér eru æðstu menntastofnanir þjóðarinnar. Þetta eru staðreyndir sem við höfum margoft endurtekið, m.a. úr þessum ræðustól á Alþingi, en það er eigi að síður þörf á því að leggja þær til grundvallar þegar byggðamálin eru rædd. Þetta eru aðstæður sem varla eiga sér hliðstæður í nágrannalöndunum.
    Við ræðum nú ársskýrslu Byggðastofnunar sem var stofnuð sem tæki til þess að berjast gegn óeðlilegum fólksflutningum innan lands og óeðlilegri röskun byggðar. Tilgangurinn er skilgreindur í 2. gr. laga um stofnunina sem er sá ,,að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu``. Það er nú svo að þetta lagaákvæði er ekki mjög gamalt og þjóðfélagslega hagkvæm þróun byggðar er tiltölulega nýtt hugtak í lögum um Byggðastofnun. Menn geta spurt sem svo: Hvað er þjóðfélagslega hagkvæm þróun byggðar? Við höfum heyrt þær kenningar að þjóðfélagslega hagkvæm þróun byggðar sé sú að sem flestir flytjist á mölina, sem kallað var í gamla daga, og að þjóðin búi í sem mestu þéttbýli á sem minnstu svæði. Það muni verða hagfelldast að þjóna henni og ódýrast að byggja upp þjónustustofnanir með svokallaðri hagkvæmni stærðarinnar fyrir augum. Ég er ósammála þeim kenningum og ég vona að sem flestir hv. þm. séu mér sammála um það. Ég segi að slíkri samþjöppun byggðar fylgi kostnaður fyrir þjóðfélagið, meiri kostnaður en sá þó að menn láti eitthvað af hendi rakna fyrir samfélagið til þess að veita viðnám. Því fylgir kostnaður í umferðarmannvirkjum, þjónustustofnunum, skipulagningu nýrra byggingarsvæða og því fylgir að þjónustan, sem þegar hefur verið byggð upp og lagðir miklir peningar í á undanförnum árum, er til einskis gagns og þau mannvirki, sem reist hafa verið,

standa ónotuð.
    Ég varð fyrir þeirri reynslu í haust sem fjárlaganefndarmaður að ferðast um nágrannabyggðir Reykjavíkur, sem eru myndarleg sveitarfélög með mikinn metnað stjórnenda. Þær búa sig undir mannflutninga hingað, sem spáð er á næstu áratugum, með ærnum tilkostnaði og nægir að geta nýlegra frétta um skuldastöðu stærsta sveitarfélagsins í nágrenninu, Kópavogs, en þar eru menn að búa sig undir byggingu risavaxinna þjónustustofnana og verslana og skipuleggja stór landsvæði fyrir tugþúsundir fólks með gífurlegum tilkostnaði.
    Ég tel að byggð sem liggur vel við nýtingu auðlinda, að byggð sem varðveitir landgæðin og þar sem íbúarnir gæta landsins, rækta það og yrkja og sjá um hið góða land okkar, sé þjóðfélagslega hagkvæm byggð.
    Það er mikið talað um það nú að byggðastefnan hafi brugðist og mér finnst einhvern veginn eins og hver hafi það eftir öðrum eins og oft vill verða. Mér finnst eins og oft vill verða í þjóðfélagslegri umræðu að þetta sé orðin klisja. Það hallar vissulega á landsbyggðina hvað fólksfjölda snertir. En það má eins spyrja: Hvað hefði orðið ef ekkert hefði verið að gert? Ég held að þrátt fyrir allt sé víða gott mannlíf úti á landi og margt hefur verið gert.
    Hv. 3. þm. Austurl. kom að því í sinni ræðu í fyrri hluta umræðnanna að margt hefði verið gert og mörgu góðu til leiðar komið úti á landi. Ég er honum fullkomlega sammála um það. Það er ekki ástæða til þess að mála ástandið svo dökkum litum að það sé dauði og djöfull alls staðar úti á landi --- ég vona að forseti fyrirgefi mér orðbragðið. Það er nefnilega þannig að margt hefur verið gert og ef m.a. Byggðastofnunar hefði ekki notið við hefði ástandið verið miklu verra. Hins vegar mega menn vara sig á því að horfa til Byggðastofnunar eins og hún ráði yfir öllum björgunartækjum í þeim efnum. Hún er gott og nauðsynlegt hjálpartæki en það þarf fleira til en eflingu hennar. Hins vegar þarf að efla hana og það er ekki lækning við þeim vanda sem um er að ræða í byggðamálum að draga úr krafti hennar og gera hana gelda, ef svo má að orði komast. Þar er saman komin mikil þekking í byggðamálum eftir það starf sem þar hefur verið unnið. Þar er afbragðs fólk sem vill vinna að þeim málum og býr yfir mikilli þekking þar um. Þá þekkingu verður að nýta og það má ekki setja framtíð stofnunarinnar í slíka óvissu að þetta fólk hverfi til annarra starfa.
    Nú er til umræðu ný reglugerð um Byggðastofnun. Hún hefur að vísu ekki séð dagsins ljós en eigi að síður hefur hún verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og vakið harkaleg viðbrögð þó að mér vitanlega hafi hún ekki verið birt. Það mætti halda að það hafi verið stjórnarandstaðan sem veitti þessi harkalegu viðbrögð við drögum að reglugerð um stofnunina, en svo er ekki eingöngu. Stjórnarliðar hafa hrokkið við og m.a. síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Vesturl., varaði við að skerða ekki sjálfstæði stofnunarinnar um of. Ég tók ekki betur eftir en svo. Ég tók eftir því að hann lýsti sig andvígan áformum í því efni.
    Stjórnarformaður stofnunarinnar hefur brugðist harðar við en aðrir enda þekktur að því að veita viðnám þar sem hann telur að sér vegið. Við hann var viðtal í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins þann 8. nóv. sl. þar sem hann var spurður að því af fréttamanni hvort hann ætli niður í Byggðastofnun að loknu viðtali að vinna og hann segir að hann hafi sjaldan haft meira að gera heldur en þessa viku, sem var kynnt í fjölmiðlum sem frívika okkar þingmanna. Þá spyr fréttamaður: ,,Var það ekki út af reglugerðinni?`` --- Reglugerðin eru þau drög sem ég hef gert að umræðu. --- Þá segir formaður Byggðastofnunar, með leyfi forseta: ,,Reglugerðinni, ég kom ekkert nálægt þeirri reglugerð. Mér var ekki sýndur sá trúnaður að vera spurður einu orði um þessa reglugerð. Það voru einhverjir menn sem aldrei hafa komið nálægt byggðamálum sem sömdu hana. Svona gerir mönnum ljóst hvernig stendur á óánægju. Ef menn vilja skapa óánægju þá geta þeir fengið hana.``
    Það er ekki stjórnarandstaðan sem viðhefur þessi orð, þetta eru orð hv. 1. þm. Vestf., formanns stjórnar Byggðastofnunar. Hann hefur til þessa verið í miklu áliti í Sjálfstfl. og þar framámaður.
    Ég ætla ekki að gera reglugerðina öllu lengur að umræðuefni vegna þess að hún er í drögum og er ekki komin út, ég hef ekki séð hana. En ég vil vara alveg sérstaklega við

því að semja þessa reglugerð án þess að hafa samband við nokkurn aðila sem hefur komið nálægt byggðamálum í landinu.
    Ég vona að hæstv. forsrh., sem er yfirmaður þessarar stofnunar, sjái að sér og hagi störfum á þann veg á næstunni að Byggðastofnun verði efld en það verði ekki dregnar úr henni tennurnar til að fást við byggðamál. Þetta er ábending sem ég set fram í fullri alvöru og fullri einlægni.
    Það hefur verið rætt nokkuð hvað ráði búsetu fólks og hvaða atriði það eru sem ráði því hvar fólk vill búa. Þar ræður auðvitað miklu uppruni og tengsl við það byggðarlag þar sem menn eru fæddir og uppaldir. En það er þó svo í nútímaþjóðfélagi að enginn lætur setja sig niður þar sem hann hefur ekki atvinnu og þar sem hann hefur ekki atvinnu sem hæfir menntun hans. Fólk lítur á þjónustuna, fólk lítur á skólamálin, félagslíf og annan félagsskap og möguleika til tómstunda. Þessi atriði eru þung á metum. Reynslan sýnir að margir taka þessi atriði fram yfir uppgripavinnu og há laun. Sá staður sem ég á heima á, Egilsstaðir, er ekki hálaunasvæði á Austurlandi. Á þeim stað hefur fjölgað meira en umfram landsmeðaltal. Meðallaun eru þar lægri en í mörgum byggðarlögum annars staðar. Það eru aðrir hlutir þar sem laða menn að. En auðvitað sest enginn að á stað þar sem atvinnu er ekki að hafa. Auðvitað er hún þrátt fyrir þetta undirstaðan.
    Ég held að í byggðamálum sé það mikill áhrifavaldur að skólastarf hefur verið með þeim hætti að það beinir mönnum í miklum mæli inn í ýmsar sérfræðigreinar. Það er auðvitað gott og blessað. Ég hef síður en svo á móti því. Við þurfum á þekkingu að halda. En eftir því sem við fáum meira af menntuðu og sérhæfðu fólki minnka möguleikarnir fyrir það sama fólk á því að setjast að á ýmsum stöðum úti um landsbyggðina sem bjóða ekki störf við þess hæfi. Þess vegna verður að setja sér það mark að atvinnulífið úti á landi verði fjölbreyttara og vöxtur ríkisvaldsins og þjónustu hér í höfuðborginni verði ekki eins hraður á kostnað landsbyggðarinnar og hann hefur verið. Það hafa verið stigin ýmis skref sem eru til góðs, t.d. með því að stofna háskóla á Akureyri. Það var umdeilt og við vissum að það var engin eining um það t.d. meðal háskólamanna. En það varð niðurstaðan og það var eitthvert mesta byggðamál sem á eftir að hafa meiri áhrif en ýmsar aðgerðir aðrar. Og væri nú ekki raunhæft markmið að efla þennan háskóla og að vöxtur í háskólanámi yrði þar? Með því er ég ekki að neinu leyti að draga úr mikilvægi Háskóla Íslands í Reykjavík. En ég tel að það væri stórkostlega mikilvægt byggðamál að efla háskólann fyrir norðan.
    Við höfum nýverið flutt opinbera stofnun út á land, sem er Skógrækt ríkisins. Hún var flutt austur á Fljótsdalshérað. Það er mikilvægt og stofnunin veitir þar nokkrum sérfræðingum atvinnu. Það þarf að halda áfram á þessari braut. Er t.d. nokkurt vit í því að stofnanir landbúnaðarins séu í mjög miklum mæli með aðalstöðvar og tugi og hundruð starfsmanna hér í Reykjavík? Er það eitthvert náttúrulögmál að þær stofnanir þurfi að vera hér? Verða ekki forsvarsmenn þeirrar stofnunar að temja sér nýja hugsun í þessum efnum? Ég er ekkert með þessu að tala um að rífa fólk upp með rótum. Ég er að tala um að menn setji sér markmið í þessum efnum, að breyta til og temja sér nýja hugsun.
    Að undanförnu hefur stjórnsýslan hér í landinu og stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga og áhrif hennar á byggðamál verið mikð til umræðu. Það hefur verið töluvert starf í gangi til athugunar á sveitarstjórnarstiginu í landinu, hvernig megi efla það, hvort sveitarfélögin eigi að stækka. Ég er á því að þau eigi að stækka og það verði til þess að styrkja sveitarstjórnarstigið í landinu og þá verði sveitarstjórnirnar betur í stakk búnar til að taka við verkefnum frá ríkinu. Ég er á því að það eigi að koma upp héraðsstjórnum til að taka við enn þá stærri verkefnum frá ríkinu en sveitarstjórnirnar geta tekið við. En ég vil eigi að síður vekja athygli á því að þetta leysir ekki allan vanda í byggðamálum. Það er ekki hægt að kasta öllum áhyggjum sínum yfir á það að breyta um í þeim efnum að stækkun sveitarfélaga og héraðsstjórnir, ef slík skipan kæmist á, leysti allan vanda. Það mundi auðvitað vera skref á leiðinni en mér finnst stundum að menn tali eins og þetta sé einhvert lausnarorð. Þetta er ákveðið skref en ekki fullnaðarlausn, á það vil ég leggja áherslu.
    En af því að ég er farinn að tala um sveitarstjórnarstigið í landinu og eflingu sveitarfélaga þá er það náttúrlega alveg óviðunandi að slíkt ójafnræði ríki öllu lengur meðal sveitarfélaganna í landinu varðandi tekjustofna. Mig undrar það ef ætlunin er að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og hafa aðstöðugjaldið við lýði. Það voru stigin ákveðin skref í tíð síðustu ríkisstjórnar með því að breyta tekjustofnalögum sveitarfélaga. Það þarf að ganga lengra og afnema þetta aðstöðugjald og finna þar annan og réttlátari tekjustofn í staðinn. Það þarf að finna tekjustofn sem ekki er veltuskattur sem tekur ekkert tillit til afkomu þeirra fyrirtækja sem hann þurfa að greiða. Þar að auki eykur veltuskattur á misrétti meðal sveitarfélaga og verður það til þess að sveitarfélög, sem hafa þjónustugreinarnar innan sinna vébanda bæði Reykjavíkurborg, þó það sé stærsta dæmið, og önnur sveitarfélög, og það fólk, sem við þær þjónustugreinar vinnur, raki til sín tekjum af þessu aðstöðugjaldi. Þessu verður auðvitað að breyta og ganga lengra í átt til breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaga heldur en þegar hefur verið gert.
    Ég held að nú séu viss þáttaskil varðandi yfirlýsingar stjórnvalda um byggðamál og þau þáttaskil hafa verið rædd þannig að ég þarf í rauninni ekki miklu við það að bæta. Hugleiðingar um að styrkja menn til að flytja burtu frá sínum heimabyggðum eru nýjar í íslenskri pólitík. Þær hugleiðingar hafa verið á kreiki í umræðum ýmissa manna og hópa en aldrei fyrr hafa þær verið settar fram af valdamestu mönnum þjóðfélagsins. Vonandi sjá menn að sér og draga þær yfirlýsingar til baka því það er nú svo að ef gerð væri alvara úr slíku þá hefði það náttúrlega ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Með því dettur mér ekki í hug að halda því fram að byggðin eins og hún er nú verði framvegis eins og hún er núna og þar verði engin breyting á. Byggð hefur breyst í gegnum tíðina og hún mun auðvitað halda áfram að breytast. En aðgerðir til þess að flýta fyrir fóttanum frá dreifbýli til þéttbýlis munu hafa þær afleiðingar að hér verður komið eitt borgríki áður en menn depla auga.
    Varðandi þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem hafa séð dagsins ljós síðan ríkisstjórnin tók við, má segja að ekki auka þær mönnum bjartsýni í byggðamálum. Það hafa gengið um það yfirlýsingar að leysa ekki úr staðbundnum vanda. Ég er búinn að rekja reglugerðina um Byggðastofnun. Boðuð löggjöf um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins eykur mönnum ekki bjartsýni um öflugar aðgerðir í byggðamálum. Niðurskurður á Framleiðnisjóði landbúnaðarins mun ekki gefa okkur tækifæri til að hefja nýja sókn í byggðamálum. Því hefur nokkuð verið flaggað í fjárlagafrv. að þar sé raunaukning til vegagerðar og það hefur verið rætt allmikið um samgöngumál í þessu sambandi, að þau séu eitt af tækjunum til að halda byggð í landinu. Ekki vil ég draga úr því, ég er því sammála. Enda þótt sögð sé aukning í fjárlagafrv. er þar ekki um neina aukningu á framkvæmdum að ræða frá því sem áður var áformað ef nánar er skoðað. Það er aðeins svo að þar eru teknir inn hlutir sem voru ekki inni í vegáætlun áður. Auðvitað má segja að það sé aukning á vegamálum ef það er allt reiknað á fjárframlögum til vegamála. En þar er ekki reiknað með neinni aukningu á framkvæmdum.
    Sem betur fer er ekki eining um þær hugmyndir sem eru á kreiki í ríkisstjórninni að skattleggja sjávarútveginn enn frekar. Það er nú sem betur fer svo að m.a. ýmsir ráðherrar eða öllu heldur hæstv. sjútvrh. hefur brugðist harkalega við þeim hugmyndum og fengið bágt fyrir víða. Og ég held að það séu þrjár eða fjórar greinar í Morgunblaðinu í dag þar sem hann er tekinn í karphúsið fyrir þá skoðun sína. En auðvitað eykur þetta mönnum ekki bjartsýni í byggðamálum.
    Það eru líka ýmis atriði sem eru ekki svona stórvægileg, smærri atriði sem koma fram t.d. í frv. til fjárlaga. Þar kemur fram að ríkisstjórnin ætlar sér að hækka þungaskatt sem er erfiður kostur og hefur gífurlega mikil áhrif fyrir landsbyggðina og eykur þann aðstöðumun sem þar er. Ef þau áform sem í fjárlagafrv. eru ganga eftir, sé ég ekki annað en að Skipaútgerð ríkisins verði lögð af. Það þarf nú ekki að koma víða út á land til þess að finna kvíða manna á ýmsum stöðum um þau efni. En ef það er eins og formaður stjórnar Byggðastofnunar, hv. 1. þm. Vestf. segir, að allar aðgerðir séu skipulagðar af mönnum sem aldrei hafa komið nálægt byggðamálum og aldrei hafa um þau hugsað er náttúrlega ekki von á góðu. En ég hef þá trú, og það eru kannski falsvonir, að menn sjái nú að sér og fari kannski að byggja á grunni síðustu ríkisstjórnar. Ég heyrði að það væri ætlunin að lengja lán Atvinnutryggingarsjóðs og það er þá gott að sá sjóður er til og fyrrv. ríkisstjórn er búin að leggja slíkan grunn að efnahagsaðgerðum. Ég heyri að hæstv. forsrh. er farinn að tala þannig að ástandið sé alvarlegt og þurfi aðgerða við og það eru aðgerðir boðaðar á næstu vikum, en það eina sem hefur heyrst um þær aðgerðir er að það

á að byggja á þessum volaða sjóði og það á að byggja áfram á því sem hæstv. forsrh. kallar sjóðasukk og lengja lán í þeim bannsetta Atvinnutryggingarsjóði sem fyrrv. ríkisstjórn kom á fót.
    Að lokum vildi ég koma að einu atriði sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. þegar hann fylgdi skýrslunni úr hlaði og það var að hætt hefði verið við það í sparnaðarskyni að koma upp útibúi Byggðastofnunar á Austurlandi sem stjórn stofnunarinnar hafði samþykkt og var komið á framkvæmdastig eða nálægt því. Ég lýsi mikilli furðu á þessari aðgerð. Ég hefði talið að það hefði verið ástæða til að setja niður hluta af starfsemi stofnunarinnar, færa hana nær fólkinu og halda áfram þeirri stefnumörkun sem stjórnin hafði sett því að ég hef þær fregnir að þau útibú sem þegar eru komin í gang hafi reynst vel og hafi sannað gildi sitt. Það sem er enn þá furðulegra í sambandi við þetta mál er það að þessi ákvörðun virðist ekki hafa verið borin undir stjórn stofnunarinnar. Það kom m.a. fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. sem er stjórnarformaður stofnunarinnar og ég hef átt viðtöl við fleiri stjórnarmenn sem kannast ekki við að sú ákvörðun hafi verið borin þar upp. Mér þykir þetta sæta mikilli furðu og mótmæli þessari málsmeðferð harðlega og ég vil krefjast þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. Það er sagt að það eigi að leysa þetta mál með því að ráða starfsmann í hálft starf til bráðabirgða. Það eru ekki risháar hugmyndir sem menn hafa um það hvernig eigi að hefja sókn í byggðamálum á Austurlandi. Þar á að ráða einn starfsmann sérstaklega í það verkefni til bráðabirgða. Sá starfsmaður er ágætur. Ég hef ekkert annað en gott um hann að segja. En hins vegar hefði það verið myndarlegra og meira í samræmi við þann metnað sem stjórn stofnunarinnar hefur lagt í það verkefni að hefja sókn í byggðamálum að standa við þær ákvarðanir sem hún hafði tekið og sem framkvæmdastjóri stofnunarinnar hefur unnið eftir. Ég veit það að framkvæmdastjóri stofnunarinnar hefur unnið í þeim anda og ég hef enga ástæðu til að halda það að hann hafi tekið upp hjá sér að breyta þessari ákvörðun. Ég vil því spyrja: Hver tók ákvörðun um frestun? Hvernig er hún til komin? Ég vil spyrja hæstv. forsrh. sem að vísu gekk fram. En ég vona að sú fyrirspurn komist til hans hvernig þessi ákvörðun sé til komin.
    Ég held að við núverandi aðstæður hafi oft verið þörf en nú sé nauðsyn að hefja sókn í byggðamálum. Þó að vissulega hafi margt verið gert og það sé eins og ég sagði fyrr í minni ræðu alls ekki svo að byggðastefnan hafi brugðist heldur sé gott mannlíf víða út um landsbyggðina, þá eru nú þó þær blikur á lofti í málefnum undirstöðuatvinnuveganna sem landsbyggðin lifir á og öll þjóðin að nú þurfi að hefja sókn.
    Ég vil hafa það mín síðustu orð að ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér og hætti við ýmis hættuleg áform sem hún hefur á prjónunum, sbr. auðlindaskatt o.fl., og leiti nú til manna þegar hún fjallar um byggðamál sem hafa einhvern tíma komið nálægt þeim málum.