Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 16:21:00 (985)

     Tómas Ingi Olrich :
     Virðulegi forseti. Þó að allmargir þeirra sem hér hafa tekið til máls um málefni Byggðastofnunar hafi einskorðað sig við það umræðuefni hafa umræðurnar einnig farið nokkuð um víðan völl og snert byggðamál almennt. Ég hygg að óhjákvæmilegt sé að tengja þessi mál þannig saman og ég mun í mínu máli fjalla almennt um byggðamál, meira en um málefni Byggðastofnunar sérstaklega.
    Mikið hefur verið rætt um það í þessari umræðu hvernig staða byggðamála hafi verið við síðustu stjórnarskipti. Að sjálfsögðu er þarna ekki um það að ræða að menn vilji líta eingöngu til fortíðarinnar, eins og kom fram í máli síðasta ræðumans, heldur eru það eðlileg viðbrögð stjórnmálamanna, sem og annarra manna, að leita svara í fortíðinni við þeim vandamálum sem blasa við. Það er óhjákvæmilegt, hér og nú, að tala um það hvernig staðan var í byggðamálunum þegar stjórnarskiptin urðu.
    Í þessari byggðamálaumræðu hefur umræðan allt of mikið farið út í það að tengjast ákveðnum ummælum hæstv. forsrh. sem hafa verið rangtúlkuð, teygð og toguð og gerð að aðalatriði en hinu sleppt að hæstv. forsrh. hefur á ýmsum vettvangi rætt um byggðamál árum saman og sett þar fram hugmyndir sem eru þess virði að menn taki þær til umfjöllunar og taki afstöðu til þeirra. Svo mikla áherslu hefur stjórnarandstaðan lagt á það að beina umræðunni að því með hvaða hætti sé hægt að rangtúlka þessi ummæli forsrh. að það vekur sérstaka athygli og til þess hljóta að liggja sérstakar ástæður. Þó voru þessi ummæli ekki hneykslanlegri en svo að þau færðu byggðaumræðuna inn á svið sem þegar hefur verið rætt um í sambandi við þá samninga sem gerðir hafa verið við bændur, en í þeim

samningum er beinlínis gert ráð fyrir að bændum sé opnuð greiðfær leið til að bregða búi án þess að verða fyrir áföllum. Þessi hugmynd því sem slík er komin inn í umræðuna hér og um það mál sérstaklega hefur skapast allmikil samstaða.
    Ég tel að það skipti meginmáli að við áttum okkur vel á því hér hver hafi verið staðan í byggðamálum þegar stjórnarskiptin urðu. Þá lá ýmislegt í loftinu. Á annan bóginn voru miklar væntingar en á hinn mikill uggur. Hér sunnan lands voru miklar væntingar og þar létu menn sér ekki nægja að hafa væntingar, heldur voru einnig miklar framkvæmdir í samræmi við væntingarnar. Að sama skapi var víða úti á landi ríkjandi mikill uggur og áhyggjur út af þróun mála. Og hvað var það þá sem lá í loftinu? Jú, það lá í loftinu að byggt yrði álver á Suðvesturlandi, fjárfesting, ef við einskorðum okkur við álverið sjálft, sem átti að vera upp á rúmlega 40 milljarða.
    Það lá alveg ljóst fyrir og var öllum aðilum ljóst að þessi eina ákvörðun, við þær aðstæður sem þá ríktu, hefði leitt til mikils fólksflutnings hingað til þessa svæðis. Ef framkvæmdir við álverið hefðu farið af stað hefði það eitt leitt til mun meiri fólksflutninga en hér hafa verið dæmi um sl. 10 ár og hafa þó staðið yfir stöðugir fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins þau ár. Þeir hafa verið á bilinu 1500--1800, ef ég man rétt. Slíkar tölur hefðu verið smámunir einir hjá því sem gerst hefði ef af byggingu álversins hefði orðið. Með öðrum orðum, þetta var staðan við stjórnarskiptin.
    Ég held að óhjákvæmilegt sé að minna rækilega á hvernig þessi staða var í lok, eigum við að segja 20 ára byggðastefnu sem Framsfl. hefur sjálfur lýst yfir að hann hafi haft forustu um. Að sjálfsögðu hafa fleiri komið að því máli og Sjálfstfl. ekki síst og ég hygg að ef við getum orðið sammála um að skilgreina vandamál landsbyggðarinnar hafi allir flokkar átt þar hlut að máli. Hinu er þó ekki að neita að einn flokkur umfram aðra hefur skýrt sjálfan sig sem sérstakan byggðaflokk, sérstakan landsbyggðarflokk, og ekki er hægt að horfa fram hjá því hver staðan var í þjóðmálum við stjórnarskiptin þegar Framsfl. fór út úr stjórn, en þá hafði hann verið við völd nánast óslitið frá því 1971.
    Áður en ég ræði um helstu atriðin sem einkenna þennan byggðavanda okkar sem hér hefur verið til umræðu, og margir menn hafa lagt gott til þeirrar umræðu, langar mig til að nefna að byggðastefna og byggðavandi er nánast alþjóðlegt vandamál. Það er leitast við að leysa byggðavanda víða í Evrópu. Sá byggðavandi er nánast alls staðar af efnahagslegum toga og menningarlegum, en varðar einnig öryggishagsmuni. Svo að ég taki tvö Evrópulönd, annars vegar úr Norður-Evrópu og hins vegar úr Suður-Evrópu, þar sem byggðamál eru verulegt vandamál, þá vil ég nefna Noreg, en í byggðamálum Noregs blandast saman öryggishagsmunir, efnahagsleg mál og menningarmál. Ég vil einnig benda á Grikkland en þar eru nákvæmlega sömu málin uppi á teningnum. Þessar þjóðir verja á sinn hátt talsverðum fjármunum, Noregur mjög verulegum, til byggðamála en því fer víðs fjarri að byggðavandinn sé bundinn við þessi jaðarlönd. Byggðavandi er líka verulegt vandamál og hefur verið lengi í einu af Mið-Evrópulöndunum, ef það mætti segja svo, þ.e. í Frakklandi. Þar hefur mikil miðstýring tröllriðið samfélaginu ekki bara áratugum saman heldur öldum saman. Og við þessum vanda hefur verið reynt að bregðast. Ekki ómerkari maður en sjálfur Charles de Gaulle fór frá völdum vegna ágreinings út af byggðastefnu. Tíu árum seinna voru mikilvægir þættir í þeirri byggðastefnu, sem hann setti fram, orðnir að veruleika undir stjórn annars flokks en þeim hópi stjórnmálaafla sem hann stýrði.
    Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir það sem gerst hefur í öðrum löndum í þessum byggðamálum þó að það væri út af fyrir sig forvitnilegt. Ég ætla þó að geta þess vegna þess að það hefur tengsl við það sem á eftir kemur í ræðu minni. Ég ætla að geta þess sem best hefur gerst í þessum efnum og hverju það er tengt.
    Það sem hefur best gerst í byggðamálunum, m.a. í Frakklandi, tengist því að komið hefur verið á tengslum annars vegar milli ríkisins sem stundar ýmiss konar opinbera þekkingarviðleitni, vísindastarfsemi og þróunarstarf og hins vegar við atvinnulífið. Þessi tengsl gerast mjög gjarnan á héraðsgrundvelli og þar sem þetta hefur gengið best, og það á einnig í raun og veru við um Japan, hafa þróunarstofnanir, rannsóknastofnanir og vísindastofnanir ríkisins unnið í samvinnu við ákveðin fyrirtæki, myndað ákveðið efnahagsumhverfi og þróunarumhverfi á héraðsgrundvelli.
    Annað atriði, sem ég ætlaði að leggja sérstaka áherslu á í sambandi við byggðamálin og hefur vísað veginn víða annars staðar í heiminum, þar á meðal í Evrópu, er að efla sjálfstæði héraða innan landanna. Þetta á m.a. við í Frakklandi þar sem héruðin hafa rétt til að ákveða skattstofna og geta sjálf notað skattstofnana eftir því sem þeim finnst rétt að gera.
    Ef við lítum nú á íslenska byggðastefnu og veltum því fyrir okkur hvort tekist hafi að halda hér uppi eðlilegri og virkri byggðastefnu og á hvaða nótum hún hafi verið rekin, þá getum við velt því fyrir okkur hvað vísbendingarnar segja okkur. Stöðugur flutningur fólks til höfuðborgarsvæðisins sl. tíu ár og sú staða sem fyrirsjáanleg var við stjórnarskiptin að þessir fólksflutningar mundu margfaldast. Þá geta menn spurt sig að því hvort ekki sé líklegt að það hafi verið alvarlegir meinbugir á byggðastefnunni sem hér var rekin, þótt hún hafi verið rekin af góðum vilja að sjálfsögðu, af góðum vilja og eindregnum ásetningi að koma góðu til leiðar. Mér finnst rétt að það komi fram að ég mundi aldrei nokkurn tíma væna neinn af þeim mönnum sem hafa verið í þessari samkundu um að hafa ekki unnið af miklum heilindum við að finna lausn á byggðamálunum. En hinu breytir það ekki að mjög sterkar vísbendingar eru um að þessi viðleitni hafi verið á rangri braut. Ég tel mig geta fært rök að því á tiltölulega einfaldan máta.
    Sannleikurinn er sá að í gangi hafa verið í þessu þjóðfélagi tvær byggðastefnur. Önnur hefur lukkast og hin hefur mistekist. Sú fyrri, sú sem hefur lukkast, hefur verið rekin hér á höfuðborgarsvæðinu í svipuðum mæli og með sömu forskriftum og sú byggðastefna í Evrópu sem hefur heppnast hefur verið rekin. Þessi byggðastefna gengur ekki undir nafninu byggðastefna hér á Íslandi. Hún gengur undir ýmsum nöfnum. Stundum heitir hún ,,að efla íslenskt mennta- og menningarlíf``. Á öðrum tímum heitir hún ,,að efla íslenskt rannsókna- og vísindastarf almennt``. Stundum heitir hún ,,að efla stjórnsýslu á Íslandi``. Hún hefur lengi heitið ,,að efla rannsóknir og vísindi í þágu atvinnuveganna``. Hún heitir jafnvel stundum ,,að efla landsbyggðina sérstaklega`` og þá ekki síst með sérstökum stofnunum. Nú síðast í þessum þingsal, virðulegi forseti, hét þessi stefna ,,að efla íþrótta- og æskulýðsstarf`` með því að byggja fyrir opinbert fé íþróttahöll yfir heilbrigða og nauðsynlega æskulýðs- og íþróttastarfsemi.
    Í þeirri umræðu kom það fram af hálfu hv. 8. þm. Reykn. að ef við féllum frá þeim hugmyndum að byggja þessa íþróttahöll værum við að svíkja heiður þjóðarinnar og gera okkur að athlægi á alþjóðlegum vettvangi. Ég vil taka það sérstaklega fram að mér er annt um heiður íslensku þjóðarinnar en heiður er ekki hugtak sem er bara til brúks á alþjóðlegum vettvangi. Heiður íslensku þjóðarinnar er til brúks á heimavettvangi líka. Á undanförnum árum hafa verið gefin í þessum þingsal mörg fyrirheit og þau m.a. gagnvart landsbyggðinni sem ekki hefur reynst unnt að standa við og því verð ég að segja hér og nú að ég tek þau heit, sem við höfum sett okkur gagnvart þessari þjóð, alvarlegar en þau heit sem við höfum unnið á alþjóðlegum vettvangi og geri því mjög lítið með þessa athugasemd hv. 8. þm. Reykn.
    Það hefur með öðrum orðum verið rekin hér byggðastefna og í henni má sjá ákveðinn metnað þessarar þjóðar. Það hefur verið metnaður íslenskra stjórnvalda, íslenskra embættismanna og íslensku þjóðarinnar að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu myndarlega höfuðborg. Þannig er Reykjavík miðstöð allra meginþátta í þjóðlífinu, opinberu þjóðlífi sem atvinnulífi. Hún hefur orðið miðstöð stjórnsýslu með sívaxandi miðstýringu. Hún er einnig --- og ég tek sérstaklega til þess --- miðstöð samtaka atvinnulífsins og hún er miðstöð rannsókna í þágu atvinnulífsins. Hún er miðstöð menningarstarfsemi þar sem listir og afþreying er greidd á rausnarlegan hátt úr opinberum sjóðum. Ég vil vekja athygli á því að Reykjavík hefur orðið með þessum hætti miðstöð rannsókna í þágu atvinnulífsins.
    Ég gat þess áðan í máli mínu að einmitt með þeim hætti, með því að efla á héraðagrundvelli samstarf rannsóknargeirans, þekkingaröflunarinnar og þróunarstarfseminnar við atvinnulífið hefur öðrum þjóðum tekist að ná verulegum árangri í byggðamálum.
    Að sjálfsögðu hefur nákvæmlega það sama gerst hér. Með því að efla í höfuðborginni miðstöð rannsókna í þágu atvinnulífsins hefur skapast hér segull fyrir atvinnulífið sem er mjög eðlilegur. Atvinnulífið þróast í tengslum og í skjóli við slíkar stofnanir þó að starfsmenn þessara stofnana séu allir af vilja gerðir, og það eru þeir svo sannarlega, til að flytja starfsemi sína og þekkingu eins mikið út um landið og þeir frekast geta. Ég vil sérstaklega taka hér til þess að í tengslum við starfsemi Iðntæknistofunar hefur að sjálfsögðu verið búinn til alveg sérstakur þróunarvettvangur fyrir iðnfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Við erum með ýmsum hætti nánast á hverju einasta ári að bæta við þetta þróunarsvæði sem við höfum komið okkur upp hér og sem er á margan hátt nauðsynlegt fyrir okkur. Ég vil sérstaklega nefna það, af því að það er tiltölulega stutt þangað til við munum fjalla hér um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Staðlaráð Íslands, að mér kæmi ekki á óvart þó að þar væru ákvæði um að varnarþing félagsins skuli vera í Reykjavík án þess að það sé rökstutt sérstaklega.
    Ég vek athygli þingmanna á því að að þessu leyti hefur það gerst á höfuðborgarsvæðinu sem er eðlilegt að gerist í skjóli þeirrar uppbyggingar sem hér hefur átt sér stað. Það er fullkomlega eðlilegt að þetta hafi gerst með þessum hætti og þetta eru mjög áhrifamiklir þættir í þeirri byggðastefnu sem hér hefur verið rekin en sem gengur aldrei undir nafninu byggðastefna.
    Það er hægt að rekja það sérstaklega hvernig atvinnuuppbyggingin hefur verið á síðast liðnum tíu árum. Hún hefur aðallega orðið á sviði þjónustustarfsemi og aðrir þingmenn hafa orðið til þess hér að benda á þetta og ég ætla ekki að endurtaka þau orð. Einnig hafa komið fram mjög athyglisverðar upplýsingar um framlög til menningarmála sem unnar hafa verið á vegum Akureyrarbæjar og ég hef séð til þess að þau gögn hafa verið borin til menntmn. Alþingis og ég geri ráð fyrir því að hún muni taka þau sérstaklega til athugunar.
    Hvernig hefur þessi þróun, sem þannig hefur gengið fyrir sig, verið greidd? Í hverju er fólgin töfraformúlan sem hefur leitt til þessa? Það eru að vísu fleiri en ein leið til þess. Í fyrsta lagi er það grundvallaratriði að atvinnulífið sjálft hefur verið látið greiða fyrir þetta. Það er beina leiðin annars vegar sem atvinnulífið hefur verið látið fara til þess að greiða þessa miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað. Það hefur að sjálfsögðu verið þrengt að atvinnulífinu með sköttum á fyrirtæki og launafólk til að koma upp þessari miklu þjónustu sem samfélaginu er vissulega nauðsynleg. Það hefur einnig verið þrengt að atvinnulífinu með ýmiss konar laga- og reglugerðarákvæðum. En óbeina leiðin er sennilega sú leið sem hefur ráðið mestu um hvernig fjármögnunin á þessari uppbyggingu hefur verið. Fjármunir hafa verið fluttir í stórum stíl frá framleiðsluatvinnuvegunum og þá ekki síst útflutningsatvinnuvegunum til opinbera geirans og til þjónustunnar, einkum og sér í lagi á sviði innflutningsins. Þar ráða mestu tveir þættir, þ.e. langvarandi óstjórn í efnahagsmálum þjóðarinnar sem er í raun og veru hafin yfir alla flokkspólitík ef menn vilja líta á þessi mál úr nokkurri fjarlægð. Ég geri að vísu mikinn greinarmun á ríkisstjórnum og það er ekkert spursmál á þessu 20 ára tímabili, sem ég hef tekið hér til umfjöllunar, þá var gengið lengst í átt til raunveruleikans 1974--1978. Það er öllum ljóst. Mér hefur verið bent á það úr þessum ræðustól og ég held að það sé alveg hárrétt. En þessi langvarandi óstjórn í efnahagsmálum er tvímælalaust það sem hefur orðið til þess að mestir fjármunir hafa verið fluttir frá framleiðslunni yfir til þjónustunnar. Viðskiptahallinn á Íslandi er líka viðvarandi vandi.
    Virtur hagfræðingur lét þau orð falla í sjónvarpsviðtali hér fyrir skömmu að gengisskráningin hefði alltaf verið miðuð við þarfir sjávarútvegsins. Menn þurfa að vera mjög vel að sér í hagfræði til að komast að þessari niðurstöðu. Að sjálfsögðu er þessu öfugt farið og ég tek undir þá lýsingu sem hér hefur komið fram á þróun gengismála. Gengið hefur ekki verið skráð með hagsmuni sjávarútvegsins fyrir augum heldur þvert á móti hefur gengið verið skráð þannig að sjávarútvegurinn gæti skrimt á horriminni en afgangur yrði sem allra minnstur. Sjávarútvegurinn hefur þess vegna yfirleitt leikið í kringum núllið og það eru hagsmunir eyðslunnar sem hafa verið hafðir í fyrirrúmi. En þetta er að sjálfsögðu ekki nóg, þessi fjármunatilfærsla sem þannig hefur átt sér stað, því að atvinnulífinu hafa verið bundnir þungir skuldabaggar langt fram í tímann. Um þetta vottar viðvarandi halli á ríkissjóði, halli á ríkissjóði sem er líka hafinn yfir flokkspólitík.
    Yfirþyrmandi fyrirferð ríkisins á lánamarkaði innan lands er hluti af þessu vandamáli og tilheyrandi háir vextir. Þegar menn velta fyrir sér hvernig staða atvinnufyrirtækja er nú þegar upplýsingar liggja fyrir um átta fyrstu mánuðina er alveg ljóst að þróunin á lánsfjármarkaðnum hefur verið óhagstæð framan af þessu ári áður en ríkisstjórn Davíðs

Oddssonar tók við. Það er líka alveg deginum ljósara að það var búin hér til þensla á fyrstu mánuðum ársins sem hefur haft áhrif í efnahagslífinu og er hluti af þeim viðskiptahalla, þeim geigvænlega viðskiptahalla sem við stöndum nú frammi fyrir.
    Langvarandi erlend skuldasöfnun þjóðarbúsins og innstreymi erlends lánsfjár hefur í raun og veru grafið undan útflutningsstarfseminni, ekki síst með því að fölskum kaupmætti hefur verið haldið hér uppi með þessum erlendu lántökum. Löng erlend lán sem námu um 30% af vergri landsframleiðslu um 1980 námu 1989 47,4%. Þetta segir mjög einfalda sögu og afdrifaríka.
    Með þeim hætti, sem ég hef rakið hér, hefur staða fyrirtækjanna, svigrúm þeirra verið þrengt mjög verulega og þeim ýtt út í skuldasöfnun. Skuldir atvinnuveganna hafa líka aukist mjög verulega á þessu sama tímabili sem ég nefndi hér áðan. Skuldir atvinnuveganna námu um 38% af vergri landsframleiðslu 1980 en voru komnar upp í 63,5% árið 1989. Eftir því sem við sökkvum okkur dýpra í skuldafenið er það augljósara að engum er ætlað að greiða þetta í raun öðrum en atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti, í nútíð en þó kannski einkum og sér í lagi framtíð.
    Það sem ég hef rætt hér og kemur mjög inn á það sem margir ágætir þingmenn hafa fjallað um í þessari umræðu áður, þ.e. háskráning krónunnar, halli ríkissjóðs, viðskiptahallinn og skuldir þjóðarbúsins, þetta eru í raun og veru bara ýmsar hliðar á sömu óheillabyggingunni en það er háhýsi íslenskrar neyslustefnu sem jafnvel mætti kalla neysluæði. Það hefur verið ýtt undir opinbera neyslu og einnig neyslu einkaaðila en þrengt að atvinnulífinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé meginástæðan fyrir því hve illa er komið fyrir byggðum landsins. Við þessi skilyrði er eðlilegt að nýsköpun og frumkvæði eigi sér ekki uppruna í atvinnulífinu. Það er nánast kraftaverk hve mikil nýsköpun og frumkvæði á sér stað í atvinnulífinu miðað við þessar langvarandi aðstæður því að svigrúmið hefur ekki leyft þessa þróun.
    Það sem ég kemst ekki hjá að nefna í þessari umræðu er að þegar staðið er frammi fyrir þessari staðreynd, að í gegnum gengisskráninguna kannski öðru fremur hafa verið fluttir svo miklir fjármunir frá atvinnulífinu yfir til þjónustunnar, þá stöndum við enn frammi fyrir því að verið er að setja fram nýjar hugmyndir um það hvernig sé hægt að flytja fjármagn frá atvinnulífinu, frá framleiðslunni, yfir til ríkisins. Ég er að sjálfsögðu að tala um þær hugmyndir um auðlindaskatt sem hafa komið fram og þá ekki síst úr þeirri stofnun sem titlar sig ,,æðsta menntastofnun landsins`` þar sem með ýmsum hætti er rökstutt að sú hagræðing sem á sér stað innan sjávarútvegsins renni ekki til sjávarútvegsins sjálfs heldur renni hún í ríkissjóð. Með öðrum orðum, menn eru orðnir svo fastir í þessari umræðu, að sjávarútvegurinn eigi ekki að búa að sinni eigin arðsemi, það eigi að kippa henni burt, að menn eru hættir að reikna með því að úr sterku og máttugu atvinnulífi spretti nýsköpun og frumkvæði. Þrátt fyrr þá þröngu stöðu sem sjávarútvegurinn hefur lengstum verið í hefur hann samt sem áður lagt fé í nýsköpun og þróun. Og það verð ég að segja að miðað við allar aðstæður, eins og ég sagði ykkur áðan, tel ég það ganga kraftaverki næst.
    Sjávarútvegurinn er þegar byrjaður að fjárfesta í ýmsum öðrum greinum atvinnulífsins. Auðvitað er það eðlilegri leið að fjármunirnir sem til verða í sjávarútveginum, m.a. í gegnum hagræðinguna, finni þann farveg inn í atvinnulífið en að hann leiti fyrst í ríkissjóð og síðan þaðan, væntanlega fyrir tilstilli stjórnmálamanna, inn í atvinnulífið.
    Ég hef með þessum orðum mínum leitt rök að því, eins og raunar margir aðrir þingmenn, að blóðtaka á íslensku atvinnulífi sé meginorsökin fyrir því hve aðrir landshlutar en höfuðborgarsvæðið hafi búið lengi við þröngan kost. Ég hef nefnt tvær höfuðorsakir, annars vegar þessar aðferðir sem notaðar hafa verið til að þrengja að atvinnulífinu og minnka svigrúm þess, en svo hins vegar þessa byggðastefnu sem ég kallaði svo, sem hefur verið rekin fyrir höfuðborgarsvæðið og hefur haft í för með sér að hún hefur verkað sem segull á atvinnulífið.
    Þessir tveir samverkandi þættir og þó einkum og sér í lagi blóðtakan á atvinnulífinu og óstjórnin í efnahagsmálum hafa dregið úr siðferðisþreki landsbyggðarinnar og lamað frumkvæði og sjálfstraust innan atvinnulífsins. Það sem alvarlegast er við þetta er það að atvinnulífið, framleiðslan, hefur smám saman komist í hlutverk þiggjanda í þessu samfélagi. Þá kemur til hin byggðastefnan, þ.e. sú stefna sem venjulega gengur undir nafninu byggðastefna, björgunarstefnan, sú viðleitni að stumra yfir atvinnulífinu þegar að því er þrengt, að stumra yfir atvinnulífinu sem þjáist í raun og veru, einkum og sér í lagi af blóðtöku. Það er þessi byggðastefna sem ég held að hafi verið rekin á röngum forsendum vegna þess að það eru öfugmæli og óviðunandi til lengdar að atvinnulífið og framleiðslan séu í hlutverki þiggjandans í samfélaginu. Það gengur ekki. Það er einmitt þetta sem hefur einkennt þessa byggðastefnu, að atvinnulífið hefur verið í hlutverki þiggjandans en hinn opinberi aðili í hlutverki veitandans.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það sem einkenndi bjargráð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, en ég verð þó að segja eins og er að erlend lán til að fresta vanda og opinber fyrirgreiðsla til ákveðinna fyrirtækja, sem hafa svo áhrif á rekstur annarra fyrirtækja sem eru í sambærilegum rekstri, eru óviðunandi aðgerðir sem hafa í raun hindrað endurskipulagningu í stað þess að auðvelda hana. Þannig hefur verið þrengt að þeim fyrirtækjum í samkeppninni um hráefnið, mannaflann, sem hafa ekki notið fyrirgreiðslu frá ríkinu.
    Því stendur fyrir dyrum það hlutverk að reyna að leysa atvinnulífið úr viðjum of þungra ríkisumsvifa, að leysa það úr höftum sem á það eru lögð vegna ofneyslu ríkis og einstaklinga. Það þarf að leysa atvinnulífið úr viðjum hárra vaxta sem tengjast að sjálfsögðu ofneyslu ríkisins og of þungra ríkisumsvifa og það þarf að leysa atvinnulífið úr fjötrum erlendra lánastofnana. Með öðrum orðum er ekki hægt að snúa við þessari þróun og móta nýja byggðastefnu án þess að atvinnulífið og framleiðslan njóti forgangs og innan atvinnulífsins komi fram kraftur nýrra framfara. Og það mun verða svo fremi sem atvinnulífið fær að njóta eigin verðmætasköpunar, eigin hagræðingar og endurskipulagningar, ef atvinnulífið fær frið til að veita eigin hagnaði í atvinnuuppbyggingu.
    Ég tek það fram, um leið og dregur að lokum míns máls, að byggðastefnan og byggðavandamálin eru aðeins öðrum þræði efnahagslegt vandamál. Þau eru ekki síður menningarlegt vandamál. Mikið hefur verið fjallað um ummæli hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar um byggðastefnu og ég ætla að gera að umtalsefni nokkrar hugmyndir sem hann hefur komið á framfæri á ýmsum vettvangi um byggðamál.
    Meðal þess sem hæstv. forsrh. hefur látið frá sér fara er lýsing hans á því hversu nauðsynlegt það hefur verið þessu samfélagi að byggja upp sterkan borgarkjarna. Það hafi í raun og veru eflt stöðu okkar í samkeppni þjóðanna um íslenskan mannafla og íslenska þekkingu og menntun. Það hafi í sjálfu sér gert okkur kleift að standast samkeppni við önnur lönd. Ég hygg að það sé mikið til í þessum rökum, að þetta mikla átak sem við höfum gert í því að byggja upp menningarsamfélag sem er þéttbýlissamfélag að hluta til, öll sú mikla rannsóknarstarfsemi og menningarstarfsemi sem hér hefur safnast saman, hafi á vissan hátt auðveldað okkur að standast samkeppnina sem er háð á milli þjóða um menntafólkið, þekkinguna og þessa auðlind sem mannaflinn er. Á sama hátt og hæstv. forsrh. hefur lýst þessum sjónarmiðum hefur hins vegar einnig komið skýrt fram í máli hans, ég held að ég muni það rétt að það hafi komið fram á landsfundi Sjálfstfl., að nú sé svo komið að höfuðborgarsvæðið sé orðið sjálfbært ef svo mætti segja, þurfi ekki lengur á þessu átaki þjóðarinnar allrar að halda og nú sé tími til að endurskoða þetta og snúa sér að uppbyggingu á fleiri stöðum.
    Ég held að ég geti að mörgu leyti tekið undir þetta. Ég held að við getum ekki horft fram hjá því að við þurfum að skapa atvinnulífinu umhverfi víða á landinu sem er sambærilegt við það sem hefur gerst á höfuðborgarsvæðinu. Og ég held að við eigum að líta sérstaklega til rannsóknastofnana sem tengdar eru atvinnulífinu og athuga það í fullri alvöru hvort ekki er hægt að efla, með samstarfi rannsóknastofnana og atvinnulífsins, einmitt á héraðsgrundvelli eins og hefur verið gert hjá öðrum þjóðum, sérstakt framtak hér á Íslandi.
    Mikilvæg skref hafa verið stigin í sambandi við þetta, t.d. með stofnun Háskólans á Akureyri, með sérhæfingu þeirrar stofnunar á sviði sjávarútvegs, en enn sem komið er er þó skilningurinn á þessari stofnun takmarkaður. Ég tel hann t.d. vera takmarkaðan innan Háskóla Íslands og það vantar mikið upp á það enn að við getum sagt að Háskólinn á Akureyri sé kominn af byrjunarstiginu. Mjög mikið vantar upp á það enn þá. Til þess

að svo megi verða er að mínu mati nauðsynlegt að taka til endurskoðunar þá stefnu sem hefur ríkt hér í sambandi við rannsókna- og þróunarmál sjávarútvegsins og að því máli mun ég koma síðar á þessum vettvangi. Einnig var mikilvægt þegar Skógrækt ríkisins var flutt austur á land. Ég er þeirrar skoðunar að hvort sem við tölum almennt um landbúnaðinn og rannsóknastofnanir hans ellegar sérstaklega um Skógræktina og rannsóknastofnanir hennar þá eigi að skoða það í fúlustu alvöru hvort ekki eigi að flytja þessar rannsóknastofnanir líka út á land.
    Um leið og ég hef gert lítillega að umræðuefni þær hugmyndir sem hæstv. forsrh. hefur sett fram um byggðarþróun, sem ég tel að mörgu leyti vera skynsamlegar, verð ég að vekja athygli á því að það er nokkuð breyttur tónn sem heyrist nú frá höfuðborgarsvæðinu. Ég er með í höndunum blað sem mér var sent af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í leiðara þess segir, og ég ætla að fá að vitna í þennan texta, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í hinu pólitíska landslagi og umræðu í þjóðfélaginu þarf höfuðborgarsvæðið að snúa vörn í sókn. Flutningur fólks af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið þarf ekki endilega að vera vandamál. Öflugt borgarsamfélag er hverju ríki nauðsyn og forsenda framfara hvers þjóðfélags. Efling höfuðborgarsvæðisins kann að merkja annað og meira en niðurníðslu og stöðnun á landsbyggðinni. Landsbyggðin stendur ekki jafnfætis höfuðborgarsvæðinu varðandi menntað og þjálfað vinnuafl. Þannig getur það ekki orðið og annað í raun óeðlilegt. Sterkur borgarkjarni hlýtur að taka til sín hæfasta og menntaðasta vinnuaflið því að þar er aflvaki framfara á sviði nýsköpunar, hvort sem um er að ræða í atvinnu- eða menningarlífi.``
    Hér kveður við nýjan tón. Hér er blásið til sóknar á sömu braut og hingað til hefur verið stigin. Hér er með öðrum orðum ekki sagt, eins og hæstv. forsrh. hefur lagt áherslu á í sínu máli, að borgin njóti nú eins konar sjálfbærrar þróunar, geti bjargað sér sjálf, vegna þess að þjóðin hafi í langan tíma einbeitt sér að því að byggja hér upp atvinnu- og menningarlíf, heldur er sagt að þetta sé lögmál. Það er sagt að þetta sé lögmál. Ég endurtek hér, með leyfi virðulegs forseta: ,,Sterkur borgarkjarni hlýtur að taka til sín hæfasta og menntaðasta vinnuaflið því að þar er aflvaki framfara á sviði nýsköpunar, hvort sem um er að ræða í atvinnu- eða menningarlífi.`` ( Gripið fram í: Hvaðan er tilvitnunin tekin?) Tilvitnunin er tekin úr leiðara blaðs sem gengur undir nafninu SSH og er gefið út á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Ég hygg að rétt sé að taka fram að þessi tónn ber vott um allmikla sjálfumgleði og þó nokkra vanþekkingu á eðli og sögu íslenskrar menningar.
    Sannleikurinn er sá að þótt leiða megi mjög sterk rök að því að það hafi orðið okkur til góðs að hér risi mjög sterkur borgarkjarni þá hefur íslenskt samfélag aldrei verið sterkt vegna þess að það væri þéttbýlissamfélag. Styrkleiki þessa samfélags hefur miklu frekar komið úr annarri átt. Ég minnist þess ekki að sérstöðu Íslendinga á sviði sagnaritunar megi rekja til þess að hún eigi eitthvað skylt við þéttbýlissamfélag og raunar er hægt að segja um öll meiri háttar afrek okkar á undanförnum öldum að þau verða ekki rakin á nokkurn hátt til þess að við lifum í þéttbýlissamfélagi. Ég held þess vegna að mikilvægt sé að menn skilji að um þessi nýju viðhorf innan höfuðborgarinnar getur ekki orðið sátt, um þau verður aldrei sátt og í þeim viðhorfum er engin framtíð fólgin fyrir þetta samfélag.
    Ég lýk máli mínu með að segja að við þau tímamót sem verða þegar ný ríkisstjórn tekur við er eðlilegt að staldra við, reyna að meta stöðuna og velta því fyrir sér í fyllstu hreinskilni hvað hafi brugðist og hvað þurfi að gera til að málin þróist með eðlilegri hætti. Það bíður okkar að veita atvinnulífinu aukið svigrúm. Alls staðar í heiminum er verið að búa í haginn fyrir aukna samkeppni. Íslendingar, sem stunda mjög alþjóðleg viðskipti og eru fyrirferðarmiklir á sinn hátt í alþjóðlegum viðskiptum, lifa af alþjóðlegum viðskiptum, verða að taka þátt í þessari auknu samkeppni. Í þessari sérhæfingu nútímans verðum við að nýta okkur sérstöðu Íslands, þ.e. nýta okkur náttúruauðlindirnar en nýta okkur einnig mannaflann, og við verðum að stuðla að því að þessi mannafli sem hér starfar öðlist sveigjanleika og aðlögunarhæfni sem er nauðsynleg í þessari auknu alþjóðlegu samkeppni sem við munum taka þátt í hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Einnig er mikilsvert að þegar við tökumst á við þennan vanda stöndum við föstum fótum á vettvangi þjóðlegra verðmæta.