Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 18:35:00 (988)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í tilefni af ræðu síðasta ræðumanns vil ég taka fram að ég ætla ekki að fara út í hugmyndafræðilegar umræður á þessu stigi málsins. Hins vegar langar mig að nefna það að í minni ræðu kom hvergi fram nokkurt mat á því að þessi fjárhæð, 12 milljarðar, til Byggðastofnunar væri of há. Það sem ég benti á var að ég teldi að fjárhæðinni hefði verið illa varið og menn geta síðan deilt um það, en ég benti á í minni ræðu og vísaði m.a. til ummæla Áskels Einarssonar um það hvernig byggðastefnan hefði farið. Ég tel að ef menn leggja þann mælikvarða á stöðu fyrirtækja úti á landsbyggðinni eða á flutning fólks frá landsbyggðinni til þéttbýlis á þeim árum sem þessum 12 milljörðum hefur verið varið á fjárlögum til Byggðastofnunar geti þeir líka komist að þeirri niðurstöðu að þessari fjárhæð hafi ekki endilega verið vel varið.
    Ég vil líka vegna þess sem hv. síðasti ræðumaður sagði um áætlanagerðina taka fram að í minni ræðu varaði ég við því að auknar byrðar yrðu lagðar á Byggðastofnun vegna áætlanagerðar.