Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 18:38:00 (991)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart þó að umræður um byggðamál verði nokkuð fyrirferðarmiklar á þessu þingi. Þær eru í eðli sínu þannig að þær hljóta ávallt að vera það, en aðstæður hafa verið þannig í þjóðfélaginu síðan núv. ríkisstjórn tók við og yfirlýsingar einstakra ráðherra með þeim hætti að það kallar á mun viðameiri umræðu um þessi mál en venja er til.
    Það sem einkennir kannski einna helst þá umræðu sem verið hefur á vegum núv. ríkisstjórnar og er frábrugðin því sem menn hafa átt að venjast virðist vera gjörólík nálgun viðfangsefnisins og að mörgu leyti allt annað hugarfar á bak við verkefnið. Ég held að rétt væri að rifja aðeins upp nokkur ummæli til þess að glöggva sig á hvernig þessi nýjung er, í hverju þessi breyting er fólgin. Þar verður af eðlilegum ástæðum nokkuð að vitna til hæstv. forsrh.
    Ég byrja þó á að vitna í hæstv. ráðherra áður en hann varð ráðherra, vitna í hann frá þeim tíma þegar hann var nýkjörinn formaður Sjálfstfl. og flutti sjónarmið sín yfir landsfundarfulltrúum að afloknu kjöri. Ég tek stuttan kafla úr þeirri ræðu sem birtist í málgagni sjálfstæðismanna á Vestfjörðum svo að ætla má að rétt sé þar með farið. Með leyfi hæstv. forseta er tilvitnunin þannig:
    ,,Við sjálfstæðismenn viljum engar kollsteypur. Við viljum ekki sjá landið okkar sporðreisast. Við viljum að byggðirnir allar hafi sem besta möguleika og jafnasta. Það hlýtur að vera forgangsverkefni á Íslandi að skapa þau skilyrði sem skynsemin segir okkur að ekki megi bresta, skilyrði þess að menn njóti verka sinna, afls og áræðis hvar sem þeir búa. Þegar til lengri tíma er horft, þá getur það ekki orðið nema til skaða ef öfluga og lífvænlega byggð er ekki að finna hvarvetna um landið.``
    Þessi ræðustúfur kemur í sjálfu sér engum á óvart. Hann er í góðu samhengi við annað sem menn hafa sagt, bæði úr hans flokki og annarra, um áherslur í byggðamálum. Það sem má kannski segja um þessa tilvitnun er að þar er fastar kveðið að orði en menn hafa oft gert, samanber það sem hér stendur, hvarvetna um landið. Lífvænleg byggð verður að vera til hvarvetna um landið.
    Hæstv. forsrh. segir einnig í þessari ræðu: ,,Ég tel að allar byggðir landsins eigi Sjálfstæðisflokkinn skilið.`` Þetta sagði hæstv. núv. forsrh. fyrir kosningar. Hvernig skyldi viðhorf manna vera til þessa nú? Skyldu menn taka undir það úti á landsbyggðinni að þeir telji sig eiga Sjálfstfl. skilið?
    Við skulum líta á nokkur ummæli sem eru af allt öðrum toga en þau sem ég vitnaði til sem sýna að hæstv. ráðherra hefur í raun og veru allt aðra hugsun en hann opnaði fyrir kosningar. Ég tek dæmi úr Tímanum laugardaginn 19. okt. Þar er vitnað í ráðherrann á flokksráðsfundi Sjálfstfl. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Við getum ekki mælt með þeirri byggðastefnu sem felst í því að sérhverju fyrirtæki skuli hjálpað, hvernig svo sem því fyrirtæki er stjórnað og hvernig svo sem tilverumöguleikar þess án eiginlegra styrkja og stuðnings geti verið.``
    Þetta er nokkuð nýtt. Og enn vil ég vitna í hæstv. ráðherra, á Rás 1, í hádegisfréttum, 18. okt. Þar segir ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Óhjákvæmilegt er að fara nákvæmlega ofan í þessa þætti og skoða hvað er að gerast, skoða hvort það geti verið að víða um landið sé launum manna og þjónustu á vissum stöðum haldi niðri vegna þess að fyrirtækin eru óhagkvæm og byggðin of smá, vegna þess að sameining og hagræðing hefur ekki átt sér stað og vegna þess að tilteknar byggðir geti tæpast lengur átt rétt á sér.``
    Hér er ég líka með tilvitnun í Rás 2, 17. okt., Þjóðarsálina. Þar er hæstv. ráðherra að ræða við Eirík Stefánsson sem býr á Fáskrúðsfirði, en þaðan munu afi og amma ráðherrans hafa verið. Þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: ,,Við erum ekki að lofa því, ég verð að taka það fram, við erum ekki að lofa því að setja peninga í hvert einasta byggðarlag í landinu og halda þeirri skipan sem nú er.``
    Hér kveður vissulega við gjörbreyttan tón hjá formanni Sjálfstfl. eftir kosningar frá því sem var fyrir kosningar. Nú er það ekki lengur hvarvetna um landið sem lífvænlega byggð verður að finna, heldur er opnaður sá möguleiki að breyta skipaninni eins og hún er, leggja af einstök byggðarlög. Meira að segja er opnuð ný hugsun, að það geti verið að það fólk sem býr í einhverjum ótilgreindum byggðarlögum, sem ekki hefur fengist upplýst hver eru, eru þjóðfélaginu svo dýr að verið gæti að það fólk væri þess valdandi að halda niðri launum fólks annars staðar.
    Ég spyr: Hvar er það á Vestfjörðum sem fólk býr í sjávarplássum sem eru þjóðfélaginu svo dýr að það veldur því að kjörum fólks í Reykjavík er haldið niðri? Og ég spyr enn vegna þeirrar tilvitnunar sem ég var með í hádegisfréttir á Rás 1 18. okt.: Hvaða byggðir eru það sem geta tæpast lengur átt rétt á sér, hæstv. forsrh.? Út frá hvaða mælikvörðum er það fundið að einhver byggð sé þannig að hún eigi ekki rétt á sér? Hvaða mælistiku bregða menn á loft til að reikna það út?
    Til þess að varpa skýrara ljósi á baksvið þessa nýja hugsunarháttar vitna ég í annan borgarfulltrúa í Reykjavík sem hefur þá stöðu og þann trúnað og traust innan Sjálfstfl. í Reykjavík að honum hefur verið lyft til þeirra metorða að verða formaður SSH eins og það heitir, Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sá ágæti borgarfulltrúi heitir Sveinn Andri Sveinsson. Hann hefur ekki þá skoðun að það halli á landsbyggðina í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Hann hefur hina þveröfugu skoðun og telur að of mikið sé gert fyrir landsbyggðina og fyrirtæki þar borið saman við fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að rekstrarumhverfi sé óheilbrigt á þann veg að það sé of gott á landsbyggðinni en ekki nógu gott á höfuðborgarsvæðinu. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. okt. segir svo, með leyfi forseta :
    ,,Í erindi Sveins Andra kom fram skoðun hans að flutningur fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins þyrfti ekki að vera vandamál. Landsbyggðin stæði ekki jafnfætis höfuðborgarsvæðinu varðandi menntað og þjálfað vinnuafl. Sterkur borgarkjarni hlyti að taka til sín hæfasta og menntaðasta vinnuaflið því að þar væri aflvaki framfara á sviði nýsköpunar hvort sem um væri að ræða atvinnu eða í menningarlífi.``
    Þar er Paradís á jörð, virðulegur forseti. Þetta er sjónarmið Reykjavíkuríhaldsins sem leggur þessari ríkisstjórn til oddvitann til að framfylgja stefnu Reykjavíkuríhaldsins. Þetta er það baksvið sem ríkisstjórnin byggir sínar áherslur á í byggðamálum. Og hæstv. forsrh. leggur til meira til þess að menn geti glöggvað sig vel á því hvernig hann skilgreini vandamálin. Með leyfi forseta vitna ég til stefnuræðu hæstv. forsrh. sem flutt var 10. okt. sl.:
    ,,Þá hafa svonefndar björgunaraðgerðir, þar sem stofnað var með erlendum lántökum til nýrra millifærslusjóða, ekki leyst nokkurn vanda. Í stað þess að taka á rekstrarvanda, sóun og óráðsíu voru fjármunir þessara sjóða notaðir eins og deyfilyf sem dælt var í helsjúkt atvinnulífið. Á meðan lyfin verkuðu var látið sem allt væri komið í samt lag. Því miður var þá horft fram hjá því að erfið staða fyrirtækjanna gæti stafað af mistökum eða óvarkárni stjórnenda þeirra. Þetta var þáttur í stefnu fyrrv. ríkisstjórnar sem ekki vildi beita almennt viðurkenndum hagstjórnaraðferðum en trúði á lækningamátt opinberrar íhlutunar. Í stað þess að hamla gegn útgjaldaþenslu ríkissjóðs og búa útflutningsgreinum viðunandi starfsskilyrði voru skattar hækkaðir, raunvextir hækkuðu sífellt og erlendu lánsfé var beint í gegnum millifærslusjóðina til að lina þjáningar þeirra fyrirtækja sem verst stóðu að mati trúnaðarmanna ríkisstjórnarflokkanna í sjóðunum.
    Þessir stjórnarhættir sem hér er lýst höfðu ekki aðeins í för með sér mismunun fyrirtækja heldur komu þeir í veg fyrir eðlilega þróun atvinnulífsins þar sem þeim var haldið á floti sem nutu velvildar stjórnarherranna.``
    Hverjir gengu á fund hæstv. forsrh. í gær? Hverjir skyldu það hafa verið? Voru það menn sem komu á vegum fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum vegna mistaka eða óvarkárni stjórnenda þeirra fyrirtækja? Voru það menn sem komu á vegum fyrirtækja sem nutu velvildar trúnaðarmanna fyrrv. ríkisstjórnarflokka? Voru það menn sem komu frá fyrirtækjum sem var haldið á floti vegna þeirrar velvildar?
    Hæstv. forsrh. hefur sagt mikið og ég er út af fyrir sig nokkuð undrandi á því að þingmenn Sjálfstfl. skuli láta bjóða sér slíkan málflutning í ljósi þeirrar samþættingar á Sjálfstfl. og atvinnulífi sem er víða um landið og kannski ekki hvað síst á Vestfjörðum.
    Þetta er málflutningurinn sem menn hafa mátt búa við eftir kosningar, svo burðugur sem hann nú er og svo heilsteyptur sem hann er. Þetta er ein mesta kúvending sem ég hef orðið vitni að hjá einum stjórnmálamanni eftir því hvort hann talar eftir kosningar eða fyrir. Það væri helst hæstv. heilbrrh. sem kæmist með tærnar þar sem hæstv. forsrh. hefur hælana í þeim efnum.
    Hvenær vill forseti gera hlé á fundinum? ( Forseti: Ef hv. þm. á mikið eftir af sinni ræðu yrði forseti að biðja hann að gera hlé á henni, en hins vegar er allt í lagi að halda áfram enn um sinn.) Virðulegur forseti. Ég er rétt að ljúka inngangi að ræðu minni þannig að nokkuð er eftir. ( Forseti: Sé svo og ef það er heppilegt fyrir hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni núna væri það kannski ekki verra. Hann héldi þá áfram í kvöld þegar fundur hefst að nýju kl. 9.) Til að hafa skýr kaflaskil gæti ég haldið áfram svona í 5--7 mínútur. ( Forseti: Já, það er í lagi. Forseti er sammála því.)
    Ég lýk inngangi að ræðu minni með því að vitna til ummæla nokkurra manna einmitt um þennan nýja hugsunarhátt sem hin nýja viðreisnarstjórn hefur teflt fram. Ég ætla ekki að þreyta menn á því að vitna í menn eins og hv. 1. þm. Vestf. Mönnum er það öllum í fersku minni hver afstaða hans er. Ég dreg fram aðrar tilvitnanir sem hafa kannski ekki verið settar fram áður til að gefa þessu meiri breidd. Mig langar t.d. að vitna í grein í Þjóðviljanum 25. okt. þar sem rætt er við sveitarstjóra á Vestfjörðum. Ég vitna í tvo þeirra. Annar heitir Einar Mathiesen og er sveitarstjóri á Bíldudal. Hinn heitir Snorri Sturluson og er sveitarstjóri á Súgandafirði.
    Ég vitna fyrst, virðulegur forseti, í Einar Mathiesen, sveitarstjóra á Bíldudal, sem mér skilst að sé héðan af höfuðborgarsvæðinu og ( ÓÞÞ: Og af góðum ættum.) af góðum ættum, rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Forsenda þess að byggðarlögin á Vestfjörðum geti lifað er að fyrirtæki sem þar eru starfrækt geti skilað hagnaði. Atvinnulíf á Vestfjörðum er mjög einhæft, byggðin stendur og fellur með fyrirtækjum í sjávarútvegi. Núverandi fiskveiðistjórnun hefur haft mikil áhrif á byggðina hér og leitt til þess að minni afli er dreginn á land en áður. Við Vestfirði eru fengsælustu fiskimið þjóðarinnar og því ætti að vera þjóðhagslega hagkvæmt að sækja á miðin frá plássum héðan ef allt væri með felldu. Ég tel að úthluta verði mun meiri kvóta til Vestfjarða en nú er gert, en það getur ekki orðið nema fiskveiðistefnan verði endurskoðuð. Svo og þarf að renna styrkari stoðum undir sjávarútvegsfyrirtækin hér, en eins og allir vita er eigið fé þeirra nánast upp urið.``
    Ég hef nú ekki séð að núv. ríkisstjórn væri að vinna samkvæmt þessum ráðleggingum. Sveitarstjórinn á Suðureyri segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ég er innilega sammála forsrh. um að það verði að færa fólk saman þannig að til verði þéttari atvinnu- og félagslegar heildir. En það eru tvær leiðir til þess að ná þessu markmiði. Önnur er hreppaflutningaleiðin sem hann vill fara og hins vegar er sú leið sem síðasta ríkisstjórn vildi fara og þar var Steingrímur J. Sigfússon í fararbroddi. Hún felst í því að stytta vegalengdirnar á milli fólksins í stað þess að flytja það yfir fjöllin.``
    Ég vitna líka í þriðja sveitarstjórann og hann er fyrir Ólafsvík. Viðtal við hann birtist í Vesturlandsblaðinu sem ég var að fá í hendur í dag. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,,,Þegar ég kom hingað skuldaði bærinn 230 millj. kr. og þar af voru 100 millj. í vanskilum. Við vorum búnir að koma þessum skuldum niður í 165 millj. og vorum hættir að borga dráttarvexti. Með þessari þátttöku okkar í atvinnulífinu erum við nú komnir í sömu skuldastöðu og við vorum í áður``, segir Stefán. ,,Munurinn er hins vegar sá að við

höfum verið að fjárfesta tímabundið í undirstöðu lífsins hér í byggðarlaginu. Það er munur á fjárfestingu okkar í atvinnulífinu og byggingu félagsheimilisins. Menn skulu ekki gleyma því. Það var nánast um tvennt fyrir okkur að ræða, að ráðast í þessar aðgerðir eða taka saman pjönkur okkar og fara héðan``, sagði Stefán. Hann segir að stjórnvöld virðist stefna að því að koma byggðum eins og Ólafsvík í eyði.`` Það er mat sveitarstjórans í Ólafsvík á stefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Mig langar að lokum til að vitna í einn góðan mann vestur á Ísafirði sem heitir Halldór Hermannsson og var eitt sinn í framboði vestur á fjörðum fyrir sjálfstæðismenn, ekki Sjálfstfl., því að hann kaus að fylgja Sigurlaugu Bjarnadóttur frá Vigur sem gengur illa að skilja byggðastefnu ríkisstjórnarinnar um þessar mundir eins og fleirum. Halldór Hermannsson hefur sína skoðun á því hvað beri að gera og hvað ríkisstjórnin hafi verið að gera. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Allt frá stofnun þessarar ríkisstjórnar sem nú situr hefur hún verið að reka slagbranda fyrir tómar hlöður. Það verður með engu móti séð að þær aðgerðir einar verði okkur til bjargræðis. Framleiðslufyrirtækin rúlla nú yfir um hvert á fætur öðru og fjöldinn allur bíður þess eins að steypast í hyldýpið.
    Það er nú svo komið að stærstu frystihúsin eru mörg hver á horriminni og hanga nú aftan í taglinu á útgerðinni sem er það eina sem einhverjum hagnaði skilar, m.a. vegna hagstæðs verðs á erlendum ferskfiskmörkuðum. Stór hluti rækjuiðnaðarins er á fjórum fótum undan brekkunni. Þorskveiðarnar, sem eru í helsi trúarbragða, hafa verið skornar niður um 1 / 6 hluta. Áratugurinn 1980--1990 hefur verið samfelld martröð fyrir þá sem hafa verið að framleiða matvæli til útflutnings. Þar voru stærstu skaðvaldarnir röng gengisstefna og okurvextir. Landsbyggðirnar lifa á því að framleiða mat. Það er því nú svo komið að það stendur varla steinn yfir steini hvað varðar fjárhagsstöðu fyrirtækja með örfáum undantekningum.``
    Síðan kemur nokkuð skemmtileg samlíking Halldórs Hermannssonar sem lýsir að hans mati vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Ég tek fram að þessi gerin birtist í Fiskifréttum 8. nóv. sl. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Atvik kemur í hugann úr bernsku. Við börnin á Barði gengum fram á belju sem hafði dottið ofan í djúpan skurð í Ögurtúninu. Höfuðið stóð upp úr og aðeins örlaði á hrygg og afturenda skepnunnar upp úr vatnsleðjunni. Við kölluðum á hjálp. Ragnhildur óðalsbóndi og einn vinnumanna hennar, nefndur Guji angi, maður ljúfur en upplýstur í minna lagi, komu á vettvang. Ragnhildur bar í hendi sér keyri og þar sem hún kemur að skurðinum byrjar hún að dangla með keyrinu í afturenda skepnunnar. Guji angi sá strax að þetta var hið mesta ráðleysi og segir stundarhátt: ,,Það dugir ekki að berja beljuna, Ragnhildur mín.`` Það voru orð að sönnu. Til mátti kalla flokk fílefldra manna til að grafa skepnuna upp úr skurðinum og tók það alllangan tíma.
    Atvinnufyrirtækin eru sokkin ofan í djúpan skurð. Það er svo að sjá sem ríkisstjórnin sé að reyna að beita keyrinu til þess að reka þau upp úr. Það mun ekki duga frekar en með beljuna í Ögri forðum daga.``
    Tilvitnun lýkur, virðulegi forseti, og hér er gott fyrir mig að gera hlé á máli mínu. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Þá mun ég halda áfram þar sem frá var horfið. Í ræðu minni var ég búinn að rekja pólitískt baksvið núv. ríkisstjórnar og búinn að draga fram áherslur hennar í byggðamálum og hugmyndafræði. Jafnframt var ég búinn að rekja álit nokkurra sveitarstjóra á þeim hugmyndum og ég greindi frá áliti valinkunns sjálfstæðismanns frá Ísafirði, Halldórs Hermannssonar, á þessari stefnu. Ég sagði að lokum rétt fyrir hlé frá dæmisögu sem Halldór rakti hér í grein sem hann skrifaði í Fiskifréttir 8. nóv. með inntakinu: Það dugir ekki að berja beljuna, Ragnhildur mín.
    Það er nefnilega nokkuð rétt hjá Halldóri og að mínu viti komist að kjarna málsins þar sem hann segir og dregur upp þá samlíkingu að atvinnufyrirtæki séu sokkin ofan í djúpan skurð sem þau komist ekki upp úr að eigin rammleik en ríkisstjórnin hugsi sér að ná þeim upp úr skurðinum með því að beita keyrinu á þau óspart í þeirri von að þau, eins og beljan hjá Ragnhildi forðum, mundi rífa sig upp úr feninu. Það má líka kannski segja að ég hafi rakið þessa dæmisögu frá Ögri við Ísafjarðardjúp í þeirri von að tveir

hæstv. ráðherrar skildu hana betur en aðrar líkingar. Þeir hæstv. utanrrh. og iðnrh., Jónar tveir, sem báðir eiga það sameiginlegt að hafa verið kúarektorar á þessu forna höfuðbóli Ögri í Ögursveit.
    Það virðist hins vegar ekki bóla mikið á því og reyndar eru þeir tveir ráðherrar lítið gefnir fyrir að sýna sig hér í þingsölum og læt ég því þetta duga að sinni til að hafa áhrif á þá.
    Það sem mestu máli skiptir er sjávarútvegurinn. Þar eru þau fyrirtæki sem að mínu mati eru föst ofan í þessum skurði og komast ekki upp af eigin rammleik. Við hljótum því í allri umræðu um byggðamál að velta fyrir okkur og hafa skoðanir á því hvað ber að gera í sjávarútvegsmálum. Ég vil draga það fram sem kom fram í viðtali í gær í Dagblaðinu við bæjarstjórann í Bolungarvík, sem hér var á ferð og hitti m.a. hæstv. forsrh. í gær. Hann segir: ,,Það skiptir sköpum hvað stjórnvöld gera í því máli.`` Það er einmitt annar kjarni í málinu að það skiptir sköpum hvað stjórnvöld gera í málefnum sjávarútvegsins. Málum er þannig fyrirkomið í dag að stjórnvöld verða að grípa til aðgerða til þess að bæta úr. Það er dálítið merkilegt að einmitt þessi maður, bæjarstjórinn í Bolungarvík, skuli vera að benda þjóðinni á að það séu stjórnvöld sem verði að grípa til aðgerða því hann er ekki aðeins valinkunnur sjálfstæðismaður heldur einn af stuðningsmönnum hæstv. forsrh. í formannskjöri fyrr í vor. Forsrh. sem hefur haft þá skoðun fram til þessa að ríkisvaldið eigi sem minnst og helst ekkert að gera, málin verði bara að fara eins og fara vill. Ég tel þarna um að ræða mjög alvarlega áminningu til hæstv. forsrh. frá þungavigtarmanni í hans flokki.
    Ég vil fyrst, áður en ég fer yfir mín sjónarmið varðandi sjávarútveginn og hvað beri að gera, draga fram aftur og með skýrari hætti en áðan þau sjónarmið sem hæstv. forsrh. setti hér fram í stefnuræðu 10. okt. því mér þykja þau vera með slíkum fádæmum að ekki verði hjá því komist að benda nokkuð skarplega á þau og knýja fram viðbrögð frá hæstv. forsrh. í tilefni þeirra.
    Hæstv. forsrh. gat um í ræðu sinni, eins og ég rakti áðan, að þessir nýju fjárfestingalánasjóðir, sem hann kallar svo, Atvinnutryggingarsjóður og Hlutafjársjóður, hafi verið notaðir eins og deyfilyf í helsjúkt atvinnulífið og að stjórnvöld sem voru að útdeila fé til þeirra sem á því þurftu að halda væru að horfa fram hjá því að erfið staða fyrirtækjanna gæti stafað af mistökum eða óvarkárni eigenda þeirra. Og enn fremur að þessi fyrirtæki nytu sérstakrar velvildar trúnaðarmanna ríkisstjórnarflokkanna þáv. og hefði verið haldið á floti með pólitískum aðgerðum sérstaklega. Þetta eru svo makalausar skoðanir að það verður ekki hjá því komist að lesa upp úr skýrslu Byggðastofnunar, sem hér er einmitt til umræðu, nokkur nöfn af lista þeirra fyrirtækja sem fengu fyrirgreiðslu úr þessum sjóði og spyrja að því hvort þessi fyrirtæki falli undir ummæli hæstv. forsrh. að þeim hafi verið illa stjórnað eða einhverjir pólitískir trúnaðarvinir þáv. ríkisstjórnarflokka hefðu haldið þeim á floti.
    Ég vil nefna fyrirtæki eins og Granda hf. með 87 millj. kr. lán úr Atvinnutryggingarsjóði miðað við síðustu áramót, Hraðfrystistöðina í Reykjavík með 92 millj. kr. og ég get nefnt frá Vestmannaeyjum, Fiskiðjuna hf. 195 millj. kr., Fiskimjölsverksmiðjuna hf. 94 millj. kr., Hraðfrystistöð Vestmannaeyja 264 millj. kr., Ísfélag Vestmannaeyja 156 millj. kr., Vinnslustöðina hf. 132 millj. kr. Enn má nefna til fleiri fyrirtæki, Hraðfrystihús Eskifjarðar 132 millj. kr., Hraðfrystihús Ólafsfjarðar 96 millj. kr., Hjálm hf. 71 millj. kr., Einar Guðfinnsson hf. og dótturfyrirtæki í Bolungarvík með samtals um 350 millj. kr. Þannig get ég haldið áfram að telja upp af þessum lista fyrirtæki sem að mínu mati eiga ekki þessi ummæli skilið þó svo ég viðurkenni að ég þekki ekki til rekstrar þeirra allra og get því ekki um það dæmt. En ég býst við að hæstv. forsrh. þekki það vel til í þessum fyrirtækjum hjá vinum sínum og flokksbræðrum að hann geti leyft sér að fella slíka dóma en það er hans mál sem hann verður þá að gera upp við sig.
    Ég held nefnilega að það torveldi dálítið alla umræðu og skoðanaskipti um vanda sjávarútvegsins ef menn eru búnir að grópa sig fasta í einhverjum fortíðarskýringum sem byggjast á sukki og svínaríi, pólitískum fyrirgreiðslum og þess háttar ummælum. Ég held að á meðan menn eru fastir í hugsunarhætti af þessu tagi miði okkur ekkert áfram í umræðum af þessu tagi. Því ég lít á umræðu þessa og fleiri sem vettvang til að skiptast á skoðunum, færa fram rök og gagnrök og geng út frá því sem vísu að menn taki rökum,

hlýði á mál hvers annars án tillits til þess hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.
    Ég vil núna fjalla um sjávarútveginn eins og hann horfir við mér og ég reyna að setja fram mínar skoðanir á því hvernig þessi atvinnugrein stendur, hvers vegna og hvað er vænlegast til ráða. Eitt vil ég segja í upphafi, sem fyrsta punkt í þessari umfjöllun um sjávarútveg, að mikið hefur dunir á okkur bæði þingmönnum og þjóðinni. Hin mikla krafa um hagræðingu í sjávarútveginum. Það hefur verið í raun og veru sleitulaus áróður m.a. frá hæstv. sjútvrh. í þessa veru og ekki hægt að skilja hann eða aðra sem svona tala öðruvísi en að það sé gífurleg offjárfesting í sjávarútvegi og að menn verði að draga úr sukkinu með skynsamlegum hætti.
    Ég er með bók sem okkur var send ekki svo alls fyrir löngu sem heitir Fjárfesting 1945--1989 og áður hefur verið vitnað til í ræðu hv. þm. Egils Jónssonar. Ég bendi á að í þeirri bók á bls. 116 er yfirlit yfir það m.a. hvernig fjárfestingin hefur skipst hér á landi á milli atvinnugreina allt frá árinu 1945 til ársins 1989. Á þessari blaðsíðu er skiptingin frá 1985--1989 sem er fjögurra eða fimm ára tímabil. Þannig er fjárfesting í fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða árið 1989 8,3% af fjárfestingu þess árs. Það er með því minnsta sem gerist í þessari atvinnuvegaflokkun sem taflan byggir á. Það má t.d. nefna að annar iðnaður en ál og járnblendi er með 9,4% af fjárfestingunni eða meira heldur en sjávarútvegurinn og að verslunar-, skrifstofu-, gistihús og fleira er um 8,5% af fjárfestingunni eða meira en sjávarútvegurinn. Á öllum þessum árum er fjárfesting í veiðum og vinnslu tiltölulega lítill hluti af heildarfjárfestingu landsmanna. Allt frá því að vera 8,3% og upp í að vera 15% sem er það hæsta. Þetta segir okkur að það sé skakkt að leggja slíka ofuráherslu á að hagræða og draga úr bundinni fjárfestingu í þessari atvinnugrein því að í henni er ekki bundið það mikið fjármagn af heildarfjárfestingum okkar á undanförnum áratugum. Þetta sjáum við enn frekar á bls. 129 í þessari bók þar sem skiptingin kemur fram á þjóðarauðnum 1980--1989. Og ef við tökum síðasta árið er það sem bundið er í veiðum og vinnslu ekki nema 73 milljarðar kr. af 850 milljörðum, sem er vel innan við 10%. Mér sýnist svona fljótt á litið þetta liggja á milli 8 og 9% af heildarfjárfestingunni sem er í fiskveiðum og fiskvinnslu. Það er ekki stærri hlutur en það. Þrátt fyrir að þessi atvinnugrein skili gríðarlegum verðmætum í okkar þjóðarbú og haldi því uppi í raun og veru og geri okkur kleift að lifa nútímalegu lífi og skapa þjóðfélag sem líkist erlendum þjóðfélögum í Evrópu.
    Ef menn vilja nýta fjárfestingu betur eiga þeir að líta á aðra liði en þessa tvo. Þetta eru ekki þær fjárfestingar sem hafa verið okkur dýrastar í gegnum tíðina og ekki þar sem vænlegast er að skera niður. Ég nefni sem dæmi að á síðustu þremur árum er fjárfesting í veiðum og vinnslu innan við 4 milljarða kr. fyrir árið 1990, 1991 og áætlað fyrir árið 1992. Til dæmis í áætlun fyrir árið 1992 er fjárfesting áætluð 76 milljarðar. En í veiðar og vinnslu er áætlað að fari 3,7 milljarðar. Þannig að þarna liggur ekki eyðslan í fjárfestingu hjá landsmönnum. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að menn hafi í huga og geri sér grein fyrir að þessi atvinnugrein er ekki yfirhlaðin fjárfestingu. Því fer víðs fjarri. Miðað við ástandið og þá fjárfestingu sem liggur í henni í dag skilar hún gríðarlegum arði inn í þjóðarbúið á hverju einasta ári. Sá arður lendir að minnstu leyti hjá fyrirtækjunum sem eru í þessari atvinnugrein. Að jafnaði er hann að mestu leyti þjóðnýttur í gegnum gengisskráningu. Það sem menn hafa gert á undanförnum nokkrum árum er að haga gengisskráningunni þannig að menn hafa tekið meira út úr þessari atvinngrein en hún gat borið sem þýðir einfaldlega að skuldir hafa safnast upp í þessari atvinnugrein umfram það sem eðlilegt er. Þetta er í raun og veru kjarninn á því og skýringin á því hvers vegna svo er komið hjá sjávarútveginum.
    Ég hef áður nefnt það sem dæmi að fastgengisstefnan á árinu 1988 hafi framkallað um 10% tap í sjávarútvegi sem þýðir á verðlagi í dag, með þeim vöxtum sem það tap hefur hlaðið á sig á þremur árum, um 10 milljarða kr. svo að ég nefni bara einn þátt í skuldsetningu atvinnugreinarinnar. Það er ekki hægt að velta því yfir á eigendur fyrirtækisins að þeir beri ábyrgð á þessu atriði því að hér var um hreinræktaða miðstýrða pólitíska aðgerð að ræða. Hvað svo sem okkur finnst um eigendur einstakra fyrirtækja getum við ekki lagt það á þá að bera ábyrgð á þessu máli sem ég var að tiltaka.
    Ég er sammála Halldóri Hermannssyni í því sem ég vitnaði til áðan að meginskýringin er gengisskráningin og háir vextir. Því hlýtur að vera grundvallaratriði í allri efnahagsstjórnun stjórnvalda á hverjum tíma að gengisskráningin sé rétt þannig að unnt sé að reka fyrirtæki í sjávarútvegi með hagnaði og að vaxtastigið sé ekki með þeim hætti sem verið hefur nær samfellt allar götur síðan 1985 því að það vaxtastig getur engin atvinnuvegur þolað til langframa, það er útilokað, hvorki hérlendis né erlendis.
    Ég get nefnt til samanburðar að það fjármagn sem er í Atvinnutryggingarsjóði, um 9 milljarðar kr., svarar nokkurn veginn til þess taps sem ég hef áætlað að hafi orðið af þessari einu stjórnvaldsaðgerð árið 1988, fastgengisstefnunni, sem er eins og Einar Oddur orðaði það í sjónvarpinu í kvöld: ,,Stjórnvöld bjuggu til tap í atvinnugreininni. Síðan komu menn með peninga til að lána okkur fyrir tapinu svo að við gætum haldið áfram að tapa.`` --- Þetta er vandamálið og stærsta skýringin á vandamálinu. Ég hafna því og þeim málflutningi að það sé grundvallaratriði í þróun atvinnugreinarinnar í framtíðinni að það þurfi að hagræða einhver gífurleg ósköp. Ég hafna þeirri skýringu. Hins vegar er ég sammála því og vil láta það koma fram að ég tel að atvinnugreinin geti skilað enn meiri arði en hún gerir nú þegar. Það er vissulega hægt að reka hana með hagkvæmari hætti og þá kemur það okkur öllum til góða og ég er líka viss um að þeir sem eru í þessari atvinnugrein munu fara inn á þær brautir með tíð og tíma og eftir því sem aðstæður leyfa á hverjum tíma og hverjum stað. Því mun það verða þannig í framtíðinni að atvinnugreinin mun skila meiri arði en hún gerir í dag. Eitt af því sem ég sé fyrir mér að gerist í náinni framtíð er að menn munu sameinast í ríkari mæli um reksturinn, bæði á sviði veiða og vinnslu. Það mun skila þeim fyrirtækjum hagræðingu og peningum til að byggja sig upp.
    Við getum litið þannig á vanda sjávarútvegsins að þar er í fyrsta lagi sú mikla skuldsetning sem hann er í núna og menn verða að taka á. Í öðru lagi þarf að skapa atvinnugreininni það rekstrarumhverfi að hægt sé að reka fyrirtækin með þokkalegum hagnaði. Enn sem komið er hefur ekkert bólað á því af hálfu stjórnvalda að þau hyggist grípa til aðgerða á þessum sviðum. Í mínum huga er það sem þarf að gera til að tryggja rekstrarumhverfi í framtíðinni svo hægt sé að reka þessi fyrirtæki, í fyrsta lagi að tryggja það að gengið sé skráð með viðunandi hætti út frá stöðu sjávarútvegsins. Ég er þeirrar skoðunar að í dag er t.d. um að ræða hágengi, gengið er of hátt skráð miðað við það sem þessi atvinnugrein þolir. Í öðru lagi þarf að lækka vexti verulega. Þegar menn hafa í huga að heildarskuldir þessarar atvinnugreinar eru um 85.000 millj. kr. segir sig sjálft að það skiptir gríðarlega miklu máli hvort menn eru að borga 10% raunvexti eða t.d. helminginn af því. Þetta þarf að gera til að menn geti komist áfram í sínum rekstri, almennt séð.
    Þá spyrja menn: Hvað á að gera til að bregðast við aflasamdrætti sem er augljós á næsta ári? Þar hef ég bent á og bendi enn á að við vorum á síðasta ári með um 270.000 tonn af botnfiski sem var unninn annars staðar en í landi, um 150.000 tonn af fiski sem var fluttur óunninn úr landi og 120.000 tonn af fiski sem var unninn úti á sjó í frystitogurunum. Það er verkefni stjórnvalda að beina hluta af þessum afla inn í vinnsluna í landi og gera þar með tvennt í einu, að halda uppi fullri atvinnu á þessum stöðum og auka verðmæti þess afla sem við drögum úr sjó því það hef ég líka nefnt áður að útflutningsverðmæti úr landfrystihúsi er meira en úr sjófrystingu eða ísfiski og gámafiski sem fluttur er til útlanda. Með þessu ynnist því það að við fengjum meiri fisk í frystihúsin, sem við þurfum, og við fengjum meiri verðmæti út úr aflanum en nú er. Þetta er tiltölulega auðvelt að gera og bæta þannig landfrystihúsunum að verulegu leyti upp þann aflasamdrátt sem er fyrirsjáanlegur.
    Hvernig á að bregðast við þeim vanda? Hvernig á að taka á þeim skuldum sem í dag hvíla á sjávarútvegsfyrirtækjum? Það er sjálfstætt viðfangsefni sem menn verða að finna lausn á. Ég er þeirrar skoðunar að skuldirnar séu í raun verulega umfram það sem þessi atvinnugrein getur borið og er þar með líka að segja að ég tel að skuldir hjá mjög mörgum útgerðar- og vinnslufyrirtækjum séu meiri en nokkur von er til að þau muni geta risið undir. Því hljóta allar aðgerðir við þessum vanda að miða að því að lækka skuldir og það eru í sjálfu sér ekki mjög margar aðferðir til þess.
    Hæstv. forsrh. hefur haldið mikið upp á eina aðferðina sem er að senda fyrirtækin í gjaldþrot. Vissulega er það ein leiðin til að afskrifa skuldir. Sú leið hefur að vísu þann annmarka miðað við núverandi kvótakerfi að við setjum hagsmuni íbúanna í viðkomandi

byggðarlagi í uppnám. Kvótakerfið, með þeim annmarka að rétturinn til veiða gengur kaupum og sölum, hefur það í för með sér að sú aðferð sem hæstv. forsrh. mælir með er ákaflega torfarin svo að ekki sé meira sagt. Vilji stjórnvöld halda sig við þessa leið ráðherrans verða menn að grípa til þess að breyta lögunum um stjórnun fiskveiða til þess að íbúar í viðkomandi byggðarlögum eigi þá möguleika á að geta reist ný fyrirtæki á rústum þess sem áður var.
    Önnur leið til að lækka skuldir viðkomandi fyrirtækja er einfaldlega sú að fá nýja aðila með peninga inn í fyrirtækin. Það er leið sem annar sjálfstæðismaður, Sverrir Hermannsson, bankastjóri Sjálfstfl. í Landsbankanum, hefur haldið fram. Hann leggur að sveitarstjórnum að ganga inn í útgerðar- og vinnslufyrirtækin með fé og taka þannig á sig nokkrar klyfjar. Staðan er þannig í þessum byggðarlögum að menn vilja flest það gera sem kemur í veg fyrir að þeir missi sitt lífsviðurværi og tilverugrundvöll og því er það í æ ríkari mæli sem sveitarstjórnir eru að ganga inn í atvinnufyrirtækin og mynda jafnvel bæjarútgerðir. Þetta er þrautalending sem mér líst illa á. Ég tel sveitarstjórnirnar ekki vera í stakk búnar til að valda þessu verkefni og að það muni hamla mjög allri framþróun á landsbyggðinni ef sveitarstjórnirnar verða næstu 10 árin bundnar við að borga niður skuldir sem þær taka á sig vegna þessara fyrirtækja.
    Hvernig svo sem menn vilja útfæra leiðina til að ná tökum á þeim skuldavanda sem menn búa við í dag er ég samt alveg sannfærður um að allar leiðir byggjast á því að afskrifa skuldir með einum eða öðrum hætti, breyta þeim í hlutafé, fella þær niður eða að sveitarfélögin komi inn og taki þær á sig --- eða gjaldþroti sem er ein leiðin. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld marki sér stefnu í þessu máli þannig að íbúarnir í byggðum landsins fái sem fyrst vitneskju um það hvaða leið stjórnvöld hyggjast fara þannig að menn geti þá vitað hvar þeir standa og gripið til sinna aðgerða vitandi alla vega af stuðningi stjórnvalda í ákveðnum aðgerðum.
    Eitt langar mig að nefna sem ég tel að heimamenn geti vel og eigi að líta á við þær aðstæður sem eru nú og það er að athuga hvort menn geti sameinast um útgerð fyrir fleiri en eitt byggðarlag. Það er fyrirsjáanlegt, miðað við þann kvóta sem áformaður er á næsta ári, og kannski verður hann svipaður á næstu árum þar á eftir þannig að einhver bið verði á að hann aukist, að við erum með of marga togara til að veiða það magn sem má veiða. Ég tel að það væri hagsmunum heimamanna fyrir bestu að þeir fyndu þá þörf hjá sér að sameinast um það, t.d. tvö til þrjú byggðarlög, sem gætu tekið einn togara úr rekstri eða svo. Til þess þurfa hins vegar öll sveitarfélögin eða aðilar úr þeim að vera eigendur og ráðendur í slíku fyrirtæki. Það er helsti annmarkinn sem ég tel vera á þeirri leið sem valin var á Suðureyri og ég hef gagnrýnt vegna þess að þar er gert ráð fyrir að svipta heimamenn með öllu forræði yfir togaraútgerð og þeir verða þá að fullu og öllu að treysta á aðra aðila um hráefni. Það er slæmur kostur og ég hefði talið það nauðsynlegt að vildu menn slá sér saman, ættu allir aðilar að vera með í því fyrirtæki.
    Eitt atriði nefni ég enn varðandi Vestfirði sérstaklega, og það hefur líka verið nefnt í fjölmiðlum að undanförnu og á það bent, að sú skerðing sem er boðuð á næsta ári og hefur verið á undanförnum árum hefur að mestu leyti verið á þorski og því komið harðast niður á þeim svæðum þar sem aflasamsetningin er þannig að menn eru að veiða að langmestu leyti þorsk. Ég tel það réttlætismál að menn leiðrétti skerðinguna með tilliti til þess þannig að ekki sé verið að leggja misjafnlega þungar byrðar á menn eftir því hvar þeir búa og hvernig þeirra afli er samsettur.
    Ég hef drepið á nokkur atriði sem ég tel að menn verði að líta á ætli þeir sér á annað borð að taka á því vandamáli sem er númer eitt, skuldavandamáli í sjávarútvegi eins og það er nú. Ég hef líka farið yfir mínar skoðanir varðandi hvað menn eigi að gera til að skapa rekstrarumhverfi fyrir framtíðina.
    Sjálfsagt mætti fara ítarlegar yfir þessi mál en ég var að hugsa um að láta þetta duga varðandi sjávarútveginn að mestu. Ég nefni þó að forsíða DV í dag segir okkur hvað staðan er alvarleg á Vestfjörðum og ætti að vera mönnum næg áminning til að þeir fari að vinna að því að grípa til einhverra raunverulegra aðgerða sem ég vil kalla lausnir en ekki bráðabirgðaráðstafanir. Ég lít á það sem fram hefur komið um að lengja lán í Atvinnutryggingasjóði í tvö ár sem bráðabirgðaaðgerð sem skilar engu og þá þurfi menn

að gera margt annað og þetta gæti út af fyrir sig verið einn þátturinn í því, en það væri alls ekki veigamesti þátturinn í aðgerðum.
    Það er hlálegt fyrir hæstv. forsrh. að þetta sem menn nefna, að lengja greiðslutíma á lánum í Atvinnutryggingarsjóði, er ekkert annað en sértæk aðgerð. Atvinnutryggingarsjóður var í eðli sínu sértæk aðgerð og að lengja greiðslutíma þeirra lána er ekkert annað en framlenging á sértækum aðgerðum. Það er dálítið merkileg stefnubreyting hjá hæstv. forsrh. að það eina sem enn hefur komið fram og fyrsta viðurkenningin á því að stjórnvöld þurfi að hafa afskipti af þessari atvinnugrein skuli vera sértæk aðgerð.
    Eitt vil ég nefna að lokum varðandi sjávarútveg. Ef við horfum fram á veginn og ímyndum okkur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði gerður og samþykktur er rétt að spyrja sig: Hvernig verður framtíðin á landsbyggðinni við þann samning? Það hefur verið gerð um það skýrsla þar sem menn hafa reynt að gera sér grein fyrir þeirri þróun og það er skýrsla sem unnin var af Byggðastofnun að beiðni þáv. forsrh. og var gefin út í desember 1990. Það er ekki hægt að segja að þar sé dregin upp björt mynd af landsbyggðinni undir EES. Það segir hér í niðurstöðum skýrslunnar að líklegasta framvindan sé sú að stöðugt aukinn hluti hráefnis af Íslandsmiðum verði fluttur óunninn úr landi til frekari vinnslu innan Evrópubandalagsins. Þetta er niðurstaða sérfræðinga Byggðastofnunar um líklegustu framvinduna fyrir sjávarútveg og þar með landsbyggðina, að samningurinn verði hráefnissamningur. Þetta finnst mér mjög alvarleg viðvörun og á að vera mönnum hvatning til að staldra við áður en lengra er haldið og íhuga þessi mál vandlega og ræða þau. Ég vil vitna aftur í niðurstöðukaflann, með leyfi forseta. Þar segir: ,,Fari svo sem hér er greint fer ekki hjá því að það muni hafa verulegar afleiðingar fyrir búsetuþróun hér innan lands. Áframhaldandi vandkvæði munu verða á rekstri fiskvinnslufyrirtækja vegna mikillar skuldsetningar og minnkandi aflamagns. Það mun óhjákvæmilega leiða til gjaldþrota sem aftur leiðir til þess að fiskvinnsla mun leggjast niður á mörgum stöðum þar sem hún er stunduð nú. Um leið bregðast forsendur fyrir búsetu á flestum þeim stöðum þar sem slíkt gerist.``
    Þetta er mjög alvarleg niðurstaða, virðulegur forseti, um áhrif EES á landsbyggðina. Og ég tel nauðsynlegt að inna hæstv. forsrh. eftir því hvað hann hyggist gera í framhaldi af þessari niðurstöðu Byggðastofnunar. Hvaða leiðir hann hyggist fara og hvaða úrræði nota til að þessi niðurstaða Byggðastofnunar rætist ekki. Það kemur fram líka í skýrslu Byggðastofnunar að stjórnvöld geti haft áhrif á þróunina en það er dálítið merkilegt að sjá það að sú aðgerð, sem bent er á að stjórnvöld geti helst gert til að hafa áhrif á þessa þróun, eru gagnaðgerðir sambærilegar við þær sem stjórnvöld í Evrópu hafa uppi í sinni fiskvinnslu. Eins og við vitum er þessi atvinnugrein mikið ríkisstyrkt í Evrópu og það er bent á að menn verði að eyða þessum aðstöðumun. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er núv. ríkisstjórn tilbúin, fyrst hún hefur áhuga á því að gera samninga við EES og mælir með að þeir verði samþykktir, að veita sjávarútveginum sambærilega styrki og stjórnvöld í Evrópu veita í sínum löndum til sömu atvinnugreinar til að eyða þessum mismun? ( Gripið fram í: Það verður ekki heimilt, það er þannig.) Þetta er í raun og veru það ráð sem Byggðastofnun bendir á.
    Ég tel, virðulegi forseti, að ræða verði skýrslu Byggðastofnunar sérstaklega í þessari umræðu um byggðamál og fá fram viðhorf hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég vil að lokum fara yfir málin á heldur víðtækari hátt en fram til þessa þar sem ég hef nær eingöngu haldið mig við sjávarútveg. Ég vil setja fram þá skoðun að ég tel að byggðamál séu í raun og veru ekki til sem sjálfstætt mál eins og sjávarútvegsmál o.s.frv., eða byggðastefna sé í raun og veru ekki til sem sjálfstæð aðgreind stefna frá stefnu í hinum ýmsu málum, eins og atvinnumálum, menntun o.s.frv. Ég tel að í raun og veru felist byggðastefnan í viðhorfum manna og verkum í einstökum málaflokkum. Ég hef farið yfir sjávarútveginn og ég nefni líka menntamálin.
    Byggðastefna í menntamálum felur í sér að menn eru tilbúnir til að setja á fót og efla framhaldsskóla og framhaldsmenntun í öllum fjórðungum landsins og hún felur í sér að menn eru tilbúnir að skapa fólki þau skilyrði í menntun barna sinna að sú aðstaða sem foreldrarnir búa við varðandi skólagöngu ungra barna sé ekki með öllu óviðunandi. Það sem ég hef séð til ríkisstjórnarinnar í þessum málum get ég ekki flokkað undir byggðastefnu í menntamálum. Það er ekki byggðastefna að loka Reykjanesskóla og það er ekki byggðastefna í menntamálum að draga lappirnar í uppbyggingu framhaldsmenntunar á Vestfjörðum. Og það er ekki byggðastefna að loka fyrir að fullorðið fólk á Hólmavík geti aflað sér viðbótarmenntunar í gegnum framhaldsfræðslu eða öldungadeild.
    Við getum séð byggðastefnu í iðnaðarmálum, hvernig menn framkvæma iðnaðarstefnu. Mér finnst að menn geti tekið þar nokkrar ákvarðanir til að bæta úr á landsbyggðinni. Ég nefni sem dæmi skipasmíðaiðnaðinn sem stendur nú ekki allt of vel undir þeirri stefnu sem menn hafa trúað á um fríverslun á undanförnum áratug. Það mundi mikið efla byggð á Vestfjörðum ef stjórnvöld væru tilbúin að standa að því með heimamönnum að koma upp dráttarbraut t.d. á Ísafirði þannig að þar væri hægt að taka upp togara Vestfirðinga. Við sjáum byggðastefnu hverrar ríkisstjórnar líka í samgöngumálum og þeim áherslum sem hún gefur þar upp. Og við sjáum byggðastefnu ríkisstjórnarinnar líka í húsnæðismálum, hvernig hún hagar þeim málaflokki og hvað hún er reiðubúinn að leggja af mörkum til að uppbygging geti farið fram um allt land. Það eru veruleg vandamál uppi í húsnæðismálum landsmanna eða landsbyggðarmanna öllu heldur. Við þekkjum það ástand sem verið hefur í nokkur ár að á mörgum stöðum er verð íbúðarhúsnæðis mjög lágt og það selst seint og illa. Þetta er óviðunandi ástand. Þetta er vegna þess að fólkið lítur svo á að það sé áhættufjármagn að festa sér íbúðarhúsnæði úti á landi, að menn kunni að sitja uppi með tapað fé. Menn verða að finna leiðir til að bæta úr á þessum vettvangi.
    Ég hef velt nokkuð fyrir mér hvaða leiðir væru hentugastar til að bæta þarna úr og mín niðurstaða er sú að menn eigi ekki að leggja alla áherslu á að íbúðaruppbygging fari fram í gegnum félagslega kerfið, sem ég tel út af fyrir sig ágætt og nauðsynlegt að vissu marki, en það getur aldrei komið í staðinn fyrir almenna húsnæðismarkaðinn í hverju byggðarlagi. Menn verða að fá trú á því að eiga og byggja húsnæði sem byggt er á almennum lánakjörum. Til þess þarf að breyta almennum lánakjörum og til þess þurfa stjórnvöld að vera tilbúin að gefa mönnum tryggingar að einhverju marki þannig að áhættan verði minnkuð verulega frá því sem nú er. Ég tel að ef slíkt fengist fram mundi það eitt verða til þess að kaup og sala íbúðarhúsnæðis færi fram með mun eðlilegri hætti en verið hefur og yrði í raun ekki neinn baggi á ríkissjóði.
    Við sjáum líka byggðastefnuna birtast í áherslum í verðlagsmálum og orkumálum. Það skiptir miklu máli að ekki sé mikill mismunur á aðstöðu manna eftir því hvar þeir búa hvað varðar t.d. orkukostnað. Þær aðgerðir, sem núv. ríkisstjórn hefur gripið til í þeim efnum, hafa reynst haldlitlar því miður og munurinn er allt of mikill á milli þeirra svæða þar sem ódýrt er að kynda og þeirra svæða þar sem það er ekki ódýrt. Menn þurfa að vera tilbúnir að færa fé frá þeim svæðum þar sem hitunarkostnaður er lágur til þeirra svæða þar hitunarkostnaður er hár og jafna með beinum pólitískum aðgerðum.
    Þannig má fara í gegnum alla málaflokka og vilji menn átta sig á því hvort ríkisstjórn á hverjum tíma er hliðholl landsbyggðinni og hefur metnað að breyta þeirri þróun, sem verið hefur, eiga menn að horfa á stefnu hennar í hverjum málaflokki fyrir sig. Ég verð því miður að segja að hvíta bókin gefur mér ekki þá mynd að hér sé um að ræða ríkisstjórn sem hafi áhuga á að gera breytingar sem duga. Þvert á móti eru menn komnir með nýjar áherslur sem ekki hafa sést áður og nefni ég þá sem mesta athygli mína hefur vakið á bls. 41 í hvítu bókinni þar sem rætt er um vegamál. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Unnið verður áfram að stórverkefnum, þ.e. jarðgöngum, endurbyggingu stórbrúa og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem bættar verða og breikkaðar aðfærsluæðar inn á höfuðborgarsvæðið.`` ( ÓÞÞ: Það er nauðsyn ef stefnan verður þessi.) Það er rétt ábenging hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að fyrst stefnan er sú að menn eigi að halda áfram að flykkjast til höfuðborgarsvæðisins þá er nauðsynlegt að hafa góðar og breiðar aðfærsluæðar inn á höfuðborgarsvæðið. Þetta stendur nú í sáttmála hæstv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Jafnaðarmannaflokks Íslands sem hefur talið sig sérstakan málsvara alþýðunnar í landinu en það er greinilegt að alþýðan í landinu á ekki lengur heima úti á landi eða það eru kannski ráð alþýðuflokksmanna að alþýðan eigi að vera fyrir sunnan, virðulegi forseti. Hver veit. Það verður fátt um svör af hálfu þeirra alþýðuflokksmanna því enginn ráðherra af hálfu Alþfl. í ríkisstjórninni er hér viðstaddur í kvöld. ( Gripið fram í: Þeir eru úti á landi.) Þeir eru kannski ekki á landinu.

    Það mætti enn halda nokkuð langa tölu og er nokkur freisting fyrir mig að fara nánar ofan í vandamál einstakra fyrirtækja á Vestfjörðum, sérstaklega í ljósi þeirra viðbragða sem fram hafa komið hjá stjórnvöldum annars vegar og hins vegar vegna þeirrar leiðar sem menn hafa valið á Suðureyri. Ég hefði talið nauðsynlegt að menn gerðu nákvæmari grein fyrir því sem þeir eru að aðhafast í þeim málum. En ég tel á þessu stigi sé rétt að bíða með það um sinn og sjá hverju fram vindur næstu daga áður en ég geri harða atlögu að hæstv. forsrh. í þeim málum. Þó verð ég að segja að þar er ekki allt með þeim hætti að ég sé ánægður og ég tel að núv. ríkisstjórn verði að viðurkenna að þetta er vandamál sem verður að taka á. Það er svo mál sem menn geta deilt um þegar tími gefst hver beri ábyrgð á því hvernig komið er og að hve miklu leyti. Það er alveg ljóst að í slíkri umræðu getur Sjálfstfl. ekki skotið sér undan ábyrgð. Þvert á móti hlýtur að dæmast á hann mjög mikil ábyrgð þar sem sá flokkur ber höfuðábyrgð á þeim tveimur þáttum sem hafa orðið afdrifaríkastir, þ.e. vaxtahækkuninni og fastgengisstefnunni. Ég tel þó að við eigum að leggja til hliðar deilur um hið liðna og við eigum að reyna að komast að einhverri niðurstöðu um hvað menn ætla að gera til að bjarga þessum plássum um allt land sem búa við mjög mikið óöryggi þessa dagana. Það hefur mest komið fram á Vestfjörðum en ég veit að það er víðar á landinu á mjög mörgum stöðum sem sama ástand mun sigla í kjölfarið innan skamms og menn kalla hver á fætur öðrum: Hvað ætla stjórnvöld að gera? Og ég spyr þess sama, hvað ætla stjörnvöld að gera í þessum málum? En ég vil ljúka þessari ræðu með að segja að í öllum aðgerðum sem stjórnvöld ætla að grípa til, ef þau á annað borð hugsa sér að gera slíkt, verður að breyta fiskveiðistefnunni. Það er lykilatriði í öllum aðgerðum. Ég bendi hæstv. forsrh. á það aftur að sú leið sem hann bendir mönnum á, að láta viðkomandi fyrirtæki fara á höfuðið, gengur ekki nema fiskveiðistjórnunni verði breytt.