Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 21:57:00 (992)

     Guðjón Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Miklar umræður og um margt athyglisverðar hafa orðið hér á Alþingi um byggðamál í tilefni af skýrslu forsrh. um Byggðastofnun. Það er auðvitað eðlilegt að hér fari fram ítarleg umræða um málefni landsbyggðarinnar, ekki síst með tilliti til þess ástands sem verið hefur víða um land á síðustu missirum. Það hefur mátt skilja á nokkrum þeirra hv. þm. sem hafa talað í dag að vandamál landsbyggðarinnar mætti kenna núv. ríkisstjórn. Þannig hafa a.m.k. sumir þingmenn Framsfl. hagað málflutningi sínum. En nú er ríkisstjórnin er ekki nema hálfs árs gömul og var þá kannski allt í stakasta lagi á landsbyggðinni fram að því að hún tók við?
    Við skulum líta aðeins á staðreyndir um þróun mála á síðasta áratug. Þá var Framsfl. óslitið í ríkisstjórn. Á síðasta áratug, 1981--1990, fjölgaði fólki í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi úr 137.206 í 161.182 eða um tæp 24.000. Á sama tíma fækkaði fólki í landsbyggðarkjördæmunum úr 94.752 í 94.526. Með öðrum orðum, þegar landsmönnum í heild fjölgaði um 23.750 fækkaði um 226 manns á landsbyggðinni. Á þessum áratug varð bein fólksfækkun í þremur kjördæmum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurl. v., en örlítil fjölgun varð á Norðurl. e., Austurlandi og Suðurlandi en þó langt undir landsmeðaltali. Tap landsbyggðarinnar af árlegri mannfjölgun hér á landi varð sem hér segir ef miðað er við að fjölgun landsmanna hefði skipst milli höfuðborgar og landbyggðar í hlutfalli við íbúafjölda: 1981 567 manns, 1982 857, 1983 792, 1984 1042, 1985 820, 1986 1143, 1987 1372, 1988 1641, 1989 976 og 1990 901. Samtals tapaði því landsbyggðin 10.111 manns af þeirri mannfjölgun sem varð á Íslandi á síðasta áratug.
    Hver er skýringin á þessum miklu tilflutningum fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar? Samkvæmt málflutningi nokkurra hv. þm. í þessum umræðum ætti þetta að skrifast á Framsfl. sem var í ríkisstjórn allan þennan áratug en ekki ætla ég að halda slíku fram. Það sem hefur gerst á landsbyggðinni og mér finnst að mestu hafa gleymst í þessum umræðum er það að þær atvinnugreinar sem hafa borið uppi atvinnulífið þar hafa hver á fætur annarri orðið fyrir áföllum og samdrætti á undanförnum árum. Landbúnaðurinn hefur orðið að draga stórlega úr framleiðslu sinni til að laga hana að að markaðnum og enn er verið að draga úr henni. Sjávarútvegurinn hefur mátt taka á sig mikinn samdrátt vegna síminnkandi veiðiheimilda. Aflasamdrátturinn hefur að sjálfsögðu bitnað á fiskvinnslunni

sem einnig hefur orðið að mæta síauknum útflutningi á ferskum fiski með flugvélum og skipum á erlendan markað. Þróun þess útflutnings varð þannig á síðasta áratug að árið 1981 var flutt út fyrir 12 millj. kr. en 1990 fyrir 8.908 millj., hvort tveggja miðað við verðlag 1. jan. 1991. Þá hefur fullvinnsla afla um borð í fiskiskipum aukist stórlega á síðustu árum og er nú stunduð á 29 íslenskum fiskiskipum. Þetta tvennt, útflutningur í gámum og vinnsla afla um borð í skipum, dregur að sjálfsögðu í stórum stíl úr vinnu í landi.
    Ullariðnaður hefur dregist stórlega saman og mikill fjöldi prjónaverksmiðja vítt og breitt um landið hefur orðið að hætta starfsemi sinni. Þessar verksmiðjur voru margar hverjar með 30--50 starfsmenn og því mjög þýðingarmiklar í atvinnulífi síns byggðarlags.
    Ein landsbyggðaratvinnugreinin enn sem orðið hefur fyrir áföllum er skipasmíðaiðnaðurinn. Í þeirri grein hefur orðið algjört hrun á undanförnum árum og kemur þar reyndar margt til. Í fyrsta lagi sá samdráttur sem orðið hefur hjá útgerðinni vegna minnkandi afla og í öðru lagi það að svo til öll nýsmíði skipa fer fram erlendis þar sem viðkomandi ríki niðurgreiða þær stórlega. Sömu leið fara einnig ýmis breytinga- og viðgerðaverkefni, enda er ekki nokkur leið að keppa við þessar brjáluðu niðurgreiðslur.
    Ég get nefnt nýlegt dæmi þar sem boðið var út stórt verk við breytingar á fiskiskipi. Í verkið komu allmörg íslensk tilboð og einnig tilboð frá Færeyjum. Þessi tilboð voru upp á 20--24 millj. kr. Svo kom eitt tilboð frá Póllandi sem var 9--10 millj. Við slíkt er auðvitað vonlaust að keppa.
    Varðandi skipasmíðaiðnaðinn verður það að segjast að stjórnvöld hafa haft afskaplega takmarkaðan áhuga á honum og lítið gert til að liðka fyrir þessari grein. Skipasmiðjurnar hafa t.d. um langt skeið mátt búa við það að útgerðarmenn hafi fengið fullkomna ábyrgð í banka fyrir greiðslum af verkum unnum af erlendum skipasmíðastöðvum en ekki hefur mátt minnast á slíkt ef verkið var unnið hér heima. Þetta finnst mér metnaðarleysi og reyndar hreinn aumingjadómur af þessari miklu útgerðarþjóð ef hún lætur skipasmiðjurnar á Íslandi deyja drottni sínum og ætlar að verða upp á aðrar þjóðir komin með þessa þjónustu. Það er spá mín að ef fari svo sannist það að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
    Ég hef nefnt þann mikla samdrátt sem orðið hefur í nokkrum atvinnugreinum sem að langstærstum hluta eru reknar á landsbyggðinni. Til að rökstyðja þessar fullyrðingar mínar vitna ég í atvinnuvegaskýrslu Þjóðhagsstofnunar, en þar er birt sundurliðun á ársverkum í hinum ýmsu atvinnugreinum árin 1981--1989. Þar kemur fram að 1981 voru 8.205 ársverk í landbúnaði en 6.399 árið 1989 eða samdráttur um 1.806 ársverk. Í fiskveiðum og fiskiðnaði voru 15.719 ársverk árið 1981 en 14.893 árið 1989, samdráttur um 826 ársverk. Í vefjariðnaði, skó- og fatagerð og sútun og verkun skinna voru 2.547 ársverk árið 1981 en 1.711 árið 1989, samdráttur um 836 ársverk, og í skipasmíði og skipaviðgerðum voru 992 ársverk árið 1981 en 728 árið 1989, samdráttur um 264 ársverk. Alls er því þarna um að ræða samdrátt upp á 3.732 ársverk í þessum fjórum atvinnugreinum á níu árum. Því miður nær þessi skýrsla Þjóðhagsstofnunar ekki út áratuginn en ég fullyrði að það hefur fækkað verulega í þessum greinum síðan. T.d. er talið að í skipasmíði og skipaviðgerðum sé starfsmannafjöldi kominn niður í 500.
    Í leiðinni er fróðlegt að athuga í hvaða greinum atvinnulífsins hefur fjölgað mest á þessum sama tíma. Mest hefur aukningin orðið í því sem í skýrslunni er kallað ,,þjónusta við atvinnurekstur``, en undir það heiti flokkast t.d. fasteignasala, myndbandaleigur, lögfræðiþjónusta, bókhaldsþjónusta, innheimtustarfsemi, hugbúnaðarþjónusta, endurskoðun, tækniþjónusta, fjölritun, auglýsingastofur, fréttaþjónusta og fleira slíkt. Þarna hefur ársverkum fjölgað úr 2.429 árið 1981 í 5.042 árið 1989. Ársverkum við peningastofnanir hefur á sama tíma fjölgað úr 3.361 í 4.470, við veitinga- og hótelrekstur úr 2.064 í 3.236, við heildverslun úr 5.320 í 7.054, við smásöluverslun úr 7.183 í 8.429 og tryggingastarfsmönnum úr 731 í 859. Þá hefur ársverkum í byggingarstarfsemi fjölgað á þessum árum úr 10.857 í 12.354 og við heilbrigðisþjónustu á vegum einkaaðila úr 791 í 1.299.
    Ef við lítum svo á hið opinbera hefur starfsmönnum þar fjölgað úr 18.995 árið 1981 í 22.221 árið 1989, starfsmönnum elliheimila úr 652 í 1.164 og við ýmsar velferðarstofnanir úr 1.874 í 3.672. Loks hefur starfsmönnum Pósts og síma fjölgað úr 1.571 í 1.795. Í þessum greinum, sem ég hef nefnt, hefur því ársverkum fjölgað á þessum níu árum úr

55.828 í 71.595 eða um 15.767 ársverk.
    Þetta er orðin nokkuð löng og leiðinleg upptalning, en af henni má ráða að þær atvinnugreinar, sem mest hefur fjölgað í á síðasta áratug, eru að langstærstum hluta stundaðar á höfuðborgarsvæðinu. Fjölgun ársverka í þessum greinum sem ég nefndi er hvorki meiri né minni en 15.767 á sama tíma og fækkað hefur um 3.732 ársverk í þeim fjórum greinum sem ég nefndi áðan og aðallega eru stundaðar á landsbyggðinni. Við þetta bætist svo landsbyggðinni í óhag að þær greinar, sem vonast var til að gætu komið í stað þess mikla samdráttar í landbúnaði og sjávarútvegi sem orðið hefur, hafa viljað bregðast og má nefna í því sambandi loðdýrarækt og fiskeldi. Þessum vandræðum í atvinnulífinu á landsbyggðinni hefur svo fylgt það að húsbyggingar einkaaðila hafa því sem næst lagst af og fjárfestingar eru yfirleitt mjög litlar.
    Í skýrslu Byggðastofnunar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Landsmönnum fjölgaði um tæplega 1% á árinu 1990. Það var annað árið í röð sem fleiri fluttu af landinu en til þess. Búferlaflutningar milli landa hafa alltaf verið mjög sveiflukenndir, en þeir hafa endurspeglað að nokkru efnahagsástand í landinu og viðhorf til framtíðarmöguleika.`` Þetta held ég að þeir ættu að lesa vel sem í þessum umræðum vilja kenna núverandi stjórnvöldum um vandamál landsbyggðarinnar.
    Ég er sammála því sem segir í skýrslu Byggðastofnunar, að þróun síðustu ára er óhagkvæm fyrir þjóðarbúið allt, bæði fyrir landsbyggð og höfuðborgarsvæði, og haldi sú þróun áfram sem verið hefur undanfarið ár kemur slagsíða á þjóðfélagið sem erfitt verður að rétta af. Eins og ég hef rakið hefur þessi slagsíða verið að myndast allan síðasta áratug. Byggðastefnan og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gert í byggðamálum hafa ekki dugað. Ég er ekki að sakfella neinn í þeim efnum, ég held að þeir sem með þessi mál hafa haft að gera hafi sjálfsagt viljað vel, en árangurinn er samt ekki betri en þetta og byggðastefnan hefur því að verulegu leyti brugðist. Þess vegna held ég að hv. þm. þeirra flokka sem farið hafa með landsstjórnina á undanförnum árum ættu að líta yfir farinn veg og spara stóru orðin í garð þeirrar ríkisstjórnar sem tók við völdum í vor. ( ÓÞÞ: Og hæla henni?) Já, það fyndist mér að þeir ættu að gera.
    Nokkrir ræðumenn í þessum umræðum hafa gagnrýnt hvítbókina svonefndu, þ.e. stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er kafli um sambúð lands og þjóðar, en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sú byggðastefna sem rekin hefur verið hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Íbúar heilla byggðarlaga hafa þurft að sætta sig við að afkoma þeirra og búsetuöryggi sé komið undir pólitískum duttlungum miðstýringarvaldsins. Við svo búið verður ekki lengur unað. Undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar verða að búa við sanngjörn kjör, stöðugleika og heilbrigð rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnin mun með almennum aðgerðum styðja viðleitni til að byggja upp iðnað og þjónustu á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar og greiða fyrir aðlögun að breyttum atvinnuháttum og markaðsskilyrðum. Ríkisstjórnin vill í samvinnu við heimamenn beita sér fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á landsbyggðinni og hlúa að vexti og viðgangi smáfyrirtækja. Efling vaxtarsvæðanna, með bættum samgöngum og aukinni samvinnu sveitarfélaga og fyrirtækja innan þeirra, er í senn hornsteinn hagkvæmrar byggðastefnu og almennrar atvinnu- og efnahagsstefnu á næstu árum. Ríkisstjórnin mun fylgja eftir áætlunum sínum um jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu. Ríkisstjórnin mun starfa í anda sátta milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
    Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem hagkvæmt þykir.``
    Ég vona að allir hv. þm. geti tekið undir þennan kafla í hvítbókinni og er nú reyndar þeirrar skoðunar að ýmsir hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem mest hafa skammast út í byggðastefnu stjórnarinnar hafi ekki lesið bókina nógu vel. Mér sýnist þróun byggðamála undanfarinn áratug segja okkur það að einfaldar lausnir eru ekki til í þessum málaflokki. Upphrópanir, slagorð og ásakanir í garð pólitískra andstæðinga leysa ekki vanda byggðanna. Það þarf annað að koma til.
    Ég er sannfærður um að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu verður lyftistöng fyrir sjávarútveginn víða um land. Með því opnast nýir möguleikar sem ég er ekki

í vafa um að sjávarútvegurinn og fiskvinnslan muni njóta góðs af.
    Ég tek undir það sem segir í skýrslu Byggðastofnunar, með leyfi forseta: ,,Það er mikilvægt að atvinnulíf á þéttbýlisstöðum landsbyggðarinnar verði fjölbreyttara en það er nú. Reynslan sýnir að þeir þrífast ekki af sjávarútveginum einum saman. Það þarf því að mynda vaxtarsvæði þar sem hægt verður að byggja upp alhliða atvinnurekstur, bæði þjónustu og framleiðslu, þar sem lífskjör verða með sambærilegum hætti við það sem höfuðborgarsvæðið býður upp á og þar sem vel menntað fólk af báðum kynjum hefur möguleika á að finna störf við sitt hæfi.``
    Ég held að grundvöllurinn að myndun slíkra vaxtarsvæða sé bættar samgöngur og því er mikilvægt að á næstu árum verði tekið myndarlega á samgöngumálunum. Það er eitt allra mesta hagsmunamál landsbyggðarinnar að þar takist vel til, bæði hvað varðar þjónustu á vaxtarsvæði og samgöngur milli landshluta.
    Virðulegi forseti. Ég hef rakið nokkuð þróun mála á landsbyggðinni á síðasta áratug og bent á að á þeim tíma hefur sigið jafnt og þétt á ógæfuhliðina í atvinnumálum utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi upprifjun segir mér að þær aðgerðir sem beitt hefur verið í byggðamálum á þessum tíma hafa ekki reynst nægilega vel. Þó er engin ástæða til að láta hugfallast. Það sem landsbyggðin þarfnast mest er aukin fjölbreytni í atvinnulífið og að grundvöllur þess sé tryggður. Það ásamt bættum forsendum tel ég að sé forsendan fyrir því að landsbyggðin eflist á ný.