Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 23:47:00 (1000)

     Egill Jónsson :
     Virðulegi forseti. Sú umræða, sem hér hefur farið fram, er fyrir margar sakir afar athyglisverð og það er vissulega ástæða til að rifja enn einu sinni upp að umræða um byggðamál hefur ekki farið fram í sama mæli og nú er, a.m.k. ekki síðan ég kom á þing.
    Það er líka athyglisvert, og reyndar niðurstaða af þessari umræðu, að finna hvað áhuginn er almennt mikill fyrir byggðamálum í þinginu og reyndar áhyggjurnar líka. Það er afar þýðingarmikið sem komið hefur skýrt fram í umræðunni og ég hafði m.a. orð á í fyrri ræðu minni að stjórnmálaflokkunum, þá öðrum en Kvennalistanum, færi tæpast að vera að togast á um hvernig komið væri í byggðamálum þar sem þessi mál hafa þróast eftir þeim pólitíska valdaferli sem allir gömlu stjórnmálaflokkarnir eiga fulla ábyrgð á.
    Hér var haft orð á því að þingmenn Sjálfstfl. væru ekki sammála í þessari umræðu. Ég hlýt að vekja athygli á að margir af nýjum þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa talað hér eru menn sem hafa tekið að sér pólitískt forræði víða úti um land og ég sé ekki að það sé neinn holhljómur í þeirra málflutningi. Sumar af bestu ræðunum sem hafa verið fluttar í þessari umræðu hafa verið fluttar af þessum nýju þingmönnum Sjálfstfl. Það sýnir að í síðustu kosningum hafa menn valið sér fulltrúa inn á þingið úr hópi sjálfstæðismanna sem hafa bæði mikinn áhuga og miklar skyldur gagnvart landsbyggðinni.
    Nú er það reyndar svo að á mínum þingferli hef ég ekki orðið var við erfiðleika í sambúð okkar sjálfstæðismanna um byggðamál og margar af mínum ánægjulegustu minningum sem ég á um samstarf við alþingismenn eru m.a. bundnar við afstöðu alþingismanna Reykvíkinga um málefni sem snerta byggðir landsins. Ég minnist þess m.a. að ég hygg að langflestir þeirra alþingismanna sem hafa setið með mér í mínum þingflokki hafi farið í fundaferðir með mér um mitt kjördæmi. Það hafa ekki orðið árekstrar í sambandi við byggðamál í þeirri umræðu.
    Sannleikurinn er sá að samstaðan meðal fólksins í landinu um þessi mál er miklu meiri heldur en menn stundum kunna að ætla þegar reynt er að skjóta rakettum á loft í sambandi við byggðamálin.
    Það vekur hins vegar nokkra eftirtekt í sambandi við þessa umræðu hvað samstarfsflokkur Sjálfstfl. í ríkisstjórn er fáorður um þessi málefni. Það hefur bara einn þingmaður flokksins tekið þátt í þessari umræðu. Ég tel ekki með þá ræðu sem varaformaður flokksins flutti hér við fyrri hluta umræðunnar. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur tekið tvívegis til máls og til þess að gæta allrar sanngirni, þá sagði varaformaður flokksins hér fáein orð við fyrri hluta umræðunnar, en að öðru leyti hafa alþýðuflokksmenn haldið sig nokkuð til hlés í þessari umræðu. Þetta vekur eftirtekt.
    Það sem menn tala gjarnan um er að efla byggðina með því að flytja stofnanir út á land og stækka sveitarfélögin. Þessi atriði fara náttúrlega bæði vel í munni. En það er ekki hægt að komast hjá því að minna á að það er ekkert auðhlaupið að því að flytja stofnanir út á land. Við höfum auðvitað skyldur gagnvart fólkinu í landinu hvar sem það er, hvar sem það á rætur og hvar sem það á fjölskyldur. Og það er ekki gert í einu vetfangi að taka upp einhverja tiltekna stofnun og skáka henni til í landinu. Þessi mál verða að þróast. Þróast á lengri tíma. Þannig hefur það orðið með Háskólann á Akureyri. Það var sérstakt tækifæri í sambandi við Skógrækt ríkisins. Sú tilfærsla tókst vel. En ég óttast að það muni valda erfiðleikum að framkvæma slíka tilflutninga á skömmum tíma.
    Ég held að það sé hárrétt aðferð sem Byggðastofnun var búin að samþykkja og ákveða áður en ég kom í stjórn þeirrar stofnunar, að þróa verkefni Byggðastofnunar út á landsbyggðina, byrja á Akureyri eins og gert var, síðan var haldið í afskekktasta kjördæmið, til Vestfjarða, og það hefur verið tekin ákvörðun um að byggja stofnunina upp austur á landi, meira að segja á þessu ári, og í framhaldi af því verði komið fyrir skrifstofu norður á Sauðárkróki. Og þá er auðveldara með starfsemi Byggðastofnunar að greina hana upp í smærri einingar, austur á Selfossi, Hellu eða Hvolsvelli eða uppi í Borgarnesi eftir því sem ástæður leyfa. Við eigum að þróa þessi verkefni. Þannig getum við skapað marktæka umræðu um þessa tilflutninga.
    Það er eins um stækkun sveitarfélaganna og get ég reyndar mjög tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um þau efni. Það er mikið lausnarorð um þessar mundir að stækka sveitarfélögin. Einhver komst þannig að orði hér í umræðunni að hagur sveitarfélaganna hvers og eins færi nokkuð eftir því hver væri vilji og metnaður þeirra sem þar stjórna, þeirra sem þar búa. Ég held að með því að þjappa valdinu saman gæti það afl sem felst í þessari lýsingu, í þessum orðum eitthvað minnkað. Það er hárrétt sem hefur komið hér fram að við bætum ekkert úr þó að við sameinum tvö veik sveitarfélög. Þau verða á stærri fleti, en þau verða veik áfram.
    Fólkið í landinu hefur völd til þess að breyta mörkum sveitarfélaganna. Til þess hefur það vald og það er áreiðanlegt að ef sameining á að skila árangri, þá verður að gera það með þeim hætti að það sé bærileg sátt um þau mál. Undir öðrum kringumstæðum gengur það verklag ekki upp.
    Af því að ég veit að af andstæðingum Sjálfstfl. verður snúið út úr þeim ummælum hv. 5. þm. Norðurl. v. að gjaldþrot geti stundum verið skásti kosturinn til að koma atvinnulífinu aftur í gang má ég til með að undirstrika það sérstaklega, sem ég geri ráð fyrir að við hv. þm. Vilhjálmur Egilsson séum sammála um en kom hins vegar ekki fram í hans ræðu, að gjaldþrot er feiknalega mikið mál. Í fámennum byggðarlögum snerta gjaldþrot svo að segja hvert einasta mannsbarn. Gjaldþrotin eru þá auðvitað ekkert annað, ef þau eru eitthvert tæki, en það að aðrir verða fyrir áföllunum. Það minnkar fjármagnskostnaðurinn hjá gjaldþrotafyrirtækinu með því að það losar sig við að greiða áfallna reikninga, áfallnar skuldbindingar. Mér finnst það hroðaleg hugsun að horfa til þess að slíkir hlutir geti talist bjargráð.
    Hv. 3. þm. Reykv. flutti áðan ræðu --- eina af þessum kenningaræðum --- og komst að þeirri niðurstöðu að Byggðastofnun ætti uppruna sinn í pólitískum tímamótum hér á Íslandi, þegar vinstri stjórn hefði tekið við og blásið af áhrif og stefnu viðreisnarstjórnarinnar. Menn verða helst að fara rétt með þegar þeir eru að flytja sagnfræði hingað inn í þingið. Það var reyndar rétt sem hann sagði, að Byggðastofnun hefði tekið við af Framkvæmdastofnun, en Framkvæmdastofnun kom ekkert í heilu líki, hún fæddist ekkert í heilu líki á því herrans ári 1971, að mig minnir. Að henni lágu einmitt ræturnar sem voru teknar á viðreisnartímanum, Atvinnujöfnunarsjóðurinn, Atvinnutryggingarsjóðurinn og atvinnumálanefndirnar og sú ákvörðun, sem var tekin við stofnun álversins í Straumsvík, að af álgjaldinu færu 4 / 5 til Atvinnujöfnunarsjóðs, að því er ég hygg, en 1 / 5 til Hafnarfjarðarbæjar. Þetta er rótin. Hún er úr viðreisnartímanum. Eitt af mörgu góðu og kannski því allra besta sem þá var einmitt tekist á við.
    Það er líka eftirtektarvert, eins og 1. þm. Vestf. hefur reyndar hrakið, að það hafi verið sérstaklega Framsfl. sem hafi unnið að því og náð því fram við aðra flokka að treysta stöðu Byggðastofnunar. Það er þeim mun eftirtektarverðara að þetta skuli vera sagt af, að því er ég hygg, aðstoðarmanni fyrrv. forsrh. Sjálfstfl., en það var einmitt í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar árið 1976 sem ákveðið var að framlög til Byggðastofnunar á fjárlögum skyldu nema 2% af heildarfjárlögum. ( Gripið fram í: Þannig að hv. 3. þm. Reykv. veit þá hvaðan sú tillaga hefur komið.) Það mundi þýða það að á þeim fjárlögum sem er verið að vinna að núna væru 2 milljarðar til Byggðastofnunar, 2 milljarðar í styrk til byggðamála á Íslandi. Og þetta var ákveðið í ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. var í forustu. ( Gripið fram í: 200 núna.) Núna aftur á móti er þessi upphæð 200 milljónir, já. Það eru 10% af því sem Geir Hallgrímsson tók ákvörðun um þegar hann stjórnaði þessu landi. Það er svo annað mál að þessi viðmiðun hélst ekki lengi. Hún hélst út þetta stjórnartímabil að langmestu leyti, en eftir það var breytt um þannig að Byggðastofnun fékk lántökuheimildir, lántökurnar jukust en aftur á móti minnkuðu framlögin. Það breytir hins vegar ekki því að sagan segir frá þessum staðreyndum.

    Ég er hins vegar þakklátur hv. þm. fyrir þær tölur sem hann gaf hér upp. 12 milljarðar á 20 ára ferli, það er það sem hefur gengið til þessara byggðamála, 0,5% af fjárlögum. Það eru nú öll ósköpin. Og það var líka slæmt í máli ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv., að hann skyldi ekki fara rétt með upphæð útlána hjá Byggðastofnun sem hann tilgreindi að væru 18 milljarðar kr. Hið rétta er að hér er um 9 milljarða að ræða. Hitt er Atvinnutryggingarsjóðurinn og það, eins og menn vita, var skuldbreyting og náttúrlega algjörlega óháð þessari stofnun ef menn vilja hafa það sem er réttast.
    En þess vegna segi ég nú frá þessum tölum, þessari þróun mála, að ræðumaður kemst í lok síns máls að þessari niðurstöðu, með leyfi forseta:
    ,,Ég er þeirrar skoðunar að forsaga Byggðastofnunar og hinar röngu forsendur sem liggja að baki stofnuninni valdi því að hún á í miklum erfiðleikum með að sinna hlutverki sínu við nútímalegar aðstæður.`` ( Gripið fram í: Hver segir það?) Ég var að vitna í orð hv. 3. þm. Reykv. Hann byggir það á þessum tölum sem ég hef hér tilgreint. Ég geri ráð fyrir því að ég hafi kannski hlotið þá nafngift, eins og hv. 1. þm. Vestf., að vera kallaður sjóðaþingmaður af því að ég hef verið fáeina mánuði í stjórn Byggðastofnunar. Þannig hafa menn með ýmsum hætti verið bæði að leitast við að ófrægja þá þingmenn sem hafa unnið að byggðamálum og talið að þar stæðu kannski skyldurnar einna næstar þeim og eins stofnanirnar sem að þessum málum vinna.
    Ég skal ekkert segja um það hvaða árangri Byggðastofnun hefur skilað á þessum ferli, en þegar menn tala um þessa peninga, 0,5% af fjárlögum, og ef verið er að tala um þátt skattborgaranna í þeim efnum, verða menn náttúrlega líka að fara yfir það svið hvort til einhvers árangurs hefur leitt. Það er auðvitað alveg grundvallaratriði. Ef menn ætla að tala um útgjöld verða menn líka að leita eftir því að fá það út hvaða árangri slíkt hefur skilað. Því get ég ekki svarað í sambandi við Byggðastofnun.
    Landbn. Alþingis hefur fjallað um annan sjóð, ekkert mjög óskyldan Byggðasjóði, Framleiðnisjóð landbúnaðarins, sem var stofnsettur með lögum árið 1985 eða a.m.k. stórefldur á því ári. Við spurðum mjög grannt um það hvaða árangri þessi sjóður hefði skilað í sveitum landsins eða hverju hann hefði átt þátt í að koma til betri vegar. Þeir sem stjórna sjóðnum fengu góðan tíma til að svara þessari fyrirspurn. Eftir því sem næst verður komist eru atvinnutækifæri, eða atvinnufæri, sem sá sjóður hefur átt þátt í að skapa í landinu, í sveitum landsins, um 10% af þeirri atvinnu sem fer fram í sveitum landsins nú, á ekki lengri tíma en þetta.
    Það er út af fyrir sig góð aðferð til að skýra þetta mál aðeins betur að benda á að á þessum árum hafa bændur landsins byggt upp þrjár Sögur, gistirými sem er þrefalt á við það sem er hér vestur á Melum, í bændagistingu. Það hefur ekki farið svo mikið fyrir þessu. Það hefur ekki verið sú umræða uppi sem var þegar hótelið var stofnsett hér í Reykjavík og mikil umræða og miklar deilur hlutust af, jafnvel málaferli. Þetta hafa bændur gert og sveitafólk á fáum árum, að koma upp gistirými sem er þrefalt á við Hótel Sögu. Það eru þessir voðalegu sjóðir sem hafa gert þessu fólki þetta kleift, Byggðasjóður og Framleiðnisjóður. Hvað skyldi þetta vera mikið fjármagn? Og hvað skyldu mikil verðmæti hafa skapast með þessu framtaki? Hvað skyldi þjóðarbúið njóta þessa í ríkum mæli? Það þarf nefnilega að leggja saman og draga frá og þar verður náttúrlega að beita réttum tölum. Það er miklu víðar sem þetta gerist úti um byggðir landsins. Auðvitað þurfum við að efla byggðirnar með því að gera fólki kleift að þróa ný verkefni.
    Það hlýtur að vekja athygli, ekki einungis við þessa umræðu á Alþingi, heldur þegar litið er til þjóðfélagsumræðunnar, hvað hún hefur breyst gagnvart bændum landsins og íslenskum landbúnaði. Kannski finnst mönnum að þar hafi verið nóg að gert svo að ekki sé eins fýsilegt til vinsælda á pólitískum vettvangi núorðið og áður var að níðast á bændum landsins og sveitafólki. Hér hefur landbúnaðinn borið á góma og ég er ánægður með það sem um hann hefur verið sagt. Þar eru þó einkum tveir menn sem hafa farið fyrir þeirri umræðu, það er hv. 1. þm. Vestf. og það er fyrrv. landbrh.
    Búvörusamningurinn og það sem var sagt um hann fyrir síðustu kosningar er mér í fersku minni. Ég er einn af þeim, kannski hér um bil eini maðurinn í mínum þingflokki, sem ekki voru ánægðir með þann samning. Það var ekki vegna þess að ekki færu í hann peningar, heldur vegna hins hvernig andinn er í þeim samningi. Og ég vildi, vegna þess

að þau ákvæði eru skilyrt við afstöðu Alþingis --- það mætti vel segja mér að ég og hæstv. fyrrv. landbrh. værum sammála að þessu leyti þegar til þeirrar umræðu kemur --- sannarlega eiga hlut að því að laga þann tón. Hins vegar er það annað mál að ég var ekki einn í hópi þeirra þingmanna Sjálfstfl. sem gáfu um það sverar yfirlýsingar að ekki mætti koma til flats niðurskurðar, fækkunin mætti ekki verða flöt. (Gripið fram í.) Meðal þeirra sem gáfu þessar yfirlýsingar voru þrír núv. ráðherrar Sjálfstfl. Ég gaf ekki þessa yfirlýsingu. Ég held að hægt sé að fara yfir það sem ég sagði og það sem ég skrifaði án þess að það verði fundið. Hins vegar er það náttúrlega grundvallaratriði með tilliti til reynslunnar --- og nú má hæstv. fyrrv. landbrh. fylgjast með því sem ég segi. ( SJS: Ég hlusta á hvert orð.) --- Á grundvelli þeirrar reynslu sem hefur fengist með þessu fyrra aðlögunarskeiði hljóta menn auðvitað að meta hvaða áhrif t.d. 15% flatur niðurskurður kunni að hafa á sauðfjárræktina í landinu. Það er svo annað mál að ég á afskaplega auðvelt með að láta hv. 4. þm. Norðurl. e. njóta fullkomins sannmælis um að það var afreksverk hjá honum að ná fram þessum samningi. Það er fjarri því að ég kæri mig um að draga einhverja dul á þá niðurstöðu. Kannski er hann þess vegna líka guðfaðir núv. ríkisstjórnar. ( Gripið fram í: Nei.) Það mega náttúrlega allir menn sjá að með búvörusamningnum var búið að ákveða landbúnaðarstefnuna fyrir þetta kjörtímabil. Það þurfti ekki að deila um þau mál. ( Gripið fram í: Og kratarnir fastir í netinu.) Auðvitað voru kratarnir fastir í netinu, jafnaugljóst og það nú er.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að mér þykir vænt um það sem kom fram í þessari umræðu í sambandi við landbúnaðinn og einmitt það sem haft var orð á um vilja og metnað. Það er náttúrlega grundvallaratriði að menn hagi þannig störfum á vettvangi stjórnmálanna að það fólk, eins og annað, geti notið sannmælis um þau efni. Það er margt sem gerist einmitt núna í starfi bænda landsins sem er afskaplega áhugavert og skemmtilegt og þá á ég sérstaklega við þau miklu áform sem uppi eru um gróðurvernd og græðslu landsins og bændurnir sjálfir eru auðvitað burðarásar í, enda hafa þeir forræði yfir landinu og undir öðrum kringumstæðum er ekki hægt að vinna það verk.
    Ég vék að því í upphafi að það væru allir gömlu flokkarnir sem bæru ábyrgð á því hvernig komið væri í málefnum byggðarlaganna og það er að sjálfsögðu fjarstæða að kenna það núv. ríkisstjórn hvernig ástandið er um þessar mundir. Það ættu allir að vita. Menn mega hins vegar ekki gleyma því, og auðvitað kemur að því að það verði eftir því litið, að það er Sjálfstfl. sem nú er valdaaðilinn í byggðamálum. Sjálfstfl. fer með forustu í byggðamálum. Hann er byggðamálaflokkurinn, og ekki nóg með það heldur ræður Sjálfstfl. yfir sjávarútvegsmálunum sem auðvitað hafa meiri áhrif úti á landsbyggðinni en nokkur annar málaflokkur. Sjálfstfl hefur forræði fyrir landbúnaðarmálunum og Sjálfstfl. hefur líka forræði fyrir samgöngumálunum. Ég er ekki viss um (Gripið fram í.) að í annan tíma hafi einn stjórnmálaflokkur haft jafnmikil völd og . . . ( ÓÞÞ: Ekki trufla ræðumann.) ( Forseti: Það er enginn að trufla hann.) Þetta gátu þeir gert mér, blessaðir, þegar þeir hafa raðað sér á mælendaskrá og ég er búinn að halda báðar mínar ræður. Það breytir út af fyrir sig engu. (Gripið fram í.) Ég var að rekja það hér hvar forræðið væri fyrir málefnum byggðarlaganna úti um landið. Það þarf að hyggja að ýmsu þar. Ég held að hins vegar sé staðreynd að þegar menn eru að tala um valdaráðuneyti í sambandi við byggðamál eru það þau sem ég hef nefnt, og það er alveg ljóst að það duga engar erjur við fortíðina í þessum efnum. Við verðum að búa við þann búskap sem við tökum við, en þetta kjörtímabil verður örlagakjörtímabil í sambandi við málefni hinna dreifðu byggða. Ég er sannfærður um að Sjálfstfl. mun ekki hlaupast undan merkjum, frá þeim skyldum sem hann hefur í þessum efnum, og það er alveg með ráðnum hug sem ég hef vakið sérstaka athygli á að Sjálfstfl. ber nú meiri ábyrgð á þessum málum en sennilega nokkur annar flokkur hefur gert í annan tíma. ( ÓÞÞ: Það er rétt.) Frá þeim skyldum mun Sjálfstfl. að sjálfsögðu alls ekki hverfa.